Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Árið 1918 var meirihluti Íslendinga enn bændur og sjómenn sem sóttu af kappi í gögn lands og sjávar, en einnig var talsvert af fólki sem vann við heimilisþjónustu hjá öðrum. Værir þú uppi á þessum tíma er því líklegt að þú ynnir við landbúnaðarstörf, fiskveiðar og fiskvinnslu eða vinnumennsku sem innanhúshjú. Í þessum síðasttalda flokki voru næstum eingöngu konur sem gegndu ýmsum innanhússtörfum á heimilum annarra, svo sem barnapössun, matseld, þrifum og þess háttar.
Atvinnulífið var þó í mikilli deiglu því miklir fólksflutningar stóðu yfir úr sveitum í sjóþorp og kaupstaði. Nútímavæðingin var komin á fleygiferð og henni fylgdu ekki aðeins þéttbýlismyndun, vélvæðing og markaðsbúskapur heldur sífellt meiri verkaskipting og þar með ný störf. Margt ungt fólk sætti sig ekki við hlutskipti vinnumennskunnar og fábreytni sveitalífsins og freistaði gæfunnar í þéttbýlinu, sumir í leit að menntun, fleiri þó að betri og öruggari atvinnu, en öðru fremur var það óskin um að komast í sjálfstæða stöðu og stofna sitt eigið heimili sem knúði fólk til að yfirgefa sveitirnar. Gætnir og grandvarir menn býsnuðust yfir sjálfræðisfýsn ungu kynslóðarinnar.
Karlmenn að störfum á smíðaverkstæði. Myndin er tekin 1924.
Manntalið 1920 gefur góða mynd af atvinnu og störfum á Íslandi um það leyti sem fullveldi fékkst. Þá voru íbúar landsins 94.690 og þar af voru 39.524 manns á vinnumarkaði eða tæp 42% landsmanna. Aðallega voru það börn og unglingar sem voru utan vinnumarkaðar, en einnig styrkþegar, eftirlaunamenn og þeir sem lifðu á eignum sínum. Það kann einhverjum að þykja skrýtið að konur voru þá aðeins 30% vinnuaflsins en karlar 70%. Tvær ástæður eru fyrir þessu. Í samfélaginu var skýr verkaskipting milli karla og kvenna. Eiginmenn unnu fyrir fjölskyldunni á vinnumarkaði á meðan stór hluti eiginkvenna vann heima við, sá um heimilisverk og barnauppeldi. Þessar konur þáðu ekki laun fyrir vinnu sína og töldust því ekki á vinnumarkaði samkvæmt skilgreiningu manntala. Í öðru lagi var ekki talið að giftar útivinnandi konur, margar í stopulli eða árstíðabundinni vinnu, væru á vinnumarkaði nema þær gegndu sérhæfðum störfum eða augljóst væri að eiginmaðurinn væri óstarfhæfur eða án atvinnu.
Sjálfur vinnumarkaðurinn var mjög kynskiptur. Karlar voru allsráðandi í fiskveiðum, byggingarstörfum, mörgum iðngreinum, flutningastarfsemi og peningastofnunum. Helstu kvennastörfin voru aftur á móti fiskvinnsla, saumastörf, afgreiðsla í búðum, veitingastörf, ræstingar og þvottar, hjúkrun, fatahreinsun og heimilisþjónusta. Sú skarpa aðgreining í karla- og kvennastörf sem einkenndi vinnumarkað á 20. öldinni var orðin skýrt mótuð upp úr aldamótum 1900.
Konur að vaska saltfisk í kerjum. Myndin er tekin á árunum 1910-1920.
Í meðfylgjandi töflu um atvinnuskiptingu árið 1920 sést að 38% starfandi fólks vann við landbúnað, 19% við sjávarútveg og fiskvinnslu og 15% við heimilisþjónustu, en þann flokk fylltu innanhúshjúin. Atvinnugreinar í þéttbýlinu uxu ört og voru iðnaður, verslun og samgöngur orðnar gildar atvinnugreinar, hver um sig með 6-7% hlutdeild í vinnuafli. Í iðnaði vann fjöldi manns við trésmíði, járn- og málmsmíði og bóka- og blaðaútgáfu, en það vekur athygli að fjölmennasta iðngreinin var prjóna- og saumaskapur. Á fáeinum áratugum hafði fjölmörgum konum tekist að gera saumaskap að lifibrauði sínu og töldust hvorki fleiri né færri en 679 saumakonur árið 1920.
Verslunin þandist út og helgaðist vöxtur hennar bæði af því að markaðsbúskapur breiddist út en einnig af miklum vexti utanlandsverslunarinnar sem íslenskir menn voru að taka yfir af dönskum kaupmönnum. Störfum fjölgaði því ört í verslun og samgöngum. Kaupmennska og búðarstörf urðu vinsæl og dæmi voru um að stöndugir bændur seldu jarðir sínar til að geta stofnað búðarholur í Reykjavík.
Tafla 1. Skipting vinnuafls eftir atvinnugreinum árið 1920.
Fjöldi
%
Karlar
Konur
Landbúnaður
15.170
38
13.171
1.999
Sjávarútvegur (fiskveiðar og fiskvinnsla)
7.577
19
6.558
1.018
Iðnaður
2.638
7
1.365
1.272
- Matvælaiðnaður
207
1
174
33
- Vefjariðnaður, skó- og fatagerð
1.497
4
368
1.129
- Málm- og skipasmíði
382
1
377
5
- Annar iðnaður
413
1
308
104
Byggingastarfsemi og veitur
1.736
4
1.736
1
Verslun, veitinga- og hótelrekstur
2.328
6
1.737
591
- Heildverslun
258
1
227
31
- Smásöluverslun
1.809
5
1.372
437
- Veitinga- og hótelrekstur
260
1
137
123
Samgöngur
2.192
6
1.992
199
- Fólks- og vöruflutningar á landi
1.192
3
1.093
98
- Flutningar á sjó
696
2
694
2
- Rekstur pósts og síma
253
1
156
97
Peningastofnanir o.fl.
441
1
300
141
Ýmis þjónustustörf
6.223
16
131
6.092
- Heimilisþjónusta
5.844
15
2
5.842
- Önnur persónuleg þjónusta
344
1
105
239
Starfsemi hins opinbera
1.221
3
692
529
- Opinber þjónusta
1.028
3
516
512
Samtals
39.524
100
27.681
11.843
Mynd frá árunum 1910-1920, tekin á straustofu Sæunnar Bjarnadóttur á Laufásvegi 4
Mörg ný störf urðu til í bæjum á fyrstu áratugum 20. aldar. Rakarar, rafvirkjar, bílstjórar, talsímakonur, símaritarar og hjúkrunarkonur voru heiti á nýjum störfum sem áttu eftir að gera sig gildandi þegar tímar liðu. En svo voru önnur störf sem áttu sér ekki langa ævi og eru nú með öllu horfin. Þannig háttaði með sótarana (sjö talsins árið 1920) og kyndarana (23 árið 1920), sem önnuðust kyndingu í húsum og á skipum, og í Gasstöðinni í Reykjavík. Kúskar fluttu fólk og vörur á hestvögnum en þeir fóru að týna tölunni þegar bílaöldin hóf innreið sína á þriðja áratugnum. Og ekki má gleyma elstu starfsstétt landsins, hinni fjölmennu stétt vinnukvenna, sem er fyrir löngu horfin.
Myndir:
Guðmundur Jónsson. „Við hvað störfuðu Íslendingar 1918?“ Vísindavefurinn, 22. október 2018, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75841.
Guðmundur Jónsson. (2018, 22. október). Við hvað störfuðu Íslendingar 1918? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75841
Guðmundur Jónsson. „Við hvað störfuðu Íslendingar 1918?“ Vísindavefurinn. 22. okt. 2018. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75841>.