Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:24 • Sest 14:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:18 • Síðdegis: 21:34 í Reykjavík

Hvað voru borgríki Grikklands hið forna mörg og hver voru þau helstu?

Geir Þ. Þórarinsson

Þessari spurningu er erfitt að svara af nákvæmni af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er saga Grikklands hins forna býsna löng og ólík borgríki voru leiðandi á ólíkum tímum. Í öðru lagi er erfitt að áætla nákvæma tölu grískra borgríkja á hverjum tíma. Varðveitt er rit um stjórnskipan Aþenu, sem eignað er heimspekingnum Aristótelesi, en það er talið vera hluti af stærra rannsóknarverkefni, sem Aristóteles og samstarfsmenn hans í skólanum Lýkeion unnu að og fólst í því að safna upplýsingum um stjórnskipan 158 forngrískra borgríkja. Að öllum líkindum voru þau samt þó nokkuð fleiri. Líklega er óhætt að fullyrða að borgríki Grikklands hins forna hafi verið tæplega tvö hundruð, í það minnsta á klassískum tíma, það er að segja á fimmtu og fjórðu öld f.Kr.

Á síðbronsöld eða á tímabili, sem oftast er nefnt mýkenskur tími – frá um 1600 til um 1100 f.Kr., voru borgirnar Knossos og Fæstos á Krít og Mýkena, Tiryns og Pýlos á Pelópsskaga helstu valdamiðjur hins gríska heims. Knossos og Fæstos höfðu reyndar verið upp á sitt besta nokkru fyrr eða á miðbronsöld á tímabili, sem gjarnan er nefnt mínóískur tími og nær frá um 2100 til um 1600 f.Kr. Mínóarnir svonefndu voru raunar ekki Grikkir og töluðu hvorki grísku né annað indóevrópskt tungumál. Í kjölfar náttúruhamfara á 15. öld f.Kr. fór menning þeirra halloka og á endanum varð grískumælandi fólk, hinir svonefndu Mýkenumenn, ríkjandi. Þeirra eigin menning fór halloka undir lok 12. aldar f.Kr. (um það leyti eða skömmu eftir að setið var um Tróju). En rétt er að geta þess að gjarnan er gerður greinarmunur á borgum mínóíska og mýkenska tímans annars vegar og klassíska tímans hins vegar. Þá er oftast talað um „hallarmenningu“ mínóíska og mýkenska tímans en um borgríki um og eftir áttundu öld f.Kr.

Akrópólishæð í Aþenu nútímans. Líklega er óhætt að fullyrða að borgríki Grikklands hins forna hafi verið tæplega tvö hundruð, í það minnsta á klassískum tíma.

Þegar komið er fram á klassískan tíma á fimmtu og fjórðu öld f.Kr. má segja að fjögur borgríki hafi verið valdamest. Það voru Aþena og Sparta, sem börðust sín á milli í Pelópsskagastríðinu; og Kórinþa og Þeba. Öll voru þau á meginlandi Grikklands.

Nefna mætti margar aðrar borgir á klassíska tímanum, til dæmis Peiræevs (eða Píreus), sem var hafnarborg Aþenu og ekki sjálfstætt borgríki, Amfissu, Argos, Delfí, Elateiu, Elís, Epidáros, Farsalos, Kæróneiu, Larissu, Mantíneiu, Megöru, Nápaktos, Ólympíu, Ópús, Sikýon og Tanagra. Lengst í norðri voru Stageira, þaðan sem Aristóteles var, Abdera, Akanþos, Amfípólis, Ólynþos og Pótidaja. Kalkis og Eretría voru á eynni Evboju. Í Eyjahafi eru fjölmargar grískar eyjar, sem í flestum tilvikum mynduðu í reynd eitt borgríki hver um sig, enda þótt í sumum tilvikum væru þar formlega fleiri en eitt borgríki. Til dæmis má nefna Keos, þar sem voru borgirnar Júlis, Karþaja, Koressia og Pojessa en þær höfðu um margt svo nána samvinnu að engu var líkara en að Keos væri eitt borgríki.

Einnig má nefna Andros, Delos, Kíos, Kos, Lemnos, Paros, Samos, Skýros, Þasos og Ægína. Mýtilena var aðalborgin á eynni Lesbos og Ródos var aðalborgin á samnefndri eyju en nokkrar borgir til viðbótar voru á hvorri eyju. Á Kýpur voru borgirnar Amaþús, Idalíon, Kitíon, Lapeþos, Lindos, Sólí og Tamassos. Í Litlu-Asíu voru meðal annarra borgirnar Xanþos, Knídos, Halikarnassos, Míletos, Efesos, Kólófon, Klazómena, Smyrna og Lampsakos. Í Jónahafi, vestan við Grikkland, voru eyjurnar Kerkýra, Paxos, Íþaka, Levkas, Kefallenía og Zakýnþos. Enn vestar var Sikiley, þar sem grísku borgirnar Megara, Sýrakúsa, Akragas og Leontíní voru. Einnig voru grísk borgríki á Suður-Ítalíu og má þar nefna Krótónu, Taras, Þúríí, Eleu og vitaskuld Napólí, sem þá hét Neapólis (Nýjaborg). Einnig Kýme og Piþekúsæ. Og enn vestar, þar sem í dag er suðurströnd Frakklands, voru grísku borgríkin Massalía (í dag Marseille), Níkaja og Antípólis.

Hér sjást rústir leikhúss í Spörtu. Á klassískum tíma má segja að fjögur borgríki hafi verið valdamest, þar á meðal Sparta, en hin voru Aþena, Kórinþa og Þeba.

Á hellenískum tíma urðu til ný fræðasetur í Pergamon og Alexandríu í Egyptalandi, sem báðar urðu miðstöðvar fræðastarfa. Á norðurströnd Afríku voru líka fleiri grísk borgríki, eins og til að mynda Kýrena.

Að lokum má nefna borgina Býzantíon, sem varð valdamiðja hins grísk-rómverska heims á fjórðu öld, því árið 330 var hún gerð að höfuðborg Rómaveldis og nefnd Nova Roma eða Nýja Róm. Hún var þó yfirleit kölluð Kontantínópel, eftir Konstantínusi mikla, keisara, sem gerði hana að höfuðborg, og undir því heiti var hún áfram höfuðborg Austrómverska ríkisins (eða Býsansríkisins) allt til ársins 1453.

Nú hafa verið nefndar margar af helstu borgum Grikklands hins forna en eins og gefur að skilja er upptalningin þó engan veginn tæmandi. Í stuttu máli má segja að borgríki Grikklands hafi til forna verið tæplega tvö hundruð eða þar um bil og þau helstu hafi á klassískum tíma verið Aþena, Sparta, Kórinþa og Þeba.

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

24.1.2013

Spyrjandi

Matthías Birgisson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað voru borgríki Grikklands hið forna mörg og hver voru þau helstu?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2013. Sótt 8. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=29993.

Geir Þ. Þórarinsson. (2013, 24. janúar). Hvað voru borgríki Grikklands hið forna mörg og hver voru þau helstu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=29993

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað voru borgríki Grikklands hið forna mörg og hver voru þau helstu?“ Vísindavefurinn. 24. jan. 2013. Vefsíða. 8. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=29993>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað voru borgríki Grikklands hið forna mörg og hver voru þau helstu?
Þessari spurningu er erfitt að svara af nákvæmni af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er saga Grikklands hins forna býsna löng og ólík borgríki voru leiðandi á ólíkum tímum. Í öðru lagi er erfitt að áætla nákvæma tölu grískra borgríkja á hverjum tíma. Varðveitt er rit um stjórnskipan Aþenu, sem eignað er heimspekingnum Aristótelesi, en það er talið vera hluti af stærra rannsóknarverkefni, sem Aristóteles og samstarfsmenn hans í skólanum Lýkeion unnu að og fólst í því að safna upplýsingum um stjórnskipan 158 forngrískra borgríkja. Að öllum líkindum voru þau samt þó nokkuð fleiri. Líklega er óhætt að fullyrða að borgríki Grikklands hins forna hafi verið tæplega tvö hundruð, í það minnsta á klassískum tíma, það er að segja á fimmtu og fjórðu öld f.Kr.

Á síðbronsöld eða á tímabili, sem oftast er nefnt mýkenskur tími – frá um 1600 til um 1100 f.Kr., voru borgirnar Knossos og Fæstos á Krít og Mýkena, Tiryns og Pýlos á Pelópsskaga helstu valdamiðjur hins gríska heims. Knossos og Fæstos höfðu reyndar verið upp á sitt besta nokkru fyrr eða á miðbronsöld á tímabili, sem gjarnan er nefnt mínóískur tími og nær frá um 2100 til um 1600 f.Kr. Mínóarnir svonefndu voru raunar ekki Grikkir og töluðu hvorki grísku né annað indóevrópskt tungumál. Í kjölfar náttúruhamfara á 15. öld f.Kr. fór menning þeirra halloka og á endanum varð grískumælandi fólk, hinir svonefndu Mýkenumenn, ríkjandi. Þeirra eigin menning fór halloka undir lok 12. aldar f.Kr. (um það leyti eða skömmu eftir að setið var um Tróju). En rétt er að geta þess að gjarnan er gerður greinarmunur á borgum mínóíska og mýkenska tímans annars vegar og klassíska tímans hins vegar. Þá er oftast talað um „hallarmenningu“ mínóíska og mýkenska tímans en um borgríki um og eftir áttundu öld f.Kr.

Akrópólishæð í Aþenu nútímans. Líklega er óhætt að fullyrða að borgríki Grikklands hins forna hafi verið tæplega tvö hundruð, í það minnsta á klassískum tíma.

Þegar komið er fram á klassískan tíma á fimmtu og fjórðu öld f.Kr. má segja að fjögur borgríki hafi verið valdamest. Það voru Aþena og Sparta, sem börðust sín á milli í Pelópsskagastríðinu; og Kórinþa og Þeba. Öll voru þau á meginlandi Grikklands.

Nefna mætti margar aðrar borgir á klassíska tímanum, til dæmis Peiræevs (eða Píreus), sem var hafnarborg Aþenu og ekki sjálfstætt borgríki, Amfissu, Argos, Delfí, Elateiu, Elís, Epidáros, Farsalos, Kæróneiu, Larissu, Mantíneiu, Megöru, Nápaktos, Ólympíu, Ópús, Sikýon og Tanagra. Lengst í norðri voru Stageira, þaðan sem Aristóteles var, Abdera, Akanþos, Amfípólis, Ólynþos og Pótidaja. Kalkis og Eretría voru á eynni Evboju. Í Eyjahafi eru fjölmargar grískar eyjar, sem í flestum tilvikum mynduðu í reynd eitt borgríki hver um sig, enda þótt í sumum tilvikum væru þar formlega fleiri en eitt borgríki. Til dæmis má nefna Keos, þar sem voru borgirnar Júlis, Karþaja, Koressia og Pojessa en þær höfðu um margt svo nána samvinnu að engu var líkara en að Keos væri eitt borgríki.

Einnig má nefna Andros, Delos, Kíos, Kos, Lemnos, Paros, Samos, Skýros, Þasos og Ægína. Mýtilena var aðalborgin á eynni Lesbos og Ródos var aðalborgin á samnefndri eyju en nokkrar borgir til viðbótar voru á hvorri eyju. Á Kýpur voru borgirnar Amaþús, Idalíon, Kitíon, Lapeþos, Lindos, Sólí og Tamassos. Í Litlu-Asíu voru meðal annarra borgirnar Xanþos, Knídos, Halikarnassos, Míletos, Efesos, Kólófon, Klazómena, Smyrna og Lampsakos. Í Jónahafi, vestan við Grikkland, voru eyjurnar Kerkýra, Paxos, Íþaka, Levkas, Kefallenía og Zakýnþos. Enn vestar var Sikiley, þar sem grísku borgirnar Megara, Sýrakúsa, Akragas og Leontíní voru. Einnig voru grísk borgríki á Suður-Ítalíu og má þar nefna Krótónu, Taras, Þúríí, Eleu og vitaskuld Napólí, sem þá hét Neapólis (Nýjaborg). Einnig Kýme og Piþekúsæ. Og enn vestar, þar sem í dag er suðurströnd Frakklands, voru grísku borgríkin Massalía (í dag Marseille), Níkaja og Antípólis.

Hér sjást rústir leikhúss í Spörtu. Á klassískum tíma má segja að fjögur borgríki hafi verið valdamest, þar á meðal Sparta, en hin voru Aþena, Kórinþa og Þeba.

Á hellenískum tíma urðu til ný fræðasetur í Pergamon og Alexandríu í Egyptalandi, sem báðar urðu miðstöðvar fræðastarfa. Á norðurströnd Afríku voru líka fleiri grísk borgríki, eins og til að mynda Kýrena.

Að lokum má nefna borgina Býzantíon, sem varð valdamiðja hins grísk-rómverska heims á fjórðu öld, því árið 330 var hún gerð að höfuðborg Rómaveldis og nefnd Nova Roma eða Nýja Róm. Hún var þó yfirleit kölluð Kontantínópel, eftir Konstantínusi mikla, keisara, sem gerði hana að höfuðborg, og undir því heiti var hún áfram höfuðborg Austrómverska ríkisins (eða Býsansríkisins) allt til ársins 1453.

Nú hafa verið nefndar margar af helstu borgum Grikklands hins forna en eins og gefur að skilja er upptalningin þó engan veginn tæmandi. Í stuttu máli má segja að borgríki Grikklands hafi til forna verið tæplega tvö hundruð eða þar um bil og þau helstu hafi á klassískum tíma verið Aþena, Sparta, Kórinþa og Þeba.

Myndir:

...