Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvaða réttindi höfðu konur á Íslandi árið 1918?

Erla Hulda Halldórsdóttir

Árið 1918 nutu konur ekki fulls jafnréttis á við karlmenn þótt mikilvægum áföngum væri náð. Af þeim málum sem kvennahreyfingin barðist hvað harðast fyrir um aldamótin 1900 var réttur til menntunar einu réttindin sem konur höfðu án takmarkana. Lög sem veittu konum sama aðgang að menntun, embættum og námsstyrkjum voru sett 1911.

Kosningaréttur og kjörgengi til Alþingis fékkst árið 1915 en var takmarkaður við 40 ára aldur. Aldurstakmarkið átti að lækka um eitt ár næstu 15 ár þar til almennum kosningaréttaraldri karla, 25 árum, væri náð. Það voru reyndar fleiri atriði sem takmörkuðu kosningarétt fólks því þeir sem voru í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk fengu ekki (eða misstu) kosningaréttinn. Slík takmörkun kom fátæku fólki afar illa, ekki síst konum, helst ekkjum með börn á framfæri, eins og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir hefur rætt í nýlegri grein í tímaritinu Sögu.[1]

Árið 1918 hillti undir lok aldurstakmarksins því með sambandslögunum, sem tóku gildi 1. desember það ár, fylgdi ný stjórnarskrá.

Kvenréttindafrömuðurinn Bríet Bjarnhéðinsdóttir skrifaði í Kvennablaðið snemma árs 1919 að nýtt og fullvalda Ísland gæti ekki „byrjað tilveru sína með því að gera dætrum sínum þá vanvirðu, að ætla að þær hafi ekki andlegan þroska til að nota þessi réttindi við 25 ára aldur eins og karlar“. Hvatti hún konur til þess að „krefjast þess að allur mismunur á aldri karla og kvenna fyrir pólitiskum kosningarrétti og kjörgengi yrði upphafinn“.[2] Þegar ný stjórnarskrá tók gildi 1920 var aldurstakmarkið fellt niður og réttindi kvenna og karla urðu þar með hin sömu.

Eftir harða kosningabaráttu árið 1922 þar sem Ingibjörg H. Bjarnason náði kjöri á Alþingi, fyrst kvenna, fór hún í orlofsferð til Þingvalla. Þegar hún kom aftur í bæinn komu nokkrar konur til móts við hana á Geithálsi, dúkuðu lyngið, reistu ræðupúlt og breiddu fána yfir, borðuðu góðgæti og skáluðu í púrtvíni. Ingibjörg situr framan við púltið með blómvönd í hendi.

Rétt til að kjósa til bæjar- og sveitarstjórna höfðu konur fengið í áföngum. Fyrst árið 1882 þegar fámennur hópur ekkna og annarra ógiftra kvenna sem uppfyllti ákveðin skilyrði fékk kosningarétt til sveitarstjórna en ekki kjörgengi. Það fékkst ekki fyrr en 1902. Með lögum 1907 og 1909 fengu svo allar konur kosningaréttinn með sömu skilyrðum og karlmenn. Flestar fengu einnig kjörgengi en þó ekki vistráðin hjú. Sú mismunun var ekki að öllu leyti afnumin fyrr en árið 1926. Jafnframt var í gildi ákvæði frá 1902 þess efnis að konur mættu skorast undan kosningu. Rök þeirra þingmanna sem ekki vildu skylda konur til að taka kosningu voru þau að konum gætu þótt þær skyldur sem fylgdu kjörgenginu of íþyngjandi.[3] Þessi undanþága var ekki felld úr gildi fyrr en 1926. Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta og þá jafnframt eina konan á Alþingi, talaði fyrir því að undanþágan væri afnumin. Margir þeirra þingmanna sem tóku til máls voru á sama máli en aðrir töldu að leyfa ætti giftum konum að skorast undan kosningu, meðal annars vegna þess hve slæmt það væri fyrir heimilin ef konur þyrftu að sinna hreppsnefndarstörfum úti um allar sveitir, jafnvel í vondum veðrum.[4] Þessi undanþága og tregðan við að fella hana úr gildi segir líklega sitthvað um viðhorf til opinberra starfa kvenna, og þá ekki síst í stjórnmálum, en einnig um afstöðu kvenna sjálfra. Staðreyndin var nefnilega sú, eins og bæði konur þessa tíma og fræðimenn síðari tíma hafa rætt um, að konur höfðu ekki þá þjálfun, og oft ekki það sjálfstraust, sem þurfti til að taka þátt í opinberum málum, þar með talið að nýta kosningarétt sinn.

Mynd af Ingibjörgu H. Bjarnason flytja ræðu 19. júní 1916.

Árið 1918 voru kosningar til bæjar- og sveitastjórna. Í Reykjavík varð talsverð umræða meðal kvenna um nauðsyn þess að koma konu að en reykvískar konur höfðu þegar árið 1908 boðið fram sérstakan kvennalista við bæjarstjórnarkosningarnar og komið öllum fjórum fulltrúum sínum að. Ekki gekk jafn vel í næstu kosningum og árið 1916 náði engin kona kosningu af kvennalista. Engu að síðar sátu áfram í bæjarstjórn tvær konur sem kjörnar höfðu verið af kvennalista í fyrri kosningum, en kosið var um fimm bæjarfulltrúa af 15 á tveggja ára fresti um þessar mundir. Ekki tókst að koma á sérstöku framboði kvenna 1918 en Bandalag kvenna í Reykjavík vann með kosningabandalaginu Sjálfstjórn og tilnefndi Ingu Láru Lárusdóttur kennara og ritstjóra sem sinn fulltrúa. Inga Lára tók 2. sæti á listanum og komst í bæjarstjórn þar sem hún sat til 1922.

Full lagaleg réttindi voru því svo að segja í höfn árið 1918 en meira þurfti til. Hugarfarslega var enn langt í land eins og kvenréttindakonur þessa tíma voru óþreytandi að benda á, svo sem áðurnefnd Inga Lára sem stofnaði og gaf út mánaðarritið 19. júní 1917–1929. Hún þreyttist ekki á að hvetja konur til þess að láta til sín taka á opinberum vettvangi. Og Bríet auðvitað, sem hafði árið 1918 haldið Kvennablaðinu úti í 24 ár. Báðar þessar konur voru meðvitaðar um að lögin ein og sér væru ekki nóg heldur þyrftu konur að glíma við hugarfarslegar hindranir, bæði sínar eigin og annarra. Þetta lýsti sér til dæmis í afar dræmri kosningaþátttöku kvenna í fyrsta skipti sem þær máttu kjósa til Alþingis 1916, eins og lesa má í ræðu sem Bríet hélt á hátíðisdegi kvenna 19. júní 1918 og birti svo í Kvennablaðinu.[5]

Af jafnréttismálum sem brunnu á mörgum konum þetta ár sem önnur, var launamunur karla og kvenna eitt stærsta málið. Um þann mun hafði talsvert verið rætt allt frá síðasta fjórðungi nítjándu aldar og konur jafnvel farið í verkfall, eins og fiskverkakonurnar í Hafnarfirði árið 1912, til þess að bæta kjör sín. En það var ekki bara meðal verkafólks sem launamunurinn var viðvarandi. Þegar svokölluð Starfskrá Íslands kom út árið 1917 gerði Inga Lára Lárusdóttir úttekt á stöðu kvenna hjá hinu opinbera og birti í 19. júní. Þar kemur fram að engin kona væri „í sýslunefnd eða gegnir oddvitastöðu í hreppsnefnd. Í bæjarstjórn Reykjavíkur eiga tvær konur sæti. Í öðrum kaupstöðum eru konur nú eigi í bæjarstjórn.“ (Konur höfðu áður náð kjöri af kvennalistum á Akureyri og Seyðisfirði). Það sem sést svart á hvítu í skránni er að þær konur sem fást við kennslu, talsímastúlkurnar, þær átta stúlkur sem unnu í banka og sparisjóði, skólastjórar barnaskóla, kvennaskólanna, húsmæðraskólanna og svo framvegis voru allar með miklu lægri laun en karlmenn „við sama eða líkan starfa.“ Þess vegna, segir Inga Lára, er það lykilatriði „að fá laun sín bætt þannig, að það verði starfshæfileikinn einn, en eigi kynferðið, sem þar komi til greina“.[6]

Fiskbreiðsla í Hafnarfirði árið 1920.

Í Kvennablaði Bríetar birtust árið 1918 tvær skeleggar greinar um launamun kynjanna. Annars vegar grein um baráttu kvenna í öðrum löndum þar sem enskar konur voru fremstar í flokki, vígreifar nú í lok fyrra stríðs þar sem þær höfðu gengið í störf karla eins og ekkert væri. Þessum skrifum fylgdi Bríet svo eftir með hárbeittri grein um launamun kynjanna á Íslandi þar sem hún gagnrýndi konur harðlega fyrir að hafa of lengi sætt sig við að vera settar skör lægra en karlar, þær tryðu því að þær ættu að vera fórnfúsar og ekki krefjast of mikils. Og karlmennirnir – þeir hugsa fyrst og fremst um að skara eld að eigin köku, dauðhræddir við breytta tíma og þær konur sem nú sóttu út fyrir veggi heimilisins.[7]

Þótt konur væru enn tiltölulega fáar í opinberum störfum og engin kona á Alþingi árið 1918 létu konur til sín taka á ýmsum sviðum mannlífsins. Kvenfélög hverskonar og líknarfélög voru stofnuð víða um land á þessum árum og í gegnum þá starfsemi höfðu konur oft víðtæk áhrif á samfélagið, bæði nærsamfélagið og í stærra samhengi landsmálanna. Konur stóðu á þröskuldi nýrra tíma þar sem enn var nokkuð í land að þær létu eða hefðu tækifæri til þess að láta að fullu reyna á hin nýju réttindi.

Tilvísanir:
 1. ^ Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „„Því miður eruð þér ekki á kjörskrá.“ Samtvinnun sem greiningartæki í sagnfræði“, Saga LV:1 (2017), bls. 74-112.
 2. ^ Kvennablaðið, 30. jan. 1919, bls. 1
 3. ^ Alþingistíðindi 1901 A, d. 509-516.
 4. ^ Alþingistíðindi 1926 B, d. 1156-1230.
 5. ^ Kvennablaðið 30. júní 1915, bls. 41-44.
 6. ^ 19. júní, nóvember 1917, bls. 40.
 7. ^ Kvennablaðið, 30. september og 31. október 1918, bls. 65-66, 74-76.

Myndir:
 • Vera, 12. árgangur 1993, 6. tölublað - Timarit.is. (Sótt 13.03.2018).
 • Myndin af Ingibjörgu H. Bjarnason flytja ræðu birtist í bókinni Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992, Kvenréttindafélag Íslands, Reykjavík 1993.
 • Myndin af fiskbreiðslu er fengin úr bókinni Íslandsdætur. Svipmyndir úr lífi íslenskra kvenna 1850-1950, Örn og Örlygur, Reykjavík 1991. Myndina tók Sæmundur Guðmundsson.

Spurningu Jóhönnu er hér svarað að hluta.

Höfundur

Erla Hulda Halldórsdóttir

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

19.3.2018

Spyrjandi

Jóhanna Stefánsdóttir

Tilvísun

Erla Hulda Halldórsdóttir. „Hvaða réttindi höfðu konur á Íslandi árið 1918?“ Vísindavefurinn, 19. mars 2018. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75249..

Erla Hulda Halldórsdóttir. (2018, 19. mars). Hvaða réttindi höfðu konur á Íslandi árið 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75249.

Erla Hulda Halldórsdóttir. „Hvaða réttindi höfðu konur á Íslandi árið 1918?“ Vísindavefurinn. 19. mar. 2018. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75249.>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða réttindi höfðu konur á Íslandi árið 1918?
Árið 1918 nutu konur ekki fulls jafnréttis á við karlmenn þótt mikilvægum áföngum væri náð. Af þeim málum sem kvennahreyfingin barðist hvað harðast fyrir um aldamótin 1900 var réttur til menntunar einu réttindin sem konur höfðu án takmarkana. Lög sem veittu konum sama aðgang að menntun, embættum og námsstyrkjum voru sett 1911.

Kosningaréttur og kjörgengi til Alþingis fékkst árið 1915 en var takmarkaður við 40 ára aldur. Aldurstakmarkið átti að lækka um eitt ár næstu 15 ár þar til almennum kosningaréttaraldri karla, 25 árum, væri náð. Það voru reyndar fleiri atriði sem takmörkuðu kosningarétt fólks því þeir sem voru í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk fengu ekki (eða misstu) kosningaréttinn. Slík takmörkun kom fátæku fólki afar illa, ekki síst konum, helst ekkjum með börn á framfæri, eins og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir hefur rætt í nýlegri grein í tímaritinu Sögu.[1]

Árið 1918 hillti undir lok aldurstakmarksins því með sambandslögunum, sem tóku gildi 1. desember það ár, fylgdi ný stjórnarskrá.

Kvenréttindafrömuðurinn Bríet Bjarnhéðinsdóttir skrifaði í Kvennablaðið snemma árs 1919 að nýtt og fullvalda Ísland gæti ekki „byrjað tilveru sína með því að gera dætrum sínum þá vanvirðu, að ætla að þær hafi ekki andlegan þroska til að nota þessi réttindi við 25 ára aldur eins og karlar“. Hvatti hún konur til þess að „krefjast þess að allur mismunur á aldri karla og kvenna fyrir pólitiskum kosningarrétti og kjörgengi yrði upphafinn“.[2] Þegar ný stjórnarskrá tók gildi 1920 var aldurstakmarkið fellt niður og réttindi kvenna og karla urðu þar með hin sömu.

Eftir harða kosningabaráttu árið 1922 þar sem Ingibjörg H. Bjarnason náði kjöri á Alþingi, fyrst kvenna, fór hún í orlofsferð til Þingvalla. Þegar hún kom aftur í bæinn komu nokkrar konur til móts við hana á Geithálsi, dúkuðu lyngið, reistu ræðupúlt og breiddu fána yfir, borðuðu góðgæti og skáluðu í púrtvíni. Ingibjörg situr framan við púltið með blómvönd í hendi.

Rétt til að kjósa til bæjar- og sveitarstjórna höfðu konur fengið í áföngum. Fyrst árið 1882 þegar fámennur hópur ekkna og annarra ógiftra kvenna sem uppfyllti ákveðin skilyrði fékk kosningarétt til sveitarstjórna en ekki kjörgengi. Það fékkst ekki fyrr en 1902. Með lögum 1907 og 1909 fengu svo allar konur kosningaréttinn með sömu skilyrðum og karlmenn. Flestar fengu einnig kjörgengi en þó ekki vistráðin hjú. Sú mismunun var ekki að öllu leyti afnumin fyrr en árið 1926. Jafnframt var í gildi ákvæði frá 1902 þess efnis að konur mættu skorast undan kosningu. Rök þeirra þingmanna sem ekki vildu skylda konur til að taka kosningu voru þau að konum gætu þótt þær skyldur sem fylgdu kjörgenginu of íþyngjandi.[3] Þessi undanþága var ekki felld úr gildi fyrr en 1926. Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta og þá jafnframt eina konan á Alþingi, talaði fyrir því að undanþágan væri afnumin. Margir þeirra þingmanna sem tóku til máls voru á sama máli en aðrir töldu að leyfa ætti giftum konum að skorast undan kosningu, meðal annars vegna þess hve slæmt það væri fyrir heimilin ef konur þyrftu að sinna hreppsnefndarstörfum úti um allar sveitir, jafnvel í vondum veðrum.[4] Þessi undanþága og tregðan við að fella hana úr gildi segir líklega sitthvað um viðhorf til opinberra starfa kvenna, og þá ekki síst í stjórnmálum, en einnig um afstöðu kvenna sjálfra. Staðreyndin var nefnilega sú, eins og bæði konur þessa tíma og fræðimenn síðari tíma hafa rætt um, að konur höfðu ekki þá þjálfun, og oft ekki það sjálfstraust, sem þurfti til að taka þátt í opinberum málum, þar með talið að nýta kosningarétt sinn.

Mynd af Ingibjörgu H. Bjarnason flytja ræðu 19. júní 1916.

Árið 1918 voru kosningar til bæjar- og sveitastjórna. Í Reykjavík varð talsverð umræða meðal kvenna um nauðsyn þess að koma konu að en reykvískar konur höfðu þegar árið 1908 boðið fram sérstakan kvennalista við bæjarstjórnarkosningarnar og komið öllum fjórum fulltrúum sínum að. Ekki gekk jafn vel í næstu kosningum og árið 1916 náði engin kona kosningu af kvennalista. Engu að síðar sátu áfram í bæjarstjórn tvær konur sem kjörnar höfðu verið af kvennalista í fyrri kosningum, en kosið var um fimm bæjarfulltrúa af 15 á tveggja ára fresti um þessar mundir. Ekki tókst að koma á sérstöku framboði kvenna 1918 en Bandalag kvenna í Reykjavík vann með kosningabandalaginu Sjálfstjórn og tilnefndi Ingu Láru Lárusdóttur kennara og ritstjóra sem sinn fulltrúa. Inga Lára tók 2. sæti á listanum og komst í bæjarstjórn þar sem hún sat til 1922.

Full lagaleg réttindi voru því svo að segja í höfn árið 1918 en meira þurfti til. Hugarfarslega var enn langt í land eins og kvenréttindakonur þessa tíma voru óþreytandi að benda á, svo sem áðurnefnd Inga Lára sem stofnaði og gaf út mánaðarritið 19. júní 1917–1929. Hún þreyttist ekki á að hvetja konur til þess að láta til sín taka á opinberum vettvangi. Og Bríet auðvitað, sem hafði árið 1918 haldið Kvennablaðinu úti í 24 ár. Báðar þessar konur voru meðvitaðar um að lögin ein og sér væru ekki nóg heldur þyrftu konur að glíma við hugarfarslegar hindranir, bæði sínar eigin og annarra. Þetta lýsti sér til dæmis í afar dræmri kosningaþátttöku kvenna í fyrsta skipti sem þær máttu kjósa til Alþingis 1916, eins og lesa má í ræðu sem Bríet hélt á hátíðisdegi kvenna 19. júní 1918 og birti svo í Kvennablaðinu.[5]

Af jafnréttismálum sem brunnu á mörgum konum þetta ár sem önnur, var launamunur karla og kvenna eitt stærsta málið. Um þann mun hafði talsvert verið rætt allt frá síðasta fjórðungi nítjándu aldar og konur jafnvel farið í verkfall, eins og fiskverkakonurnar í Hafnarfirði árið 1912, til þess að bæta kjör sín. En það var ekki bara meðal verkafólks sem launamunurinn var viðvarandi. Þegar svokölluð Starfskrá Íslands kom út árið 1917 gerði Inga Lára Lárusdóttir úttekt á stöðu kvenna hjá hinu opinbera og birti í 19. júní. Þar kemur fram að engin kona væri „í sýslunefnd eða gegnir oddvitastöðu í hreppsnefnd. Í bæjarstjórn Reykjavíkur eiga tvær konur sæti. Í öðrum kaupstöðum eru konur nú eigi í bæjarstjórn.“ (Konur höfðu áður náð kjöri af kvennalistum á Akureyri og Seyðisfirði). Það sem sést svart á hvítu í skránni er að þær konur sem fást við kennslu, talsímastúlkurnar, þær átta stúlkur sem unnu í banka og sparisjóði, skólastjórar barnaskóla, kvennaskólanna, húsmæðraskólanna og svo framvegis voru allar með miklu lægri laun en karlmenn „við sama eða líkan starfa.“ Þess vegna, segir Inga Lára, er það lykilatriði „að fá laun sín bætt þannig, að það verði starfshæfileikinn einn, en eigi kynferðið, sem þar komi til greina“.[6]

Fiskbreiðsla í Hafnarfirði árið 1920.

Í Kvennablaði Bríetar birtust árið 1918 tvær skeleggar greinar um launamun kynjanna. Annars vegar grein um baráttu kvenna í öðrum löndum þar sem enskar konur voru fremstar í flokki, vígreifar nú í lok fyrra stríðs þar sem þær höfðu gengið í störf karla eins og ekkert væri. Þessum skrifum fylgdi Bríet svo eftir með hárbeittri grein um launamun kynjanna á Íslandi þar sem hún gagnrýndi konur harðlega fyrir að hafa of lengi sætt sig við að vera settar skör lægra en karlar, þær tryðu því að þær ættu að vera fórnfúsar og ekki krefjast of mikils. Og karlmennirnir – þeir hugsa fyrst og fremst um að skara eld að eigin köku, dauðhræddir við breytta tíma og þær konur sem nú sóttu út fyrir veggi heimilisins.[7]

Þótt konur væru enn tiltölulega fáar í opinberum störfum og engin kona á Alþingi árið 1918 létu konur til sín taka á ýmsum sviðum mannlífsins. Kvenfélög hverskonar og líknarfélög voru stofnuð víða um land á þessum árum og í gegnum þá starfsemi höfðu konur oft víðtæk áhrif á samfélagið, bæði nærsamfélagið og í stærra samhengi landsmálanna. Konur stóðu á þröskuldi nýrra tíma þar sem enn var nokkuð í land að þær létu eða hefðu tækifæri til þess að láta að fullu reyna á hin nýju réttindi.

Tilvísanir:
 1. ^ Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „„Því miður eruð þér ekki á kjörskrá.“ Samtvinnun sem greiningartæki í sagnfræði“, Saga LV:1 (2017), bls. 74-112.
 2. ^ Kvennablaðið, 30. jan. 1919, bls. 1
 3. ^ Alþingistíðindi 1901 A, d. 509-516.
 4. ^ Alþingistíðindi 1926 B, d. 1156-1230.
 5. ^ Kvennablaðið 30. júní 1915, bls. 41-44.
 6. ^ 19. júní, nóvember 1917, bls. 40.
 7. ^ Kvennablaðið, 30. september og 31. október 1918, bls. 65-66, 74-76.

Myndir:
 • Vera, 12. árgangur 1993, 6. tölublað - Timarit.is. (Sótt 13.03.2018).
 • Myndin af Ingibjörgu H. Bjarnason flytja ræðu birtist í bókinni Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992, Kvenréttindafélag Íslands, Reykjavík 1993.
 • Myndin af fiskbreiðslu er fengin úr bókinni Íslandsdætur. Svipmyndir úr lífi íslenskra kvenna 1850-1950, Örn og Örlygur, Reykjavík 1991. Myndina tók Sæmundur Guðmundsson.

Spurningu Jóhönnu er hér svarað að hluta.

...