Vísir 1. febrúar 1918 Stórhríðar geisa einlægt annað veifið fyrir norðan, segir símfregn frá Akureyri. Vogar og víkur fullar af hafís. Voröld (Winnipeg) 1. febrúar Fréttir frá Íslandi. Þar eru frost og harðindi óvægileg; segja fréttir þaðan 19. janúar að hafís sé fyrir öllu Norðurlandi frá Patreksfirði til Seyðisfjarðar og horfur ískyggilegar. Morgunblaðið 10. febrúar Kuldar. Það hefir víðar verið kalt síðan um nýár heldur en hér. Í Svíþjóð hafa verið frosthríðar og hafís frosið um öll Norðurlönd. Í Ameríku hafa líka verið miklir kuldar og Hudsonsflóinn var fullur af ís um nýár. Í New York náði frostið 46 stigum á Fakrenheit (um 43 stig á Celsius), á nýársnótt. Er það hið mesta frost þar, sem menn muna eftir. Fraus þá vatnsleiðsla borgarinnar svo að víða var vatnslaust í borginni. Lögrétta 13. febrúar Tíðin. Austanhláka um Suðurland síðari hluta næstl. viku, ofsaveður í Vík og Vestm.eyjum. 9. þ. m. frostlaust um alt land. 5 st. hiti þá á Akureyri. Frysti hjer á mánud. Í gærkv. aftur asahláka með regni og í morgun 6 st. hiti. Hafíslaust við Austurland og Vesturland, og ísinn að reka frá Norðurlandi, en lagís með jökum innan um á fjörðum og flóum. Skutulsfjörður lagður, en Ísafjarðardjúp autt. Siglufjörður lagður innan til, sömul. Eyjafjörður, Seyðisfjörður, Mjóifjörður og Norðfjörður sagðir fyrir fáum dögum lagðir. Eskifjörður skipgengur en ís á innri hluta Reyðarfjarðar. Fáskrúðsfj. auður. Síðustu fregnir segja autt haf við Langanes, en ekki skipgengt fyrir Melrakkasljettu. Tíminn 16. febrúar Tíðin. Hláka hefir verið lengst af síðastliðna viku um suðurland og töluverð úrkoma suma dagana. Síðari hlutann var asahláka um land alt. Hafísinn er nú farinn frá landinu. Var gengið upp á fjöll úr Siglufirði á miðvikudag og sást þá enginn hafís nema hrafl sem var á reki út úr fjörðunum. Firðir eru þó víða frosnir enn, en skamt mun þess að bíða að þann ís leysi haldist tíðin nú óbreytt. Frón 23. febrúar Veðrátta hefir verið umhleypingasöm, oftast stormar af suðri og útsuðri. Hafís mun nú hafa lónað svo frá landinu, að skipgengt mun vera. Norðurland 2. mars Hafíslaust er nú umhverfis alt Norður- og Austurland svo langt sem séð verður á haf út. En Eyjafjörður er enn lagður, frosinn saman hafís og lagís alla leið sunnan frá Leirunni og út fyrir Rauðuvík. Morgunblaðið 10. mars Frá Vesturlandi. Frá Patreksfirði er oss skrifað nýlega: Vetrarharka hefir verið hér afskapleg undanfarið, meiri frost en eldri menn muna. Einsdæmi mun það vera að Látraröst lagði svo langt til hafs, að ekki sást í auða vök, annarsstaðar en af Látraheiði. En þaðan sást blána aðeins. Á stöku stað stóðu hafísjöklar eins og stór björg úr hafinu. Hefir slíkt aldrei komið fyrir, eða hvergi sést getið í sögum, að »röstin« hafi getað hrist af sér vetrarhaminn. Af Loðkinnahamraheiði sást hvergi í auða vök frá Barði og alla leið suður, svo langt sem augað eygði. Fimm brezkir botnvörpungar lágu innifristir í vikutíma í frostunum. Á Vestfjörðum hafa skemst allar bryggjur og öll »síldarplön« af frostum og ís, nema bryggja Ásgeirssonar á Ísafirði og Ol. Jóhannessonar konsúls á Patreksfirði. Nemur það tjón mörgum tugum þúsunda króna. Sem dæmi má nefna að einhver öflugasta bryggjan á Vestfjörðum, eign bræðranna Proppé Þingeyri, hefir skemst svo að aðgerð á henni munu kosta tugi þúsunda.

Borgarísjaki í Scoresbysundi (Kangertittivaq) á austurströnd Grænlands sem er einn lengsti fjörður jarðar. Ísjakinn hefur brotnað tiltölulega nýlega framan af skriðjökli sem nær í sjó fram. Framundan er hægfara sigling út fjörðinn og út í Grænlandssund milli Grænlands og Íslands. Ef til vill lendir hann í hafstraumskvísl sem ber hann smám saman til Íslands. Um síðir brotnar hann niður og borgarbrotin bráðna. Ljósmynd: Þór Jakobsson.
- Tímarit.is
- Úr myndasafni höfundar.
- Hudson's Bay Company schooner "Nannuk" stuck in ice, 1921(?) (5352061942).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 26. 4. 2018).