Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvernig litu landnámsmenn út?

Sigríður Sunna Ebenesersdóttir

Í heild hljóðaði spurningin svona:

Hvernig litu landnámsmenn út? Spurt er m.a. vegna þess að nú hafa verið látin boð út ganga í Bretlandi um að fyrsti landnámsmaðurinn (eða a.m.k. sá sem skildi eftir elstu líkamsleifarnar sem fundist hafa, í Cheddar Gorge) hafi verið með dökka húð og blá augu. Þær fréttir hafa skekið sjálfsmynd sumra náfölra Breta. Það væri áhugavert fyrir dygga lesendur Vísindavefsins að fá greiningu á íslensku landnámsmönnunum í ljósi þessa. Vitum við bara að þeir voru litlir og lúsugir og að mestu frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum? Svör við þessum spurningum gætu auðvitað kallað á endurskoðun á hinum ýmsu styttum en ég vona að hinir hugdjörfu, sumir segja fífldjörfu, stjórnendur Vísindavefsins láti það ekki aftra sér í leit sinni að sannleikanum.

Erfðarannsóknir styðja sögulegar heimildir þess efnis að Ísland hafi verið numið af einstaklingum frá Bretlandseyjum og Skandinavíu fyrir um 1100 árum. Einfaldasta svarið við spurningunni um útlit landnámsmanna er að þeir hljóta að hafa haft mjög svipað útlit og núlifandi afkomendur þeirra á Íslandi og einstaklingar frá upprunalöndum þeirra í Skandinavíu og Bretlandseyjum. Þetta er vegna þess að 1100 ár er mjög stuttur tími á þróunarfræðilegum mælikvarða og afar ólíklegt að hann nægi til þess að náttúruval eða aðrir þróunarkraftar hafi breytt útliti fólks á Íslandi. Þess utan hafa umhverfisskilyrði á Íslandi, Skandinavíu og Bretlandseyjum verið mjög svipuð frá landnámsöld.

Miðað við þessar forsendur má gera ráð fyrir að meirihluti landnema á Íslandi hafi verið ljósir á hörund. Blá eða gráleit augu hafa trúlega verið algeng en í dag eru um 75% Íslendinga með þann augnlit. Grænn augnlitur er einnig nokkuð algengur eða um 14%. Jafnframt hefur rauður hárlitur, sem í dag prýðir um 7% Íslendinga, líklega verið í hærri tíðni meðal landnámsmanna en tíðkast hefur víðast í Vestur-Evrópu (Patrick Sulem og félagar, 2007).

Myndskreyting sænska málarans Mårten Eskil Winge (1825-1896) frá 1866 við íslensku fornaldarsöguna Hervarar sögu og Heiðreks konungs. Myndin sýnir hugmyndir 19. aldar manna um útlit fornaldarkappa. Á myndinni sjást Hjálmar hinn hugumstóri og Örvar-Oddur

Útlitseiginleikar eins og húðlitur, hárlitur og hæð eru að miklu leyti erfðafræðilega ákvarðaðir en umhverfið hefur einnig áhrif. Hvað hæð varðar er líklegt að landnámsmenn hafi að meðaltali verið lágvaxnari en núlifandi Íslendingar sökum þess að fæða hefur verið fábreyttari og byrði smitsjúkdóma meiri, sem hefur haft áhrif á vöxt og þroska einstaklinga (sjá Jón Steffensen, 1958 og 1975).

Margir útlitseiginleikar mannsins eru taldir hafa komið til vegna náttúruvals og aðlögunar að því umhverfi sem hann lifir í yfir lengri tíma. Ef einstaklingur ber erfðafræðilega ákvarðaðan eiginleika sem aðgreinir hann frá öðrum og er honum til góða þannig að hann eignast fleiri afkvæmi en meðaleinstaklingur, þá mun sá eiginleiki aukast í tíðni með tímanum innan hópsins. Húðlitur er gott dæmi um eiginleika sem hefur mótast af völdum náttúruvals. Hörundsdökkur maður hefur meira af brúna litarefninu melaníni í húðfrumum en aðrir. Melanín húðarinnar verndar einstakling fyrir geislun sólar, sem eru skaðlegir í miklum mæli en eru nauðsynlegir til að örva myndun á D-vítamíni. Talið er að náttúruval fyrir fölari húðlit tengist aukinni getu eintaklings til þess nýta sér takmarkaða geislun sólar fjær miðbaug til framleiðslu á D-vítamíni. Nánar má lesa um þetta efni í svari Agnars Helgasonar við spurningunni Hvenær varð hvíti maðurinn til? og í svari Einars Árnasonar við spurningunni Af hverju eru sumir menn svartir en aðrir hvítir?

Þar sem spyrjandinn nefnir sérstaklega erfðarannsókn sem gefur til kynna að hinn svokallaði Cheddar-maður hafi verið með dökkan húðlit og blá augu þá ber að hafa í huga að hann var uppi fyrir um það bil tíu þúsund árum (sjá Selena Brace og félagar, 2018). Næstu árþúsund einkenndust af miklum sviptingum í búferlaflutningum innan Evrópu með tilheyrandi genaflæði og genaflökti auk þess sem nægur tími hefur gefist fyrir náttúruval á vissum svipgerðum, þar á meðal útlitseiginleikum líkt og húðlit. Því er ljóst að erfðasamsetning einstaklinga á Bretlandseyjum á tímum landnáms Íslands hefur verið nokkuð frábrugðin því sem hún var á tímum Cheddar-mannsins.

Cheddar-maðurinn var uppi fyrir um tíu þúsund árum. Erfðarannsóknir benda til þess að hann hafi haft dökkan húðlit og blá augu.

Húðlitur er mjög fjölbreytilegur útlitseiginleiki meðal mannkyns, það er að segja að það er ekki einungis til ein gerð af dökkri og ljósri húð heldur er um að ræða samfelldan litakvarða sem er ákvarðaður af nokkur hundruð erfðabreytum. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvenær fölur húðlitur kom fyrst fram en yfirgnæfandi líkur eru á því að margar stökkbreytingar sem valda ljósu litarhafti hafi verið í hárri tíðni á meðal hópa á norðurhveli jarðar fyrir um 1100 árum síðan. Hvað varðar bláan auglit þá benda erfðarannsóknir (meðal annars á Cheddar-manninum) til þess að stökkbreytingin sem veldur honum hafi komið fram fyrir að minnsta kosti tíu þúsund árum. Hins vegar er ekki vitað hvers vegna hún jókst og hélst í hárri tíðni innan Evrópu, þá sérstaklega Norður-Evrópu - þar sem tíðnin er um 70%. Í framtíðinni er líklegt að erfðarannsóknir muni veita nokkuð áreiðanlegar upplýsingar um útlit manna og kvenna á landnámstíma.

Heimildir:
  • Brace, S. et al. Population Replacement in Early Neolithic Britain. bioRxiv (2018).
  • Steffensen, J. „Líkamsvöxtur og lífsafkoma Íslendinga.“ Saga, 2(3), 280-308 (1958).
  • Steffensen, J. Menning og meinsemdir: Ritgerðasafn um mótunarsögu íslenskrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. (Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1975).
  • Sulem, P. et al. „Genetic determinants of hair, eye and skin pigmentation in Europeans.“ Nat Genet 39, 1443-52 (2007).

Myndir:

Höfundur

Sigríður Sunna Ebenesersdóttir

líffræðilegur mannfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu

Útgáfudagur

2.5.2018

Spyrjandi

Gylfi Magnússon

Tilvísun

Sigríður Sunna Ebenesersdóttir. „Hvernig litu landnámsmenn út?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2018. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75257.

Sigríður Sunna Ebenesersdóttir. (2018, 2. maí). Hvernig litu landnámsmenn út? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75257

Sigríður Sunna Ebenesersdóttir. „Hvernig litu landnámsmenn út?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2018. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75257>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig litu landnámsmenn út?
Í heild hljóðaði spurningin svona:

Hvernig litu landnámsmenn út? Spurt er m.a. vegna þess að nú hafa verið látin boð út ganga í Bretlandi um að fyrsti landnámsmaðurinn (eða a.m.k. sá sem skildi eftir elstu líkamsleifarnar sem fundist hafa, í Cheddar Gorge) hafi verið með dökka húð og blá augu. Þær fréttir hafa skekið sjálfsmynd sumra náfölra Breta. Það væri áhugavert fyrir dygga lesendur Vísindavefsins að fá greiningu á íslensku landnámsmönnunum í ljósi þessa. Vitum við bara að þeir voru litlir og lúsugir og að mestu frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum? Svör við þessum spurningum gætu auðvitað kallað á endurskoðun á hinum ýmsu styttum en ég vona að hinir hugdjörfu, sumir segja fífldjörfu, stjórnendur Vísindavefsins láti það ekki aftra sér í leit sinni að sannleikanum.

Erfðarannsóknir styðja sögulegar heimildir þess efnis að Ísland hafi verið numið af einstaklingum frá Bretlandseyjum og Skandinavíu fyrir um 1100 árum. Einfaldasta svarið við spurningunni um útlit landnámsmanna er að þeir hljóta að hafa haft mjög svipað útlit og núlifandi afkomendur þeirra á Íslandi og einstaklingar frá upprunalöndum þeirra í Skandinavíu og Bretlandseyjum. Þetta er vegna þess að 1100 ár er mjög stuttur tími á þróunarfræðilegum mælikvarða og afar ólíklegt að hann nægi til þess að náttúruval eða aðrir þróunarkraftar hafi breytt útliti fólks á Íslandi. Þess utan hafa umhverfisskilyrði á Íslandi, Skandinavíu og Bretlandseyjum verið mjög svipuð frá landnámsöld.

Miðað við þessar forsendur má gera ráð fyrir að meirihluti landnema á Íslandi hafi verið ljósir á hörund. Blá eða gráleit augu hafa trúlega verið algeng en í dag eru um 75% Íslendinga með þann augnlit. Grænn augnlitur er einnig nokkuð algengur eða um 14%. Jafnframt hefur rauður hárlitur, sem í dag prýðir um 7% Íslendinga, líklega verið í hærri tíðni meðal landnámsmanna en tíðkast hefur víðast í Vestur-Evrópu (Patrick Sulem og félagar, 2007).

Myndskreyting sænska málarans Mårten Eskil Winge (1825-1896) frá 1866 við íslensku fornaldarsöguna Hervarar sögu og Heiðreks konungs. Myndin sýnir hugmyndir 19. aldar manna um útlit fornaldarkappa. Á myndinni sjást Hjálmar hinn hugumstóri og Örvar-Oddur

Útlitseiginleikar eins og húðlitur, hárlitur og hæð eru að miklu leyti erfðafræðilega ákvarðaðir en umhverfið hefur einnig áhrif. Hvað hæð varðar er líklegt að landnámsmenn hafi að meðaltali verið lágvaxnari en núlifandi Íslendingar sökum þess að fæða hefur verið fábreyttari og byrði smitsjúkdóma meiri, sem hefur haft áhrif á vöxt og þroska einstaklinga (sjá Jón Steffensen, 1958 og 1975).

Margir útlitseiginleikar mannsins eru taldir hafa komið til vegna náttúruvals og aðlögunar að því umhverfi sem hann lifir í yfir lengri tíma. Ef einstaklingur ber erfðafræðilega ákvarðaðan eiginleika sem aðgreinir hann frá öðrum og er honum til góða þannig að hann eignast fleiri afkvæmi en meðaleinstaklingur, þá mun sá eiginleiki aukast í tíðni með tímanum innan hópsins. Húðlitur er gott dæmi um eiginleika sem hefur mótast af völdum náttúruvals. Hörundsdökkur maður hefur meira af brúna litarefninu melaníni í húðfrumum en aðrir. Melanín húðarinnar verndar einstakling fyrir geislun sólar, sem eru skaðlegir í miklum mæli en eru nauðsynlegir til að örva myndun á D-vítamíni. Talið er að náttúruval fyrir fölari húðlit tengist aukinni getu eintaklings til þess nýta sér takmarkaða geislun sólar fjær miðbaug til framleiðslu á D-vítamíni. Nánar má lesa um þetta efni í svari Agnars Helgasonar við spurningunni Hvenær varð hvíti maðurinn til? og í svari Einars Árnasonar við spurningunni Af hverju eru sumir menn svartir en aðrir hvítir?

Þar sem spyrjandinn nefnir sérstaklega erfðarannsókn sem gefur til kynna að hinn svokallaði Cheddar-maður hafi verið með dökkan húðlit og blá augu þá ber að hafa í huga að hann var uppi fyrir um það bil tíu þúsund árum (sjá Selena Brace og félagar, 2018). Næstu árþúsund einkenndust af miklum sviptingum í búferlaflutningum innan Evrópu með tilheyrandi genaflæði og genaflökti auk þess sem nægur tími hefur gefist fyrir náttúruval á vissum svipgerðum, þar á meðal útlitseiginleikum líkt og húðlit. Því er ljóst að erfðasamsetning einstaklinga á Bretlandseyjum á tímum landnáms Íslands hefur verið nokkuð frábrugðin því sem hún var á tímum Cheddar-mannsins.

Cheddar-maðurinn var uppi fyrir um tíu þúsund árum. Erfðarannsóknir benda til þess að hann hafi haft dökkan húðlit og blá augu.

Húðlitur er mjög fjölbreytilegur útlitseiginleiki meðal mannkyns, það er að segja að það er ekki einungis til ein gerð af dökkri og ljósri húð heldur er um að ræða samfelldan litakvarða sem er ákvarðaður af nokkur hundruð erfðabreytum. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvenær fölur húðlitur kom fyrst fram en yfirgnæfandi líkur eru á því að margar stökkbreytingar sem valda ljósu litarhafti hafi verið í hárri tíðni á meðal hópa á norðurhveli jarðar fyrir um 1100 árum síðan. Hvað varðar bláan auglit þá benda erfðarannsóknir (meðal annars á Cheddar-manninum) til þess að stökkbreytingin sem veldur honum hafi komið fram fyrir að minnsta kosti tíu þúsund árum. Hins vegar er ekki vitað hvers vegna hún jókst og hélst í hárri tíðni innan Evrópu, þá sérstaklega Norður-Evrópu - þar sem tíðnin er um 70%. Í framtíðinni er líklegt að erfðarannsóknir muni veita nokkuð áreiðanlegar upplýsingar um útlit manna og kvenna á landnámstíma.

Heimildir:
  • Brace, S. et al. Population Replacement in Early Neolithic Britain. bioRxiv (2018).
  • Steffensen, J. „Líkamsvöxtur og lífsafkoma Íslendinga.“ Saga, 2(3), 280-308 (1958).
  • Steffensen, J. Menning og meinsemdir: Ritgerðasafn um mótunarsögu íslenskrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. (Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1975).
  • Sulem, P. et al. „Genetic determinants of hair, eye and skin pigmentation in Europeans.“ Nat Genet 39, 1443-52 (2007).

Myndir:

...