Sólin Sólin Rís 09:58 • sest 16:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:22 • Sest 09:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:27 • Síðdegis: 17:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:45 • Síðdegis: 23:59 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:58 • sest 16:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:22 • Sest 09:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:27 • Síðdegis: 17:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:45 • Síðdegis: 23:59 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er launamunur kynjanna reiknaður út?

Þórólfur Matthíasson

Öll spurningin hljóðaði svona:
Hvernig nákvæmlega er launamunur kynjanna reiknaður út hér heima?

Hægt er að reikna launamun launþegahópa með margvíslegum hætti. Alltaf er þó um hlutfall tveggja meðaltala að ræða. Talað er um launamun kynjanna ef laun tiltekins hóps kvenna eru notuð sem efniviður í útreikning annars meðaltalsins og laun karla eru notuð sem efniviður hins meðaltalsins. Nota má ólíkar aðferðir bæði við að velja karla og konur í hópana og við að reikna meðaltölin. Ef meðallaun karla í tilteknum hópi eru fundin sem stærðin ${\overline{Y}}_{m}$ og meðallaun kvenna í sama hópi fundin sem stærðin ${\overline{Y}}_{k}$ er launamunurinn reiknaður samkvæmt formúlunni[1]:


$$\frac{{\overline{Y}}_{m} - {\overline{Y}}_{k}}{{\overline{Y}}_{m}}$$

Séu meðallaun karla 100.000 krónur og meðallaun kvenna 90.000 krónur þýðir þetta að launamunur kynjanna reiknast:


$$\frac{100.000 - 90.000}{100.000} = \frac{10.000}{100.000} = 0,1 = 10\%$$

Hóparnir geta samanstaðið af öllum körlum/konum sem skila skattskýrslu, af öllum körlum/konum sem eru 20-25 ára og skila skattskýrslu, af öllum körlum/konum í tilteknu stéttarfélagi sem svara launakönnun, af öllum körlum/konum með ákveðið starfsheiti í ákveðnu stéttarfélagi sem svara launakönnun eða öllum körlum/konum sem starfa hjá ákveðnum vinnuveitanda á ákveðnum tímabili. Launamunur kynjanna mælist alls ekki sá sami innan allra hópa og er einnig mjög háður því hvernig laun eru skilgreind, en það má gera með margvíslegum hætti; sem tímalaun eða sem laun á mánuði og með eða án bónusgreiðslna eða annarra álagsgreiðslna. Þá er oft reynt að taka tillit til stöðuhlutfalls þannig að mánaðarlaun hlutavinnufólks séu reiknuð upp til 100% starfshlutfalls.

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skrifar undir framkvæmdarráðstafanir til þess að styrkja beitingu jafnlaunalaga fyrir konur.

Ef um metnaðarfulla könnun á launamun kynjanna er að ræða er gjarnan gerð tilraun til að leiðrétta launamun sem orsakast af þekktum áhrifavöldum launasetningar á borð við starfsaldur, ábyrgð í starfi, mannaforráð, menntun, hjúskaparstöðu, barnafjölda á heimili og aldur barna. Í allra metnaðarfyllstu könnunum er tekið tillit til þess að áhrifavaldarnir starfsaldur, ábyrgð og svo framvegis geta haft ólík áhrif á laun karla annars vegar og kvenna hins vegar. Þegar leiðréttingar hafa verið framkvæmdar stendur eftir óleiðréttur launamunur. Inntak þess hugtaks er nokkuð á reiki eins og vikið verður að síðar.

Í tímans rás hafa allmargir aðilar, stéttarfélög, sveitarfélög og áhugahópar reiknað eða látið reikna launamun kynjanna á ákveðnum starfsvettvangi. Niðurstöður hafa gjarnan sýnt mikinn launamun konum í óhag. Slíkar niðurstöður hafa ítrekað komið inn á borð samninganefnda aðila vinnumarkaðarins bæði á opinberum og almennum markaði. Þannig hafa stéttarfélög gjarnan gert launakönnun meðal félagsmanna sinna og notað þessar launakannanir sem efnivið í útreikning á launamun kynjanna.[2][3][4] Niðurstöður hafa verið umdeildar vegna aðferðafræðilegra annmarka á slíkum könnunum. Sveitarfélög og stöku fyrirtæki hafa einnig fengið utanaðkomandi aðila til að reikna út launamun kynjanna út frá gögnum úr launabókhaldi.[5]

Vegna þess hversu ólíkar niðurstöður koma út úr útreikningum ólíkra aðila hefur aðgerðarhópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins tekið sér fyrir hendur að samræma rannsóknir á kynbundnum launamun á Íslandi. Aðgerðarhópurinn hefur leitað til Hagstofu Íslands sem í framhaldinu hefur sett fram ítarlega greinargerð um launamun kynjanna á Íslandi. Nýjasta skýrslan er frá 7. mars 2018. Á bls. 3 í þeirri skýrslu kemur fram að munur á óleiðréttum atvinnutekjum karla og kvenna árið 2016 hafi verið 28% konum í óhag. Sé litið til einstakra aldurshópa kemur í ljós að munur atvinnutekna karla og kvenna er helmingi minni fyrir aldurshópinn 16-24 ára eða 15%. Sé litið til launamunar á greidda vinnustund breytist landslagið talsvert. Þá kemur í ljós að svokallaður óleiðréttur launamunur á vinnustund er 16% árið 2016.

Rétt er að undirstrika að óleiðréttur launamunur (e. unadjusted wage differential) er ekki það sama og svokallaður „óskýrður launamunur“. Til að finna óskýrðan launamun þarf að fara út í talsvert flókna útreikninga. Eftirfarandi tilgátur eru settar fram um launamyndun hjá hvoru kyni fyrir sig:

\[Y_{m} = X_{m}B_{m} + u_{m}\ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ (1)\]

\[Y_{k} = X_{k}B_{k} + u_{k}\ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ (2)\]

Hér er Ym lógaritmagildið af tímalaunum karla, Xmer vigur-skýribreyta á borð við aldur, menntun, reynslu og fleiri, Bm er vigur (e. vector) sem lýsir því hvernig skýribreyturnar (aldur, menntun og svo framvegis) skila sér sem tímalaun og uk er slembiliður. Seinni jafnan þar sem breytur eru merktar með niðurdregnu k-i er tilgáta um launamyndun kvenna í gagnasafninu. Stuðlarnir Bm og Bk eru metnir með hefðbundinni (eða „óhefðbundinni“) aðhvarfsgreiningu. Segjum að samkvæmt niðurstöðu aðhvarfsgreiningarinnar fáist gildin bm og bk sem besta ágiskun (mat) á vigrum launamyndunarinnar Bm og Bk. Skrifum meðaltalsvigrana fyrir skýribreyturnar sem skýra launamyndun karla og kvenna sem ${\overline{X}}_{m}$ og ${\overline{X}}_{k}$. Hafi aðhvarfsgreiningin verið rétt framkvæmd gildir nú að:


$$\sum_{}^{}{u_{k} = \sum_{}^{}{u_{m} = 0\ \ \ \ \ \ \ \ \ (3)}}$$

Þá má rita muninn á meðallaunum karla og meðallaunum kvenna með eftirfarandi hætti:


$${\overline{Y}}_{m} - {\overline{Y}}_{k} = b_{m}\left( {\overline{X}}_{m} - {\overline{X}}_{k} \right) + {\overline{X}}_{k}\left( {\overline{b}}_{m} - {\overline{b}}_{k} \right)\ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ (4)$$

Hefðbundin túlkun jöfnu (4) er að á vinstri hlið jöfnunnar sé óleiðréttur launamunur, að fyrri liðurinn hægra megin við jafnaðarmerkið sýni hversu stóran hluta launamunar karla og kvenna megi skýra með ólíkri samsetningu þessara tveggja launþegahópa með tilliti til aldurs, starfsreynslu, menntunar, hjúskaparstöðu og svo framvegis. Jafnan er vísað til seinni liðarins sem óskýrðs launamunar. Sá launamunur er tilkominn vegna þess að hinir ýmsu áhrifaþættir hafa önnur áhrif á launamyndun kvenna en launamyndun karla. Þannig skýra þættir sem tengjast reynslu á vinnumarkaði um 15% af launamuninum milli karla og kvenna í Bandaríkjum Norður-Ameríku árið 2010.[6] Hagstofa Íslands telur að „málefnalegar“ skýribreytur skýri yfir 60% af mældum launamun milli kynjanna á Íslandi. Óskýrður launamunur hafi þannig aðeins verið um 4,5% árið 2016. Seinni liðurinn á hægri hlið jöfnu (4) sýnir áhrif þess á launamun kynjanna að „verðlagning“ ólíkra áhrifaþátta getur verið önnur fyrir karla en konur. Þannig benda hagfræðingarnir Blau og Kahn á að konur í stjórnunarstöðum vinni gjarnan innan skóla- og heilbrigðiskerfis þar sem stjórnun er lakar metin til launa en í fjármálageiranum þar sem sjaldgæfara er að konur séu í stjórnunarstöðum.[7]

Erfitt hefur reynst að finna óskýrðan launamun á milli kynja þar sem flóknar formúlur þarf til.

Eins og rakið er í skýrslu Hagstofunnar má fara fleiri en eina leið að leiðréttingu launamunar. Það gefur því auga leið að hluti af þeim launamun sem fram kemur kann að helgast af því að rannsakendur hafi ekki ratað á „réttu“ aðferðina við að leiðrétta launamuninn. Mikilvægar skýribreytur kunna að hafa orðið útundan. Þannig má benda á að hagfræðingar telja margir að hætta á áföllum (slysi, örkumlum eða dauða) hafi áhrif á laun þeirra sem búa við meiri áhættu í starfi en aðrir. Hægt væri að taka tillit til slíkra þátta með því að bæta þessum upplýsingum við gagnasafn Hagstofunnar. Það hefur ekki verið gert, líklega vegna kostnaðar og þess að áhætta starfa er illa skilgreind í mjög mörgum tilfellum.

Sé tilgáta hagfræðinga um áhrif áhættu á laun rétt má leiða að því rök að óútskýrður launamunur kynjanna myndi breytast ef tekið væri tillit til þess þáttar. Þetta dæmi sýnir að óútskýrður launamunur kynjanna er stærð sem er samsett úr mörgum þáttum, til dæmis þáttum sem ekki eru mældir eða eru ekki mælanlegir með þolanlegri nákvæmni og þáttum sem snúa að því hvernig líkan er notað til að leiðrétta áhrif áhrifavalda á borð við aldur og reynslu. Aðrir þættir á borð við ólöglegt undanskot tekna og skattasniðgöngu kunna einnig að hafa áhrif á mældan launamun kynjanna. Allt ber þetta að þeim brunni að ekki er auðsætt að túlka beri mældan óleiðréttan launamun sem staðfestingu mismununar í launasetningu á grundvelli kyns. Mældur launamunur kann að orsakast af slíkri mismunun, en hann kann einnig að orsakast af gagnagöllum eða gallaðri útfærslu við útreikning þeirra meðaltalna sem borin eru saman. Það ber því að fara afar varlega í að nota mældan óútskýrðan launamun kynjanna sem mælikvarða á launamisrétti.

Hagfræðingar og aðrir þeir sem rannsaka þjóðfélagslegar breytingar hafa fjallað talsvert um tekjuskiptingu og eignaskiptingu á síðustu misserum. Franski hagfræðingurinn Tomas Picketty skrifaði metsölubók um efnið.[8] Hægt er að mæla tekjuskiptingu og breytingu hennar með mörgum mælikvörðum. Grófustu mælikvarðarnir byggja á því að skoða hversu stór hluti tekna tiltekins hóps fellur í hlut tekjuhæsta prómillsins, tekjuhæsta prósentsins, tekjuhæstu 5 prósentanna og svo framvegis. Einnig er hægt að skoða hlutfall tekna einstaklingsins sem er svo vel/illa settur að 90% séu tekjuminni en hann annars vegar og þess sem er svo vel/illa settur að 10% séu tekjuminni en hann. Einnig er hægt að beita mælikvörðum á borð við Gini-stuðul. Allgóð sátt er um aðferðafræði bæði hvað varðar gögn og reikniformúlur. Fræðimenn greinir hins vegar á um túlkanir á þeim niðurstöðum sem þeir sjá.

Tekjuskipting er nefnd til sögunnar til að vekja athygli á því að launamunur er mun þrengra hugtak en tekjudreifing. Í fyrsta lagi er launamunur jafnan samanburður tveggja meðaltalna af einhverju tagi (til dæmis á meðallaunum karla annars vegar og kvenna hins vegar, leiðréttum eða óleiðréttum, samanber umræðu hér á undan). Ekki er tekið tillit til þess að að á bak við annað meðaltalið kunni að liggja mjög ójöfn launadreifing en mjög þröng launadreifing að baki hins meðaltalsins. Í öðru lagi nær mælingin aðeins til launþega en ekki til sjálfstætt starfandi eða til þeirra sem ekki þiggja laun en fá tekjur í formi afraksturs af eignum eða af tryggingarsamningum (eins og á við um elli- og örorkulífeyrisþega).

Deila má um gagnsemi upplýsinga um launamun kynjanna vegna þess hversu takmarkaður mælikvarðinn er. Fullyrða má að upplýsingar um dreifingu launa eftir kyni myndi bæta talsvert miklu við þá mynd sem fæst með því að skoða launamuninn einan og sér. Blau og Kahn benda á að frá 1980 til 2010 hafi dregið meira saman í meðallaunum þeirra karla og kvenna sem neðst eru í tekjudreifingunni en þeirra sem eru efst í tekjudreifingunni.

Þegar meta á hvort og þá hvernig bregðast skuli við tilvist óskýrðs launamunar skiptir miklu hvort launamunurinn er fyrst og fremst efst í launadreifingunni eða nær jafnt til hennar allrar. Þannig geta verkalýðsfélög reynt að hafa áhrif á launamun neðst í launadreifingunni en hafa afar takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á launamun milli kynjanna í toppstöðum í fyrirtækjum og stofnunum. Þá má einnig leiða að því líkur að áhrif jafnlaunavottunar og annarra stjórnvaldsaðgerða á launamun kynjanna meðal bestlaunuðu karlanna og kvennanna séu mun takmarkaðri en möguleg áhrif slíkra aðgerða á launamun neðar í launadreifingunni.

Tilvísanir:
  1. ^ Hagstofa Íslands - Rannsókn á launamun kynjanna 2008-2016. (Sótt 13.4.2018).
  2. ^ VR - Launakönnun 2017. (Sótt 13.4.2018).
  3. ^ SSF - Launakannanir. (Sótt 13.4.2018)
  4. ^ Hagfræðistofnun HÍ - Launamunur karla og kvenna: rýnt í rannsóknir. (Sótt 13.4.2018).
  5. ^ RÚV - Tókust á um launamun kynjanna hjá Kópavogsbæ. (Sótt 13.4.2018).
  6. ^ Journal of Economic Literature - The Gender Wage Gap: Extent, Trends, and Explanations. (Sótt 13.4.2018).
  7. ^ Sama heimild og í nr. 6.
  8. ^ Thomas Piketty: Capital in the twenty-first century. (Sótt 13.4.2018).

Myndir:

Höfundur

Þórólfur Matthíasson

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.4.2018

Síðast uppfært

22.5.2019

Spyrjandi

Jóhann Ólafsson

Tilvísun

Þórólfur Matthíasson. „Hvernig er launamunur kynjanna reiknaður út?“ Vísindavefurinn, 18. apríl 2018, sótt 15. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75599.

Þórólfur Matthíasson. (2018, 18. apríl). Hvernig er launamunur kynjanna reiknaður út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75599

Þórólfur Matthíasson. „Hvernig er launamunur kynjanna reiknaður út?“ Vísindavefurinn. 18. apr. 2018. Vefsíða. 15. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75599>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er launamunur kynjanna reiknaður út?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvernig nákvæmlega er launamunur kynjanna reiknaður út hér heima?

Hægt er að reikna launamun launþegahópa með margvíslegum hætti. Alltaf er þó um hlutfall tveggja meðaltala að ræða. Talað er um launamun kynjanna ef laun tiltekins hóps kvenna eru notuð sem efniviður í útreikning annars meðaltalsins og laun karla eru notuð sem efniviður hins meðaltalsins. Nota má ólíkar aðferðir bæði við að velja karla og konur í hópana og við að reikna meðaltölin. Ef meðallaun karla í tilteknum hópi eru fundin sem stærðin ${\overline{Y}}_{m}$ og meðallaun kvenna í sama hópi fundin sem stærðin ${\overline{Y}}_{k}$ er launamunurinn reiknaður samkvæmt formúlunni[1]:


$$\frac{{\overline{Y}}_{m} - {\overline{Y}}_{k}}{{\overline{Y}}_{m}}$$

Séu meðallaun karla 100.000 krónur og meðallaun kvenna 90.000 krónur þýðir þetta að launamunur kynjanna reiknast:


$$\frac{100.000 - 90.000}{100.000} = \frac{10.000}{100.000} = 0,1 = 10\%$$

Hóparnir geta samanstaðið af öllum körlum/konum sem skila skattskýrslu, af öllum körlum/konum sem eru 20-25 ára og skila skattskýrslu, af öllum körlum/konum í tilteknu stéttarfélagi sem svara launakönnun, af öllum körlum/konum með ákveðið starfsheiti í ákveðnu stéttarfélagi sem svara launakönnun eða öllum körlum/konum sem starfa hjá ákveðnum vinnuveitanda á ákveðnum tímabili. Launamunur kynjanna mælist alls ekki sá sami innan allra hópa og er einnig mjög háður því hvernig laun eru skilgreind, en það má gera með margvíslegum hætti; sem tímalaun eða sem laun á mánuði og með eða án bónusgreiðslna eða annarra álagsgreiðslna. Þá er oft reynt að taka tillit til stöðuhlutfalls þannig að mánaðarlaun hlutavinnufólks séu reiknuð upp til 100% starfshlutfalls.

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skrifar undir framkvæmdarráðstafanir til þess að styrkja beitingu jafnlaunalaga fyrir konur.

Ef um metnaðarfulla könnun á launamun kynjanna er að ræða er gjarnan gerð tilraun til að leiðrétta launamun sem orsakast af þekktum áhrifavöldum launasetningar á borð við starfsaldur, ábyrgð í starfi, mannaforráð, menntun, hjúskaparstöðu, barnafjölda á heimili og aldur barna. Í allra metnaðarfyllstu könnunum er tekið tillit til þess að áhrifavaldarnir starfsaldur, ábyrgð og svo framvegis geta haft ólík áhrif á laun karla annars vegar og kvenna hins vegar. Þegar leiðréttingar hafa verið framkvæmdar stendur eftir óleiðréttur launamunur. Inntak þess hugtaks er nokkuð á reiki eins og vikið verður að síðar.

Í tímans rás hafa allmargir aðilar, stéttarfélög, sveitarfélög og áhugahópar reiknað eða látið reikna launamun kynjanna á ákveðnum starfsvettvangi. Niðurstöður hafa gjarnan sýnt mikinn launamun konum í óhag. Slíkar niðurstöður hafa ítrekað komið inn á borð samninganefnda aðila vinnumarkaðarins bæði á opinberum og almennum markaði. Þannig hafa stéttarfélög gjarnan gert launakönnun meðal félagsmanna sinna og notað þessar launakannanir sem efnivið í útreikning á launamun kynjanna.[2][3][4] Niðurstöður hafa verið umdeildar vegna aðferðafræðilegra annmarka á slíkum könnunum. Sveitarfélög og stöku fyrirtæki hafa einnig fengið utanaðkomandi aðila til að reikna út launamun kynjanna út frá gögnum úr launabókhaldi.[5]

Vegna þess hversu ólíkar niðurstöður koma út úr útreikningum ólíkra aðila hefur aðgerðarhópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins tekið sér fyrir hendur að samræma rannsóknir á kynbundnum launamun á Íslandi. Aðgerðarhópurinn hefur leitað til Hagstofu Íslands sem í framhaldinu hefur sett fram ítarlega greinargerð um launamun kynjanna á Íslandi. Nýjasta skýrslan er frá 7. mars 2018. Á bls. 3 í þeirri skýrslu kemur fram að munur á óleiðréttum atvinnutekjum karla og kvenna árið 2016 hafi verið 28% konum í óhag. Sé litið til einstakra aldurshópa kemur í ljós að munur atvinnutekna karla og kvenna er helmingi minni fyrir aldurshópinn 16-24 ára eða 15%. Sé litið til launamunar á greidda vinnustund breytist landslagið talsvert. Þá kemur í ljós að svokallaður óleiðréttur launamunur á vinnustund er 16% árið 2016.

Rétt er að undirstrika að óleiðréttur launamunur (e. unadjusted wage differential) er ekki það sama og svokallaður „óskýrður launamunur“. Til að finna óskýrðan launamun þarf að fara út í talsvert flókna útreikninga. Eftirfarandi tilgátur eru settar fram um launamyndun hjá hvoru kyni fyrir sig:

\[Y_{m} = X_{m}B_{m} + u_{m}\ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ (1)\]

\[Y_{k} = X_{k}B_{k} + u_{k}\ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ (2)\]

Hér er Ym lógaritmagildið af tímalaunum karla, Xmer vigur-skýribreyta á borð við aldur, menntun, reynslu og fleiri, Bm er vigur (e. vector) sem lýsir því hvernig skýribreyturnar (aldur, menntun og svo framvegis) skila sér sem tímalaun og uk er slembiliður. Seinni jafnan þar sem breytur eru merktar með niðurdregnu k-i er tilgáta um launamyndun kvenna í gagnasafninu. Stuðlarnir Bm og Bk eru metnir með hefðbundinni (eða „óhefðbundinni“) aðhvarfsgreiningu. Segjum að samkvæmt niðurstöðu aðhvarfsgreiningarinnar fáist gildin bm og bk sem besta ágiskun (mat) á vigrum launamyndunarinnar Bm og Bk. Skrifum meðaltalsvigrana fyrir skýribreyturnar sem skýra launamyndun karla og kvenna sem ${\overline{X}}_{m}$ og ${\overline{X}}_{k}$. Hafi aðhvarfsgreiningin verið rétt framkvæmd gildir nú að:


$$\sum_{}^{}{u_{k} = \sum_{}^{}{u_{m} = 0\ \ \ \ \ \ \ \ \ (3)}}$$

Þá má rita muninn á meðallaunum karla og meðallaunum kvenna með eftirfarandi hætti:


$${\overline{Y}}_{m} - {\overline{Y}}_{k} = b_{m}\left( {\overline{X}}_{m} - {\overline{X}}_{k} \right) + {\overline{X}}_{k}\left( {\overline{b}}_{m} - {\overline{b}}_{k} \right)\ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ \ (4)$$

Hefðbundin túlkun jöfnu (4) er að á vinstri hlið jöfnunnar sé óleiðréttur launamunur, að fyrri liðurinn hægra megin við jafnaðarmerkið sýni hversu stóran hluta launamunar karla og kvenna megi skýra með ólíkri samsetningu þessara tveggja launþegahópa með tilliti til aldurs, starfsreynslu, menntunar, hjúskaparstöðu og svo framvegis. Jafnan er vísað til seinni liðarins sem óskýrðs launamunar. Sá launamunur er tilkominn vegna þess að hinir ýmsu áhrifaþættir hafa önnur áhrif á launamyndun kvenna en launamyndun karla. Þannig skýra þættir sem tengjast reynslu á vinnumarkaði um 15% af launamuninum milli karla og kvenna í Bandaríkjum Norður-Ameríku árið 2010.[6] Hagstofa Íslands telur að „málefnalegar“ skýribreytur skýri yfir 60% af mældum launamun milli kynjanna á Íslandi. Óskýrður launamunur hafi þannig aðeins verið um 4,5% árið 2016. Seinni liðurinn á hægri hlið jöfnu (4) sýnir áhrif þess á launamun kynjanna að „verðlagning“ ólíkra áhrifaþátta getur verið önnur fyrir karla en konur. Þannig benda hagfræðingarnir Blau og Kahn á að konur í stjórnunarstöðum vinni gjarnan innan skóla- og heilbrigðiskerfis þar sem stjórnun er lakar metin til launa en í fjármálageiranum þar sem sjaldgæfara er að konur séu í stjórnunarstöðum.[7]

Erfitt hefur reynst að finna óskýrðan launamun á milli kynja þar sem flóknar formúlur þarf til.

Eins og rakið er í skýrslu Hagstofunnar má fara fleiri en eina leið að leiðréttingu launamunar. Það gefur því auga leið að hluti af þeim launamun sem fram kemur kann að helgast af því að rannsakendur hafi ekki ratað á „réttu“ aðferðina við að leiðrétta launamuninn. Mikilvægar skýribreytur kunna að hafa orðið útundan. Þannig má benda á að hagfræðingar telja margir að hætta á áföllum (slysi, örkumlum eða dauða) hafi áhrif á laun þeirra sem búa við meiri áhættu í starfi en aðrir. Hægt væri að taka tillit til slíkra þátta með því að bæta þessum upplýsingum við gagnasafn Hagstofunnar. Það hefur ekki verið gert, líklega vegna kostnaðar og þess að áhætta starfa er illa skilgreind í mjög mörgum tilfellum.

Sé tilgáta hagfræðinga um áhrif áhættu á laun rétt má leiða að því rök að óútskýrður launamunur kynjanna myndi breytast ef tekið væri tillit til þess þáttar. Þetta dæmi sýnir að óútskýrður launamunur kynjanna er stærð sem er samsett úr mörgum þáttum, til dæmis þáttum sem ekki eru mældir eða eru ekki mælanlegir með þolanlegri nákvæmni og þáttum sem snúa að því hvernig líkan er notað til að leiðrétta áhrif áhrifavalda á borð við aldur og reynslu. Aðrir þættir á borð við ólöglegt undanskot tekna og skattasniðgöngu kunna einnig að hafa áhrif á mældan launamun kynjanna. Allt ber þetta að þeim brunni að ekki er auðsætt að túlka beri mældan óleiðréttan launamun sem staðfestingu mismununar í launasetningu á grundvelli kyns. Mældur launamunur kann að orsakast af slíkri mismunun, en hann kann einnig að orsakast af gagnagöllum eða gallaðri útfærslu við útreikning þeirra meðaltalna sem borin eru saman. Það ber því að fara afar varlega í að nota mældan óútskýrðan launamun kynjanna sem mælikvarða á launamisrétti.

Hagfræðingar og aðrir þeir sem rannsaka þjóðfélagslegar breytingar hafa fjallað talsvert um tekjuskiptingu og eignaskiptingu á síðustu misserum. Franski hagfræðingurinn Tomas Picketty skrifaði metsölubók um efnið.[8] Hægt er að mæla tekjuskiptingu og breytingu hennar með mörgum mælikvörðum. Grófustu mælikvarðarnir byggja á því að skoða hversu stór hluti tekna tiltekins hóps fellur í hlut tekjuhæsta prómillsins, tekjuhæsta prósentsins, tekjuhæstu 5 prósentanna og svo framvegis. Einnig er hægt að skoða hlutfall tekna einstaklingsins sem er svo vel/illa settur að 90% séu tekjuminni en hann annars vegar og þess sem er svo vel/illa settur að 10% séu tekjuminni en hann. Einnig er hægt að beita mælikvörðum á borð við Gini-stuðul. Allgóð sátt er um aðferðafræði bæði hvað varðar gögn og reikniformúlur. Fræðimenn greinir hins vegar á um túlkanir á þeim niðurstöðum sem þeir sjá.

Tekjuskipting er nefnd til sögunnar til að vekja athygli á því að launamunur er mun þrengra hugtak en tekjudreifing. Í fyrsta lagi er launamunur jafnan samanburður tveggja meðaltalna af einhverju tagi (til dæmis á meðallaunum karla annars vegar og kvenna hins vegar, leiðréttum eða óleiðréttum, samanber umræðu hér á undan). Ekki er tekið tillit til þess að að á bak við annað meðaltalið kunni að liggja mjög ójöfn launadreifing en mjög þröng launadreifing að baki hins meðaltalsins. Í öðru lagi nær mælingin aðeins til launþega en ekki til sjálfstætt starfandi eða til þeirra sem ekki þiggja laun en fá tekjur í formi afraksturs af eignum eða af tryggingarsamningum (eins og á við um elli- og örorkulífeyrisþega).

Deila má um gagnsemi upplýsinga um launamun kynjanna vegna þess hversu takmarkaður mælikvarðinn er. Fullyrða má að upplýsingar um dreifingu launa eftir kyni myndi bæta talsvert miklu við þá mynd sem fæst með því að skoða launamuninn einan og sér. Blau og Kahn benda á að frá 1980 til 2010 hafi dregið meira saman í meðallaunum þeirra karla og kvenna sem neðst eru í tekjudreifingunni en þeirra sem eru efst í tekjudreifingunni.

Þegar meta á hvort og þá hvernig bregðast skuli við tilvist óskýrðs launamunar skiptir miklu hvort launamunurinn er fyrst og fremst efst í launadreifingunni eða nær jafnt til hennar allrar. Þannig geta verkalýðsfélög reynt að hafa áhrif á launamun neðst í launadreifingunni en hafa afar takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á launamun milli kynjanna í toppstöðum í fyrirtækjum og stofnunum. Þá má einnig leiða að því líkur að áhrif jafnlaunavottunar og annarra stjórnvaldsaðgerða á launamun kynjanna meðal bestlaunuðu karlanna og kvennanna séu mun takmarkaðri en möguleg áhrif slíkra aðgerða á launamun neðar í launadreifingunni.

Tilvísanir:
  1. ^ Hagstofa Íslands - Rannsókn á launamun kynjanna 2008-2016. (Sótt 13.4.2018).
  2. ^ VR - Launakönnun 2017. (Sótt 13.4.2018).
  3. ^ SSF - Launakannanir. (Sótt 13.4.2018)
  4. ^ Hagfræðistofnun HÍ - Launamunur karla og kvenna: rýnt í rannsóknir. (Sótt 13.4.2018).
  5. ^ RÚV - Tókust á um launamun kynjanna hjá Kópavogsbæ. (Sótt 13.4.2018).
  6. ^ Journal of Economic Literature - The Gender Wage Gap: Extent, Trends, and Explanations. (Sótt 13.4.2018).
  7. ^ Sama heimild og í nr. 6.
  8. ^ Thomas Piketty: Capital in the twenty-first century. (Sótt 13.4.2018).

Myndir:

...