Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í allri umræðu um háskóla er hugtakið „akademískt frelsi“ ákaflega áberandi. Sérstaklega er það áberandi í þeim textum sem háskólar skilgreina sig sjálfir út frá. Það er augljóst að þeir telja þessa gerð frelsis vera eitt sitt mikilvægasta gildi og blasir það því við þar sem skólarnir eru kynntir. Það er þó ekki aðeins notað í kynningarskyni eða til að efla anda innan stofnanna, eins og oft er markmiðið þegar gildi eru tíunduð á vefsíðum og öðrum kynningarvettvangi. Í mikilvægu samstarfi háskóla hvort sem er innan lands eða utan er akademískt frelsi bæði forsenda þessa samstarfs og leiðarljós eins og glöggt má sjá í yfirlýsingum háskólarektora víða um heim.
Í allra víðasta skilningi snertir hugtakið stefnumótun og rekstur háskóla. Flest rekstrarform þessara stofnana gera ráð fyrir umtalsverðri sjálfstjórn þeirra og að þær hafi umtalsvert svigrúm frá stjórnvöldum hverju sinni og frelsi til þróast og dafna á eigin forsendum. Hér verður þó að taka fram að þessi víðasti skilningur hugtaksins getur verið harla klisjukenndur og ekki alltaf viðeigandi. Háskólar eru eins og aðrar stofnanir bundnir fjárveitingum. Opinberir háskólar verða til dæmis upp að einhverju marki að takmarkast af lýðræðislegum vilja samfélagsins og fjárveitingaþreki. Einkareknum háskólum er jafnvel enn þrengri stakkur sniðinn til að ráða eigin málum.
Í mikilvægu samstarfi háskóla hvort sem er innan lands eða utan er akademískt frelsi bæði forsenda þessa samstarfs og leiðarljós. Myndin er frá Háskólanum í Cambridge.
Réttnefndu akademísku frelsi fer því betur þrengri skilningur sem vísar ekki almennt til akademíu sem rekstrarforms efsta skólastigs. Annars vegar vísar þessi skilningur í siðferðilegt hlutverk og eðli háskóla. Háskólar eru ekki aðeins skólar sem veita prófgráður í tilteknum fögum. Ef svo væri myndum við einfaldlega hafa lagaskóla, íslenskuskóla og sálfræðiskóla. Siðferðilegur veruleiki háskóla einkennist af því að þeir eru samfélög nemenda og kennara sem leita leiða til að skilja veruleikann í gegnum rannsóknir og samræðu. Grunnhugmyndin er að ólík rannsóknarsvið styrki hvert annað og að samvera þeirra styðji þá sannleiksleit sem allir vilja sameinast um innan háskólastofnana. Í samtímanum hefur þó hrikt í þessum stoðum með aukinni markaðsvæðingu og samkeppni. Úthlutun háskólagráða er orðinn gríðarlegur iðnaður á heimsvísu og telur fólk sig sjá að hefðbundin meginviðmið um frelsi og ábyrgð, og réttindi og skyldur, háskólafólks eigi undir högg að sækja.
Þessi þrengri skilningur á akademísku frelsi á fyrst og fremst við ákveðinn hóp starfsfólks háskóla. Svonefndir akademískir starfsmenn hafa farið í gegnum ákveðna síu og sýnt fram á að þeir geta borið ábyrgð á eigin þekkingarleit og rannsóknum. Þeir geta með öðrum orðum sýnt af sér frumleika og frumkvæði í að leggja fram rannsóknarspurningar og leita leiða til að svara þeim á eigin máta sem þeir bera þá ábyrgð á. Grunnhugmynd akademísks frelsis er að vísindafólk sem komið er á þennan stað í sínum rannsóknum viti betur en nokkur annar hvort þeirra leið sé líkleg til árangurs. Það sé gerræðislegt að ætla að stýra þeirri þekkingarleit með nokkurs konar valdboði. Í þessari hugsun er einnig fólgið að gert er ráð fyrir því að það háskólafólk sem býr við akademískt frelsi hafi náð svona langt í þekkingarleit í samfélagi við jafningja og af þeim lært í opinni rökræðu um ábyrgð sína og þær siðferðilegu kröfur sem gerðar eru til háskólaborgara.
Eftir því sem háskólastofnanir hafa stækkað og veruleiki þeirra hefur orðið fjölbreyttari hefur verið brugðið á það ráð að festa hin siðferðilegu viðmið á blað þannig að allir hafi aðgang að þeim ramma sem akademískt frelsi þarf að njóta sín innan. Slíkum skráðum siðareglum er ætlað að hnykkja á þeirri ábyrgð sem háskólaborgarar bera og hvernig frelsi þeirra til rannsókna og skoðana skorðast af henni. Má til dæmis lesa um þetta í siðareglum Háskóla Íslands þar sem meðal annars eftirfarandi er tekið fram í grein um faglega samstöðu: „Kennarar og sérfræðingar verja frelsi hver annars til rannsókna og tjáningar á fræðilegri sannfæringu sinni“.
Skráðum siðareglum er ætlað að hnykkja á þeirri ábyrgð sem háskólaborgarar bera og hvernig frelsi þeirra til rannsókna og skoðana skorðast af henni.
Í samtímanum eru það tvö atriði sem einkenna kannski öðru fremur umræðuna um akademískt frelsi. Snúa þau bæði að ytri og innri takmörkunum þess. Hvað varðar ytri takmarkanir er ljóst að það að vera reiðbúinn að axla ábyrgð á eigin rannsóknum er ekki nægilegt skilyrði þess að þær geti átt sér stað. Þrátt fyrir að akademísku frelsi stafi ekki beint hætta á Vesturlöndum frá gerræðislegum stjórnvöldum sem vilja hlutast til um allar rannsóknir eru aðrar og óbeinar leiðir sem geta komið í veg fyrir að meginreglan um að sérfræðingurinn viti best hvaða rannsókn sé þess virði að gera er lögð til hliðar. Þetta er oft gert í góðum hug og talað um að lýðræðisleg stefnumótun ráði för þar sem áhersluþættir í vísindum eru dregnir fram – oft í tengslum við atvinnulíf og áhugasvið stjórnvalda. Slíkar hnippingar til að leiða rannsóknir í tilteknar áttir geta virkað sem tálmanir og skerðing á akademísku frelsi ef ekki er farið varlega.
Hvaða varðar innri takmarkanir þessa tiltekna frelsis, það er að segja þær innri siðferðilegu takmarkanir sem háskólasamfélög setja sér sjálf, hefur mest reynt á þátttöku háskólaborgara í opinberri umræðu. Spurningin sem reglulega vaknar er hversu frjálst háskólafólk er að tjá sig um álitaefni í samtímaumræðu. Það er fremur óumdeilt að sem sérfræðingar ber háskólaborgurum að taka virkan þátt í opinberri umræðu þegar hún snertir sérfræðisvið þeirra og gera það á vandaðan og málefnalegan máta. Spurningin er með öðrum orðum hvort akademískir starfsmenn geri það í krafti akademísk frelsis og hvaða fríðindi, ef svo má að orði komast, fylgja þá þeirri þátttöku í opinberri umræðu. Er ekki til dæmis djúpt í árinni tekið að kalla það árás á akademískt frelsi ef framlag háskólaborgara til tiltekinnar umræðu er gagnrýnt? Skiptir máli á hvaða vettvangi þátttakan fer fram og er almennt tjáningarfrelsi annars eðlis heldur en akademískt frelsi?
Það er ástæða til að ætla að umræða um akademískt frelsi muni taka mörgum og jafnvel óvæntum breytingum á komandi árum. Tækninýjungar og margvíslegar breytingar á æðri skólastigum munu að öllum líkindum reynast þessu grunngildi háskólastarfs mikil áskorun. Jafnvel er hugsanlegt að stórir háskólar gefi það upp á bátinn og líti á það sem áhugavert en í raun skammlíft einkenni háskólastarfs sem hafi verið óraunhæft í þeim hagræna og lýðræðislega veruleika sem við kunnum að vera að sigla núna inn í.
Myndir:
Hvað felur akademískt frelsi í sér innan Háskóla Íslands og annarra háskóla á Íslandi? Þá spyr ég sér í lagi akademískt frelsi prófessora og annara kennara.
Hugtakið „akademískt frelsi” er hugtak sem langflestir nútíma vestrænir háskólar hafa tileinkað sér, bæði fyrir nemendur og kennara innan stofnannana. Á Wikipediu stendur m.a. að "Hugmyndir um frelsi kennarans í kennslustofunni eru breytilegar frá einu landi til annars” og talið er upp hver merking orðanna er í Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum.
Mega kennarar innan háskóla á Íslandi sannfæra nemendur um sínar eigin skoðanir (t.d. trúar- og stjórnmálaskoðanir) og ráða þeir sjálfir námsefni námskeiða einir (innan ramma kennsluskár)?
Henry Alexander Henrysson. „Hvað er akademískt frelsi?“ Vísindavefurinn, 2. apríl 2019, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76867.
Henry Alexander Henrysson. (2019, 2. apríl). Hvað er akademískt frelsi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76867
Henry Alexander Henrysson. „Hvað er akademískt frelsi?“ Vísindavefurinn. 2. apr. 2019. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76867>.