Sólin Sólin Rís 03:46 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:11 • Síðdegis: 18:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:13 • Síðdegis: 12:17 í Reykjavík

Hvað er vitað um eldgos í Heklu fyrir landnám?

Guðrún Larsen, Guðrún Sverrisdóttir, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson og Páll Einarsson

Fyrir rúmlega 7000 árum hófst saga þeirrar Heklu sem við þekkjum nú. Um elsta þekkta gosið er fjallað sérstaklega í svari við spurningunni Hvenær gaus Hekla fyrst? Gossaga næstu 4000 ár einkenndist af stórum plinískum þeytigosum með löngu millibili. Aðeins er vitað um átta gjóskulög á því tímabili, en líklega eru þau eitthvað fleiri. Tvö þeirra, Hekla-4, um 4300 ára, og Hekla-3, um 3000 ára, eru meðal mestu gjóskulaga sem myndast hafa síðan ísa leysti. Gjóskufall í hvoru gosi var alls 10-12 rúmkílómetrar, þar af 7-8 rúmkílómetrar af nýfallinni gjósku á landi.[1] Hún féll yfir um fjóra fimmtu hluta landsins og barst einnig til meginlands Evrópu.[2] Mesta mælda þykkt er rúmir sex metrar í um átta kílómetra fjarlægð frá háfjallinu.

Eitt stærsta gjóskulagið, Hekla-3 í vikurnámu á Hafinu milli Búrfells og Heklu. Þykktin skiptir metrum.

Mjög fínkorna gjóska neðst í gjóskulaginu Hekla-4 bendir til áhrifa utanaðkomandi vatns á tætingu kvikunnar. Fyrsti hluti þeytigossins gæti því hafa verið freatóplinískur. Í byrjun þessara gosa var kísilhlutfall kvikunnar mjög hátt, 74 og 71%, en lækkaði eftir því sem á gosin leið, og var 57% eða minna í lokin. Litur gjóskunnar breytist með minnkandi kísilmagni úr hvítu í gulbrúnt, grábrúnt og loks svart. Ummerki gjóskuflóða hafa ekki fundist, og því er ólíklegt að stórfelld flóð hafi orðið í þessum gosum. Þá er jafnframt ósennilegt að kvikustreymi hafi farið yfir 300.000 tonn eða 500.000 rúmmetra af gjósku á sekúndu, því að þá skiptir gosið um ham og sendir hluta gosefna frá gosopi sem gjóskuflóð. Sé gert ráð fyrir 100.000 rúmmetrum á sekúndu að meðaltali, gætu þessi miklu gos hafa varað rúman sólarhring. Líklegt er að gosmekkirnir hafi verið yfir 30-35 kílómetrar á hæð þegar gosin voru í hámarki.

Í þriðja mesta gosinu á þessu 4000 ára tímabili, Heklu-S fyrir um 3900 árum, barst hluti gosefna frá Heklu sem eðjuflóð.[3] Minna er vitað um hraun frá þessum tíma vegna yngri hraunaþekju, og því er ekki vitað hvort þau runnu í lok þeytigosanna, en brot úr ísúru og súru bergi í gjóskulaginu Hekla-4 benda til að hraun með þeirri efnasamsetningu hafi komið upp í gosum í megineldstöðinni fyrir meira en 4300 árum.[4] Ljóst er þó að basalteldvirkni hélt áfram á suðvesturhluta Heklukerfisins fram undir það að gjóskulagið Hekla-4 féll fyrir um 4300 árum, en upp úr því færðist basalteldvirknin á sprungurein Vatnafjallakerfisins um tíma.[5]

Þykktarásar 12 gjóskulaga frá Heklugosum sem urðu ~5100-300 f.Kr.

Næstu 2000 árin eftir stórgosið sem myndaði gjóskulagið Heklu-3, allt fram undir norrænt landnám á níundu öld, einkenndust af minni gosum sem hófust með plinísku eða lág-plinísku þeytigosi og skildu eftir sig allstór gjóskulög. Flestum eða öllum gosunum gæti hafa lokið með hraunrennsli líkt og á sögulegum tíma, ef marka má kísilinnihald efst í gjóskulögunum. Gosvirkni Heklu virðist hafa breyst eftir gosið sem myndaði gjóskulagið Heklu-3, og vera má að þá hafi upphleðsla fjallsins hafist fyrir alvöru.[6] Alls eru þekkt um 30 gjóskulög frá þessu tímabili, sem skipta má í þrjú gosskeið, en hlé milli gosa eru mjög mislöng, frá 15 árum upp í 300 ár.[7] Elsta gosskeiðið einkennist af súrri til ísúrri kviku og tvílitum gjóskulögum, ljósleitum að neðan en dökkum ofan til, yfirleitt 0,3-0,7 rúmkílómetrar, reiknuð sem nýfallin gjóska. Níu slík gos urðu á 500 ára tímabili, að meðaltali á 55 ára fresti. Næsta gosskeið einkennist af ísúrri kviku og minni einlitum dökkum gjóskulögum, en það yngsta af basaltkviku og dökkum lögum. Basísku gjóskulögin eiga vafalítið upptök á Heklusprungureininni þar sem virkni hófst á ný bæði suðvestan og norðaustan Heklu. Í einu síðasta gosi fyrir landnám runnu Sölvahraun og Taglgígahraun,[8] og Valagjá hefur að líkindum orðið til í sprengigosi á svipuðum tíma. Basalteldvirkni hélt áfram á Vatnafjallasprungureininni, en Hekla sjálf tók sér nokkurra[9] alda hlé.

Tilvísanir:
 1. ^ Guðrún Larsen og Sigurður Þórarinsson, 1977. H-4 and other acid Hekla tephra layers. Jökull, 27, 28-46. Guðrún Sverrisdóttir, 2007. Hybrid magma generation preceding Plinian silicic eruptions at Hekla, Iceland: Evidence from mineralogy and chemistry of two zoned deposits. Geological Magazine, 144, 643-659.
 2. ^ Persson, C., 1971. Tephrochronolocial investigations of peat deposits in Scandinavia and on the Faroe Islands. Sveriges Geologiska Undersokning Årsbok, 65, 1-34. Dugmore og fleiri, 1995. Seven tephra isochrones in Scotland. The Holocene, 5, 257-266.
 3. ^ Elsa G. Vilmundardóttir og Árni Hjartarson, 1985. Vikurhlaup í Heklugosum. Náttúrufræðingurinn, 54, 17-30. Guðrún Sverrisdóttir og fleiri, 2006. Selsundsvikurinn og hinn forni Heklugígur. Raunvísindaþing, EO5. Háskóli Íslands, Askja 3.-4. mars 2006. Ágrip www.theochem.org/Raunvisindathing06/utdraettir/gsv-is.pdf.
 4. ^ Ingunn M. Þorbergsdóttir, 1999. Úr iðrum Heklu. Kornastærð, bergbort og kornalögun glerfrauðs í gjóskulaginu Hekla-4. B.S.-ritgerð við Háskóla Íslands.
 5. ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979. Petrology of Recent Basalts of the Eastern Volcanic Zone, Iceland. Náttúrfræðistofnun Íslands, Acta Naturalia Islandica, 26, 1-103. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1992. Hekla, fjall með fortíð. Náttúrufræðingurinn, 61, 177-191. Olgeir Sigmarsson og fleiri, 1992. Origin of silicic magma in Iceland revealed by Th isotopes. Geology, 19, 621-624.
 6. ^ Guðrún Larsen og Elsa G. Vilmundardóttir, 1992. Tvílit gjóskulög austan Heklu: H-X, H-Y, H-Z. Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands, Yfirlit og ágrip, 28-30.
 7. ^ Bryndís G. Róbertsdóttir og fleiri, 2002. 30 gos í Heklu og nágrenni á tímabilinu 2980-850 cal. BP. Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 15. apríl 2002. Ágrip erinda og veggspjalda. Jarðfræðafélag Íslands, Reykjavík, 12.
 8. ^ Sigurður Þórarinsson, 1968. Heklueldar. Sögufélag, Reykjavík. Ingibjörg Kaldal og Elsa G. Vilmundardóttir, 1986. Jarðgrunnskort: Búrfell-Langalda 3540 J. Orkustofnun og Landsvirkjun, Reykjavík.
 9. ^ Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1992. Hekla, fjall með fortíð. Náttúrufræðingurinn, 61, 177-191. Olgeir Sigmarsson og fleiri, 1992. Origin of silicic magma in Iceland revealed by Th isotopes. Geology, 19, 621-624.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Það er lítillega aðlagað Vísindavefnum.

Myndir:

Upprunalega spurningin var: Hvað er vitað að Hekla hafi gosið oft og á hvaða árum?

Höfundar

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Guðrún Sverrisdóttir

sérfræðingur við Jarðvísindastofnun HÍ

Haukur Jóhannesson

jarðfræðingur

Árni Hjartarson

jarðfræðingur

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

11.5.2023

Spyrjandi

Viktor Már Sigurðsson

Tilvísun

Guðrún Larsen, Guðrún Sverrisdóttir, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson og Páll Einarsson. „Hvað er vitað um eldgos í Heklu fyrir landnám?“ Vísindavefurinn, 11. maí 2023. Sótt 23. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73767.

Guðrún Larsen, Guðrún Sverrisdóttir, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson og Páll Einarsson. (2023, 11. maí). Hvað er vitað um eldgos í Heklu fyrir landnám? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73767

Guðrún Larsen, Guðrún Sverrisdóttir, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson og Páll Einarsson. „Hvað er vitað um eldgos í Heklu fyrir landnám?“ Vísindavefurinn. 11. maí. 2023. Vefsíða. 23. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73767>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er vitað um eldgos í Heklu fyrir landnám?
Fyrir rúmlega 7000 árum hófst saga þeirrar Heklu sem við þekkjum nú. Um elsta þekkta gosið er fjallað sérstaklega í svari við spurningunni Hvenær gaus Hekla fyrst? Gossaga næstu 4000 ár einkenndist af stórum plinískum þeytigosum með löngu millibili. Aðeins er vitað um átta gjóskulög á því tímabili, en líklega eru þau eitthvað fleiri. Tvö þeirra, Hekla-4, um 4300 ára, og Hekla-3, um 3000 ára, eru meðal mestu gjóskulaga sem myndast hafa síðan ísa leysti. Gjóskufall í hvoru gosi var alls 10-12 rúmkílómetrar, þar af 7-8 rúmkílómetrar af nýfallinni gjósku á landi.[1] Hún féll yfir um fjóra fimmtu hluta landsins og barst einnig til meginlands Evrópu.[2] Mesta mælda þykkt er rúmir sex metrar í um átta kílómetra fjarlægð frá háfjallinu.

Eitt stærsta gjóskulagið, Hekla-3 í vikurnámu á Hafinu milli Búrfells og Heklu. Þykktin skiptir metrum.

Mjög fínkorna gjóska neðst í gjóskulaginu Hekla-4 bendir til áhrifa utanaðkomandi vatns á tætingu kvikunnar. Fyrsti hluti þeytigossins gæti því hafa verið freatóplinískur. Í byrjun þessara gosa var kísilhlutfall kvikunnar mjög hátt, 74 og 71%, en lækkaði eftir því sem á gosin leið, og var 57% eða minna í lokin. Litur gjóskunnar breytist með minnkandi kísilmagni úr hvítu í gulbrúnt, grábrúnt og loks svart. Ummerki gjóskuflóða hafa ekki fundist, og því er ólíklegt að stórfelld flóð hafi orðið í þessum gosum. Þá er jafnframt ósennilegt að kvikustreymi hafi farið yfir 300.000 tonn eða 500.000 rúmmetra af gjósku á sekúndu, því að þá skiptir gosið um ham og sendir hluta gosefna frá gosopi sem gjóskuflóð. Sé gert ráð fyrir 100.000 rúmmetrum á sekúndu að meðaltali, gætu þessi miklu gos hafa varað rúman sólarhring. Líklegt er að gosmekkirnir hafi verið yfir 30-35 kílómetrar á hæð þegar gosin voru í hámarki.

Í þriðja mesta gosinu á þessu 4000 ára tímabili, Heklu-S fyrir um 3900 árum, barst hluti gosefna frá Heklu sem eðjuflóð.[3] Minna er vitað um hraun frá þessum tíma vegna yngri hraunaþekju, og því er ekki vitað hvort þau runnu í lok þeytigosanna, en brot úr ísúru og súru bergi í gjóskulaginu Hekla-4 benda til að hraun með þeirri efnasamsetningu hafi komið upp í gosum í megineldstöðinni fyrir meira en 4300 árum.[4] Ljóst er þó að basalteldvirkni hélt áfram á suðvesturhluta Heklukerfisins fram undir það að gjóskulagið Hekla-4 féll fyrir um 4300 árum, en upp úr því færðist basalteldvirknin á sprungurein Vatnafjallakerfisins um tíma.[5]

Þykktarásar 12 gjóskulaga frá Heklugosum sem urðu ~5100-300 f.Kr.

Næstu 2000 árin eftir stórgosið sem myndaði gjóskulagið Heklu-3, allt fram undir norrænt landnám á níundu öld, einkenndust af minni gosum sem hófust með plinísku eða lág-plinísku þeytigosi og skildu eftir sig allstór gjóskulög. Flestum eða öllum gosunum gæti hafa lokið með hraunrennsli líkt og á sögulegum tíma, ef marka má kísilinnihald efst í gjóskulögunum. Gosvirkni Heklu virðist hafa breyst eftir gosið sem myndaði gjóskulagið Heklu-3, og vera má að þá hafi upphleðsla fjallsins hafist fyrir alvöru.[6] Alls eru þekkt um 30 gjóskulög frá þessu tímabili, sem skipta má í þrjú gosskeið, en hlé milli gosa eru mjög mislöng, frá 15 árum upp í 300 ár.[7] Elsta gosskeiðið einkennist af súrri til ísúrri kviku og tvílitum gjóskulögum, ljósleitum að neðan en dökkum ofan til, yfirleitt 0,3-0,7 rúmkílómetrar, reiknuð sem nýfallin gjóska. Níu slík gos urðu á 500 ára tímabili, að meðaltali á 55 ára fresti. Næsta gosskeið einkennist af ísúrri kviku og minni einlitum dökkum gjóskulögum, en það yngsta af basaltkviku og dökkum lögum. Basísku gjóskulögin eiga vafalítið upptök á Heklusprungureininni þar sem virkni hófst á ný bæði suðvestan og norðaustan Heklu. Í einu síðasta gosi fyrir landnám runnu Sölvahraun og Taglgígahraun,[8] og Valagjá hefur að líkindum orðið til í sprengigosi á svipuðum tíma. Basalteldvirkni hélt áfram á Vatnafjallasprungureininni, en Hekla sjálf tók sér nokkurra[9] alda hlé.

Tilvísanir:
 1. ^ Guðrún Larsen og Sigurður Þórarinsson, 1977. H-4 and other acid Hekla tephra layers. Jökull, 27, 28-46. Guðrún Sverrisdóttir, 2007. Hybrid magma generation preceding Plinian silicic eruptions at Hekla, Iceland: Evidence from mineralogy and chemistry of two zoned deposits. Geological Magazine, 144, 643-659.
 2. ^ Persson, C., 1971. Tephrochronolocial investigations of peat deposits in Scandinavia and on the Faroe Islands. Sveriges Geologiska Undersokning Årsbok, 65, 1-34. Dugmore og fleiri, 1995. Seven tephra isochrones in Scotland. The Holocene, 5, 257-266.
 3. ^ Elsa G. Vilmundardóttir og Árni Hjartarson, 1985. Vikurhlaup í Heklugosum. Náttúrufræðingurinn, 54, 17-30. Guðrún Sverrisdóttir og fleiri, 2006. Selsundsvikurinn og hinn forni Heklugígur. Raunvísindaþing, EO5. Háskóli Íslands, Askja 3.-4. mars 2006. Ágrip www.theochem.org/Raunvisindathing06/utdraettir/gsv-is.pdf.
 4. ^ Ingunn M. Þorbergsdóttir, 1999. Úr iðrum Heklu. Kornastærð, bergbort og kornalögun glerfrauðs í gjóskulaginu Hekla-4. B.S.-ritgerð við Háskóla Íslands.
 5. ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979. Petrology of Recent Basalts of the Eastern Volcanic Zone, Iceland. Náttúrfræðistofnun Íslands, Acta Naturalia Islandica, 26, 1-103. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1992. Hekla, fjall með fortíð. Náttúrufræðingurinn, 61, 177-191. Olgeir Sigmarsson og fleiri, 1992. Origin of silicic magma in Iceland revealed by Th isotopes. Geology, 19, 621-624.
 6. ^ Guðrún Larsen og Elsa G. Vilmundardóttir, 1992. Tvílit gjóskulög austan Heklu: H-X, H-Y, H-Z. Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands, Yfirlit og ágrip, 28-30.
 7. ^ Bryndís G. Róbertsdóttir og fleiri, 2002. 30 gos í Heklu og nágrenni á tímabilinu 2980-850 cal. BP. Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 15. apríl 2002. Ágrip erinda og veggspjalda. Jarðfræðafélag Íslands, Reykjavík, 12.
 8. ^ Sigurður Þórarinsson, 1968. Heklueldar. Sögufélag, Reykjavík. Ingibjörg Kaldal og Elsa G. Vilmundardóttir, 1986. Jarðgrunnskort: Búrfell-Langalda 3540 J. Orkustofnun og Landsvirkjun, Reykjavík.
 9. ^ Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1992. Hekla, fjall með fortíð. Náttúrufræðingurinn, 61, 177-191. Olgeir Sigmarsson og fleiri, 1992. Origin of silicic magma in Iceland revealed by Th isotopes. Geology, 19, 621-624.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Það er lítillega aðlagað Vísindavefnum.

Myndir:

Upprunalega spurningin var: Hvað er vitað að Hekla hafi gosið oft og á hvaða árum?...