Í holrúmi beinanna er síðan svonefndur beinmergur. Rauður beinmergur eða blóðmergur myndar blóðkorn og hann er í öllum beinum á fósturskeiði. Hjá fullorðnum finnst hann aðeins í höfuðkúpunni, í rifbeinum og í löngum beinum. Í öðrum beinum fullorðinna er gulur beinmergur. Hann er mestmegnis fita og kallast einnig fitumergur.
Í fróðlegu svari Magnúsar Jóhannssonar við spurningunni Hvað orsakar beinþynningu? kemur þetta fram um uppbyggingu beinanna:Beinin eru mynduð úr flóknum saltkristöllum af kalsíum (kalsíni, kalki) sem raða sér upp í misþykka þræði og mynda eins konar net. Þetta net er mjög þétt og þannig uppbyggt að það gefi beininu sem mestan styrk. Til þess að það gerist á eðlilegan hátt þarf hæfilega áreynslu. Beinin eru stöðugt að eyðast og myndast; í beinunum eru beineyðandi frumur (osteoklastar) og beinmyndandi frumur (osteoblastar) sem sinna hlutverki sínu alla ævi. Stóran hluta ævinnar er þessi starfsemi, og þar með beinmassinn, í jafnvægi þannig að beineyðing og beinmyndun gerast með sama hraða. Eftir 30-35 ára aldur fara beineyðandi frumurnar að hafa heldur betur og beinmassinn fer hægt minnkandi. Vegna hormónabreytinganna við 45-60 ára aldur eykst hraði beineyðingar verulega hjá sumum einstaklingum.Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna eru nýfædd börn með fleiri bein en fullorðnir?
- Hvað eru mörg bein í mannslíkamanum?
- Hvað heita 3 minnstu beinin í líkamanum?
- Íslenska alfræðiorðabókin. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1990.
- Nasa
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.