Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað er borgaravitund?

Ólafur Páll Jónsson

Þegar talað er um borgaravitund er yfirleitt verið að vísa í hugmyndir fólks um hvað það sé að vera fullgildur þátttakandi í tilteknu samfélagi, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Orðið er notað í svipaðri merkingu og enska orðið citizenship og danska orðið medborgerskab. Þetta kann að virðast nokkuð klippt og skorið: að vera íslenskur borgari felur í sér íslenskan ríkisborgararétt sem tryggir fólki margvísleg skilgreind réttindi en leggur líka ýmsar skyldur á herðar þess. Borgaravitund væri þá, eftir orðanna hljóðan, vitund um að hafa slíka stöðu.

Af tvennskonar ástæðum er málið þó ekki alveg svo einfalt. Fyrra atriðið tengist seinni hluta orðsins borgaravitund, það er vitund. Um hvað er þessi vitund og hvers vegna er hún mikilvæg? Í bókinn Virðing og umhyggja segir Sigrún Aðalbjarnardóttir á einum stað: „Í raun er borgaraleg vitund hollustueiður við siðferðileg og pólitísk gildi í þágu samfélagsins“ (2007, bls. 343). Hér gerir hún ráð fyrir því að borgaravitund feli ekki einungis í sér vitund um tiltekin réttindi og skyldur, heldur felist í henni skuldbinding – hollustueiður – við tiltekin gildi sem samfélagið sé grundvallað á.

Einfalda útgáfan er að borgaravitund er vitundin um að hafa bæði réttindi og skyldur sem ríkisborgari tiltekins ríkis. Málið er þó aðeins flóknara.

Seinna atriðið tengist því að stundum er talað um borgaravitund án þess að tengja það við tiltekið ríki eða samfélag. Þegar í fornöld kom fram hugtakið heimsborgaravitund (á ensku global citizenship eða cosmopolitanism) sem gerir ráð fyrir að fólk geti verið borgarar án þess að tengja það einhverri tiltekinni borg eða ríki (á þessum tíma voru ríkin gjarnan borgríki, til dæmis Aþena og Sparta). Díógenes hundingi, sem var litlu yngri en Sókrates, róttækur heimspekingur og sumir segja fyrsti hippinn, á að hafa svarað þegar hann spurður hvaðan hann væri: „Ég er kosmopolitês,“ það er borgari heimsins (Diogenes Laertius, VI 63). Yfirleitt er litið svo á að heimsborgaravitund feli í sér hollustueið við tiltekin gildi en þá er vitaskuld ekki hægt að sækja slík gildi í sögu og menningu tiltekins samfélags eða ríkis. Þá vaknar spurningin: Hvaða gildi geta verið kjarni slíkrar borgaravitundar?

Vitundarþátturinn í borgaravitund.

Í bókinni Virðing og umhyggja segir Sigrún Aðalbjarnardóttir á einum stað:

Borgaravitund hvers og eins hlýtur að hvíla á sjálfsmynd hans og þroska á ýmsum sviðum. Ég lít svo á að verkefni sem miða að því að efla félags-, siðferðis- og tilfinningaþroska barna og unglinga og styrkja sjálfsmynd þeirra séu mikilvægur grunnur og órjúfanlegur þáttur þess að efla borgaravitund þeirra í lýðræðissamfélagi. (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007, bls. 344)

Hér tengir Sigrún borgaravitund við sjálfsmynd manneskju og félags-, siðferðis- og tilfinningaþroska hennar. Borgaravitund er þá ekki eitthvað sem fólk ýmist hefur eða hefur ekki (eins og til dæmis ríkisborgararéttur) heldur er hægt að hafa meiri eða minni borgaravitund og borgaravitund getur verið af ýmsu tagi. Þessi skilningur gæti þá gefið tilefni til að spyrja spurninga eins og: Hvað er að vera góður borgari?

Borgaravitund felst meðal annars í því að vera virkur þjóðfélagsþegn og taka ábyrgar ákvarðanir í samfélagi sínu.

Um langa hríð hefur Evrópuráðið (e. Council of Europe) unnið að eflingu menntunar til lýðræðislegrar borgaravitundar (e. education for democratic citizenship). Í þeirri vinnu er litið á borgaravitund á svipaðan hátt og Sigrún Aðalbjarnardóttir gerir, það er borgaravitundin tengist bæði sjálfsmynd, siðferðisþroska og félagsþroska. Evrópuráðið tengir borgaravitund auk þess við lýðræðisleg gildi og tiltekna lýðræðislega hæfni. Að því marki sem borgaravitund felur í sér hollustueið við tiltekin gildi eru gildin ekki lituð af þjóðernishyggju heldur er um að ræða gildi sem eru forsenda mannréttinda og lýðræðislegrar sambúðar (Council of Europe, 2018).

Borgari eða heimsborgari

Stundum er gert ráð fyrir að borgaravitund sé nauðsynlega tengd tilteknum ríkjum, og sé því hugtak sem geri ráð fyrir ákveðinni aðgreiningu. Í fornöld settu bæði Platon og Aristóteles fram slíkar hugmyndir. Við höfum áður séð hvernig Díógenes hundingi hafnaði slíkri átthagahyggju og sagðist frekar vera borgari alls heimsins. Það var þó ekki fyrr en á þriðju öld e.Kr. að hugmyndin var útfærð af stóumönnum, sem litu svo á að hver manneskja væri siðferðilega skuldbundin öllum manneskjum, hvar sem þær væru á jörðinni, jafnvel þótt eðlilegt væri að umhyggja okkar og stuðningur beindust fyrst og fremst að þeim sem nálægt okkur stæðu. Að einhverju leyti hafa þessar hugmyndir stóumanna gengið í endurnýjun lífdaga í vinnu Evrópuráðsins, enda er sú borgaravitund sem þar er lögð rækt við í senn óbundin tilteknum ríkjum eða samfélögum og leggur til grundvallar sammannleg gildi: mannréttindi og lýðræðisleg gildi sem hverfast um virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og því menningarlega og náttúrulega umhverfi sem jörðin er.

Borgaravitund eða þegnskapur

Á íslensku er stundum talað um þegnskap og þegnskaparmenntun í sömu eða svipaðri merkingu og borgaravitund eða borgaramenntun. Þótt ekki sé skýr munur á merkingu orðanna þegn og borgari, er þó stundum gerður greinarmunur á þeim sem skiptir máli í því samhengi sem hér um ræðir. Í bókinni Samfélagssáttmálinn, sem franski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau skrifaði árið 1762, segir hann á einum stað: „Þeir sem hlut eiga að máli taka sér í sameiningu nafnið þjóð og kallast borgarar í krafti hlutdeildar sinnar í fullveldisstjórninni en þegnar þegar litið er á þá sem setta undir lög ríkisins“ (Rousseau, 1762/2004, bls. 77). Aðalatriðið í greinarmuni Rousseaus á orðunum borgara og þegn varðar hlutverk fólks í stjórnun ríkisins. Það sem einkennir borgara er að hann er virkur þátttakandi í stjórn ríkisins og ber pólitíska ábyrgð, á meðan þegninn ber fyrst og fremst ábyrgð á að hlýða yfirvaldinu. Þótt það að taka ábyrgð á lýðræðislegu hlutverki sínu geri jafnan ráð fyrir því að fólk hlýði lögunum, þá geta þessi tvennskonar hlutverk stangast á. Þegar slíkt gerist getur verið réttlætanlegt að sýna borgaralega óhlýðni. Þá rækir manneskja þá borgaralegu skyldu sína að taka ábyrgð á stjórn samfélagsins með því að brjóta þá þegnskaparskyldu að hlýða yfirvaldinu.

Þegar í hlut á lýðræðisríki er því eðlilegra að tala um borgara en þegna, og sú menntun sem stuðlar að farsælu lífi bæði einstaklinganna og samfélagsins í heild er réttnefnd borgaramenntun frekar en þegnskaparmenntun (sjá Guðmundur Heiðar Frímannsson, 2018). Lykilatriðið er að fólk menntist til að taka lýðræðislega ábyrgð á því að lifa saman í samfélagi, en getur ekki varpað þeirri ábyrgð yfir á til dæmis konung eða keisara.

Heimildir:

  • Council of Europe. (2018). Reference framwork of competences for democratic culture, bindi 1 til 3. Strasburg: Council of Europe.
  • Guðmundur Heiðar Frímannsson. (2010). Heimsborgari eða heimalningur? Rannsóknir í félagsvísindum XI. Silja Bára Ómarsdóttir (ritstjóri). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Guðmundur Heiðar Frímannsson. (2018). Skólar og lýðræði: Um borgaramenntun. Reykjavík: Háskólinn á Akureyri/Háskólaútgáfan.
  • Kleingeld, Pauline. (2019). Cosmpolitanism. Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  • Rousseau, Jean-Jacques. (1762/2994). Samfélagssáttmálinn. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2007). Virðing og umhyggja: Ákall 21. aldar. Reykjavík: Heimskringla.
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2011). Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi. Reykjavík: Rannsóknarsterið Lífshættir barna og ungmenna.

Myndir:

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

1.2.2021

Spyrjandi

Arnar Logi Jónsson

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Hvað er borgaravitund?“ Vísindavefurinn, 1. febrúar 2021. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76876.

Ólafur Páll Jónsson. (2021, 1. febrúar). Hvað er borgaravitund? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76876

Ólafur Páll Jónsson. „Hvað er borgaravitund?“ Vísindavefurinn. 1. feb. 2021. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76876>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er borgaravitund?
Þegar talað er um borgaravitund er yfirleitt verið að vísa í hugmyndir fólks um hvað það sé að vera fullgildur þátttakandi í tilteknu samfélagi, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Orðið er notað í svipaðri merkingu og enska orðið citizenship og danska orðið medborgerskab. Þetta kann að virðast nokkuð klippt og skorið: að vera íslenskur borgari felur í sér íslenskan ríkisborgararétt sem tryggir fólki margvísleg skilgreind réttindi en leggur líka ýmsar skyldur á herðar þess. Borgaravitund væri þá, eftir orðanna hljóðan, vitund um að hafa slíka stöðu.

Af tvennskonar ástæðum er málið þó ekki alveg svo einfalt. Fyrra atriðið tengist seinni hluta orðsins borgaravitund, það er vitund. Um hvað er þessi vitund og hvers vegna er hún mikilvæg? Í bókinn Virðing og umhyggja segir Sigrún Aðalbjarnardóttir á einum stað: „Í raun er borgaraleg vitund hollustueiður við siðferðileg og pólitísk gildi í þágu samfélagsins“ (2007, bls. 343). Hér gerir hún ráð fyrir því að borgaravitund feli ekki einungis í sér vitund um tiltekin réttindi og skyldur, heldur felist í henni skuldbinding – hollustueiður – við tiltekin gildi sem samfélagið sé grundvallað á.

Einfalda útgáfan er að borgaravitund er vitundin um að hafa bæði réttindi og skyldur sem ríkisborgari tiltekins ríkis. Málið er þó aðeins flóknara.

Seinna atriðið tengist því að stundum er talað um borgaravitund án þess að tengja það við tiltekið ríki eða samfélag. Þegar í fornöld kom fram hugtakið heimsborgaravitund (á ensku global citizenship eða cosmopolitanism) sem gerir ráð fyrir að fólk geti verið borgarar án þess að tengja það einhverri tiltekinni borg eða ríki (á þessum tíma voru ríkin gjarnan borgríki, til dæmis Aþena og Sparta). Díógenes hundingi, sem var litlu yngri en Sókrates, róttækur heimspekingur og sumir segja fyrsti hippinn, á að hafa svarað þegar hann spurður hvaðan hann væri: „Ég er kosmopolitês,“ það er borgari heimsins (Diogenes Laertius, VI 63). Yfirleitt er litið svo á að heimsborgaravitund feli í sér hollustueið við tiltekin gildi en þá er vitaskuld ekki hægt að sækja slík gildi í sögu og menningu tiltekins samfélags eða ríkis. Þá vaknar spurningin: Hvaða gildi geta verið kjarni slíkrar borgaravitundar?

Vitundarþátturinn í borgaravitund.

Í bókinni Virðing og umhyggja segir Sigrún Aðalbjarnardóttir á einum stað:

Borgaravitund hvers og eins hlýtur að hvíla á sjálfsmynd hans og þroska á ýmsum sviðum. Ég lít svo á að verkefni sem miða að því að efla félags-, siðferðis- og tilfinningaþroska barna og unglinga og styrkja sjálfsmynd þeirra séu mikilvægur grunnur og órjúfanlegur þáttur þess að efla borgaravitund þeirra í lýðræðissamfélagi. (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007, bls. 344)

Hér tengir Sigrún borgaravitund við sjálfsmynd manneskju og félags-, siðferðis- og tilfinningaþroska hennar. Borgaravitund er þá ekki eitthvað sem fólk ýmist hefur eða hefur ekki (eins og til dæmis ríkisborgararéttur) heldur er hægt að hafa meiri eða minni borgaravitund og borgaravitund getur verið af ýmsu tagi. Þessi skilningur gæti þá gefið tilefni til að spyrja spurninga eins og: Hvað er að vera góður borgari?

Borgaravitund felst meðal annars í því að vera virkur þjóðfélagsþegn og taka ábyrgar ákvarðanir í samfélagi sínu.

Um langa hríð hefur Evrópuráðið (e. Council of Europe) unnið að eflingu menntunar til lýðræðislegrar borgaravitundar (e. education for democratic citizenship). Í þeirri vinnu er litið á borgaravitund á svipaðan hátt og Sigrún Aðalbjarnardóttir gerir, það er borgaravitundin tengist bæði sjálfsmynd, siðferðisþroska og félagsþroska. Evrópuráðið tengir borgaravitund auk þess við lýðræðisleg gildi og tiltekna lýðræðislega hæfni. Að því marki sem borgaravitund felur í sér hollustueið við tiltekin gildi eru gildin ekki lituð af þjóðernishyggju heldur er um að ræða gildi sem eru forsenda mannréttinda og lýðræðislegrar sambúðar (Council of Europe, 2018).

Borgari eða heimsborgari

Stundum er gert ráð fyrir að borgaravitund sé nauðsynlega tengd tilteknum ríkjum, og sé því hugtak sem geri ráð fyrir ákveðinni aðgreiningu. Í fornöld settu bæði Platon og Aristóteles fram slíkar hugmyndir. Við höfum áður séð hvernig Díógenes hundingi hafnaði slíkri átthagahyggju og sagðist frekar vera borgari alls heimsins. Það var þó ekki fyrr en á þriðju öld e.Kr. að hugmyndin var útfærð af stóumönnum, sem litu svo á að hver manneskja væri siðferðilega skuldbundin öllum manneskjum, hvar sem þær væru á jörðinni, jafnvel þótt eðlilegt væri að umhyggja okkar og stuðningur beindust fyrst og fremst að þeim sem nálægt okkur stæðu. Að einhverju leyti hafa þessar hugmyndir stóumanna gengið í endurnýjun lífdaga í vinnu Evrópuráðsins, enda er sú borgaravitund sem þar er lögð rækt við í senn óbundin tilteknum ríkjum eða samfélögum og leggur til grundvallar sammannleg gildi: mannréttindi og lýðræðisleg gildi sem hverfast um virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og því menningarlega og náttúrulega umhverfi sem jörðin er.

Borgaravitund eða þegnskapur

Á íslensku er stundum talað um þegnskap og þegnskaparmenntun í sömu eða svipaðri merkingu og borgaravitund eða borgaramenntun. Þótt ekki sé skýr munur á merkingu orðanna þegn og borgari, er þó stundum gerður greinarmunur á þeim sem skiptir máli í því samhengi sem hér um ræðir. Í bókinni Samfélagssáttmálinn, sem franski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau skrifaði árið 1762, segir hann á einum stað: „Þeir sem hlut eiga að máli taka sér í sameiningu nafnið þjóð og kallast borgarar í krafti hlutdeildar sinnar í fullveldisstjórninni en þegnar þegar litið er á þá sem setta undir lög ríkisins“ (Rousseau, 1762/2004, bls. 77). Aðalatriðið í greinarmuni Rousseaus á orðunum borgara og þegn varðar hlutverk fólks í stjórnun ríkisins. Það sem einkennir borgara er að hann er virkur þátttakandi í stjórn ríkisins og ber pólitíska ábyrgð, á meðan þegninn ber fyrst og fremst ábyrgð á að hlýða yfirvaldinu. Þótt það að taka ábyrgð á lýðræðislegu hlutverki sínu geri jafnan ráð fyrir því að fólk hlýði lögunum, þá geta þessi tvennskonar hlutverk stangast á. Þegar slíkt gerist getur verið réttlætanlegt að sýna borgaralega óhlýðni. Þá rækir manneskja þá borgaralegu skyldu sína að taka ábyrgð á stjórn samfélagsins með því að brjóta þá þegnskaparskyldu að hlýða yfirvaldinu.

Þegar í hlut á lýðræðisríki er því eðlilegra að tala um borgara en þegna, og sú menntun sem stuðlar að farsælu lífi bæði einstaklinganna og samfélagsins í heild er réttnefnd borgaramenntun frekar en þegnskaparmenntun (sjá Guðmundur Heiðar Frímannsson, 2018). Lykilatriðið er að fólk menntist til að taka lýðræðislega ábyrgð á því að lifa saman í samfélagi, en getur ekki varpað þeirri ábyrgð yfir á til dæmis konung eða keisara.

Heimildir:

  • Council of Europe. (2018). Reference framwork of competences for democratic culture, bindi 1 til 3. Strasburg: Council of Europe.
  • Guðmundur Heiðar Frímannsson. (2010). Heimsborgari eða heimalningur? Rannsóknir í félagsvísindum XI. Silja Bára Ómarsdóttir (ritstjóri). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Guðmundur Heiðar Frímannsson. (2018). Skólar og lýðræði: Um borgaramenntun. Reykjavík: Háskólinn á Akureyri/Háskólaútgáfan.
  • Kleingeld, Pauline. (2019). Cosmpolitanism. Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  • Rousseau, Jean-Jacques. (1762/2994). Samfélagssáttmálinn. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2007). Virðing og umhyggja: Ákall 21. aldar. Reykjavík: Heimskringla.
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2011). Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi. Reykjavík: Rannsóknarsterið Lífshættir barna og ungmenna.

Myndir:...