Fær maður pening ef maður finnur fornmun og lætur Fornleifastofnun vita af fundinum?Þeir sem finna forngripi á víðavangi eiga að hafa samband við Minjastofnun Íslands sem hefur yfirumsjón með verndun fornleifa- og byggingararfs á Íslandi. Stofnunin er með skrifstofu á Suðurgötu 39 í Reykjavík og er að auki með sex svæðisskrifstofur, í Stykkishólmi, í Bolungarvík, á Sauðárkróki, á Akureyri, á Djúpavogi og á Selfossi. Síminn á Minjastofnun Íslands er 570 1300 og það er líka hægt að senda tölvupóst þangað á netfangið postur@minjastofnun.is. Samkvæmt lögum um menningarminjar (nr. 80/2012) er skylda að láta vita ef maður finnur forngripi á víðavangi. Maður á helst ekki að taka gripinn með sér því hann getur verið hluti af stærri fornleifafundi og fornleifafræðingar fá meiri upplýsingar ef þeir sjá í hvaða samhengi gripurinn er í jörðinni. Ef gripurinn er í hættu, til dæmis vegna þess að hann liggur í fjöru eða það er hætta á að hann týnist aftur, má taka hann með sér en alltaf ætti að reyna að skrá nákvæmlega hvar hann fannst.
Stundum finnast dýrgripir frá fornöld. Hér sést glitta í gullhúðaða kúpta nælu með silfurskrauti. Hún fannst á Vestdalsheiði rétt vestan botns Seyðisfjarðar sumarið 2004.
- Myndina tók Sigurður Bergsteinsson, Minjastofnun. Hún er birt með góðfúslegu leyfi.