Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Á hvaða tónlistartímabili hefur rafmagnsgítarinn verið mest notaður?

Arnar Eggert Thoroddsen

Rafmagnsgítarinn hefur leikið aðalhlutverk í rokktónlist allt frá því sú stefna varð til. Á undanförum árum hefur sala á hljóðfærinu þó dregist nokkuð saman. Ástæðan er meðal annars sú að megináherslur dægurtónlistariðnaðarins hafa jafnt og þétt færst frá rokki yfir í hipphopp, en í þeirri stefnu eru rafmagnsgítarar í algjöru aukahlutverki, ef þá nokkru.

Fyrsti rafmagnsgítarinn var settur á almennan markað árið 1932 af framleiðslufyrirtækinu Ro-Pat-In Company (síðar Rickenbacker Electro). Þessi gítar var uppnefndur steikarpannan enda þótti hann minna á slíkt áhald. Rétt nafn þessa fyrsta rafmagnsgítars var hins vegar Rickenbacker Electro A-22. Tilraunir með rafvæðingu strengjahljóðfæra voru ekki nýjar af nálinni á þessum tíma og höfðu í raun staðið yfir allt frá upphafi tuttugustu aldarinnar.

Bandaríski tónlistarmaðurinn Les Paul var einnig mikilhæfur uppfinningamaður. Hann átti töluverðan þátt í hönnun og smíði gítars sem var nefndur eftir honum.

Almennar vinsældir og útbreiðsla rafmagnsgítara helst í hendur við rokkbyltinguna. Þegar Elvis Presley kom fram á sjötta áratug 20. aldar, sveiflaði hann kassagítar en Scotty Moore, gítarleikari hans, lék á rafmagnsgítar. Buddy Holly, samtíðarmaður Elvis, var fyrstur til að festa í sessi hið velþekkta hljómsveitaform: trommur, bassi (að vísu kontrabassi þá), tveir gítarar og söngur. Bítlarnir studdust við þessa hljóðfæraskipan á sjöunda áratugnum og þá var rafmagnsbassinn kominn til sögunnar (Paul McCartney lék þá á Hofner-bassa). Rafmagnsgítarinn öðlaðist gríðarlegar vinsældir á þessum tíma. Hljómsveitir „án-söngs“ (e. instrumental), á borð við The Shadows og The Ventures sem komu til sögunnar áður en Bítlarnir slógu í gegn, voru miklar gítarsveitir en notuðu gítarinn á afar „settlegan“ hátt. Hljóðfærið öðlaðist svo miðlægari stöðu nokkrum árum síðar er Bítlarnir blésu ungmennum um allan heim anda í brjóst og fjögurra manna popp/rokk-sveitir skutu upp kollinum út um allar koppagrundir.

Jimmy Page var gítarleikari Led Zeppelin. Hann er ein helsta erkitýpa gítarhetjunnar.

Undir lok sjöunda áratugarins stigu hinar svonefndu gítarhetjur eða -guðir fram. Listamenn eins og Jimi Hendrix, Eric Clapton og Peter Townshend (The Who) voru þyngdarmiðjur sinna sveita, og veggjalist með setningunni „Clapton is God“ birtist í London. Settlegheitin ruku út í veður og vind og Townshend og Hendrix níddust beinlínis á gítörum sínum, kveiktu í þeim og brutu og sýndu hljóðfærunum allt að því kynferðislega tilburði. Athæfi þeirra minntu meira á trúarathafnir en hljóðfæraleik og voru í réttum takti við ungmennabyltingu síðari hluta sjöunda áratugarins.

Rafmagnsgítarinn lék stórt hlutverk á þeim áttunda og er lykilhljóðfæri þungarokksins. Hið svonefnda „riff“, sem Black Sabbath og Tony Iommi, þáverandi gítarleikari sveitarinnar, kynnti til sögunnar er hornsteinn í þyngri rokktónlist. Sama átti við þegar pönkið kom fram, gítarinn var þá í aðalhlutverki sem fyrr, þótt áhersla á flókin sóló væri nú heldur minni.

Gítarinn „Flying V“ var kynntur til sögunnar árið 1958 af Gibson-framleiðandanum. Framtíðarlegur og ýktur búkurinn heillaði þungarokkara síðar meir og þeir nýttu hann af krafti á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Á níunda áratugnum tvístraðist poppið í ýmsar áttir og aukin hljóðgervlanotkun og tölvuforritun er fyrsta raunverulega ógnin við ægivald gítarsins. Hipphoppið, sem hefur í dag leyst rokkið af sem vinsælasta tónlistartegund heims, kom fram af krafti um þetta leyti. Leikvangarokkssveitir þessa tíma (U2, Simple Minds, The Police, Big Country) voru þó allt miklar gítarsveitir og það sama má segja um gáfumannapoppsveitir eins og The Smiths. Hringlandi gítarstíll Johnny Marr var undir áhrifum frá The Byrds og gítarinn er að vissu leyti upphaf og endir alls þegar kemur að þeirri merku sveit, ásamt auðvitað textum Morrissey.

Á tíunda áratugi síðustu aldar var ekkert lát á vinsældum hljóðfærisins. Gruggbyltingin, sem hljómsveitin Nirvana leiddi, er fyrst og fremst gítarbylting. Pönkuð og einföld fagurfræði hennar hafði áhrif á þúsundir bílskúrssveita víða um heim. Það sama á við um Nirvana og Bítlana, áhrif hennar eru ómæld.

Á fyrsta áratugi 21. aldar fer hins vegar á að slakna á strengjunum og hipphopp, popp og raftónlist breiðir úr sér. Engu að síður fara ýmis gítarbönd eins og The White Stripes, Interpol, Franz Ferdinand, Arctic Monkeys og The Strokes með himinskautum á þessum áratug. Öll eiga þau það þó sameiginlegt að búa yfir hljóðheimi sem hefur sterka skírskotun til eldri rokktónlistar. Eftir á að hyggja má því greina ákveðna feigðarmynd í gítartónlist þessara sveita, nokkurs konar staðfestingu á forgengileika hljóðfærisins.

Svonefndir áhrifsfetlar eða bara fetlar (e. effect pedals) hafa haft rík og mótandi áhrif á notkun rafmagnsgítarsins. Gítarleikarar festa oft sína uppáhalds fetla á fetlabretti.

Frá 2008 hefur sala á rafmagnsgítörum dregist saman ár frá ári (Resnikoff, 2018). Popptónlist samtímans er búin til í svefnherbergjum, með góðum hljóðnemum og tölvum. Ungmenni fá ekki bara útrás í bílskúrunum, í dag geta leikarar framtíðarinnar ærslast á YouTube og upprennandi leikstjórar klippt stuttmyndir með fríum klippiforritum. Gítarinn er ekki lengur efstur á óskalistanum, en þrátt fyrir það seljast kassagítarar nokkuð stöðugt enn.

Rafmagnsgítarinn hefur löngum verið tengdur við karlmennsku. Sköpulag hljóðfærisins ýtir undir þá tengingu og að sumra mati eru hinar eiginlegu gítarhetjur fyrst og fremst karlmenn. Tölfræðin styður við þessa karllægu mynd og það er nokkuð rótgróið í dægurtónlist að karlmenn sjái um rafmagnsgítarleik. Lengi vel voru 90% þátttakenda í hinum íslensku Músíktilraunum karlmenn og einatt rokkaðar gítarsveitir í forgrunni. Konur sem leika á gítar eiga það til að gleymast en þær eru þó allmargar: Joni Mitchell, Joan Jett, Lita Ford, St. Vincent, PJ Harvey, Carrie Brownstein, Bonnie Raitt svo einhverjar séu nefndar. Sister Rosetta Tharpe hefur einnig verið kölluð til sem upphafskona rokksins en fáir vita þó hver hún er. Á Google-upplýsingasíðunni er henni til að mynda lýst sem söngvara, þó að hún sé fyrst og fremst þekkt fyrir gítarleikinn sem er leiðinlega lýsandi fyrir stöðu kvenna í dægurtónlistariðnaði. Kvenkyns lagasmiðir og hljóðfæraleikarar eru oft afgreiddar sem söngkonur, ekki höfundar eða tónskáld.

Það er erfitt að spá fyrir um framhaldið, hvort skeiði rafmagnsgítarsins sé hreinlega lokið eða hvort aðeins sé um tímabundna hnignun að ræða. En með nokkurri vissu má þó segja að gullöld hans hafi verið frá um það bil 1960 til 2010, svo upprunalegu spurningunni sé svarað.

Heimildir og ítarefni:
  • Bourdage, Monque Mignon. 2007. From Tinkerers to Gods: The Electric guitar and the Social Construction of Gender/. M.S.S. thesis, University of Colorado Denver.
  • Brennan, Matt. 2020. Kick It: A Social History of the Drum Kit. New York: Oxford University Press (væntanleg).
  • Millard, André J. 2004. The Electric Guitar: A History of an American Icon. Baltimore, Md: Johns Hopkins University Press.
  • Resnikoff, Paul. 2018. Electric Guitar Sales Have Plunged 23% Since 2008. Í Digital Music News, 10. maí.
  • Social History, Cultural Studies, and Sources - Guitar Foundation of America„Social history, cultural studies and sources”. (Sótt 1.10.2019).

Myndir:

Spurningu Nökkva er hér svarað að hluta.

Höfundur

Arnar Eggert Thoroddsen

aðjúnkt á Félagsvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

4.10.2019

Spyrjandi

Nökkvi Gunnarsson

Tilvísun

Arnar Eggert Thoroddsen. „Á hvaða tónlistartímabili hefur rafmagnsgítarinn verið mest notaður?“ Vísindavefurinn, 4. október 2019. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71351.

Arnar Eggert Thoroddsen. (2019, 4. október). Á hvaða tónlistartímabili hefur rafmagnsgítarinn verið mest notaður? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71351

Arnar Eggert Thoroddsen. „Á hvaða tónlistartímabili hefur rafmagnsgítarinn verið mest notaður?“ Vísindavefurinn. 4. okt. 2019. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71351>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Á hvaða tónlistartímabili hefur rafmagnsgítarinn verið mest notaður?
Rafmagnsgítarinn hefur leikið aðalhlutverk í rokktónlist allt frá því sú stefna varð til. Á undanförum árum hefur sala á hljóðfærinu þó dregist nokkuð saman. Ástæðan er meðal annars sú að megináherslur dægurtónlistariðnaðarins hafa jafnt og þétt færst frá rokki yfir í hipphopp, en í þeirri stefnu eru rafmagnsgítarar í algjöru aukahlutverki, ef þá nokkru.

Fyrsti rafmagnsgítarinn var settur á almennan markað árið 1932 af framleiðslufyrirtækinu Ro-Pat-In Company (síðar Rickenbacker Electro). Þessi gítar var uppnefndur steikarpannan enda þótti hann minna á slíkt áhald. Rétt nafn þessa fyrsta rafmagnsgítars var hins vegar Rickenbacker Electro A-22. Tilraunir með rafvæðingu strengjahljóðfæra voru ekki nýjar af nálinni á þessum tíma og höfðu í raun staðið yfir allt frá upphafi tuttugustu aldarinnar.

Bandaríski tónlistarmaðurinn Les Paul var einnig mikilhæfur uppfinningamaður. Hann átti töluverðan þátt í hönnun og smíði gítars sem var nefndur eftir honum.

Almennar vinsældir og útbreiðsla rafmagnsgítara helst í hendur við rokkbyltinguna. Þegar Elvis Presley kom fram á sjötta áratug 20. aldar, sveiflaði hann kassagítar en Scotty Moore, gítarleikari hans, lék á rafmagnsgítar. Buddy Holly, samtíðarmaður Elvis, var fyrstur til að festa í sessi hið velþekkta hljómsveitaform: trommur, bassi (að vísu kontrabassi þá), tveir gítarar og söngur. Bítlarnir studdust við þessa hljóðfæraskipan á sjöunda áratugnum og þá var rafmagnsbassinn kominn til sögunnar (Paul McCartney lék þá á Hofner-bassa). Rafmagnsgítarinn öðlaðist gríðarlegar vinsældir á þessum tíma. Hljómsveitir „án-söngs“ (e. instrumental), á borð við The Shadows og The Ventures sem komu til sögunnar áður en Bítlarnir slógu í gegn, voru miklar gítarsveitir en notuðu gítarinn á afar „settlegan“ hátt. Hljóðfærið öðlaðist svo miðlægari stöðu nokkrum árum síðar er Bítlarnir blésu ungmennum um allan heim anda í brjóst og fjögurra manna popp/rokk-sveitir skutu upp kollinum út um allar koppagrundir.

Jimmy Page var gítarleikari Led Zeppelin. Hann er ein helsta erkitýpa gítarhetjunnar.

Undir lok sjöunda áratugarins stigu hinar svonefndu gítarhetjur eða -guðir fram. Listamenn eins og Jimi Hendrix, Eric Clapton og Peter Townshend (The Who) voru þyngdarmiðjur sinna sveita, og veggjalist með setningunni „Clapton is God“ birtist í London. Settlegheitin ruku út í veður og vind og Townshend og Hendrix níddust beinlínis á gítörum sínum, kveiktu í þeim og brutu og sýndu hljóðfærunum allt að því kynferðislega tilburði. Athæfi þeirra minntu meira á trúarathafnir en hljóðfæraleik og voru í réttum takti við ungmennabyltingu síðari hluta sjöunda áratugarins.

Rafmagnsgítarinn lék stórt hlutverk á þeim áttunda og er lykilhljóðfæri þungarokksins. Hið svonefnda „riff“, sem Black Sabbath og Tony Iommi, þáverandi gítarleikari sveitarinnar, kynnti til sögunnar er hornsteinn í þyngri rokktónlist. Sama átti við þegar pönkið kom fram, gítarinn var þá í aðalhlutverki sem fyrr, þótt áhersla á flókin sóló væri nú heldur minni.

Gítarinn „Flying V“ var kynntur til sögunnar árið 1958 af Gibson-framleiðandanum. Framtíðarlegur og ýktur búkurinn heillaði þungarokkara síðar meir og þeir nýttu hann af krafti á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Á níunda áratugnum tvístraðist poppið í ýmsar áttir og aukin hljóðgervlanotkun og tölvuforritun er fyrsta raunverulega ógnin við ægivald gítarsins. Hipphoppið, sem hefur í dag leyst rokkið af sem vinsælasta tónlistartegund heims, kom fram af krafti um þetta leyti. Leikvangarokkssveitir þessa tíma (U2, Simple Minds, The Police, Big Country) voru þó allt miklar gítarsveitir og það sama má segja um gáfumannapoppsveitir eins og The Smiths. Hringlandi gítarstíll Johnny Marr var undir áhrifum frá The Byrds og gítarinn er að vissu leyti upphaf og endir alls þegar kemur að þeirri merku sveit, ásamt auðvitað textum Morrissey.

Á tíunda áratugi síðustu aldar var ekkert lát á vinsældum hljóðfærisins. Gruggbyltingin, sem hljómsveitin Nirvana leiddi, er fyrst og fremst gítarbylting. Pönkuð og einföld fagurfræði hennar hafði áhrif á þúsundir bílskúrssveita víða um heim. Það sama á við um Nirvana og Bítlana, áhrif hennar eru ómæld.

Á fyrsta áratugi 21. aldar fer hins vegar á að slakna á strengjunum og hipphopp, popp og raftónlist breiðir úr sér. Engu að síður fara ýmis gítarbönd eins og The White Stripes, Interpol, Franz Ferdinand, Arctic Monkeys og The Strokes með himinskautum á þessum áratug. Öll eiga þau það þó sameiginlegt að búa yfir hljóðheimi sem hefur sterka skírskotun til eldri rokktónlistar. Eftir á að hyggja má því greina ákveðna feigðarmynd í gítartónlist þessara sveita, nokkurs konar staðfestingu á forgengileika hljóðfærisins.

Svonefndir áhrifsfetlar eða bara fetlar (e. effect pedals) hafa haft rík og mótandi áhrif á notkun rafmagnsgítarsins. Gítarleikarar festa oft sína uppáhalds fetla á fetlabretti.

Frá 2008 hefur sala á rafmagnsgítörum dregist saman ár frá ári (Resnikoff, 2018). Popptónlist samtímans er búin til í svefnherbergjum, með góðum hljóðnemum og tölvum. Ungmenni fá ekki bara útrás í bílskúrunum, í dag geta leikarar framtíðarinnar ærslast á YouTube og upprennandi leikstjórar klippt stuttmyndir með fríum klippiforritum. Gítarinn er ekki lengur efstur á óskalistanum, en þrátt fyrir það seljast kassagítarar nokkuð stöðugt enn.

Rafmagnsgítarinn hefur löngum verið tengdur við karlmennsku. Sköpulag hljóðfærisins ýtir undir þá tengingu og að sumra mati eru hinar eiginlegu gítarhetjur fyrst og fremst karlmenn. Tölfræðin styður við þessa karllægu mynd og það er nokkuð rótgróið í dægurtónlist að karlmenn sjái um rafmagnsgítarleik. Lengi vel voru 90% þátttakenda í hinum íslensku Músíktilraunum karlmenn og einatt rokkaðar gítarsveitir í forgrunni. Konur sem leika á gítar eiga það til að gleymast en þær eru þó allmargar: Joni Mitchell, Joan Jett, Lita Ford, St. Vincent, PJ Harvey, Carrie Brownstein, Bonnie Raitt svo einhverjar séu nefndar. Sister Rosetta Tharpe hefur einnig verið kölluð til sem upphafskona rokksins en fáir vita þó hver hún er. Á Google-upplýsingasíðunni er henni til að mynda lýst sem söngvara, þó að hún sé fyrst og fremst þekkt fyrir gítarleikinn sem er leiðinlega lýsandi fyrir stöðu kvenna í dægurtónlistariðnaði. Kvenkyns lagasmiðir og hljóðfæraleikarar eru oft afgreiddar sem söngkonur, ekki höfundar eða tónskáld.

Það er erfitt að spá fyrir um framhaldið, hvort skeiði rafmagnsgítarsins sé hreinlega lokið eða hvort aðeins sé um tímabundna hnignun að ræða. En með nokkurri vissu má þó segja að gullöld hans hafi verið frá um það bil 1960 til 2010, svo upprunalegu spurningunni sé svarað.

Heimildir og ítarefni:
  • Bourdage, Monque Mignon. 2007. From Tinkerers to Gods: The Electric guitar and the Social Construction of Gender/. M.S.S. thesis, University of Colorado Denver.
  • Brennan, Matt. 2020. Kick It: A Social History of the Drum Kit. New York: Oxford University Press (væntanleg).
  • Millard, André J. 2004. The Electric Guitar: A History of an American Icon. Baltimore, Md: Johns Hopkins University Press.
  • Resnikoff, Paul. 2018. Electric Guitar Sales Have Plunged 23% Since 2008. Í Digital Music News, 10. maí.
  • Social History, Cultural Studies, and Sources - Guitar Foundation of America„Social history, cultural studies and sources”. (Sótt 1.10.2019).

Myndir:

Spurningu Nökkva er hér svarað að hluta....