Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaðan fást fósturstofnfrumur og eru lög um notkun þeirra hér á landi?

Erna Magnúsdóttir

Hér er tveimur spurningum svarað. Þær eru í sinni upphaflegu mynd svona:

Hvaðan fá vísindamenn/líffræðingar fósturstofnfrumur? Banna íslensk lög notkun stofnfruma úr fósturvísum manna við rannsóknir?

Stofnfrumur úr fósturvísum manna eru frumur sem við rétt skilyrði næringarefna og vaxtarþátta má rækta í tilraunaskál þannig að þær endurnýi sig endalaust með frumuskiptingu án þess að eðli dótturfrumanna breytist. Þessar frumur hafa jafnframt getu til þess að sérhæfa sig í alla vefi líkamans ef réttum aðferðum er beitt við ræktun og teljast þar með fjölhæfar (e. pluripotent). Við tölum um frumulínur (e. cell line) og er þá ein frumulína afleidd af einum fósturvísi.

Stofnfrumur hafa getu til þess að sérhæfa sig í alla vefi líkamans ef réttum aðferðum er beitt við ræktun og teljast þar með fjölhæfar.

Stofnfrumulínur verða til við það að fósturvísir á kímblöðrustigi sem orðið hefur til við glasafrjóvgun er settur í sérstakt ræktunaræti sem viðheldur fjölhæfum stofnfrumum fósturvísisins. Aðrar frumur fósturvísisins sem annars hefðu gefið af sér utanfóstursvefi eins og fylgju lifa ekki ræktunina af.

Íslensk löggjöf er mjög skýr þegar kemur að notkun fósturvísa í rannsóknar- eða meðferðarskyni og fjalla Lög um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna um þetta. Glasafrjóvgun er stundum notuð sem meðferð við ófrjósemi og verða þá annað slagið til fleiri fósturvísar en þörf er á. Þessa fósturvísa er þá unnt að nota til þess að búa til stofnfrumulínur.

Á Íslandi má búa til nýjar stofnfrumulínur úr fósturvísum manna ef samþykki þeirra sem lögðu til kynfrumurnar sem notaðar voru við glasafrjóvgunina liggur fyrir. Þó er slík notkun fósturvísanna ýmsum skilyrðum háð. Rannsóknarstofnunin sem meðhöndlar fósturvísana þarf að hafa til þess leyfi frá ráðherra og er þá leyfið einungis veitt að uppfylltum skilyrðum í viðeigandi reglugerðum. Einungis er heimilt að búa til nýjar stofnfrumulínur ef þær geta nýst til „að afla þekkingar í líf- og læknisfræði eða til að bæta heilsu og lækna sjúkdóma“, og er það Vísindasiðanefnd sem sker úr um það hvort þessi skilyrði séu uppfyllt. Einnig er skýrt kveðið á um það í lögunum að ekki megi rækta eða búa til fósturvísa í þeim eina tilgangi að gera á þeim rannsóknir. Það eru því einungis umframfósturvísar sem má nota til að búa til nýjar stofnfrumulínur.

Þroskun mismunandi blóðfruma úr blóðmyndandi stofnfrumu.

Spurningin beinist þó að því hvort nota megi stofnfrumur úr fósturvísum manna til rannsókna, ekki hvort búa megi til nýjar stofnfrumulínur úr fósturvísum hér á landi og gera verður greinarmun þar á milli. Flestir vísindamenn sem nota stofnfrumur úr fósturvísum manna nota í dag stofnfrumulínur sem voru búnar til fyrir nokkuð löngu síðan og eru geymdar hjá sérstökum stofnunum sem sjá um að viðhalda þeim og geyma. Þannig er hægt að fá einskonar afleggjara af þessum stofnfrumulínum til þess að rannsaka og er það leyfilegt hér á landi. Í fæstum tilvikum er nauðsynlegt að búa til nýjar stofnfrumulínur til þess að svara rannsóknarspurningum og þar sem þessar frumur fjölga sér endalaust er einfaldast að nota þær frumulínur sem þegar er búið að búa til.

Stundum getur þó verið þörf á að búa til nýjar stofnfrumulínur, en vegna hinnar svokölluðu iPS-tækni er oftast ekki nauðsynlegt að nota fósturvísa til þeirrar vinnu heldur er hægt að nota fullorðinsfrumur og breyta þeim í fjölhæfar frumulínur sem hafa sömu eiginleika og stofnfrumur úr fósturvísum. Meira má lesa um iPS-tækni í svarinu við spurningunni Hverjir hlutu Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2012 og fyrir hvað hlutu þeir verðlaunin? eftir Guðrúnu Valdimarsdóttur.

Heimild:

Myndir:

Höfundur

Erna Magnúsdóttir

dósent í lífeinda- og líffærafræði við læknadeild HÍ

Útgáfudagur

25.3.2019

Síðast uppfært

1.4.2019

Spyrjandi

Björn Breki Steingrímsson, Hjálmar Gíslason

Tilvísun

Erna Magnúsdóttir. „Hvaðan fást fósturstofnfrumur og eru lög um notkun þeirra hér á landi?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2019, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73677.

Erna Magnúsdóttir. (2019, 25. mars). Hvaðan fást fósturstofnfrumur og eru lög um notkun þeirra hér á landi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73677

Erna Magnúsdóttir. „Hvaðan fást fósturstofnfrumur og eru lög um notkun þeirra hér á landi?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2019. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73677>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaðan fást fósturstofnfrumur og eru lög um notkun þeirra hér á landi?
Hér er tveimur spurningum svarað. Þær eru í sinni upphaflegu mynd svona:

Hvaðan fá vísindamenn/líffræðingar fósturstofnfrumur? Banna íslensk lög notkun stofnfruma úr fósturvísum manna við rannsóknir?

Stofnfrumur úr fósturvísum manna eru frumur sem við rétt skilyrði næringarefna og vaxtarþátta má rækta í tilraunaskál þannig að þær endurnýi sig endalaust með frumuskiptingu án þess að eðli dótturfrumanna breytist. Þessar frumur hafa jafnframt getu til þess að sérhæfa sig í alla vefi líkamans ef réttum aðferðum er beitt við ræktun og teljast þar með fjölhæfar (e. pluripotent). Við tölum um frumulínur (e. cell line) og er þá ein frumulína afleidd af einum fósturvísi.

Stofnfrumur hafa getu til þess að sérhæfa sig í alla vefi líkamans ef réttum aðferðum er beitt við ræktun og teljast þar með fjölhæfar.

Stofnfrumulínur verða til við það að fósturvísir á kímblöðrustigi sem orðið hefur til við glasafrjóvgun er settur í sérstakt ræktunaræti sem viðheldur fjölhæfum stofnfrumum fósturvísisins. Aðrar frumur fósturvísisins sem annars hefðu gefið af sér utanfóstursvefi eins og fylgju lifa ekki ræktunina af.

Íslensk löggjöf er mjög skýr þegar kemur að notkun fósturvísa í rannsóknar- eða meðferðarskyni og fjalla Lög um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna um þetta. Glasafrjóvgun er stundum notuð sem meðferð við ófrjósemi og verða þá annað slagið til fleiri fósturvísar en þörf er á. Þessa fósturvísa er þá unnt að nota til þess að búa til stofnfrumulínur.

Á Íslandi má búa til nýjar stofnfrumulínur úr fósturvísum manna ef samþykki þeirra sem lögðu til kynfrumurnar sem notaðar voru við glasafrjóvgunina liggur fyrir. Þó er slík notkun fósturvísanna ýmsum skilyrðum háð. Rannsóknarstofnunin sem meðhöndlar fósturvísana þarf að hafa til þess leyfi frá ráðherra og er þá leyfið einungis veitt að uppfylltum skilyrðum í viðeigandi reglugerðum. Einungis er heimilt að búa til nýjar stofnfrumulínur ef þær geta nýst til „að afla þekkingar í líf- og læknisfræði eða til að bæta heilsu og lækna sjúkdóma“, og er það Vísindasiðanefnd sem sker úr um það hvort þessi skilyrði séu uppfyllt. Einnig er skýrt kveðið á um það í lögunum að ekki megi rækta eða búa til fósturvísa í þeim eina tilgangi að gera á þeim rannsóknir. Það eru því einungis umframfósturvísar sem má nota til að búa til nýjar stofnfrumulínur.

Þroskun mismunandi blóðfruma úr blóðmyndandi stofnfrumu.

Spurningin beinist þó að því hvort nota megi stofnfrumur úr fósturvísum manna til rannsókna, ekki hvort búa megi til nýjar stofnfrumulínur úr fósturvísum hér á landi og gera verður greinarmun þar á milli. Flestir vísindamenn sem nota stofnfrumur úr fósturvísum manna nota í dag stofnfrumulínur sem voru búnar til fyrir nokkuð löngu síðan og eru geymdar hjá sérstökum stofnunum sem sjá um að viðhalda þeim og geyma. Þannig er hægt að fá einskonar afleggjara af þessum stofnfrumulínum til þess að rannsaka og er það leyfilegt hér á landi. Í fæstum tilvikum er nauðsynlegt að búa til nýjar stofnfrumulínur til þess að svara rannsóknarspurningum og þar sem þessar frumur fjölga sér endalaust er einfaldast að nota þær frumulínur sem þegar er búið að búa til.

Stundum getur þó verið þörf á að búa til nýjar stofnfrumulínur, en vegna hinnar svokölluðu iPS-tækni er oftast ekki nauðsynlegt að nota fósturvísa til þeirrar vinnu heldur er hægt að nota fullorðinsfrumur og breyta þeim í fjölhæfar frumulínur sem hafa sömu eiginleika og stofnfrumur úr fósturvísum. Meira má lesa um iPS-tækni í svarinu við spurningunni Hverjir hlutu Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2012 og fyrir hvað hlutu þeir verðlaunin? eftir Guðrúnu Valdimarsdóttur.

Heimild:

Myndir:

...