Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvers vegna eru sungnar vögguvísur? Er eitthvað vitað um uppruna vögguvísna og hvort þær virki raunverulega við svæfingu?
Vögguvísur hafa verið sungnar frá því í fornöld. Ein elsta vögguvísa sem varðveist hefur er rist á 4000 ára gamla leirtöflu frá Babýlon sem geymd er á British Museum í London. Þar segir: „Litla barn, af hverju ertu að gráta? Þú hefur truflað guð hússins.“ Einnig er til vögguljóð frá Rómaveldi til forna með viðkvæðinu „Lalla lalla lalla aut dormi aut lacte“ (Lúlla lúlla lúlla, farðu að sofa eða drekktu mjólk). Höfundur hennar er sagður vera skáldið Persius sem var uppi á 1. öld. e.Kr.
Tilgangur vögguvísu er að svæfa barn og þess vegna dregur bæði tónlist og texti dám af tilgangi sínum. Vögguvísur eru yfirleitt sungnar hægt, og oft í þrískiptum takti eða 6/8 sem minnir á ruggandi hreyfingu. Talið er að hrynjandi vögguvísna minni barnið líka á hreyfinguna í móðurkviði. Lögin eru oft einföld og tónbilin ómblíð þar sem ungbörn missa athyglina ef mikið er um ómstríð tónbil.
Ein elsta vögguvísa sem varðveist hefur er rist á 4000 ára gamla leirtöflu frá Babýlon.
Oft eru viðkvæði þar sem endurtekin eru stutt orð sem merkja ekki neitt, en eiga að hafa róandi áhrif á barnið, á íslensku er til dæmis sungið „ró ró“, „bí bí“, „dó dó og dumma“, „dillidó“, „lúllubía“. Enska orðið yfir vögguvísu: „lullaby“ er einmitt skylt síðastnefnda orðinu. Í enskum vögguvísum má finna orð eins og „bye bye“ eða „lullay“, í sænskum vögguvísum „vyss vyss“ og „ro ro“, í frönskum vögguvísum „do do“, í ítölskum vögguvísum „ninna nanna“ og svo framvegis.
Gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna fram á svæfandi áhrif vögguvísna og jafnvel góð áhrif þeirra á heilsu barna. Rannsóknir dr. Jeffereys Perlman, læknis í New York, benda til þess að róandi tónlist hafi jákvæð áhrif á svefn og næringu barna sem fæðast fyrir tímann og gagnsemi vögguvísna kemur einnig fram í rannsóknum Jayne M. Standley við Háskóla Florida-fylkis (Florida State University).
Þó að tilgangur vögguvísna sé að svæfa barnið geta þær líka haft annan tilgang. Skoskir fræðimenn hafa sett fram þá kenningu að vögguvísur hafi til forna jafnframt verið töfraþulur til þess að vernda barnið fyrir illum öndum eða álfum. Þeir telja að merkingarlausu orðin þegar barninu er bíað (til dæmis „hwi hwi“ eða „baloo baloo“ í skoskum vögguvísum) hafi upprunalega verið sungin sem töfraorð. Sú kenning heyrist líka stundum að enska orðið „lullaby“ sé komið af hebresku orðunum „Lilith abi“ sem þýðir „Lilith, farðu“, vögguvísan hafi átt að vernda ungbörnin fyrir Lilith sem var fyrsta kona Adams samkvæmt Gyðinglegum trúarritum og talin hættuleg norn. Orðsifjabækur styðja hins vegar ekki þessa kenningu.
Sú kenning heyrist líka stundum að enska orðið „lullaby“ sé komið af hebresku orðunum „Lilith abi“ sem þýðir „Lilith, farðu“, vögguvísan hafi átt að vernda ungbörnin fyrir Lilith sem var fyrsta kona Adams samkvæmt Gyðinglegum trúarritum og talin hættuleg norn. Málverk af Lilith frá 19.öld eftir Dante Gabriel Rossetti.
Vögguvísur eiga líka stundum að kenna barninu góða hegðun og í sumum gömlum vögguvísum er barninu ógnað, gefið í skyn að eitthvað slæmt muni gerast ef það sofni ekki undir eins, jafnvel að einhver óvættur komi og éti það. Uppeldisaðferðir voru harkalegri fyrr á öldum, en tilgangurinn gæti líka verið að skemmta barninu, vekja hjá því svolítinn hroll sem ekki ristir djúpt af því að barnið veit að í rauninni er það öruggt í rúminu sínu.
„Barngælur“ eru nefndar í fornum íslenskum ritum, til dæmis segir frá því í fornaldarsögunni Örvar-Odds sögu (frá 13. öld) að tröllskessa nokkur hafði kappann Odd fyrir barn, lagði hann í vöggu og „kvað“ yfir honum „barngælur“.
Erlendir jólasöngvar miðalda voru oft vögguvísur sem lagðar voru í munn Maríu mey þegar hún vaggaði Jesúbarninu. Við Íslendingar eigum líka jólasöng sem jafnframt er vögguvísa: „Nóttin var sú ágæt ein“ eftir Einar Sigurðsson í Eydölum. Kvæðið birtist í Vísnabók Guðbrands biskups árið 1612 undir heitinu „Kvæðið af stallinum Kristí sem kallast vöggukvæði“ og í viðkvæðinu segir: „Með vísnasöng ég vögguna þína hræri“. Lagið sem nú er notað við ljóðið var hins vegar samið á 20. öld af Sigvalda Kaldalóns.
Vögguvísur fyrri alda höfðu líka oft þann tilgang að kenna börnum guðrækni og góða siði – og að biðja Guð að vernda barnið. Ein elsta íslenska barnagælan sem varðveist hefur með lagi er „Bið eg þig, barn mitt, hlýða“ sem er með nótum í handritinu Melodia frá 17. öld. „Drjúgum skal eg þér dilla,“ segir í kvæðinu, en reyndar má deila um það hvort þetta sé vögguvísa, því barninu er sagt að sofa ekki, heldur hlusta á heilræðin. Í öðru þjóðkvæði „Sof þú, blíðust barnkind mín“ segir „Dreymi þig drottin dýrðarhæstan. Og dillidó“.
Erlendir jólasöngvar miðalda voru oft vögguvísur sem lagðar voru í munn Maríu mey þegar hún vaggaði Jesúbarninu.
Enn eitt gamalt íslenskt vögguljóð er Ljúflingsdilla sem er frá 17. öld eða eldra. Það er lagt í munn huldumanni sem hefur eignast barn með mennskri stúlku. Ljóðið hefst með orðunum „Sofi, sofi sonur minn“ og hefur viðkvæðið: „Sofðu, ég unni þér.“
Þekktasta íslenska vögguvísan er „Bí bí og blaka/ álftirnar kvaka“. Hún er einnig þjóðvísa og til eru mörg íslensk þjóðlög við hana. En lagið sem oftast er sungið við hana er ekki þjóðlag, heldur eftir danska 19. aldar tónskáldið Rudolph Bay. „Sofa urtubörn á útskerjum“ er líka þjóðvísa, en lagið við hana er eftir Jón Laxdal og birtist á prenti í „Barnasöngvum“ 1921.
Vögguvísur hafa líka oft verið samdar sem listaverk, til þess að syngja á tónleikum eða í leikriti frekar en yfir raunverulegu barni. En að sjálfsögðu geta slíkar vögguvísur einnig verið ágætlega nothæfar til þess að svæfa barn. Af erlendum vögguvísum af þessu tagi má nefna tvær með þýska heitinu „Wiegenlied“: „Schlafe, schlafe, holder süsser Knabe“ með lagi eftir Franz Schubert frá 1816 og „Guten Abend, gut´ Nacht“ með lagi eftir Johannes Brahms frá 1868. Hér á landi samdi Sigvaldi Kaldalóns lagið við vögguvísuna „Sofðu sofðu góði“ sem út kom á prenti 1916 og Emil Thoroddsen samdi Vöggukvæði sem hefst á orðunum „Litfríð og ljóshærð“ fyrir leikrit sitt „Piltur og stúlka“ árið 1935.
Vögguljóðið „Sofðu unga ástin mín“ hefur nokkra sérstöðu, lagið er íslenskt þjóðlag, en ljóðið orti Jóhann Sigurjónsson og notaði í leikriti sínu „Fjalla-Eyvindur“ árið 1911. Þar er það útilegukonan Halla sem syngur ljóðið. Á seinni hluta 20. aldar varð vögguvísan „Bíum bíum bambaló“ mjög vinsæl á Íslandi. Lagið er írskt þjóðlag, en ljóðið er eftir Jónas Árnason og enn kemur leikrit við sögu, söngurinn er úr leikriti Jónasar „Þið munið hann Jörund“ frá 1970.
Heimildir:
Una Margrét Jónsdóttir. „Hvaðan koma elstu vögguvísur og er hægt að svæfa börn með þeim?“ Vísindavefurinn, 16. nóvember 2017, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74607.
Una Margrét Jónsdóttir. (2017, 16. nóvember). Hvaðan koma elstu vögguvísur og er hægt að svæfa börn með þeim? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74607
Una Margrét Jónsdóttir. „Hvaðan koma elstu vögguvísur og er hægt að svæfa börn með þeim?“ Vísindavefurinn. 16. nóv. 2017. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74607>.