Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað eru íslensk stjórnvöld að gera varðandi loftslagsbreytingar?
Íslensk stjórnvöld vinna að loftslagsmálum á margvíslegan hátt. Stjórnvöld taka þátt í alþjóðlegri samvinnu og bera ábyrgð á skuldbindingum Íslands í alþjóðasamningum. Stjórnvöld gera áætlanir um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Sinna þarf rannsóknum og vöktun og búa íslenskt samfélag undir að aðlagast breytingum sem verða. Hér verður sagt nánar frá þessum helstu verkefnum og stjórntækjum, svo sem lögum og reglugerðum, hagrænum stjórntækjum, áætlunum og fræðslu.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænt vandamál og það þarf hnattrænt átak og samvinnu til að bregðast við. Ísland er eins og nær öll ríki heims aðili að Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1992 og Parísarsamningnum frá 2015. Þar samþykktu ríki heims að draga úr losun til að tryggja að hlýnun héldist innan við 2°C og helst innan við 1,5°C. Stjórnvöld fara með málflutning fyrir Íslands hönd á fundum Loftslagssamningsins og vinna að því að uppfylla skuldbindingar Íslands heima fyrir. Ríkisstjórnin hefur að auki sett sér það markmið að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, sem þýðir að losun að frádreginni kolefnisbindingu verði engin.
Stjórnvöld setja töluleg markmið um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, sem dæmi með auknum útgjöldum til skógræktar og landgræðslu, sem binda kolefni úr andrúmslofti.
Mestu skiptir fyrir árangur í loftslagsmálum að draga úr losun koltvíildis og annarra gróðurhúsalofttegunda. Stjórnvöld setja töluleg markmið um samdrátt í losun og vinna eftir aðgerðaáætlun til að ná þeim markmiðum. Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hér á landi leit dagsins ljós haustið 2018. Í henni eru tilteknar 34 aðgerðir. Megináherslurnar eru tvær: Annars vegar orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum. Hins vegar átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki og markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis. Í aðgerðaáætluninni eru einnig aðgerðir tengdar úrgangsmálum, landbúnaði, sjávarútvegi, fræðslu og fleira. Enn aðrar aðgerðir felast í nýsköpun, þar sem sérstakur Loftslagssjóður verður stofnaður, aðrar aðgerðir snúa til dæmis að útfösun flúorgasa og átaki gegn matarsóun.
Vorið 2018 komu stjórnvöld á fót Loftslagsráði sem er ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi. Loftslagsráð er sjálfstætt í sínum störfum og leitast við að leiða saman krafta ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs, vísindasamfélagsins og almennings.
Flestar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eru framkvæmdar innanlands, en sumar eru í samvinnu við önnur ríki. Stóriðja og flugrekstur taka til dæmis þátt í evrópsku viðskiptakerfi með losunarheimildir. Það þýðir að sú starfsemi borgar fyrir losun sína, sem aftur hvetur til aðgerða til að draga úr henni. Íslensk stjórnvöld hafa líka stutt aðgerðir sem draga úr losun erlendis, ekki síst með uppbyggingu jarðhitavirkjana í Austur-Afríku og víðar. Jarðhita- og Landgræðsluskólar Sameinuðu þjóðana eru starfræktir hér á landi og þjálfa upp sérfræðinga frá þróunarríkjum til að vinna að aðgerðum sem draga úr losun.
Stjórnvöld hafa þrisvar látið gera vísindaskýrslur um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag á Íslandi. Í nýjustu skýrslunni kemur meðal annars fram að loftslagsbreytingar leiða til hopunar jökla.
Stjórnvöld hafa þrisvar látið gera vísindaskýrslur um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag á Íslandi. Nýjasta skýrslan var gefin út 2018. Þar kemur meðal annars fram að loftslagsbreytingar leiða til hopunar jökla, aukinnar útbreiðslu gróðurs og súrnunar sjávar, sem getur haft alvarleg áhrif á lífríki hafsins í framtíðinni. Skýrslurnar hjálpa stjórnvöldum og öðrum við að undirbúa sig fyrir breytingar og í bígerð er að vinna sérstaka aðlögunaráætlun fyrir Ísland.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið ber ábyrgð á mótun og framkvæmd stefnu Íslands í loftslagsmálum og fer með þátttöku Íslands í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Aðgerðir í loftslagsmálum eru þó unnar í samvinnu margra ráðuneyta, enda varða loftslagsmál samgöngur, landnotkun og marga atvinnuvegi. Einnig hafa stjórnvöld samráð við sveitarfélög og aðila utan stjórnkerfisins.
Ísland stendur að sumu leyti vel í loftslagsmálum. Rafmagn og húshitun fást með endurnýjanlegum orkugjöfum, en ekki með bruna á kolum og olíu eins og víða. Losun á hvern íbúa á Íslandi er hins vegar mikil. Okkur ber skylda til að draga úr losun, svo hægt sé að halda hlýnun lofthjúpsins innan samþykktra marka. Stjórnvöld bera ábyrgð á þætti Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu og setja lög og áætlanir til að draga úr losun, en árangur næst tæplega nema með samstilltu átaki fjölmargra aðila. Þar hjálpar til að mikil vakning hefur orðið á Íslandi á stuttum tíma um loftslagsmál og meðvitund fólks um verkefnið fram undan stóraukist.
Myndir:
Hugi Ólafsson. „Hvað eru íslensk stjórnvöld að gera í loftslagsmálum?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2019, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76910.
Hugi Ólafsson. (2019, 12. júní). Hvað eru íslensk stjórnvöld að gera í loftslagsmálum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76910
Hugi Ólafsson. „Hvað eru íslensk stjórnvöld að gera í loftslagsmálum?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2019. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76910>.