Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er bitormasýki og hvernig smitast menn af henni?

Karl Skírnisson

Tvær tegundir sníkjuþráðorma (Nematoda); Ancylostoma duodenale og Necator americanus orsaka sjúkdóm í meltingarvegi manna sem nefna mætti bitormasýki (e. hookworm diseases). Hvorug tegundin er landlæg á Íslandi en báðar berast hingað reglulega með ferðalöngum sem smitast hafa erlendis. Fyrrnefnda tegundin er landlæg við Miðjarðarhafið, þar með talið í Suður-Evrópu, í Miðausturlöndum og í Asíu en sú síðarnefnda er einkum bundin við Afríku, Norður- og Suður-Ameríku, Ástralíu og trópísku svæði Asíu. Allt að 800 milljónir manna eru taldir smitaðir af bitormum, það er um áttundi hver íbúi heimsins.

Lýsing og lífsferill

Lífsferill bitormategundanna tveggja er áþekkur og sjúkdómseinkenni af þeirra völdum svipuð. Fullorðnir eru bitormar um 10 mm langir. Þeir eru sérkynja og verpir hver kvenormur allt að 20.000 eggjum á dag. Eggin berast með hægðum smitaðra manna út í umhverfið og klekst lítil lirfa úr hverju eggi. Lifir hún í jarðveginum í nánd við hægðirnar. Þar sem raki og hitastig eru hagstæð þroskast hún í smithæfa lirfu á um það bil sex vikum. Fullþroskaðar geta lirfurnar lifað í jarðveginum í allt að 5 vikur.

Framendi bitorms sem sýnir tennurnar.

Menn smitast þegar slíkar lirfur smjúga inn í líkamann í gegn um húðina. Oftast rjúfa lirfurnar sér leið í gegn um húðina á fótum eða á höndum og gerist slíkt þegar menn ganga berfættir eða vinna berhentir í saurmenguðum jarðvegi. Komnar inn í líkamann berast lirfurnar með sogæðakerfinu eða bláæðum til hjarta og áfram þaðan með blóðrás til lungnanna þar sem lirfurnar bora sig út úr háræðunum yfir í berkjur. Þaðan berast lirfurnar upp barkann og upp í munn. Þar er þeim kyngt niður í meltingarveg og þar þroskast þær í fullorðna orma.

Sjúkdómseinkenni

Venjulega klæjar menn þar sem lirfurnar smugu í gegn um húðina. Algengt er að lirfurnar ráðist til inngöngu milli tánna sem í framhaldinu roðna og þrútna, oft um nokkurra daga skeið. Þegar lirfurnar eru komnar í lungun er algengt að menn fái hita, hósta og andþrengsli. Sumir verða þó einskis varir.

Niðri í meltingarvegi festa fullorðnir bitormar framendann á vegg smáþarmanna þar sem þeir lifa á blóði sem þeir drekka eftir að hafa sært slímhimnuna með sérstökum tönnum þannig að úr blæðir. Afleiðingin eru kviðverkir, lystarleysi, niðurgangur, þyngdartap og síðast en ekki síst blóðleysi. Hver ormur sýgur um það bil 0,1 ml af blóði á sólarhring en þar sem ormarnir færa sig iðulega um set tapar sá smitaði oft mun meira blóði en því sem ormarnir drekka því alltaf blæðir eitthvað úr sárum eftir að ormarnir skipta um stað.

Necator americanus, önnur tegund sníkjuþráðorma.

Bitormar geta lifað árum saman þannig að smitaðir þjást oft af langvarandi blóðleysi. Sjúkdómseinkennin standa gjarnan í réttu hlutfalli við fjölda ormanna sem viðkomandi hýsir. Börn eru sérstaklega viðkvæm og kornabörn geta dáið af völdum bitormasýkinga.

Greining og meðhöndlun

Auðvelt er að greina smit með því að leita að eggjum bitorma í hægðum. Til að gera slíkt er örlitlu saursýni hrært út í vökva í tilraunaglasi. Eggin í sýninu eru botnfelld í skilvindu og þeirra síðan leitað með smásjárskoðun. Finnist egg er hægt að gefa ormalyf sem drepur bitormana.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Árangursríkt er að verjast smiti með því að hindra beina snertingu húðarinnar við lirfusmitaðan jarðveg. Er það gert með því að forðast það að ganga um berfættur og nota hanska við garðyrkjustörf þar sem smitaðir menn hafa gengið örna sinna.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um sníkjudýr í mönnum, til dæmis:

Heimildir og myndir:

  • Baumann, RW. 2004. Microbiology. Pearson, San Francisco.
  • Karl Skírnisson, Sigurður H. Richter & Matthías Eydal. 2003. Prevalence of human parasites in Iceland: Past and present status. 4. kafli í: Parasites of the Colder Climates (ritstj. Hannah Akkuffo, Inger Ljungström, Ewert Linder and Mats Whalgren). Taylor & Francis, London and New York. Bls. 34-44.
  • Mynd af bitormakjafti: Flickr. Mynd birt af Yasser. (Sótt 25.6.2018). Birt undir leyfinu Creative Commons 2.0.
  • Mynd af Necator americanus: Wikimedia Commons - Necator Americanus. (Sótt 25.6.2018). Birt undir leyfinu GNU 1.2.

Höfundur

Karl Skírnisson

dýrafræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Útgáfudagur

21.4.2008

Síðast uppfært

25.6.2018

Spyrjandi

Reynir Hans Reynisson

Tilvísun

Karl Skírnisson. „Hvað er bitormasýki og hvernig smitast menn af henni?“ Vísindavefurinn, 21. apríl 2008, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7360.

Karl Skírnisson. (2008, 21. apríl). Hvað er bitormasýki og hvernig smitast menn af henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7360

Karl Skírnisson. „Hvað er bitormasýki og hvernig smitast menn af henni?“ Vísindavefurinn. 21. apr. 2008. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7360>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er bitormasýki og hvernig smitast menn af henni?
Tvær tegundir sníkjuþráðorma (Nematoda); Ancylostoma duodenale og Necator americanus orsaka sjúkdóm í meltingarvegi manna sem nefna mætti bitormasýki (e. hookworm diseases). Hvorug tegundin er landlæg á Íslandi en báðar berast hingað reglulega með ferðalöngum sem smitast hafa erlendis. Fyrrnefnda tegundin er landlæg við Miðjarðarhafið, þar með talið í Suður-Evrópu, í Miðausturlöndum og í Asíu en sú síðarnefnda er einkum bundin við Afríku, Norður- og Suður-Ameríku, Ástralíu og trópísku svæði Asíu. Allt að 800 milljónir manna eru taldir smitaðir af bitormum, það er um áttundi hver íbúi heimsins.

Lýsing og lífsferill

Lífsferill bitormategundanna tveggja er áþekkur og sjúkdómseinkenni af þeirra völdum svipuð. Fullorðnir eru bitormar um 10 mm langir. Þeir eru sérkynja og verpir hver kvenormur allt að 20.000 eggjum á dag. Eggin berast með hægðum smitaðra manna út í umhverfið og klekst lítil lirfa úr hverju eggi. Lifir hún í jarðveginum í nánd við hægðirnar. Þar sem raki og hitastig eru hagstæð þroskast hún í smithæfa lirfu á um það bil sex vikum. Fullþroskaðar geta lirfurnar lifað í jarðveginum í allt að 5 vikur.

Framendi bitorms sem sýnir tennurnar.

Menn smitast þegar slíkar lirfur smjúga inn í líkamann í gegn um húðina. Oftast rjúfa lirfurnar sér leið í gegn um húðina á fótum eða á höndum og gerist slíkt þegar menn ganga berfættir eða vinna berhentir í saurmenguðum jarðvegi. Komnar inn í líkamann berast lirfurnar með sogæðakerfinu eða bláæðum til hjarta og áfram þaðan með blóðrás til lungnanna þar sem lirfurnar bora sig út úr háræðunum yfir í berkjur. Þaðan berast lirfurnar upp barkann og upp í munn. Þar er þeim kyngt niður í meltingarveg og þar þroskast þær í fullorðna orma.

Sjúkdómseinkenni

Venjulega klæjar menn þar sem lirfurnar smugu í gegn um húðina. Algengt er að lirfurnar ráðist til inngöngu milli tánna sem í framhaldinu roðna og þrútna, oft um nokkurra daga skeið. Þegar lirfurnar eru komnar í lungun er algengt að menn fái hita, hósta og andþrengsli. Sumir verða þó einskis varir.

Niðri í meltingarvegi festa fullorðnir bitormar framendann á vegg smáþarmanna þar sem þeir lifa á blóði sem þeir drekka eftir að hafa sært slímhimnuna með sérstökum tönnum þannig að úr blæðir. Afleiðingin eru kviðverkir, lystarleysi, niðurgangur, þyngdartap og síðast en ekki síst blóðleysi. Hver ormur sýgur um það bil 0,1 ml af blóði á sólarhring en þar sem ormarnir færa sig iðulega um set tapar sá smitaði oft mun meira blóði en því sem ormarnir drekka því alltaf blæðir eitthvað úr sárum eftir að ormarnir skipta um stað.

Necator americanus, önnur tegund sníkjuþráðorma.

Bitormar geta lifað árum saman þannig að smitaðir þjást oft af langvarandi blóðleysi. Sjúkdómseinkennin standa gjarnan í réttu hlutfalli við fjölda ormanna sem viðkomandi hýsir. Börn eru sérstaklega viðkvæm og kornabörn geta dáið af völdum bitormasýkinga.

Greining og meðhöndlun

Auðvelt er að greina smit með því að leita að eggjum bitorma í hægðum. Til að gera slíkt er örlitlu saursýni hrært út í vökva í tilraunaglasi. Eggin í sýninu eru botnfelld í skilvindu og þeirra síðan leitað með smásjárskoðun. Finnist egg er hægt að gefa ormalyf sem drepur bitormana.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Árangursríkt er að verjast smiti með því að hindra beina snertingu húðarinnar við lirfusmitaðan jarðveg. Er það gert með því að forðast það að ganga um berfættur og nota hanska við garðyrkjustörf þar sem smitaðir menn hafa gengið örna sinna.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um sníkjudýr í mönnum, til dæmis:

Heimildir og myndir:

  • Baumann, RW. 2004. Microbiology. Pearson, San Francisco.
  • Karl Skírnisson, Sigurður H. Richter & Matthías Eydal. 2003. Prevalence of human parasites in Iceland: Past and present status. 4. kafli í: Parasites of the Colder Climates (ritstj. Hannah Akkuffo, Inger Ljungström, Ewert Linder and Mats Whalgren). Taylor & Francis, London and New York. Bls. 34-44.
  • Mynd af bitormakjafti: Flickr. Mynd birt af Yasser. (Sótt 25.6.2018). Birt undir leyfinu Creative Commons 2.0.
  • Mynd af Necator americanus: Wikimedia Commons - Necator Americanus. (Sótt 25.6.2018). Birt undir leyfinu GNU 1.2.
...