Sólin Sólin Rís 05:21 • sest 21:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:16 • Sest 12:09 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:20 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:14 • Síðdegis: 15:26 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvers konar fjölmiðlar voru á Íslandi 1918?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Árið 1918 voru fjölmiðlar eingöngu prentmiðlar. Útsendingar útvarps og sjónvarps voru varla farnar að tíðkast neins staðar í heiminum; þó að búið væri að finna upp tækni til að senda símskeyti og loftskeyti var ekki enn farið að nota hana til fjölmiðlunar, nema hvað blöðin nutu þess auðvitað að fá fréttir með símanum. Á Íslandi hófust ekki samfelldar útvarpssendingar fyrr en með stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930, tólf árum eftir fullveldisstofnun.

Fjölmiðlun á prentmáli var hins vegar orðin meira en aldargömul og hafði verið stunduð verulega á Íslandi á 19. öld. Gefin voru út ársrit með hvers konar fróðleik og fréttatengdu efni. Ársritið Skírnir fór til dæmis að koma út í Kaupmannahöfn 1827 og flutti einkum útlendar fréttir, árs skammt í einu á 118 blaðsíðum. Blaðaútgáfa hófst rétt fyrir miðja 19. öld. Reykjavíkurpósturinn fór að koma út 1847 og miklu langlífara blað, Þjóðólfur, árið eftir. Hann náði aðeins fram á fullveldisöld, síðasta blaðið kom út árið 1920. Á síðari hluta 19. aldar kom út fjöldi blaða, flest í Reykjavík en ekki bara þar heldur líka á Akureyri, Ísafirði, Seyðisfirði, Winnipeg í Kanada og víðar. Þetta voru ekki dagblöð í þeim skilningi að þau kæmu út flesta eða alla daga vikunnar (þótt þau væru stundum kölluð dagblöð), þau komu gjarnan út aðra hverja viku og upp í tvisvar í viku. Tilraun var gerð til að gefa út dagblað í Reykjavík 1896, Dagskrá, en hún fór út um þúfur nánast um leið og hún byrjaði. Flest blöðin voru í eigu ritstjóra sinna, sem voru oft einu blaðamenn þeirra. Í stjórnmálum tóku blöðin þá afstöðu eftir stefnu ritstjórans hverju sinni.

Á forsíðu Vísis þann 14. desember 1910 er óskað eftir viðbrögðum við stofnun dagblaðs.

Þegar fullveldið komst á var að verða til nýtt kerfi blaðaútgáfu í landinu, dagblöð í sterkum og varanlegum tengslum við stjórnmálaflokka. Fyrst kom blað með nafninu Vísir til dagblaðs í Reykjavík og boðaði á forsíðu fyrsta tölublaðs, 14. desember 1910, að blaðið mundi koma út alla virka daga kl. 11 árdegis. Einhver misbrestur varð á því; fyrsta heila árið sem blaðið kom út, 1911, komu 204 tölublöð sem svarar nokkurn veginn til þess að blaðið hafi komið út fjóra daga í viku að meðaltali. Segja má að Vísir komi enn út því að V-ið í blaðsnafninu DV er skammstöfun fyrir Vísi. D-ið í nafninu sprettur af því að Vísi var einu sinni slegið saman við blað sem hét Dagblaðið.

Næsta dagblað var Morgunblaðið sem hóf göngu sína 2. nóvember 1913. Það var frá upphafi sannkallað dagblað, kom jafnvel út á hverjum einasta degi vikunnar. Það er elsta blað okkar sem hefur komið út að staðaldri til þessa undir sama nafni. Næst komu blöðin Tíminn 1917 og Alþýðublaðið 1919. Tíminn var vikublað framan af en átti eftir að breytast í dagblað, en Alþýðublaðið var dagblað frá upphafi, kom út sex sinnum á viku.

Morgunblaðinu var fylgt úr hlaði með þessum orðum: „Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað.“

Alþýðublaðið var fyrsta blaðið sem var frá upphafi opinberlega gefið út af stjórnmálaflokki, Alþýðuflokknum. Tíminn var frá byrjun undir stjórn Framsóknarmanna og varð síðar eign Framsóknarflokksins. Árið 1919 keypti hópur kaupmanna í Reykjavík Morgunblaðið að stofnanda þess og eiganda nauðugum; auglýsingar þeirra réðu því hvort sem var hvort blaðið lifði. Eftir það hallaðist það að hægristefnu í pólitík og varð aðalmálgagn Sjálfstæðisflokksins eftir að hann var stofnaður, árið 1929. Vísir hallaði sér lengst af í sömu stefnu í stjórnmálum, en sjálfur hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei átt og gefið út blað.

Oftast voru blöðin aðeins fjórar blaðsíður hvert tölublað. Í þeim voru auglýsingar áberandi. Ef við grípum fyrir tilviljun Vísi 1. júlí 1918 er forsíðan næstum full af auglýsingum. Gamla bíó auglýsir kvikmyndina Myndina í speglinum sem er sögð „mikilfenglegur sjónleikur leikinn af ágætum amerískum leikurum.“ Aukamynd er Flótti Billys, „amerísk skopmynd“. Nýja bíó auglýsir myndina Biðil húsfreyjunnar. Auglýst er stórt uppboð í Góðtemplarahúsinu á morgun. Útflutningsnefnd auglýsir að hún hafi ákveðið að taka hálft prósent af söluupphæð til að mæta kostnaði við störf sín. Vélstjórafélagið auglýsir aðalfund sinn. Loks eru neðst á forsíðunni nokkur „símskeyti frá fréttaritara Vísis“ í Kaupmannahöfn sem reynast vera útlendar fréttir. Þar má til dæmis lesa að í Berlín hafi vikuskammturinn af kartöflum verið minnkaður um helming. Þetta var á síðustu mánuðum heimsstyrjaldarinnar fyrri og matarbirgðir sýnilega á þrotum í Þýskalandi. Á hinum blaðsíðunum þremur er enn mikið af auglýsingum, en þar kemur líka bitastæðara efni. Á bls. 2 er framhald greinar um sambandssamningana við Dani sem voru að hefjast. Á bls. 3–4 er grein um síldveiðar landsmanna. Neðantil á bls. 3 er líka bútur úr þýddri skáldsögu, svokallaðri neðanmálssögu sem voru framhaldssögur blaðanna. Á baksíðunni eru enn auglýsingar og „Bæjarfréttir“, sagt frá afmælum fólks, væntanlegum skipaferðum og einu dauðsfalli.

Hluti af forsíðu Vísis 1. júlí 1918.

Í Reykjavík og á öðrum útgáfustöðum var auðvelt að dreifa blöðunum, hvort sem var til áskrifenda með útburði, í verslunum eða lausasölu sem strákar önnuðust á götum úti. En í öðrum byggðum var lengi svo erfitt um dreifingu blaða að lítil meining var í að gefa út dagblöð fyrir þær. Bílar voru fyrst teknir í notkun í póstdreifingu, í staðinn fyrir hestvagna, um 1919. Síðar tóku hvers konar áætlunarbílar smám saman við dreifingu pósts og blaða. Þar sem ég ólst upp, í einni af uppsveitum Árnessýslu, komu pósturinn og blöðin með mjólkurbílnum, daglega.

Heimildir og myndir:

 • Guðjón Friðriksson: Nýjustu fréttir! Saga fjölmiðlunar frá upphafi til vorra daga. Reykjavík, Iðunn, 2000.
 • Gunnar Karlsson: „Atvinnubylting og ríkismyndun 1874–1918.“ Saga Íslands X (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2009), 1–312 („Blöðin“, 173–78).
 • Vefheimild: timarit.is/
 • Vilhjálmur Þ. Gíslason: Blöð og blaðamenn 1773–1944. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1972.
 • Vísir, 01.07.1918 - Timarit.is. (Sótt 22. 10. 2018).
 • Morgunblaðið, 02.11.1913 - Timarit.is. (Sótt 22. 10. 2018).
 • Vísir, 14.12.1910 - Timarit.is. (Sótt 22. 10. 2018)

Bergrún spurði einnig um hvar í pólitík íslensku dagblöðin hafi verið.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

30.10.2018

Spyrjandi

Bergrún S., ritstjórn

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers konar fjölmiðlar voru á Íslandi 1918?“ Vísindavefurinn, 30. október 2018. Sótt 16. ágúst 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=75846.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2018, 30. október). Hvers konar fjölmiðlar voru á Íslandi 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75846

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers konar fjölmiðlar voru á Íslandi 1918?“ Vísindavefurinn. 30. okt. 2018. Vefsíða. 16. ágú. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75846>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar fjölmiðlar voru á Íslandi 1918?
Árið 1918 voru fjölmiðlar eingöngu prentmiðlar. Útsendingar útvarps og sjónvarps voru varla farnar að tíðkast neins staðar í heiminum; þó að búið væri að finna upp tækni til að senda símskeyti og loftskeyti var ekki enn farið að nota hana til fjölmiðlunar, nema hvað blöðin nutu þess auðvitað að fá fréttir með símanum. Á Íslandi hófust ekki samfelldar útvarpssendingar fyrr en með stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930, tólf árum eftir fullveldisstofnun.

Fjölmiðlun á prentmáli var hins vegar orðin meira en aldargömul og hafði verið stunduð verulega á Íslandi á 19. öld. Gefin voru út ársrit með hvers konar fróðleik og fréttatengdu efni. Ársritið Skírnir fór til dæmis að koma út í Kaupmannahöfn 1827 og flutti einkum útlendar fréttir, árs skammt í einu á 118 blaðsíðum. Blaðaútgáfa hófst rétt fyrir miðja 19. öld. Reykjavíkurpósturinn fór að koma út 1847 og miklu langlífara blað, Þjóðólfur, árið eftir. Hann náði aðeins fram á fullveldisöld, síðasta blaðið kom út árið 1920. Á síðari hluta 19. aldar kom út fjöldi blaða, flest í Reykjavík en ekki bara þar heldur líka á Akureyri, Ísafirði, Seyðisfirði, Winnipeg í Kanada og víðar. Þetta voru ekki dagblöð í þeim skilningi að þau kæmu út flesta eða alla daga vikunnar (þótt þau væru stundum kölluð dagblöð), þau komu gjarnan út aðra hverja viku og upp í tvisvar í viku. Tilraun var gerð til að gefa út dagblað í Reykjavík 1896, Dagskrá, en hún fór út um þúfur nánast um leið og hún byrjaði. Flest blöðin voru í eigu ritstjóra sinna, sem voru oft einu blaðamenn þeirra. Í stjórnmálum tóku blöðin þá afstöðu eftir stefnu ritstjórans hverju sinni.

Á forsíðu Vísis þann 14. desember 1910 er óskað eftir viðbrögðum við stofnun dagblaðs.

Þegar fullveldið komst á var að verða til nýtt kerfi blaðaútgáfu í landinu, dagblöð í sterkum og varanlegum tengslum við stjórnmálaflokka. Fyrst kom blað með nafninu Vísir til dagblaðs í Reykjavík og boðaði á forsíðu fyrsta tölublaðs, 14. desember 1910, að blaðið mundi koma út alla virka daga kl. 11 árdegis. Einhver misbrestur varð á því; fyrsta heila árið sem blaðið kom út, 1911, komu 204 tölublöð sem svarar nokkurn veginn til þess að blaðið hafi komið út fjóra daga í viku að meðaltali. Segja má að Vísir komi enn út því að V-ið í blaðsnafninu DV er skammstöfun fyrir Vísi. D-ið í nafninu sprettur af því að Vísi var einu sinni slegið saman við blað sem hét Dagblaðið.

Næsta dagblað var Morgunblaðið sem hóf göngu sína 2. nóvember 1913. Það var frá upphafi sannkallað dagblað, kom jafnvel út á hverjum einasta degi vikunnar. Það er elsta blað okkar sem hefur komið út að staðaldri til þessa undir sama nafni. Næst komu blöðin Tíminn 1917 og Alþýðublaðið 1919. Tíminn var vikublað framan af en átti eftir að breytast í dagblað, en Alþýðublaðið var dagblað frá upphafi, kom út sex sinnum á viku.

Morgunblaðinu var fylgt úr hlaði með þessum orðum: „Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað.“

Alþýðublaðið var fyrsta blaðið sem var frá upphafi opinberlega gefið út af stjórnmálaflokki, Alþýðuflokknum. Tíminn var frá byrjun undir stjórn Framsóknarmanna og varð síðar eign Framsóknarflokksins. Árið 1919 keypti hópur kaupmanna í Reykjavík Morgunblaðið að stofnanda þess og eiganda nauðugum; auglýsingar þeirra réðu því hvort sem var hvort blaðið lifði. Eftir það hallaðist það að hægristefnu í pólitík og varð aðalmálgagn Sjálfstæðisflokksins eftir að hann var stofnaður, árið 1929. Vísir hallaði sér lengst af í sömu stefnu í stjórnmálum, en sjálfur hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei átt og gefið út blað.

Oftast voru blöðin aðeins fjórar blaðsíður hvert tölublað. Í þeim voru auglýsingar áberandi. Ef við grípum fyrir tilviljun Vísi 1. júlí 1918 er forsíðan næstum full af auglýsingum. Gamla bíó auglýsir kvikmyndina Myndina í speglinum sem er sögð „mikilfenglegur sjónleikur leikinn af ágætum amerískum leikurum.“ Aukamynd er Flótti Billys, „amerísk skopmynd“. Nýja bíó auglýsir myndina Biðil húsfreyjunnar. Auglýst er stórt uppboð í Góðtemplarahúsinu á morgun. Útflutningsnefnd auglýsir að hún hafi ákveðið að taka hálft prósent af söluupphæð til að mæta kostnaði við störf sín. Vélstjórafélagið auglýsir aðalfund sinn. Loks eru neðst á forsíðunni nokkur „símskeyti frá fréttaritara Vísis“ í Kaupmannahöfn sem reynast vera útlendar fréttir. Þar má til dæmis lesa að í Berlín hafi vikuskammturinn af kartöflum verið minnkaður um helming. Þetta var á síðustu mánuðum heimsstyrjaldarinnar fyrri og matarbirgðir sýnilega á þrotum í Þýskalandi. Á hinum blaðsíðunum þremur er enn mikið af auglýsingum, en þar kemur líka bitastæðara efni. Á bls. 2 er framhald greinar um sambandssamningana við Dani sem voru að hefjast. Á bls. 3–4 er grein um síldveiðar landsmanna. Neðantil á bls. 3 er líka bútur úr þýddri skáldsögu, svokallaðri neðanmálssögu sem voru framhaldssögur blaðanna. Á baksíðunni eru enn auglýsingar og „Bæjarfréttir“, sagt frá afmælum fólks, væntanlegum skipaferðum og einu dauðsfalli.

Hluti af forsíðu Vísis 1. júlí 1918.

Í Reykjavík og á öðrum útgáfustöðum var auðvelt að dreifa blöðunum, hvort sem var til áskrifenda með útburði, í verslunum eða lausasölu sem strákar önnuðust á götum úti. En í öðrum byggðum var lengi svo erfitt um dreifingu blaða að lítil meining var í að gefa út dagblöð fyrir þær. Bílar voru fyrst teknir í notkun í póstdreifingu, í staðinn fyrir hestvagna, um 1919. Síðar tóku hvers konar áætlunarbílar smám saman við dreifingu pósts og blaða. Þar sem ég ólst upp, í einni af uppsveitum Árnessýslu, komu pósturinn og blöðin með mjólkurbílnum, daglega.

Heimildir og myndir:

 • Guðjón Friðriksson: Nýjustu fréttir! Saga fjölmiðlunar frá upphafi til vorra daga. Reykjavík, Iðunn, 2000.
 • Gunnar Karlsson: „Atvinnubylting og ríkismyndun 1874–1918.“ Saga Íslands X (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2009), 1–312 („Blöðin“, 173–78).
 • Vefheimild: timarit.is/
 • Vilhjálmur Þ. Gíslason: Blöð og blaðamenn 1773–1944. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1972.
 • Vísir, 01.07.1918 - Timarit.is. (Sótt 22. 10. 2018).
 • Morgunblaðið, 02.11.1913 - Timarit.is. (Sótt 22. 10. 2018).
 • Vísir, 14.12.1910 - Timarit.is. (Sótt 22. 10. 2018)

Bergrún spurði einnig um hvar í pólitík íslensku dagblöðin hafi verið.

...