Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Hver er eðlilegur líkamshiti manns?

Magnús Jóhannsson

Eðlilegur líkamshiti, og þar af leiðandi sótthiti, er nokkuð einstaklingsbundinn hjá börnum og fullorðnum. Fyrir rúmum 120 árum gerði þýskur vísindamaður að nafni Carl Reinhold August Wunderlich (1815-1877) rannsókn á líkamshita manna og komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegur líkamshiti væri 37 °C. Þetta er þó ekki alveg svona einfalt því ekki er sama hvar hitinn er mældur, hvenær sólarhrings, hvenær í tíðahring kvenna og þar að auki er hann einstaklingsbundinn.

Við nánari athugun hefur komið í ljós að hiti í munnholi heilbrigðra einstaklinga á aldrinum 18-40 ára er 36,8 ± 0,4 °C (meðaltal ± staðalfrávik) sem þýðir að rúmlega 95% þessara einstaklinga eru með hita á bilinu 36,0 - 37,6 °C. Þessi hiti breytist þannig yfir sólarhringinn að hann er í lágmarki um kl. 6 að morgni og í hámarki um kl. 16-18.


Innrauð mynd af mannslíkama sem sýnir hitaútgeislun. Þar sem liturinn er rauður er hæstur hiti en lægstur í kringum dökkbláa litinn.

Hæsti hiti sem mælist í munnholi er 37,2 °C kl. 6 og 37,7 °C kl. 16 og hærri hiti en þetta er venjulega skilgreint sem óeðlilega hár líkamshiti eða sótthiti. Hiti mældur djúpt í endaþarmi er venjulega 0,6 °C hærri en hiti í munnholi.

Sólarhringssveiflan í líkamshita, milli morgunhita og síðdegishita, er almennt talin vera um 0,5 °C en getur hjá sumum verið allt að 1 °C. Þessi munur á líkamshita að morgni og síðdegi (kvöldi) helst oftast þó að um sótthita sé að ræða. Hjá konum er líkamshitinn lágur frá byrjun blæðinga og fram að egglosi en þá hækkar hann nokkuð hratt (á 1-2 dögum) um um það bil 0,5 °C og helst hár fram að næstu blæðingum. Mestar líkur eru á getnaði um það leyti sem líkamshitinn er að hækka. Ýmislegt fleira getur haft áhrif á líkamshitann og má nefna sem dæmi stórar máltíðir, þungun, hormónajafnvægi og aldur.

Líkamshitanum er stjórnað af undirstúku heilans (e hypothalamus). Varmi myndast einkum í lifur, beinagrindarvöðvum og hjartavöðva og hann tapast út í gegnum húðina. Við ofkælingu geta vöðvarnir aukið varmamyndun með stöðugri virkni sem lýsir sér með hrolli og skjálfta og við ofhitnun eykst varmatap í húð með auknu blóðflæði (roði) og aukinni svitamyndun. Þetta er býsna öflugt kerfi sem getur haldið líkamshitanum réttum við erfiðar aðstæður, mikinn kulda og hita.

Við vissar aðstæður, eins og til dæmis sýkingar, verður óeðlileg hækkun á líkamshita yfir þau gildi sem eru eðlileg fyrir viðkomandi einstakling og nefnist það ástand sótthiti. Sótthiti er talinn vera hluti af varnarkerfi líkamans gegn sýklum og getur drepið eða hamið vöxt sumra sýkla.

Þetta kann að virðast flókið svar við einfaldri spurningu en málið er nokkuð snúið ef vel er að gáð.

Fleiri tengd svör:

Mynd:

Upprunaleg spurning Elvu hljóðaði svona:
Alveg síðan ég var barn hefur líkamshiti minn alltaf verið 37,6 °C en ekki 37 °C. Er það eðlilegt?

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

26.10.2007

Spyrjandi

Elva Mjöll Þórsdóttir
Olga Helgadóttir

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hver er eðlilegur líkamshiti manns?“ Vísindavefurinn, 26. október 2007. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6870.

Magnús Jóhannsson. (2007, 26. október). Hver er eðlilegur líkamshiti manns? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6870

Magnús Jóhannsson. „Hver er eðlilegur líkamshiti manns?“ Vísindavefurinn. 26. okt. 2007. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6870>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er eðlilegur líkamshiti manns?
Eðlilegur líkamshiti, og þar af leiðandi sótthiti, er nokkuð einstaklingsbundinn hjá börnum og fullorðnum. Fyrir rúmum 120 árum gerði þýskur vísindamaður að nafni Carl Reinhold August Wunderlich (1815-1877) rannsókn á líkamshita manna og komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegur líkamshiti væri 37 °C. Þetta er þó ekki alveg svona einfalt því ekki er sama hvar hitinn er mældur, hvenær sólarhrings, hvenær í tíðahring kvenna og þar að auki er hann einstaklingsbundinn.

Við nánari athugun hefur komið í ljós að hiti í munnholi heilbrigðra einstaklinga á aldrinum 18-40 ára er 36,8 ± 0,4 °C (meðaltal ± staðalfrávik) sem þýðir að rúmlega 95% þessara einstaklinga eru með hita á bilinu 36,0 - 37,6 °C. Þessi hiti breytist þannig yfir sólarhringinn að hann er í lágmarki um kl. 6 að morgni og í hámarki um kl. 16-18.


Innrauð mynd af mannslíkama sem sýnir hitaútgeislun. Þar sem liturinn er rauður er hæstur hiti en lægstur í kringum dökkbláa litinn.

Hæsti hiti sem mælist í munnholi er 37,2 °C kl. 6 og 37,7 °C kl. 16 og hærri hiti en þetta er venjulega skilgreint sem óeðlilega hár líkamshiti eða sótthiti. Hiti mældur djúpt í endaþarmi er venjulega 0,6 °C hærri en hiti í munnholi.

Sólarhringssveiflan í líkamshita, milli morgunhita og síðdegishita, er almennt talin vera um 0,5 °C en getur hjá sumum verið allt að 1 °C. Þessi munur á líkamshita að morgni og síðdegi (kvöldi) helst oftast þó að um sótthita sé að ræða. Hjá konum er líkamshitinn lágur frá byrjun blæðinga og fram að egglosi en þá hækkar hann nokkuð hratt (á 1-2 dögum) um um það bil 0,5 °C og helst hár fram að næstu blæðingum. Mestar líkur eru á getnaði um það leyti sem líkamshitinn er að hækka. Ýmislegt fleira getur haft áhrif á líkamshitann og má nefna sem dæmi stórar máltíðir, þungun, hormónajafnvægi og aldur.

Líkamshitanum er stjórnað af undirstúku heilans (e hypothalamus). Varmi myndast einkum í lifur, beinagrindarvöðvum og hjartavöðva og hann tapast út í gegnum húðina. Við ofkælingu geta vöðvarnir aukið varmamyndun með stöðugri virkni sem lýsir sér með hrolli og skjálfta og við ofhitnun eykst varmatap í húð með auknu blóðflæði (roði) og aukinni svitamyndun. Þetta er býsna öflugt kerfi sem getur haldið líkamshitanum réttum við erfiðar aðstæður, mikinn kulda og hita.

Við vissar aðstæður, eins og til dæmis sýkingar, verður óeðlileg hækkun á líkamshita yfir þau gildi sem eru eðlileg fyrir viðkomandi einstakling og nefnist það ástand sótthiti. Sótthiti er talinn vera hluti af varnarkerfi líkamans gegn sýklum og getur drepið eða hamið vöxt sumra sýkla.

Þetta kann að virðast flókið svar við einfaldri spurningu en málið er nokkuð snúið ef vel er að gáð.

Fleiri tengd svör:

Mynd:

Upprunaleg spurning Elvu hljóðaði svona:
Alveg síðan ég var barn hefur líkamshiti minn alltaf verið 37,6 °C en ekki 37 °C. Er það eðlilegt?
...