Hvað er hæft í þeirri staðhæfingu að trú sé bara einkenni heilaskaða sem fólk hefur orðið fyrir eða heilasjúkdóms? Spurt er í framhaldi af orðræðu sem átti sér stað á Netinu um trúfrelsi þar sem þessu var haldið fram. Viðkomandi lagði fram greinina Damaged brains escape the material world í tímaritinu New Scientist máli sínu til stuðnings.Kveikjan að ofangreindri spurningu mun vera rannsókn Urgesi og félaga (2010) á Ítalíu. Þeir mældu tilhneigingu til andlegra iðkana og trúarlífs hjá 24 einstaklingum með heilaæxli og athuguðu hvernig þessi þáttur breyttist eftir skurðaðgerð. Í meginatriðum, og mjög stuttu máli, var niðurstaða Urgesi og félaga hans sú að afmarkaður skaði, aftarlega og neðarlega í svokölluðum hvirfilgeira (e. parietal lobe), bæði hægra og vinstra megin í heilanum, leiddi til aukinnar andlegrar hneigðar. Einnig sögðust fleiri þeirra sem höfðu skaða aftar í heila en framan til vera trúaðir.

Allt okkar innra líf, þar með talin trúarleg upplifun, á upptök sín í heilanum. Ekkert styður það að trúað fólk sé með heilasjúkdóm, ekki frekar en þeir sem trúa ekki eða þeir sem syngja vel eða halda ekki lagi.

Trúarleg upplifun, eins og allt okkar innra líf, á upptök sín í heilanum. Ómögulegt er að rekja það sem er jafn margbrotið og andlegt líf, trú og trúarupplifun, til eins ákveðins staðs í heilanum. Rannsóknir á trúarupplifunum og bænum hafa alla jafna sýnt að mörg heilasvæði gera trúarupplifun mögulega.
- Beauregard, M. og Paquette, V. (2006). Neural correlates of a mystical experience in Carmelite nuns. Neuroscience Letters, 405, 186-190.
- Kapogiannis, D., Barbey, A.K., Su, M., Zamboni, G., Krueger, F. og Grafman, J. (2009). Cognitive and neural foundations of reglious belief. Proceedings of the National Academy of Sciences, 106(12), 4876–4881.
- Newberg, A. B. (2014). The neuroscientific study of spiritual practices. Frontiers in Psychology, 5 doi: 10.3389/fpsyg.2014.00215.
- Saver, J.K. og Rabin, J. (1997). The neural substrates of religious experience. Journal of Neuropsychiatry and Clinical Neurosciences, 9(3), 498-510.
- Urgesi, C., Aglioti, S. M., Skrap, M. og Fabbro, F. (2010). The spiritual brain: Selective cortical lesions modulate human self-transcendence. Neuron, 65, 309-319.
- Eucharist in Lutheranism - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 4.06.2015).
- Mynd: Neuronal activity DARPA.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 29. 5. 2015).