Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað er skáldskapur?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Orðið 'skáldskapur' merkir nánast 'það sem skáldin skapa'. Flestir tengja skáldskap líklega við það sem menn yrkja, til dæmis ljóð. Í Heimskringlu er sagt frá atgervi Óðins og hvers vegna hann var tignaður. Þar segir meðal annars:
hann talaði svo snjallt og slétt að öllum er á heyrðu þótti það eina satt. Mælti hann allt hendingum svo sem nú er það kveðið er skáldskapur heitir. Hann og hofgoðar hans heita ljóðasmiðir því að sú íþrótt hófst af þeim í Norðurlöndum.
Hér erum við semsagt komin með eina skilgreiningu á hugtakinu skáldskap. Samkvæmt henni er skáldskapurinn tengdur við bundið mál, það sem mælt er í hendingum og einnig við þá sem smíða ljóð.

Í dag hefur orðið skáldskapur víðari merkingu. Hugtakið á ekki bara við um bundið mál heldur einnig laust. Okkur kæmi ekkert á óvart þótt einhver segði að í skáldsögum Guðbergs Bergssonar væri oft mikinn skáldskap að finna. Skáldskapur getur verið í leikritum, í skáldsögum, í stuttum prósatextum og esseyjum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Og skáldskapurinn getur leynst víða, meira að segja í Fréttablaðinu ef við tökum mark á svonefndum dadaistum sem komu fram á öðrum áratugi síðustu aldar í Zürich. Dadaistarnir settu saman einfalda uppskrift að ljóði sem allir geta búið til. Þeir ráðlögðu mönnum að klippa út orð í blaðagrein og setja í poka, síðan átti að draga orðin upp og skrifa á blað. Með þessum orðaruglingi átti að koma út hinn mesti skáldskapur. Samkvæmt fræðum dada er þess vegna ljóð að finna í hverri blaðagrein.

Dadaistar ráðlögðu mönnum að klippa út orð í blaðagrein og setja í poka, síðan átti að draga orðin upp og skrifa á blað. Með þessum orðaruglingi átti að koma út hinn mesti skáldskapur.

Til eru margar kenningar um skáldskapinn. Ein af þeim er eftir rússneska formalistann Viktors Shklovskíjs (1893-1984) frá fyrri hluta 20. aldar.

Í frægri grein Shklovskíjs, sem nefnist í íslenskri þýðingu Árna Bergmanns "Listin sem tækni", er því viðhorfi andæft að skáldskapur sé fyrst og fremst það að hugsa í myndum. Þeir sem halda slíku fram telja að megineindir skáldskaparins felist í myndmáli. Shklovskíj bendir hins vegar á að myndmál skálda sé ekki það sem breytist í tímanna rás heldur fá skáld samtíðarinnar oftar en ekki myndmál að láni frá skáldum fortíðarinnar.

Kjarni skáldskaparins felst þess vegna ekki í því að skáldin hugsi í sífellu upp nýjar og óvæntar myndir - myndmálið flæðir oft óbreytt milli landa og alda - heldur felst hann í einhverju öðru. Shklovskíj segir að hann felist til dæmis "í nýrri tækni við niðurskipan og úrvinnslu hráefnis tungumálsins sem höfundarnir finna og deila með sér - og skáld fást miklu meir við að skipa niður myndum en skapa þær." (bls. 23)

Viktor Shklovskíj (1893-1984).

Það sem Shklovskíj er enn fremur að gagnrýna er sú kenning að í myndmáli skáldskapar sé fólgin eins konar sparnaðarleið að hugsuninni - að hugsun í myndum geri okkur kleift að flokka ósamkynja hluti og athafnir saman og þannig hjálpi skáldskapur okkur að útskýra hið óþekkta með hinu þekkta. Samkvæmt kenningu Shklovskíjs er það miklu frekar hlutverk skáldskaparins að trufla skynjunarferli, auka á erfiðleika skynjunarinnar en ekki að einfalda hana.

Til útskýringar tekur Shklovskíj dæmi úr Dagbók Lévs Tolstojs. Rússneska skáldið segir þar frá þeirri hversdagslegu athöfn þegar hann er að taka til í herberginu sínu:
Ég var að taka til í herberginu, fór hring um það, en þegar ég kom að dívaninum mundi ég ekki hvort ég hafði þurrkað af honum rykið.

Með því að þessar hreyfingar eru ómeðvitaður vani, gat ég ekki munað hvort var og fann að það var ekki hægt að rifja það upp. Því var það, að ef ég hafði þurrkað af dívaninum og var búinn að gleyma því - hafði ég með öðrum orðum unnið í meðvitundarleysi, þá var það það sama og hafa alls ekki gert það [...] ef að allt hið flókna líf fjölda manna líður hjá í meðvitundarleysi, þá er sem lífi þeirra hafi aldrei verið lifað. (bls. 28)
Í framhaldi af þessu fullyrðir Shklovskíj að skáldskapur og list sé ekki það að finna sparnaðarleið að hugsuninni heldur sé markmið listarinnar að endurvirkja tilfinningu okkar fyrir veruleikanum með því að trufla og flækja skynjunarferli okkar:
Tilgangur listar er að gefa tilfinningu fyrir hlutum eins og við skynjum þá og sjáum en ekki eins og við séum að kannast við þá. Tækni listarinnar er fólgin í þeirri aðferð að gera hlutina framandi, þeirri aðferð að gera formið torvelt, að auka á erfiðleika skynjunarinnar og teygja úr henni" (bls. 29).
Hugtakið sem Shklovskíj notar hér er á rússnesku ostraneníje og er dregið af stranno sem merkir undarlegt, framandi. Á íslensku hefur það verið þýtt með orðinu framandgerving.

Fagurfræði svonefndra súrrealista rímar að mörgu leyti saman við skáldskaparfræði Shklovskíjs. Eitt helsta listbragð súrrealistanna var að tefla saman hlutum sem virtust algjörlega óskyldir og koma þannig vanabundinni skynjun á óvart. Um súrrealistana má til að mynda lesa meira í svörum Kristjáns Árnasonar við spurningunum: Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma? og Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?

Þrátt fyrir að fagurfræði súrrealistanna líkist svona kenningum Shklovskíjs skildu þeir ekki eftir sig mikinn skáldskap. Af hverju ætli það hafi verið? Kannski er skýringin sú að aðferð þeirra fór að verða fyrirsjáanleg og hætti þar með að koma á óvart og gera hlutina og veruleikann framandi.

Oft má finna framandgervingu í auglýsingum, hvort sem það er í auglýsingatexta eða í auglýsingum á myndrænu formi. Góðar auglýsingar ná oft til neytenda einmitt með því að hrista upp í skynjunarferlinu. Þrátt fyrir það álíta fæstir að auglýsingar séu skáldskapur. Af hverju skyldi það vera? Við getum svarað þeirri spurningu ef við skoðum svonefnt boðskiptalíkan málvísindamanna. Um boðskiptalíkanið má meðal annars lesa í svari við spurningunni Af hverju segjum við halló þegar við svörum í símann?. Einfölduð mynd af boðskiptalíkaninu lítur svona út:
sendandi --> boð --> viðtakandi
Þetta sýnir einfaldlega hvernig samskipti manna á milli eiga sér stað. Eitt af einkennum skáldskapar er að þar er megináherslan á boðin sjálf. Skáldskapur snýst oft um tungumálið, orðin í textanum, en markmiðið er ekki að koma tilteknum boðum til viðtakanda. Um auglýsingar gegnir öðru máli. Þær eiga að koma skilaboðum til neytenda. Þeir sem þurfa að kynna vöru væru ekkert yfir sig hrifnir ef framandgerving auglýsingarinnar væri svo mikil að aldrei kæmi í ljós hvað væri verið að auglýsa. Áhersla auglýsingarinnar liggur þess vegna á viðtakandanum. Hann þarf á endanum að átta sig á boðunum. Góðar auglýsingar tefja oft þetta ferli, stundum með framandgervingu. En þrátt fyrir það eru auglýsingar ekki skáldskapur.

Fleiri svör um tengd efni:

Heimildir og myndir:
  • Viktor Shklovskíj, "Listin sem tækni" (þýð. Árni Bergmann), Spor í bókmenntafræði 20. aldar, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 1991, bls. 21-42.
  • Heimskringla
  • Flickr - Mynd sett inn af Artotem. (Sótt 18.6.2018). Birt undir leyfi Creative Commons 2.0.
  • Wikipedia.org

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

15.8.2007

Spyrjandi

Eysteinn Jónsson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er skáldskapur?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2007. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6759.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2007, 15. ágúst). Hvað er skáldskapur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6759

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er skáldskapur?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2007. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6759>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er skáldskapur?
Orðið 'skáldskapur' merkir nánast 'það sem skáldin skapa'. Flestir tengja skáldskap líklega við það sem menn yrkja, til dæmis ljóð. Í Heimskringlu er sagt frá atgervi Óðins og hvers vegna hann var tignaður. Þar segir meðal annars:

hann talaði svo snjallt og slétt að öllum er á heyrðu þótti það eina satt. Mælti hann allt hendingum svo sem nú er það kveðið er skáldskapur heitir. Hann og hofgoðar hans heita ljóðasmiðir því að sú íþrótt hófst af þeim í Norðurlöndum.
Hér erum við semsagt komin með eina skilgreiningu á hugtakinu skáldskap. Samkvæmt henni er skáldskapurinn tengdur við bundið mál, það sem mælt er í hendingum og einnig við þá sem smíða ljóð.

Í dag hefur orðið skáldskapur víðari merkingu. Hugtakið á ekki bara við um bundið mál heldur einnig laust. Okkur kæmi ekkert á óvart þótt einhver segði að í skáldsögum Guðbergs Bergssonar væri oft mikinn skáldskap að finna. Skáldskapur getur verið í leikritum, í skáldsögum, í stuttum prósatextum og esseyjum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Og skáldskapurinn getur leynst víða, meira að segja í Fréttablaðinu ef við tökum mark á svonefndum dadaistum sem komu fram á öðrum áratugi síðustu aldar í Zürich. Dadaistarnir settu saman einfalda uppskrift að ljóði sem allir geta búið til. Þeir ráðlögðu mönnum að klippa út orð í blaðagrein og setja í poka, síðan átti að draga orðin upp og skrifa á blað. Með þessum orðaruglingi átti að koma út hinn mesti skáldskapur. Samkvæmt fræðum dada er þess vegna ljóð að finna í hverri blaðagrein.

Dadaistar ráðlögðu mönnum að klippa út orð í blaðagrein og setja í poka, síðan átti að draga orðin upp og skrifa á blað. Með þessum orðaruglingi átti að koma út hinn mesti skáldskapur.

Til eru margar kenningar um skáldskapinn. Ein af þeim er eftir rússneska formalistann Viktors Shklovskíjs (1893-1984) frá fyrri hluta 20. aldar.

Í frægri grein Shklovskíjs, sem nefnist í íslenskri þýðingu Árna Bergmanns "Listin sem tækni", er því viðhorfi andæft að skáldskapur sé fyrst og fremst það að hugsa í myndum. Þeir sem halda slíku fram telja að megineindir skáldskaparins felist í myndmáli. Shklovskíj bendir hins vegar á að myndmál skálda sé ekki það sem breytist í tímanna rás heldur fá skáld samtíðarinnar oftar en ekki myndmál að láni frá skáldum fortíðarinnar.

Kjarni skáldskaparins felst þess vegna ekki í því að skáldin hugsi í sífellu upp nýjar og óvæntar myndir - myndmálið flæðir oft óbreytt milli landa og alda - heldur felst hann í einhverju öðru. Shklovskíj segir að hann felist til dæmis "í nýrri tækni við niðurskipan og úrvinnslu hráefnis tungumálsins sem höfundarnir finna og deila með sér - og skáld fást miklu meir við að skipa niður myndum en skapa þær." (bls. 23)

Viktor Shklovskíj (1893-1984).

Það sem Shklovskíj er enn fremur að gagnrýna er sú kenning að í myndmáli skáldskapar sé fólgin eins konar sparnaðarleið að hugsuninni - að hugsun í myndum geri okkur kleift að flokka ósamkynja hluti og athafnir saman og þannig hjálpi skáldskapur okkur að útskýra hið óþekkta með hinu þekkta. Samkvæmt kenningu Shklovskíjs er það miklu frekar hlutverk skáldskaparins að trufla skynjunarferli, auka á erfiðleika skynjunarinnar en ekki að einfalda hana.

Til útskýringar tekur Shklovskíj dæmi úr Dagbók Lévs Tolstojs. Rússneska skáldið segir þar frá þeirri hversdagslegu athöfn þegar hann er að taka til í herberginu sínu:
Ég var að taka til í herberginu, fór hring um það, en þegar ég kom að dívaninum mundi ég ekki hvort ég hafði þurrkað af honum rykið.

Með því að þessar hreyfingar eru ómeðvitaður vani, gat ég ekki munað hvort var og fann að það var ekki hægt að rifja það upp. Því var það, að ef ég hafði þurrkað af dívaninum og var búinn að gleyma því - hafði ég með öðrum orðum unnið í meðvitundarleysi, þá var það það sama og hafa alls ekki gert það [...] ef að allt hið flókna líf fjölda manna líður hjá í meðvitundarleysi, þá er sem lífi þeirra hafi aldrei verið lifað. (bls. 28)
Í framhaldi af þessu fullyrðir Shklovskíj að skáldskapur og list sé ekki það að finna sparnaðarleið að hugsuninni heldur sé markmið listarinnar að endurvirkja tilfinningu okkar fyrir veruleikanum með því að trufla og flækja skynjunarferli okkar:
Tilgangur listar er að gefa tilfinningu fyrir hlutum eins og við skynjum þá og sjáum en ekki eins og við séum að kannast við þá. Tækni listarinnar er fólgin í þeirri aðferð að gera hlutina framandi, þeirri aðferð að gera formið torvelt, að auka á erfiðleika skynjunarinnar og teygja úr henni" (bls. 29).
Hugtakið sem Shklovskíj notar hér er á rússnesku ostraneníje og er dregið af stranno sem merkir undarlegt, framandi. Á íslensku hefur það verið þýtt með orðinu framandgerving.

Fagurfræði svonefndra súrrealista rímar að mörgu leyti saman við skáldskaparfræði Shklovskíjs. Eitt helsta listbragð súrrealistanna var að tefla saman hlutum sem virtust algjörlega óskyldir og koma þannig vanabundinni skynjun á óvart. Um súrrealistana má til að mynda lesa meira í svörum Kristjáns Árnasonar við spurningunum: Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma? og Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?

Þrátt fyrir að fagurfræði súrrealistanna líkist svona kenningum Shklovskíjs skildu þeir ekki eftir sig mikinn skáldskap. Af hverju ætli það hafi verið? Kannski er skýringin sú að aðferð þeirra fór að verða fyrirsjáanleg og hætti þar með að koma á óvart og gera hlutina og veruleikann framandi.

Oft má finna framandgervingu í auglýsingum, hvort sem það er í auglýsingatexta eða í auglýsingum á myndrænu formi. Góðar auglýsingar ná oft til neytenda einmitt með því að hrista upp í skynjunarferlinu. Þrátt fyrir það álíta fæstir að auglýsingar séu skáldskapur. Af hverju skyldi það vera? Við getum svarað þeirri spurningu ef við skoðum svonefnt boðskiptalíkan málvísindamanna. Um boðskiptalíkanið má meðal annars lesa í svari við spurningunni Af hverju segjum við halló þegar við svörum í símann?. Einfölduð mynd af boðskiptalíkaninu lítur svona út:
sendandi --> boð --> viðtakandi
Þetta sýnir einfaldlega hvernig samskipti manna á milli eiga sér stað. Eitt af einkennum skáldskapar er að þar er megináherslan á boðin sjálf. Skáldskapur snýst oft um tungumálið, orðin í textanum, en markmiðið er ekki að koma tilteknum boðum til viðtakanda. Um auglýsingar gegnir öðru máli. Þær eiga að koma skilaboðum til neytenda. Þeir sem þurfa að kynna vöru væru ekkert yfir sig hrifnir ef framandgerving auglýsingarinnar væri svo mikil að aldrei kæmi í ljós hvað væri verið að auglýsa. Áhersla auglýsingarinnar liggur þess vegna á viðtakandanum. Hann þarf á endanum að átta sig á boðunum. Góðar auglýsingar tefja oft þetta ferli, stundum með framandgervingu. En þrátt fyrir það eru auglýsingar ekki skáldskapur.

Fleiri svör um tengd efni:

Heimildir og myndir:
  • Viktor Shklovskíj, "Listin sem tækni" (þýð. Árni Bergmann), Spor í bókmenntafræði 20. aldar, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 1991, bls. 21-42.
  • Heimskringla
  • Flickr - Mynd sett inn af Artotem. (Sótt 18.6.2018). Birt undir leyfi Creative Commons 2.0.
  • Wikipedia.org...