Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Börðust blökkumenn í Þrælastríðinu?

Gréta Hauksdóttir

Stutta svarið er einfaldlega já, en þó ekki í upphafi Þrælastríðsins.

Tildrög borgarastríðs Bandaríkjanna, eða Þrælastríðsins, voru meðal annars ósætti landbúnaðarríkja sunnanmegin í landinu við skattlagningu ríkisins á ýmsar vörur sem iðnvæddu ríkin norðar í landinu gátu framleitt sjálf en Suðurríkin ekki. Að auki var mikill ágreiningur þar á milli um réttlæti þrælahalds, sem landbúnaðarríkin treystu á en iðnaðarríkin voru mótfallin. Því fór svo að veturinn 1860-61 sögðu 11 ríki sig úr Bandaríkjunum og stofnuðu Suðurríkjasambandið, og í apríl 1861 skall á stríð sem varði í rúm fjögur ár.

Framan af stóð til að borgarastríðið yrði stríð hvítra („A white man’s war“) og bæði Norður- og Suðurríki voru sammála um að þau myndu vísa burt öllum blökkumönnum sem byðu sig fram til þátttöku, enda voru enn í gildi lög frá 1792 sem bönnuðu svörtum að bera vopn fyrir Bandaríkjaher (þó þeir hefðu reyndar tekið þátt í bæði Frelsistríðinu og stríðinu árið 1812).

Suðurríkjasambandið hafði ekki áhuga á að láta vopn í hendur þræla og Abraham Lincoln, forseti Bandaríkjanna, óttaðist að ef alríkisherinn (e. federal army) tæki við blökkumönnum myndi það verða til þess að fleiri ríki sunnanmegin segðu sig úr Bandaríkjunum og gengju í Suðurríkjasambandið, sem myndi gera sigur Norðurríkjanna nær ómögulegan.

Ljósmynd úr borgarastríðinu sem sýnir hermenn beggja kynþátta.

Þegar leið á stríðið og sjálfboðaliðum fór að fækka þurftu bæði Norður- og Suðurríkin að endurskoða afstöðu sína. Í apríl 1862 kom Suðurríkjasambandið á herskyldu meðal karlmanna á ákveðnum aldri, þó með undanþágum. Þann 1. janúar 1863 tók gildi yfirlýsing Lincolns um frelsi þræla sem kæmust undan stjórn Suðurríkjanna (e. Emancipation Proclamation), hvort sem væri með flótta yfir til Norðurríkjanna eða með þátttöku í Norðurríkjaher. Viðbrögðin voru þó líklegast minni en vonir stóðu til og í mars sama ár komu Norðurríkin líka á herskyldu meðal karlmanna.

Smám saman bættust fleiri blökkumenn við her Norðanmanna. Þeir tóku þó lítinn þátt í bardögum til að byrja með. Blökkumenn voru mestmegnis settir í önnur nauðsynleg störf svo sem trésmíði og viðhald vopna, eldamennsku, aðhlynningu særðra; þeir voru herprestar, njósnarar, verðir og útsendarar. Slík störf gerðu þeim erfitt að klífa metorðastigann innan hersins og í þokkabót fengu svartir hermenn mun lægri laun en hvítir félagar þeirra. Sá launamunur viðgekkst alveg fram í júní 1864.

Við lok stríðsins voru um 180.000 blökkumenn í landher Norðurríkjanna (U.S. Army), eða um 10% hermanna, og um 19.000 til viðbótar í sjóhernum (U.S. Navy).

Hermaður í búningi Norðurríkjahers, ásamt fjölskyldu sinni. Myndin er tekin á árunum 1863-65.

Eftir lok borgarastríðsins tók við tólf ára tímabil endurreisnar (e. Reconstruction era), þar sem reynt var að sameina ríkin og þjóðfélagið á ný og aðstoða Suðurríkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Það gekk þó upp og ofan; allt að fimmtungur fullorðinna hvítra karlmanna Suðurríkjasambandsins hafði látist í stríðinu og ekkjur „uppreisnarmanna“ áttu ekki rétt á hermannalífeyri líkt og ekkjur alríkishermanna (e. federal soldiers), en höfðu sjálfsagt ekkert færri börn og gamalmenni sem þurfti að framfleyta. Í þokkabót skorti vinnuafl á akra og í bómullarrækt. Gremja í garð stjórnvalda og Lincolns forseta var mikil enda lífsviðurværi margra íbúa Suðurríkjanna í molum. Í þessum þjóðfélagslega jarðvegi magnaðist reiði í garð blökkumanna og gat af sér öfgahópa eins og Ku Klux Klan, sem gátu ekki samþykkt það að fólk af afrískum uppruna hefði sömu réttindi og þeir, þar með talinn rétt til kosninga og þátttöku í stjórnmálum. Svo fór að alríkisyfirvöld gáfust upp á að reyna að tryggja réttindi blökkumanna þar um slóðir og aðskilnaður svartra og hvítra var yfirlýst stefna Suðurríkjanna fram yfir miðja síðustu öld.

Fordómar gagnvart blökkumönnum voru líka til staðar í Norðurríkjunum. En með þátttöku í her Norðurríkjanna gafst fyrrum þrælum þó tækifæri á að sækja um bandarískan ríkisborgararétt sem veitti þeim meðal annars kosningarétt og möguleika á að láta löggilda hjónabönd sín, sem áður höfðu ekkert lagalegt gildi. Með afnámi þrælahalds eftir borgarastríðið gafst þeim líka tækifæri til að leita uppi burtselda maka, börn, foreldra eða systkini, og sameina fjölskyldumeðlimi að nýju.

Tengt efni á vefnum (á ensku):

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Gréta Hauksdóttir

bókmenntafræðingur og MA í hagnýtri ritstjórn og útgáfu

Útgáfudagur

27.7.2020

Spyrjandi

Erna Þorsteinsdóttir

Tilvísun

Gréta Hauksdóttir. „Börðust blökkumenn í Þrælastríðinu?“ Vísindavefurinn, 27. júlí 2020. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76065.

Gréta Hauksdóttir. (2020, 27. júlí). Börðust blökkumenn í Þrælastríðinu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76065

Gréta Hauksdóttir. „Börðust blökkumenn í Þrælastríðinu?“ Vísindavefurinn. 27. júl. 2020. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76065>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Börðust blökkumenn í Þrælastríðinu?
Stutta svarið er einfaldlega já, en þó ekki í upphafi Þrælastríðsins.

Tildrög borgarastríðs Bandaríkjanna, eða Þrælastríðsins, voru meðal annars ósætti landbúnaðarríkja sunnanmegin í landinu við skattlagningu ríkisins á ýmsar vörur sem iðnvæddu ríkin norðar í landinu gátu framleitt sjálf en Suðurríkin ekki. Að auki var mikill ágreiningur þar á milli um réttlæti þrælahalds, sem landbúnaðarríkin treystu á en iðnaðarríkin voru mótfallin. Því fór svo að veturinn 1860-61 sögðu 11 ríki sig úr Bandaríkjunum og stofnuðu Suðurríkjasambandið, og í apríl 1861 skall á stríð sem varði í rúm fjögur ár.

Framan af stóð til að borgarastríðið yrði stríð hvítra („A white man’s war“) og bæði Norður- og Suðurríki voru sammála um að þau myndu vísa burt öllum blökkumönnum sem byðu sig fram til þátttöku, enda voru enn í gildi lög frá 1792 sem bönnuðu svörtum að bera vopn fyrir Bandaríkjaher (þó þeir hefðu reyndar tekið þátt í bæði Frelsistríðinu og stríðinu árið 1812).

Suðurríkjasambandið hafði ekki áhuga á að láta vopn í hendur þræla og Abraham Lincoln, forseti Bandaríkjanna, óttaðist að ef alríkisherinn (e. federal army) tæki við blökkumönnum myndi það verða til þess að fleiri ríki sunnanmegin segðu sig úr Bandaríkjunum og gengju í Suðurríkjasambandið, sem myndi gera sigur Norðurríkjanna nær ómögulegan.

Ljósmynd úr borgarastríðinu sem sýnir hermenn beggja kynþátta.

Þegar leið á stríðið og sjálfboðaliðum fór að fækka þurftu bæði Norður- og Suðurríkin að endurskoða afstöðu sína. Í apríl 1862 kom Suðurríkjasambandið á herskyldu meðal karlmanna á ákveðnum aldri, þó með undanþágum. Þann 1. janúar 1863 tók gildi yfirlýsing Lincolns um frelsi þræla sem kæmust undan stjórn Suðurríkjanna (e. Emancipation Proclamation), hvort sem væri með flótta yfir til Norðurríkjanna eða með þátttöku í Norðurríkjaher. Viðbrögðin voru þó líklegast minni en vonir stóðu til og í mars sama ár komu Norðurríkin líka á herskyldu meðal karlmanna.

Smám saman bættust fleiri blökkumenn við her Norðanmanna. Þeir tóku þó lítinn þátt í bardögum til að byrja með. Blökkumenn voru mestmegnis settir í önnur nauðsynleg störf svo sem trésmíði og viðhald vopna, eldamennsku, aðhlynningu særðra; þeir voru herprestar, njósnarar, verðir og útsendarar. Slík störf gerðu þeim erfitt að klífa metorðastigann innan hersins og í þokkabót fengu svartir hermenn mun lægri laun en hvítir félagar þeirra. Sá launamunur viðgekkst alveg fram í júní 1864.

Við lok stríðsins voru um 180.000 blökkumenn í landher Norðurríkjanna (U.S. Army), eða um 10% hermanna, og um 19.000 til viðbótar í sjóhernum (U.S. Navy).

Hermaður í búningi Norðurríkjahers, ásamt fjölskyldu sinni. Myndin er tekin á árunum 1863-65.

Eftir lok borgarastríðsins tók við tólf ára tímabil endurreisnar (e. Reconstruction era), þar sem reynt var að sameina ríkin og þjóðfélagið á ný og aðstoða Suðurríkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Það gekk þó upp og ofan; allt að fimmtungur fullorðinna hvítra karlmanna Suðurríkjasambandsins hafði látist í stríðinu og ekkjur „uppreisnarmanna“ áttu ekki rétt á hermannalífeyri líkt og ekkjur alríkishermanna (e. federal soldiers), en höfðu sjálfsagt ekkert færri börn og gamalmenni sem þurfti að framfleyta. Í þokkabót skorti vinnuafl á akra og í bómullarrækt. Gremja í garð stjórnvalda og Lincolns forseta var mikil enda lífsviðurværi margra íbúa Suðurríkjanna í molum. Í þessum þjóðfélagslega jarðvegi magnaðist reiði í garð blökkumanna og gat af sér öfgahópa eins og Ku Klux Klan, sem gátu ekki samþykkt það að fólk af afrískum uppruna hefði sömu réttindi og þeir, þar með talinn rétt til kosninga og þátttöku í stjórnmálum. Svo fór að alríkisyfirvöld gáfust upp á að reyna að tryggja réttindi blökkumanna þar um slóðir og aðskilnaður svartra og hvítra var yfirlýst stefna Suðurríkjanna fram yfir miðja síðustu öld.

Fordómar gagnvart blökkumönnum voru líka til staðar í Norðurríkjunum. En með þátttöku í her Norðurríkjanna gafst fyrrum þrælum þó tækifæri á að sækja um bandarískan ríkisborgararétt sem veitti þeim meðal annars kosningarétt og möguleika á að láta löggilda hjónabönd sín, sem áður höfðu ekkert lagalegt gildi. Með afnámi þrælahalds eftir borgarastríðið gafst þeim líka tækifæri til að leita uppi burtselda maka, börn, foreldra eða systkini, og sameina fjölskyldumeðlimi að nýju.

Tengt efni á vefnum (á ensku):

Heimildir:

Myndir:...