Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hin mikla frægð Bítlanna á sínum tíma og hin merka arfleifð þeirra hefur lengi valdið poppfræðingum heilabrotum. Af hverju þessi hljómsveit? Af hverju þá? Með öðrum orðum, hvernig gat þetta gerst og hvaða þættir stuðluðu að þessu?
Bækur um Bítlanna verða fleiri og fleiri eftir því sem árin líða og almenningur virðist endalaust forvitinn um hvað átti sér stað í upphafi sjöunda áratugarins í Liverpool, hver voru þessi undur og stórmerki sem áttu eftir að breiðast hratt út um víða veröld á fáum árum? En Bítlarnir urðu ekki bara ótrúlega vinsælir, heldur hefur enginn sveit, fyrr eða síðar, haft jafn mikil áhrif á þróun dægurtónlistar. Tónlist sveitarinnar hefur ótvírætt gildi og margir tala um hreina og óskoraða snilligáfu lagasmiðanna. Margir þættir hafa áhrif á þessar miklu vinsældir sveitarinnar, útlit, tímasetning, hæfileikar, staður og sviptivindar samfélagsins, allt gegnir það sínu hlutverki í lokaútkomunni.
Bítlarnir komu fram í skemmtiþætti bandaríska þáttastjórnandans Ed Sullivan sem átti mikinn þátt í að gera sveitina vinsæla í Bandaríkjunum.
Fáir listamenn ná því að vera bestir og vinsælastir á sama tíma (jú, Elvis í blábyrjuninni) en oftast er lítil fylgni með gæðum og mikilli útbreiðslu. Bítlarnir koma fram þegar upprunalega rokkbylgjan í Bandaríkjunum var liðin undir lok. Árin 1960 – 1962 voru nokkurs konar millispil, áður en brast á með bresku popprokki sem nýtti sér mikið úr bandarísku rokki og blús. Bítlarnir byrjuðu að gefa út lög á smáskífum haustið 1962 og frá og með „From me to you“ (apríl, 1963) tók boltinn að rúlla af geigvænlegum krafti. Lögin voru melódísk, grípandi og hugvitssamleg, Bítlarnir sjálfir voru heillandi hver á sinn hátt og á sviði stafaði af þeim kraftur og ára sem aldrei hafði sést fram til þessa. Þeir voru hæfilega snyrtilegir, hæfilegar hráir og sveitinni tókst að slá hárnákvæman tón og vaxandi hópur hinna nýskilgreindu unglinga tók þeim fagnandi. Bítlarnir byggðu á þessari farsæld með því að vinna eins og skepnur næstu árin en höfðu um leið engan áhuga á formfestu og öryggi. Tilraunagleði sveitarinnar átti eftir að reynast með miklum ólíkindum og voru Bítlarnir fyrsta hljómsveitin sem nýtti sér hljóðverið sem nokkurs konar hljóðfæri og sköpunartól. Frá 1966 nýttu meðlimir sér áhrif úr nútímatónlist, óhljóðalist og fleiru, þeir voru ávallt skrefi á undan öllu samtíðarfólki en höfðu um leið hæfileikann til að miðla framsæknum hugmyndum til fjöldans. Þrátt fyrir að Bítlanir hafi ögrað samþykktum venjum og gildum, samþykktu gömlu varðhundarnir þá, einfaldlega af því að piltarnir voru svo sjarmerandi! Bítlarnir bjuggu auk þess til kjörmynd rokksveitarinnar sem semur eigið efnið, auk þess að flytja það.
Bítlarnir, við upptökur á kvikmyndinni The Magical Mystery Tour, í september 1967. Flestir fræðimenn eru á því að myndin sé fyrsta dæmið um listrænt feilspor í sögu sveitarinnar.
Bítlarnir ruddu því margar brautir. Það er ekkert eitt svar sem útskýrir þessar fáheyrðu vinsældir sveitarinnar, eitthvað sem aldrei hafði sést áður í poppheimum. Að nefna, þó ekki sé nema nokkrar af þeim breytingum sem þeir félagar hrundu af stað varpar að einhverju leyti ljósi á hversu djúpt var á þessum hræringum og hversu mikilvægar þær hafa reynst. Ein þeirra hafði til dæmis með viðsnúning á almennu viðhorfi fólks til dægurtónlistar að gera, en fram að tilkomu Bítlanna hafði hún fyrst og fremst talist afþreying. Oft er rætt um plötuna Sgt. Pepper‘s Lonely Hearts Club Band (1967) sem fyrsta listaverkið úr ranni dægurtónlistarmanna, verk sem hægt var að bera saman við helstu afrek í öðrum og betur metnari listgeirum, sökum eðli þess og eiginda og heildarframsetningu. Sveitin var einnig sú fyrsta sem hafði engan einn forvígismann. Bítlarnir eru í raun frábært dæmi um hóp sem er meira en summa einstaklinganna, svo vísað sé í félagssálfræði Kurt Lewins). Eitt af gælunöfnum hópsins var The Fabolus Four eða The Fab Four. Meðlimir hljómsveitarinnar höfðu allir sinn sérstaka sjarma og hæfileika: Paul McCartney var vinnusamur, sætur og tónlistarlegt séni; John Lennon, töffari af Guðs náð, hugmyndaríkur og framsækinn; Ringo Starr var fyndinn, krúttlegur og eiginlega laun-mannasættir, límið sem batt hópinn saman, enda var hann punkturinn yfir i-ið er hann gekk til liðs við sveitina. Og svo George Harrison, sameiningartákn feimna fólksins, lúmskt hæðinn og góður lagasmiður að auki, þó hann ætti lítið í snilligáfu McCartney og Lennon.
Síðustu opinberu myndirnar af Bítlunum voru teknar á Tittenhurst Park-setrinu árið 1969, en eigandi þess var þá John Lennon.
Mesti sannleikurinn um vinsældir Bítlanna er í raun og veru á sviði hins yfirnáttúrlega því Bítlarnir og farsæld þeirra er að mörgu leyti hulin ráðgáta. Það er einnig ástæða þess að svo margir eru enn hugfangnir yfir henni.
Eftirlætiskenning höfundar þessa svars um vinsældir Bítlana er sett fram af blaða- og tónlistarmanninum Bob Stanley. Í bók sinni Yeah Yeah Yeah – The Story of Modern Pop, gerir hann tilraun til að skilja hið óskiljanlega, að útskýra hið óútskýranlega, að koma orðum að því sem sleppur jafnan undan slíku. Því að allir þessu miklu listamenn (Laxness, Shakespeare, Kubrick, Picasso) voru með eitthvað „x“ sem verður aldrei hægt að útskýra með fræðum eða mannlegu innsæi. Stanley spyr sig í kafla sínum um Bítlana „af hverju þeir? En ekki einhver annar?“ Svar Stanleys liggur í því „að sveitin var, bókstaflega, eitthvað kraftaverkafyrirbæri. Það var eins og það væri eitthvað huliðsafl yfir þeim sem stýrði öllum þeirra aðgerðum. Af þeim þúsundum ljósmynda sem til eru af sveitinni þá er ekki til ein þar sem einn þeirra er með lokuð augu eða „óheppilegt“ fas. Ekki ein mynd.“ Og þetta er hárrétt hjá Stanley! Fólk sem upplifði Bítlana á sínum tíma talar jafnframt um það að eitt hafi verið að hitta þá tvo eða þrjá saman. En þegar þeir voru allir fjórir saman í herbergi hafi orkan verið tilfinnanleg, einhver galdur sem leið um herbergið og fyllti það.
Styttur af Bítlunum í Liverpool sem voru afhjúpaðar árið 2015. Menningarleg áhrif sveitarinnar verða seint ofmetin.
Allt það sem hér hefur verið rakið stuðlaði meðal annars að þessum gríðarvinsældum og enn fleira kom að sjálfsögðu til. Sem sólólistamenn komust Bítlarnir sjaldnast nálægt þeim töfrum sem spruttu upp er þeir fóru með himinskautum sem fereyki, heillandi heiminn upp úr skónum.
Heimildir og ítarefni:
MacDonald, Ian. 1994. Revolution in the head: the Beatles' records and the Sixties. London: Fourth Estate.
Lewisohn, Mark. 1990. The Beatles recording sessions. New York: Harmony Books.
Spizer, Bruce. 2003. The Beatles are coming!: the birth of Beatlemania in America. New Orleans: 498 Productions.
Stanley, Bob. „Act Naturally: The Beatles“ í Yeah Yeah Yeah – The Story of Modern Pop (bls. 201 – 225). London: Faber and Faber, 2013.
Unterberger, Richie. „The Beatles: Artist biography“. www.allmusic.com. Sótt 28. janúar, 2019.
Arnar Eggert Thoroddsen. „Af hverju urðu Bítlarnir svona ótrúlega vinsælir?“ Vísindavefurinn, 8. febrúar 2019, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74113.
Arnar Eggert Thoroddsen. (2019, 8. febrúar). Af hverju urðu Bítlarnir svona ótrúlega vinsælir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74113
Arnar Eggert Thoroddsen. „Af hverju urðu Bítlarnir svona ótrúlega vinsælir?“ Vísindavefurinn. 8. feb. 2019. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74113>.