Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða áhrif getur ófrjósemi haft á andlega líðan og tilfinningar hjá báðum kynjum?

Bára Sigurbjörg Ólafsdóttir

Þegar talað er um ófrjósemi þá er átt við pör sem hafa stundað kynlíf án getnaðarvarna í að lágmarki eitt ár án þess að konan verði barnshafandi.1 Ófrjósemi er ekki sú aðstaða sem fólk kýs sér2 og er talið að hérlendis eigi um 15% para við þetta vandamál að stríða.3 Orsakir má rekja jafnt til karla og kvenna og eru þær fjölmargar og mismunandi á milli einstaklinga auk þess sem hluti þeirra er óskýranlegur.4

Töluvert hefur verið fjallað um tengsl milli andlegrar líðanar, tilfinninga og ófrjósemi á vettvangi vísindanna. Rannsóknir hérlendis og erlendis hafa sýnt fram á augljós tengsl milli þessara þátta og er þá talið að þessi andlega vanlíðan og tilfinningalegt uppnám séu afleiðingar ófrjóseminnar en ekki öfugt.4,5

Það getur reynt mikið á að fá neikvæða niðurstöðu úr þungunarprófi.

Það þarf að taka margar og stórar ákvarðanir áður en gengist er undir meðferð við ófrjósemi.2 Lífið og lífsvenjur geta tekið verulegum stakkaskiptum og gríðarlegt álag verður á tilfinningalíf einstaklinga og para ásamt því að fjárhagslegt álag eykst,4 því tæknifrjóvgun er langt frá því að vera ókeypis hérlendis. Lífið fer oft að snúast fyrst og fremst um þungun og hugurinn vill festast við spurningar á borð við „Heppnaðist meðferðin?“ „Ætli ég missi fóstrið?“ „Hvað EF?“4

Að bíða í óvissu á meðan á meðferðartíma stendur getur valdið hugarangri, spennu, kvíða og að lokum gríðarlegu áfalli ef þungun verður ekki.5 Margir lýsa þá tilfinningum sínum sem svo að þeir sitji einir eftir með sorgina.5 Samantekt margra rannsókna hefur sýnt fram á að ófrjósemi tengist verulega þunglyndi, kvíða, kynlífsvandamálum, hjónabandserfiðleikum og skertri sjálfsmynd.4 Íslensk rannsókn sýndi fram á að tilfinningalegar sveiflur eru mun algengari hjá fólki í þessum aðstæðum og sérstaklega ef illa gengur og lengra líður á ófrjósemistímabilið.5

Niðurstöður sænskrar rannsóknar leiddu í ljós hærri tíðni kvíða og andlegrar og líkamlegrar streitu ásamt ótta við fósturmissi hjá báðum kynjum sem höfðu gengist undir meðferðir við ófrjósemi, samanborið við þá sem hafa ekki gengist undir slíkar meðferðir.6 Nokkuð er um að rannsóknir gefi til kynna að einkenni þunglyndis séu meiri hjá konum en körlum en sá munur er oftast leiðréttur þegar tekið er inn í mismunandi viðbrögð milli kynja og ýmiss konar aukaverkanir í meðferð við ófrjósemi sem eykur álag bæði á líkamlega og andlega þætti.7 Lyfjagjöf sem konur gangast undir á meðferðartímanum valda aukaverkunum á borð við þunglyndi, þyngdaraukningu, pirring og minni kynlöngun.5 Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að aukin einkenni þunglyndis séu algeng hjá konum sem eiga við ófrjósemi að stríða og virðist ná hámarki á öðru til þriðja ári ófrjóseminnar.4

Algengasta vandamál para í meðferð við ófrjósemi eru samskiptaörðugleikar. Í slíkum aðstæðum myndast oft spenna og tilfinningasveiflur. Hver og einn einstaklingur bregst mismunandi við aðstæðum og álagi sem getur valdið tilfinningalegri fjarlægð og misskilningi í samskiptum.2,5

Ófrjósemi getur valdið mikilli vanlíðan og leitt til þess að parið fjarlægist hvort annað.

Andleg vanlíðan og tilfinningalegt álag hjá konum kemur fram í skapsveiflum, minni kynferðislegri virkni, skertu sjálfsáliti og sjálfsmynd, þunglyndi, reiði, kvíða, félagslegri einangrun og sektarkennd.4,8 Sjálfsásökun er vel þekkt jafnvel þó að ófrjósemin liggi ekki þeirra megin. Konur upplifa oft á tíðum tilfinningalega öfund til jafningja sem eru í barneign þar sem vanmáttarkennd kemur upp við að geta ekki deilt sams konar reynslusögum sem tilheyra meðgöngu og fæðingu.9

Meðal karla er andleg vanlíðan og tilfinningalegt álag á margan hátt svipað og hjá konum þó túlkunin sé önnur. Greint hefur verið frá reiði, skömm, sektarkennd, félagslegri einangrun og lágu sjálfsáliti. Einnig hefur komið fram aukin tíðni þunglyndis, kvíða, kynferðislegrar óánægju og sjálfsásökunar.9 Karlmenn sem eiga við ófrjósemi að stríða hafa aukna tilhneigingu til að telja sig gallaða og gagnslausa samanborið við þá sem ekki eiga við ófrjósemi að stríða. Þetta vill valda því að þeir efist um karlmennsku sína og veldur þeim jafnvel auknum ótta um að missa makann frá sér. Margir hverjir sökkva sér í vinnu eða áhugamál til að forðast það tilfinningalega ójafnvægi sem fylgir ófrjóseminni.4,9 Karlar eru ólíklegri en konur til að ræða um vandann við makann, vini og fjölskyldu sem veldur oft og tíðum misskilningi og samskiptavanda milli parsins ásamt einangrun frá vinum og fjölskyldu.9

Þessi einkenni bæði meðal karla og kvenna má skýra að hluta til með að einstaklingar upplifa sig vanhæfa til þess að eignast afkvæmi og finnist þeir ekki standa undir væntingum samfélagsins, fjölskyldu, vina og jafnvel sjálfs síns og maka um að lifa „venjulegu“ fjölskyldulífi.4,9 Einstaklingar sem glíma við ófrjósemi berjast við þrýsting samfélagsins ofan á eigin væntingar. Þeir þurfa sífellt að svara spurningum um hvers vegna þeir eigi ekki börn og hvort það eigi ekki að fara eignast barn.4

Vegna mismunandi sjónarmiða einstaklinga til ófrjóseminnar, meðferðarinnar við henni og mikilvægi þess að eignast barn getur spenna innan sambanda myndast. Þekkt er að einstaklingar snúi sér annað til þess að ræða vandamálin, fjarlægist hvort annað og fari jafnvel að ásaka hvort annað um stuðnings- og skilningsleysi.4

Ekki er óalgengt að einstaklingar verði mjög uppteknir af kynlífi fyrst eftir að ófrjósemi greinist en þegar til lengri tíma er litið minnkar oft löngunin til kynlífs, ástríðan og nándin situr á hakanum og fólk upplifir kynlífið sem kvöð frekar en ánægju.10 Slíkt andlegt ójafnvægi getur orðið það mikið að einstaklingurinn efist um tilgang hjónabandsins og jafnvel tilgang lífsins í versta falli.9

Í ljósi þess hve viðkvæmt og erfitt það getur verið að glíma við ófrjósemi er mikilvægt fyrir einstaklinga, pör, meðferðaraðila og samfélagið í heild sinni að þekkja ferlið í kringum meðferðir við ófrjósemi og þau vandamál sem geta komið upp í kjölfar þeirra. Með því að auka þekkingu og skilning á málefninu eru meiri líkur á utanaðkomandi stuðningi og skilningi í garð þeirra sem stríða við ófrjósemisvanda.

Tilvísanir

  • 1 World Health Organization. (2001). Who regional strategy on sexual and reproductive health. Copenhagen: World Health Organization.
  • 2 Helga Sól Ólafsdóttir. (2006). Ófrjósemi – Lausnir og lífsgæði. Í Sigrún Júlíusdóttir og Halldór Sig. Guðmundsson (ritstjórar). Heilbrigði og heildarsýn: félagsráðgjöf í heilbrigðisþjónustu. Reykjavík: Háskólaútgáfan og RBF: 141-160, 211-225.
  • 3 ART Medica. Sótt þann 25. október 2011 af vef www.artmedica.is
  • 4 Peterson B.D., Gold. L og Feingol. T. (2007). The experience and influence of infertility: Considerations for couple counselors. The Family Journal, 15 (3), 251-257.
  • 5 Anna Lóa Aradóttir. (2010). Ófrjósemi og úrræði. Upplifun kvenna af ítrekuðum tæknifrjóvgunum á Íslandi. Óbirt BA-ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindadeild.
  • 6 Hjelmstedt A., Widström A., Wramsby H., Matthiesen A. og Collins A. (2003). Personality factors and emotional responses to pregnancy among IVF couples in early pregnancy: a comparative study. Acta Obstetrica et Gynecologica Scandinavica, 82 (2),152-161.
  • 7 Tüzer V., Tuncel A., Göka S., Dogan B. S., Yüksel F. V., Atan A. og Göka E. (2010). Marital adjustment and emotional symptoms in infertile couples: gender difference. Turkish Journal of Medical Sciences, 40 (2), 229-23.
  • 8 Clayton, A. H. (2004). Mental health concerns with infertility. Primary Psychiatry, 11, 17-1.
  • 9 Daniluk, J. C. (1997). Gender and infertility. Í S. R. Leiblum. Infertility: Psychological issues and counseling strategies. New York: John Wile, 103-125.
  • 10 Saleh, R. A., Ranga, G. M., Raina, R., Nelson, D. R., og Agarwal, A. (2003). Sexual dysfunction in men undergoing infertility evaluation: A cohort observational study. Fertility and Sterility, 79 (4), 909-912. Sótt 11. 5. 2012.

Myndir:


Þetta svar er unnið í námskeiðinu HJÚ 128F Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa, haustið 2011 í umsjá Sóleyjar S. Bender prófessors.

Höfundur

þátttakandi í námskeiðinu HJÚ 128F Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa

Útgáfudagur

31.5.2012

Spyrjandi

N. N.

Tilvísun

Bára Sigurbjörg Ólafsdóttir. „Hvaða áhrif getur ófrjósemi haft á andlega líðan og tilfinningar hjá báðum kynjum?“ Vísindavefurinn, 31. maí 2012, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62434.

Bára Sigurbjörg Ólafsdóttir. (2012, 31. maí). Hvaða áhrif getur ófrjósemi haft á andlega líðan og tilfinningar hjá báðum kynjum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62434

Bára Sigurbjörg Ólafsdóttir. „Hvaða áhrif getur ófrjósemi haft á andlega líðan og tilfinningar hjá báðum kynjum?“ Vísindavefurinn. 31. maí. 2012. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62434>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif getur ófrjósemi haft á andlega líðan og tilfinningar hjá báðum kynjum?
Þegar talað er um ófrjósemi þá er átt við pör sem hafa stundað kynlíf án getnaðarvarna í að lágmarki eitt ár án þess að konan verði barnshafandi.1 Ófrjósemi er ekki sú aðstaða sem fólk kýs sér2 og er talið að hérlendis eigi um 15% para við þetta vandamál að stríða.3 Orsakir má rekja jafnt til karla og kvenna og eru þær fjölmargar og mismunandi á milli einstaklinga auk þess sem hluti þeirra er óskýranlegur.4

Töluvert hefur verið fjallað um tengsl milli andlegrar líðanar, tilfinninga og ófrjósemi á vettvangi vísindanna. Rannsóknir hérlendis og erlendis hafa sýnt fram á augljós tengsl milli þessara þátta og er þá talið að þessi andlega vanlíðan og tilfinningalegt uppnám séu afleiðingar ófrjóseminnar en ekki öfugt.4,5

Það getur reynt mikið á að fá neikvæða niðurstöðu úr þungunarprófi.

Það þarf að taka margar og stórar ákvarðanir áður en gengist er undir meðferð við ófrjósemi.2 Lífið og lífsvenjur geta tekið verulegum stakkaskiptum og gríðarlegt álag verður á tilfinningalíf einstaklinga og para ásamt því að fjárhagslegt álag eykst,4 því tæknifrjóvgun er langt frá því að vera ókeypis hérlendis. Lífið fer oft að snúast fyrst og fremst um þungun og hugurinn vill festast við spurningar á borð við „Heppnaðist meðferðin?“ „Ætli ég missi fóstrið?“ „Hvað EF?“4

Að bíða í óvissu á meðan á meðferðartíma stendur getur valdið hugarangri, spennu, kvíða og að lokum gríðarlegu áfalli ef þungun verður ekki.5 Margir lýsa þá tilfinningum sínum sem svo að þeir sitji einir eftir með sorgina.5 Samantekt margra rannsókna hefur sýnt fram á að ófrjósemi tengist verulega þunglyndi, kvíða, kynlífsvandamálum, hjónabandserfiðleikum og skertri sjálfsmynd.4 Íslensk rannsókn sýndi fram á að tilfinningalegar sveiflur eru mun algengari hjá fólki í þessum aðstæðum og sérstaklega ef illa gengur og lengra líður á ófrjósemistímabilið.5

Niðurstöður sænskrar rannsóknar leiddu í ljós hærri tíðni kvíða og andlegrar og líkamlegrar streitu ásamt ótta við fósturmissi hjá báðum kynjum sem höfðu gengist undir meðferðir við ófrjósemi, samanborið við þá sem hafa ekki gengist undir slíkar meðferðir.6 Nokkuð er um að rannsóknir gefi til kynna að einkenni þunglyndis séu meiri hjá konum en körlum en sá munur er oftast leiðréttur þegar tekið er inn í mismunandi viðbrögð milli kynja og ýmiss konar aukaverkanir í meðferð við ófrjósemi sem eykur álag bæði á líkamlega og andlega þætti.7 Lyfjagjöf sem konur gangast undir á meðferðartímanum valda aukaverkunum á borð við þunglyndi, þyngdaraukningu, pirring og minni kynlöngun.5 Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að aukin einkenni þunglyndis séu algeng hjá konum sem eiga við ófrjósemi að stríða og virðist ná hámarki á öðru til þriðja ári ófrjóseminnar.4

Algengasta vandamál para í meðferð við ófrjósemi eru samskiptaörðugleikar. Í slíkum aðstæðum myndast oft spenna og tilfinningasveiflur. Hver og einn einstaklingur bregst mismunandi við aðstæðum og álagi sem getur valdið tilfinningalegri fjarlægð og misskilningi í samskiptum.2,5

Ófrjósemi getur valdið mikilli vanlíðan og leitt til þess að parið fjarlægist hvort annað.

Andleg vanlíðan og tilfinningalegt álag hjá konum kemur fram í skapsveiflum, minni kynferðislegri virkni, skertu sjálfsáliti og sjálfsmynd, þunglyndi, reiði, kvíða, félagslegri einangrun og sektarkennd.4,8 Sjálfsásökun er vel þekkt jafnvel þó að ófrjósemin liggi ekki þeirra megin. Konur upplifa oft á tíðum tilfinningalega öfund til jafningja sem eru í barneign þar sem vanmáttarkennd kemur upp við að geta ekki deilt sams konar reynslusögum sem tilheyra meðgöngu og fæðingu.9

Meðal karla er andleg vanlíðan og tilfinningalegt álag á margan hátt svipað og hjá konum þó túlkunin sé önnur. Greint hefur verið frá reiði, skömm, sektarkennd, félagslegri einangrun og lágu sjálfsáliti. Einnig hefur komið fram aukin tíðni þunglyndis, kvíða, kynferðislegrar óánægju og sjálfsásökunar.9 Karlmenn sem eiga við ófrjósemi að stríða hafa aukna tilhneigingu til að telja sig gallaða og gagnslausa samanborið við þá sem ekki eiga við ófrjósemi að stríða. Þetta vill valda því að þeir efist um karlmennsku sína og veldur þeim jafnvel auknum ótta um að missa makann frá sér. Margir hverjir sökkva sér í vinnu eða áhugamál til að forðast það tilfinningalega ójafnvægi sem fylgir ófrjóseminni.4,9 Karlar eru ólíklegri en konur til að ræða um vandann við makann, vini og fjölskyldu sem veldur oft og tíðum misskilningi og samskiptavanda milli parsins ásamt einangrun frá vinum og fjölskyldu.9

Þessi einkenni bæði meðal karla og kvenna má skýra að hluta til með að einstaklingar upplifa sig vanhæfa til þess að eignast afkvæmi og finnist þeir ekki standa undir væntingum samfélagsins, fjölskyldu, vina og jafnvel sjálfs síns og maka um að lifa „venjulegu“ fjölskyldulífi.4,9 Einstaklingar sem glíma við ófrjósemi berjast við þrýsting samfélagsins ofan á eigin væntingar. Þeir þurfa sífellt að svara spurningum um hvers vegna þeir eigi ekki börn og hvort það eigi ekki að fara eignast barn.4

Vegna mismunandi sjónarmiða einstaklinga til ófrjóseminnar, meðferðarinnar við henni og mikilvægi þess að eignast barn getur spenna innan sambanda myndast. Þekkt er að einstaklingar snúi sér annað til þess að ræða vandamálin, fjarlægist hvort annað og fari jafnvel að ásaka hvort annað um stuðnings- og skilningsleysi.4

Ekki er óalgengt að einstaklingar verði mjög uppteknir af kynlífi fyrst eftir að ófrjósemi greinist en þegar til lengri tíma er litið minnkar oft löngunin til kynlífs, ástríðan og nándin situr á hakanum og fólk upplifir kynlífið sem kvöð frekar en ánægju.10 Slíkt andlegt ójafnvægi getur orðið það mikið að einstaklingurinn efist um tilgang hjónabandsins og jafnvel tilgang lífsins í versta falli.9

Í ljósi þess hve viðkvæmt og erfitt það getur verið að glíma við ófrjósemi er mikilvægt fyrir einstaklinga, pör, meðferðaraðila og samfélagið í heild sinni að þekkja ferlið í kringum meðferðir við ófrjósemi og þau vandamál sem geta komið upp í kjölfar þeirra. Með því að auka þekkingu og skilning á málefninu eru meiri líkur á utanaðkomandi stuðningi og skilningi í garð þeirra sem stríða við ófrjósemisvanda.

Tilvísanir

  • 1 World Health Organization. (2001). Who regional strategy on sexual and reproductive health. Copenhagen: World Health Organization.
  • 2 Helga Sól Ólafsdóttir. (2006). Ófrjósemi – Lausnir og lífsgæði. Í Sigrún Júlíusdóttir og Halldór Sig. Guðmundsson (ritstjórar). Heilbrigði og heildarsýn: félagsráðgjöf í heilbrigðisþjónustu. Reykjavík: Háskólaútgáfan og RBF: 141-160, 211-225.
  • 3 ART Medica. Sótt þann 25. október 2011 af vef www.artmedica.is
  • 4 Peterson B.D., Gold. L og Feingol. T. (2007). The experience and influence of infertility: Considerations for couple counselors. The Family Journal, 15 (3), 251-257.
  • 5 Anna Lóa Aradóttir. (2010). Ófrjósemi og úrræði. Upplifun kvenna af ítrekuðum tæknifrjóvgunum á Íslandi. Óbirt BA-ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindadeild.
  • 6 Hjelmstedt A., Widström A., Wramsby H., Matthiesen A. og Collins A. (2003). Personality factors and emotional responses to pregnancy among IVF couples in early pregnancy: a comparative study. Acta Obstetrica et Gynecologica Scandinavica, 82 (2),152-161.
  • 7 Tüzer V., Tuncel A., Göka S., Dogan B. S., Yüksel F. V., Atan A. og Göka E. (2010). Marital adjustment and emotional symptoms in infertile couples: gender difference. Turkish Journal of Medical Sciences, 40 (2), 229-23.
  • 8 Clayton, A. H. (2004). Mental health concerns with infertility. Primary Psychiatry, 11, 17-1.
  • 9 Daniluk, J. C. (1997). Gender and infertility. Í S. R. Leiblum. Infertility: Psychological issues and counseling strategies. New York: John Wile, 103-125.
  • 10 Saleh, R. A., Ranga, G. M., Raina, R., Nelson, D. R., og Agarwal, A. (2003). Sexual dysfunction in men undergoing infertility evaluation: A cohort observational study. Fertility and Sterility, 79 (4), 909-912. Sótt 11. 5. 2012.

Myndir:


Þetta svar er unnið í námskeiðinu HJÚ 128F Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa, haustið 2011 í umsjá Sóleyjar S. Bender prófessors.

...