Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Flestir hafa heyrt um menn eins og Charles Darwin og þróunarkenningu hans, Sir Isaac Newton og lögmálin hans, sólmiðjukenningu Aristarkosar og síðar Kópernikusar eða Galíleó og tungl Júpíters. Færri hafa þó heyrt um Andreas Vesalius og aðferðir hans, en hann er einn þeirra manna sem lögðu grunn að nútímalæknavísindum.
Hinn flæmski Andreas Vesalius, eða Andreas van Wesel eins og nafn hans er á flæmsku, fæddist þann 31. desember 1514 (eða 1. janúar 1515) í Brussel, Belgíu. Hann var af læknisættum því faðir hans og föðurafi voru hvorir tveggja læknar sem störfuðu fyrir Hið heilaga rómverska ríki sem Belgía var þá hluti af.
Vesalius stundaði fyrst nám við háskólann í Louvain, eða Leuven eins og bærinn nefnist á flæmsku, en færði sig síðan til Parísar þar sem hann hóf læknanám árið 1533. Parísardvölin varð þó ekki mjög löng því árið 1536 fluttist hann aftur til Louvain og las við háskólann þar. Ástæðuna fyrir því vita menn ekki með vissu, sumar heimildir segja að honum hafi þótt námið í París vera gamaldags en aðrar heimildir segja að hann hafi þurft að flýja þaðan eftir að Hið heilaga rómverska ríki lýsti yfir stríði á hendur Frökkum. Árið 1537 var honum boðin prófessorstaða í líffærafræði við háskólann í Padova á Norður-Ítalíu, rétt vestan við Feneyjar, og þar settist hann að.
Fyrir daga Vesaliusar fóru krufningar og kennsla í líffærafræði þannig fram að prófessorinn sat í stól, fylgdist með og las upp úr bók á meðan rakari framkvæmdi skurðaðgerðina. Rakaranum til aðstoðar voru iðnaðarmaður og útskýrendur. Aldrei kom það til greina að hinir menntuðu menn snertu skurðarhnífinn og er það eflaust arfleið gríska læknisins Galens (129-200 eða 216).
Slíkar aðferðir myndu aldrei tíðkast í dag og það var Vesalius sem var frumkvöðull í að breyta þessu. Hann krufði sín lík sjálfur og var oftar en ekki með fjölda áhorfenda. Hans hættir voru mjög umdeildir því Galen var talinn óbrigðull fræðimaður og aðferðir hans þær einu og sönnu. Galen hafði orðið að styðjast við krufningu dýra svo sem hunda, svína og apa og yfirfært þá þekkingu sem hann aflaði sér þannig yfir á mannslíkamann, þar sem krufning manna var bönnuð á hans tímum. Líffærafræði Galens hafði verið í góðu gildi í meira en 1000 ár en með aðferðum sínum sýndi Versalius fram á að hann hafði haft rangt fyrir sér í mörgum atriðum.
Árið 1543 gaf Vesalius út bókina De humani corporis fabrica (endurútgefin 1555) sem hefur haft gríðarleg áhrif á læknavísindin og má segja að sé hornsteinn líffærafræðinnar eins og hún þekkist í dag. Í bókinni má sjá teikningar af „vöðvamönnunum“ þar sem einn maður er teiknaður fjórtán sinnum og alltaf fækkar vöðvum hans þar til einungis beinagrindin ein stendur eftir. Einnig eru þar teikningar af taugum, æðakerfi og einstökum beinum og vöðvum. Ekki er vitað hver teiknaði myndirnar en hugsast getur að nemandi listmálarans Titians hafi það gert.
Teikningar úr De humani corporis fabrica. Hér má sjá hvernig vöðvunum „fækkar“ þegar farið er frá vinstri til hægri og beinagrindin kemur betur í ljós.
Vesalius kunni bæði grísku og latínu og skrifaði bókina með gömlum latneskum stíl svo hún var heldur torskilin. Hann vildi þó meina að leiðin að sannleikanum lægi í gegnum rétt málfar svo upprisa líffærafræðinnar þurfti að haldast í hendur við endurreisn hins klassíska tíma. Það hefur þó vakið eftirtekt að hvorki Asklepíos né stafur hans og snákur sjást í verkum Vesaliusar. Sjálfur sagðist hann vera framsækinn vísindamaður og hugnaðist ekki sögur af kraftaverkalækningum Asklepíosar.
Fljótlega eftir útkomu hins fræga rits sagði Vesalius stöðu sinni við Padova-háskólann lausri og réðst sem læknir að hirð Karls fimmta keisara Hins heilaga rómverska ríkis. Síðar var hann í þjónustu sonar hans, Filippusar annars Spánarkonungs.
Andreas Vesalius lést þann 15. október 1564 á grísku eyjunni Zakynthos þegar hann var á leið heim úr pílagrímsferð sinni til landsins helga.
Með því að smella hér má sjá enska þýðingu á riti Vesaliusar De humani corporis fabrica auk umfjöllunar um hann.
Heimildir og myndir:
Eriksson, Ruben. 1959. Andreas Vesalius’ first public anatomy at Bologna 1540 : an eyewitness report. Almqwist og wiksells boktryckeri. Uppsala og Stokkhólmur.