Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvenær urðu fimleikar til og hver fann þá upp?

Kristín Ösp Benediktsdóttir, Thelma Eir Stefánsdóttir og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Fimleikar er íþrótt sem felur í sér ýmsar æfingar þar sem saman fara styrkur, liðleiki, samhæfing, snerpa og jafnvægi. Fimleika er hægt að stunda sem einstaklingsíþrótt eða hópíþrótt. Á Íslandi eru fyrst og fremst stundaðir áhaldafimleikar og hópfimleikar. Áhaldafimleikar eru aðallega einstaklingsíþrótt en þó er einnig keppt í liðakeppni þar sem æfingar einstaklinga telja saman til stiga í liðakeppni. Í kvennaflokki er keppt á slá, tvíslá, gólfi og stökki. Í karlaflokki er keppt á gólfi, stökki, svifrá, tvíslá, hringjum og bogahesti.

Fimleikar krefjast styrks, liðleika, samhæfingar, snerpu og jafnvægis.

Í hópfimleikum er keppt í kvenna, karla og blönduðum flokki. Þar er keppt á gólfi, trampólíni og dýnu. Að lágmarki keppa sex í einu á hverju áhaldi og er það frammistaða liðsins í heild sem ákvarðar einkunnina. Auk áhalda- og hópfimleika hefur stökkfimi verið að ryðja sér til rúms en það er einstaklingskeppni á sömu áhöldum og stokkið er á í hópfimleikum, það er dýnu og trampólíni.

Fimleikar í einhverri mynd hafa þekkst í þúsundir ára eða allt aftur til tíma Forn-Grikkja og síðar Rómverja. Áhersla á fimi og líkamlegt heilbrigði var að stórum hluta tengt hermennsku hjá þessum þjóðum. Á miðöldum datt áhugi á fimleikum niður en jókst aftur undir lok 18. aldar.

Þjóðverjinn Friedrich Ludwig Jahn (1778–1852) er gjarnan nefndur faðir fimleikanna eins og við þekkjum þá í dag. Hann taldi að með því að byggja upp andlegt og líkamlegt atgervi landa sinna mætti hressa þjóðarsálina við eftir ófarir Prússa gegn Napóleon. Árið 1811 kom Jahn upp opnu íþróttasvæði í Berlín þar sem ungir menn gátu komið saman og iðkað æfingar. Hann kom upp ýmsum áhöldum til þess að nota við æfingarnar og eru sum þeirra notuð enn í dag, svo sem jafnvægislá, hestur, tvíslá og rá.

Friedrich Ludwig Jahn (1778–1852) er gjarnan nefndur faðir fimleikanna.

Íþróttin breiddist út um Evrópu, komið var á fót fleiri svæðum til fimleikaiðkunar og fimleikafélög voru stofnuð. Þegar langt var liðið á 19. öldina fór áhugi á fimleikum einnig vaxandi í Bandaríkjunum. Fimleikar voru keppnisgrein þegar Ólympíuleikarnir voru endurvaktir árið 1896 en reyndar voru það aðeins karlar sem gátu tekið þátt. Konur tóku í fyrsta skipti þátt í fimleikum á Ólympíuleikunum í Amsterdam 1928.

Fimleikar bárust til Íslands á seinni hluta 19. aldar. Fyrsti fimleikasalurinn var reistur í Reykjavík árið 1857 og á sama tíma var fyrsti fimleikaþjálfarinn ráðinn, danski liðþjálfinn, P.C Steenberg. Haustið 1895 var fimleikaflokkurinn Reykjavík Gymnastic Club stofnaður. Það var skoskur prentari, James Ferguson að nafni, sem stofnaði þann flokk. Hann var mikill íþróttmaður og hafði komið til landsins 1895. Flokkurinn var aðeins ætlaður drengjum og voru þar kenndar æfingar á tvíslá og svifrá. Flokkurinn hélt nokkrar sýningar á árunum 1895 til 1896 en fyrsta fimleikasýning kvenna á Íslandi varð ekki fyrr en árið 1911. Árið 1907 var Íþróttafélag Reykjavíkur, ÍR, stofnað og var það fyrsta félagið sem stofnað var með fimleika sem aðalíþróttagrein.

Fimleikaklúbbur í Ameríku á 19. öld.

Fyrsta fimleikamótið á Íslandi var haldið árið 1924 og var það flokkafimleikamót. Fyrsta einstaklingsmótið var haldið 1927. Keppt var í karlaflokki bæði í einstaklings- og flokkafimleikum til ársins 1938 en þá lagðist mótahald niður í næstum þrjá áratugi. Fimleikar voru endurvaktir sem keppnisgrein á Íslandi árið 1965 og árið 1968 var keppt í kvennaflokki í fyrsta skipti á Íslandsmóti.

Fimleikar hafa verið í mikilli sókn á Íslandi og samkvæmt tölum frá ÍSÍ eru þeir í fjórða sæti hvað varðar iðkendafjölda, aðeins knattspyrna, golf og hestaíþróttir geta státað af fleiri iðkendum.

Heimildir:

Myndir:


Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2017.

Höfundar

nemandi í Háskóla unga fólksins

nemandi í Háskóla unga fólksins

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

21.6.2017

Spyrjandi

Sigurbjörg Hróbjartsdóttir, 4. KÞ í Flataskóla

Tilvísun

Kristín Ösp Benediktsdóttir, Thelma Eir Stefánsdóttir og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær urðu fimleikar til og hver fann þá upp?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2017. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71766.

Kristín Ösp Benediktsdóttir, Thelma Eir Stefánsdóttir og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2017, 21. júní). Hvenær urðu fimleikar til og hver fann þá upp? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71766

Kristín Ösp Benediktsdóttir, Thelma Eir Stefánsdóttir og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær urðu fimleikar til og hver fann þá upp?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2017. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71766>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær urðu fimleikar til og hver fann þá upp?
Fimleikar er íþrótt sem felur í sér ýmsar æfingar þar sem saman fara styrkur, liðleiki, samhæfing, snerpa og jafnvægi. Fimleika er hægt að stunda sem einstaklingsíþrótt eða hópíþrótt. Á Íslandi eru fyrst og fremst stundaðir áhaldafimleikar og hópfimleikar. Áhaldafimleikar eru aðallega einstaklingsíþrótt en þó er einnig keppt í liðakeppni þar sem æfingar einstaklinga telja saman til stiga í liðakeppni. Í kvennaflokki er keppt á slá, tvíslá, gólfi og stökki. Í karlaflokki er keppt á gólfi, stökki, svifrá, tvíslá, hringjum og bogahesti.

Fimleikar krefjast styrks, liðleika, samhæfingar, snerpu og jafnvægis.

Í hópfimleikum er keppt í kvenna, karla og blönduðum flokki. Þar er keppt á gólfi, trampólíni og dýnu. Að lágmarki keppa sex í einu á hverju áhaldi og er það frammistaða liðsins í heild sem ákvarðar einkunnina. Auk áhalda- og hópfimleika hefur stökkfimi verið að ryðja sér til rúms en það er einstaklingskeppni á sömu áhöldum og stokkið er á í hópfimleikum, það er dýnu og trampólíni.

Fimleikar í einhverri mynd hafa þekkst í þúsundir ára eða allt aftur til tíma Forn-Grikkja og síðar Rómverja. Áhersla á fimi og líkamlegt heilbrigði var að stórum hluta tengt hermennsku hjá þessum þjóðum. Á miðöldum datt áhugi á fimleikum niður en jókst aftur undir lok 18. aldar.

Þjóðverjinn Friedrich Ludwig Jahn (1778–1852) er gjarnan nefndur faðir fimleikanna eins og við þekkjum þá í dag. Hann taldi að með því að byggja upp andlegt og líkamlegt atgervi landa sinna mætti hressa þjóðarsálina við eftir ófarir Prússa gegn Napóleon. Árið 1811 kom Jahn upp opnu íþróttasvæði í Berlín þar sem ungir menn gátu komið saman og iðkað æfingar. Hann kom upp ýmsum áhöldum til þess að nota við æfingarnar og eru sum þeirra notuð enn í dag, svo sem jafnvægislá, hestur, tvíslá og rá.

Friedrich Ludwig Jahn (1778–1852) er gjarnan nefndur faðir fimleikanna.

Íþróttin breiddist út um Evrópu, komið var á fót fleiri svæðum til fimleikaiðkunar og fimleikafélög voru stofnuð. Þegar langt var liðið á 19. öldina fór áhugi á fimleikum einnig vaxandi í Bandaríkjunum. Fimleikar voru keppnisgrein þegar Ólympíuleikarnir voru endurvaktir árið 1896 en reyndar voru það aðeins karlar sem gátu tekið þátt. Konur tóku í fyrsta skipti þátt í fimleikum á Ólympíuleikunum í Amsterdam 1928.

Fimleikar bárust til Íslands á seinni hluta 19. aldar. Fyrsti fimleikasalurinn var reistur í Reykjavík árið 1857 og á sama tíma var fyrsti fimleikaþjálfarinn ráðinn, danski liðþjálfinn, P.C Steenberg. Haustið 1895 var fimleikaflokkurinn Reykjavík Gymnastic Club stofnaður. Það var skoskur prentari, James Ferguson að nafni, sem stofnaði þann flokk. Hann var mikill íþróttmaður og hafði komið til landsins 1895. Flokkurinn var aðeins ætlaður drengjum og voru þar kenndar æfingar á tvíslá og svifrá. Flokkurinn hélt nokkrar sýningar á árunum 1895 til 1896 en fyrsta fimleikasýning kvenna á Íslandi varð ekki fyrr en árið 1911. Árið 1907 var Íþróttafélag Reykjavíkur, ÍR, stofnað og var það fyrsta félagið sem stofnað var með fimleika sem aðalíþróttagrein.

Fimleikaklúbbur í Ameríku á 19. öld.

Fyrsta fimleikamótið á Íslandi var haldið árið 1924 og var það flokkafimleikamót. Fyrsta einstaklingsmótið var haldið 1927. Keppt var í karlaflokki bæði í einstaklings- og flokkafimleikum til ársins 1938 en þá lagðist mótahald niður í næstum þrjá áratugi. Fimleikar voru endurvaktir sem keppnisgrein á Íslandi árið 1965 og árið 1968 var keppt í kvennaflokki í fyrsta skipti á Íslandsmóti.

Fimleikar hafa verið í mikilli sókn á Íslandi og samkvæmt tölum frá ÍSÍ eru þeir í fjórða sæti hvað varðar iðkendafjölda, aðeins knattspyrna, golf og hestaíþróttir geta státað af fleiri iðkendum.

Heimildir:

Myndir:


Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2017....