Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað er hæft í þeirri staðhæfingu að trú sé bara einkenni heilaskaða sem fólk hefur orðið fyrir eða heilasjúkdóms?
Spurt er í framhaldi af orðræðu sem átti sér stað á Netinu um trúfrelsi þar sem þessu var haldið fram. Viðkomandi lagði fram greinina Damaged brains escape the material world í tímaritinu New Scientist máli sínu til stuðnings.
Kveikjan að ofangreindri spurningu mun vera rannsókn Urgesi og félaga (2010) á Ítalíu. Þeir mældu tilhneigingu til andlegra iðkana og trúarlífs hjá 24 einstaklingum með heilaæxli og athuguðu hvernig þessi þáttur breyttist eftir skurðaðgerð.
Í meginatriðum, og mjög stuttu máli, var niðurstaða Urgesi og félaga hans sú að afmarkaður skaði, aftarlega og neðarlega í svokölluðum hvirfilgeira (e. parietal lobe), bæði hægra og vinstra megin í heilanum, leiddi til aukinnar andlegrar hneigðar. Einnig sögðust fleiri þeirra sem höfðu skaða aftar í heila en framan til vera trúaðir.
Allt okkar innra líf, þar með talin trúarleg upplifun, á upptök sín í heilanum. Ekkert styður það að trúað fólk sé með heilasjúkdóm, ekki frekar en þeir sem trúa ekki eða þeir sem syngja vel eða halda ekki lagi.
Að mínu mati er túlkun rannsakenda á þessum niðurstöðu umdeilanleg. Þeir horfa til dæmis fram hjá þeirri staðreynd að það að greinast með alvarlegan, og hugsanlega banvænan sjúkdóm, gæti haft áhrif á andlegt líf sjúklinga og að þeir sem hafa skaða í framheila hafa stundum ekki getu til mikillar innskoðunar eða andlegrar íhugunar. Þannig koma fleiri þættir til álita við túlkun niðurstaðnanna en höfundar taka til greina.
Allt okkar innra líf; skynjun, tilfinningar og upplifanir, eiga upptök sín í heilanum. Þar eru andleg iðkun, hugsanir um tilgang lífsins, um eðli tilveru okkar og trúarleg upplifun á engan hátt undanskilin. Trúað fólk er, samkvæmt þessari sýn, ekki með heilasjúkdóm, enda er ekkert sem styður að svo sé. Ekki frekar en þeir sem trúa ekki. Eða þeir sem syngja vel eða halda ekki lagi. Andlegt líf er einfaldlega mismikið og jafnframt ólíkt milli fólks eins og ýmsir aðrir eiginleikar okkar.
Trúarleg upplifun, eins og allt okkar innra líf, á upptök sín í heilanum. Ómögulegt er að rekja það sem er jafn margbrotið og andlegt líf, trú og trúarupplifun, til eins ákveðins staðs í heilanum. Rannsóknir á trúarupplifunum og bænum hafa alla jafna sýnt að mörg heilasvæði gera trúarupplifun mögulega.
Trú og andleg iðkun fylgir ekki einvörðungu heilbrigðri heilastarfsemi. Það á við um trúarlíf eins og allt annað að heilaskaði eða sjúkdómur getur breytt því, aukið eða minnkað. Ennfremur getur neysla ofskynjunarlyfja og annarra vímuefna haft áhrif. Andleg upplifun hefur því verið rannsökuð með ýmsu móti bæði meðal heilbrigðra og þeirra sem kljást við sjúkdóma. Það sem hefur verið rannsakað undir þessum hatti eru til dæmis bænir, hugleiðsla, dulspekileg reynsla (í merkingunni að verða eitt með Guði), sú upplifun að vera utan líkamans, svo og persónuleikaþáttur sem gerir fólk líklegra til að hneigjast til andlegra málefna (e. self-transcendence). Rannsóknir á þessu sviði eru stundum nefndar taugaguðfræði (e. neurotheology).
Sem dæmi um athuganir á þessu sviði má nefna að heilastarfsemi kaþólskra nunna hefur verið rannsökuð meðan þær stunduðu hugleiðslu og báðu bænir. Rannsóknirnar hafa leitt í ljós aukna virkni á ýmsum heilasvæðum frekar en einhverju einu svæði og það kemur ekki á óvart. Meðal sjúklinga hefur flogaveiki af ákveðinni gerð (e. temporal lobe epilepsy) verið tengd mikilli trúhneigð (e. hyperreligiosity) og því haldið fram að trúarleg reynsla hjá þeim sjúklingum sé tilkomin vegna smáfloga í gagnaugageira heilans (e. temporal lobe). Sjúklingar með geðrofssjúkdóma geta haft ýmis konar haldvillur tengdar trú og guðdómnum. Að auki hefur sú reynsla að fara út úr líkamanum (e. out-of-body experience) sem stundum er rædd í trúarlegu samhengi, verið tengd flogaköstum sem eiga upptök sín á mótum gagnauga- og hvirfilgeira heilans.
Ómögulegt er að rekja það sem er jafn margbrotið og andlegt líf, trú og trúarupplifun, til eins ákveðins staðs í heilanum. Það sama á við um hamingju, ást eða persónuleika fólks. Enda hafa rannsóknir á trúarupplifunum og bænum og þvíumlíku alla jafna sýnt að mörg heilasvæði, eða net svæða, gera trúarupplifun mögulega. Það er af þeirri einföldu ástæðu að trúarupplifun er margþætt og af mörgum toga og til að hún geti átt sér stað þurfa mörg heilasvæði að vinna saman.
Nokkrar heimildir og mynd:
Beauregard, M. og Paquette, V. (2006). Neural correlates of a mystical experience in Carmelite nuns. Neuroscience Letters, 405, 186-190.
Kapogiannis, D., Barbey, A.K., Su, M., Zamboni, G., Krueger, F. og Grafman, J. (2009). Cognitive and neural foundations of reglious belief. Proceedings of the National Academy of Sciences, 106(12), 4876–4881.
Newberg, A. B. (2014). The neuroscientific study of spiritual practices. Frontiers in Psychology, 5 doi: 10.3389/fpsyg.2014.00215.
Saver, J.K. og Rabin, J. (1997). The neural substrates of religious experience. Journal of Neuropsychiatry and Clinical Neurosciences, 9(3), 498-510.
Urgesi, C., Aglioti, S. M., Skrap, M. og Fabbro, F. (2010). The spiritual brain: Selective cortical lesions modulate human self-transcendence. Neuron, 65, 309-319.
María K. Jónsdóttir. „Er það rétt að trú sé einkenni heilaskaða eða stafi af heilasjúkdómi?“ Vísindavefurinn, 4. júní 2015, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=69349.
María K. Jónsdóttir. (2015, 4. júní). Er það rétt að trú sé einkenni heilaskaða eða stafi af heilasjúkdómi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69349
María K. Jónsdóttir. „Er það rétt að trú sé einkenni heilaskaða eða stafi af heilasjúkdómi?“ Vísindavefurinn. 4. jún. 2015. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69349>.