Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Að öllu jöfnu teljast fuglar ekki til hættulegustu hryggdýra jarðar. Hjákátlegt er að bera þá saman við til dæmis spendýr eða skriðdýr að þessu leyti; til dæmis er manntjón af völdum fugla fátítt. Fuglar hafa hvorki líkamsburði í líkingu við spendýr til að af þeim stafi mikil hætta né hafa þeir yfir að ráða öflugu eitri líkt og fjölmargar tegundir skriðdýra og froskdýra.
Þrátt fyrir að ekki stafi mikil hætta af fuglum eru til ýmis dæmi þar sem fugl hafa orðið manns bani. Meira að segja á Íslandi eru til sögur af því að fuglar hafi drepið menn. Hér er átt við gamlar sögusagnir um það að hafernir (Haliaeetus albicilla) hafi hremmt börn, og vísa örnefni eins og Sorgarhnaus og Tregagil til þessara atburða. Víða á útbreiðslusvæði hafarnarins í Evrópu eru einnig til svipaðar sögur. Hafernir eru fullfærir um að hremma lömb og hafa á brott með sér. Því er sennilegt að komið hafi fyrir að þeir hafi hremmt hvítvoðunga þegar konur tóku þá með sér út á akra eða tún.
Gullörninn er einn þeirra fugla sem hefur verið sakaður um að ræna börnum.
Stórir ernir, svo sem Stellars-sjóörn (Haliaeetus pelagicus) og gullörn (Aquila chrysaetos), geta borið í klóm sínum ungviði dádýra sem vega allt að 6,8 kg. Í bók Lewis Cummings I was a headhunter er jafnframt sagt frá því að hann hafi séð hinn stórvaxna harpy-örn (Harpiu harpyga) sem finnst í regnskógum Suður-Ameríku, taka hálfvaxta hjartardýr sem vó um 16 kg. Þessir ernir eru þó óvenju kröftugir með mikið vænghaf og geta tekið óvenju þunga bráð með því að nýta sér uppstreymi. Ein meginfæða þessa arnar eru apakettir sem lifa í trjám regnskógarins og geta vegið allt að 10 kg.
Gullörninn hefur verið sakaður um ungbarnadráp víða í Asíu. Nýjasta tilvikið sem höfundur veit um er frá árinu 1953 þegar barn var hremmt af gullerni nærri Damaskus í Sýrlandi. Örninn bar barnið upp í hreiður sitt og þar sat það næstum því óskaddað þegar björgunarmenn komu á vettvang. Þrír ungar voru í hreiðrinu og höfðu þeir ekki snert á barninu.
Árið 1950 fann fjallaleiðsögumaður í frönsku Ölpunum beinagrind af fjögurra ára gömlu barni í hreiðri sem sennilega var arnarhreiður. Líklegt þykir að stór örn hafi tekið barnið og nært unga sína á því. Útilokað er að barnið hafi komist af sjálfsdáðum þangað upp.
Hrægammar gæða sér á leifum af gný.
Hrægammar hafa einnig orðið uppvísir að því að ráðast á börn en skráð tilvik eru afar sjaldgæf og mun sjaldgæfari en hin þó sárafáu atvik með ernina. Eitt athyglisvert dæmi er frá Illinois fylki í Bandaríkjunum. Þá var hópur 10 ára gamalla barna að leik þegar tveir stórir gammar með um 240 cm vænghaf komu og réðust á einn strákinn, læstu klónum í hann og báru hann 6 metra leið eða þar til strákurinn náði góðu höggi á fuglinn sem bar hann. Við þetta sleppti gammurinn honum. Náttúrufræðingar á svæðinu töldu þetta ólíklegt og ýkjusögu, en þó var fjöldi vitna að atburðinum. Skömmu síðar sá bóndi stóran fugl hremma grís sem vó rúmlega 6 kg.
Þrátt fyrir þessa upptalningu eru þessir atburðir afar sjaldgæfir. Ljóst er þó að ernir sem geta hremmt dýr sem vega allt að 5 kg geta líka tekið lítil börn ef þeir fá tækifæri til þess. Hér á landi gerist það stöku sinnum að ernir taka lömb, sérstaklega var þetta algengara þegar sauðfé bar úti á túnum, en slíkt er nánast óþekkt í dag.
Ernir eru þó ekki hættulegustu fuglar heimsins, langt í frá. Kasúi (Casuarius casuarius) er fugl sem lifir í skóglendi Norðaustur-Ástralíu og á Papúa-Nýju-Gíneu. Hann er með gríðarlega stórar og oddhvassar klær og er bæði óútreiknanlegur og snöggur. Hann á það til að sparka kröftuglega til að verja sig og geta klærnar þá valdið djúpum holsárum. Nokkur dæmi eru um að fólk hafi látist eftir árás frá kasúa.
Kasúinn finnst í Ástralíu og Papúa-Nýju-Gíneu.
Kasúinn er þó yfirleitt rólyndisfugl sem eyðir mestum tíma sínum í að tína ávexti og aðra fæðu af skógarbotninum. Ef honum er hins vegar ögrað á einhvern hátt þá getur hann brugðist við með gagnárás. Kasúinn er næst stærsti fugl í heimi og vegur um 85 kg. Hann má finna í dýragörðum víða um heim og telja starfmenn slíkra garða hann yfirleitt til hættulegustu dýra sem þar eru í haldi.
Stærsti fugl í heimi, strúturinn (Struthio camelus), er einnig varhugaverður. Strútar geta verið árásargjarnir og ganga oft hart fram við að verja hreiður sín. Það getur því verið hættuleg iðja að stela strútseggjum, en stærð strútanna og spretthraði þeirra gerir þá hættulega mönnum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Hver er hættulegasti fugl í heimi?“ Vísindavefurinn, 11. desember 2007, sótt 6. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6955.
Jón Már Halldórsson. (2007, 11. desember). Hver er hættulegasti fugl í heimi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6955
Jón Már Halldórsson. „Hver er hættulegasti fugl í heimi?“ Vísindavefurinn. 11. des. 2007. Vefsíða. 6. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6955>.