Hvað er hlýnun jarðar? Getið þið sagt eitthvað nýtt um það? Af hverju er þetta að gerast? Og hverjar eru afleiðingarnar?Hlýnun jarðar er óumdeilanleg og mælingar benda til þess að síðustu áratugi hafi hlýnun numið um 0,17-0,19°C á áratug. Í svari við spurningunni Hvers vegna hlýnar nú á jörðinni? útskýrir Helgi Björnsson þessa þróun svo:
Loftslag hlýnar vegna þess að lofthjúpur jarðar gleypir stöðugt meiri varmageislun frá jörðu. Svokallaðar gróðurhúsalofttegundir gleypa geislunina svo hitinn sleppur ekki út úr lofthjúpnum. Mælingar sýna að síðastliðin 150 ár hefur andrúmsloftið orðið stöðugt þéttari sæng utan um jörðina.Það er einkum bruni jarðefnaeldsneytis, svo sem olíu og bensíns, sem hefur aukið styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Parísarsamkomulagið, sem aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna gerðu með sér árið 2015, miðar við að þjóðirnar vinni að því að hægja á hnattrænni hlýnun jarðar með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verði losun þeirra mikil gæti hlýnun í kringum Ísland numið meira en 4°C við lok þessarar aldar, sem er upp undir tvöfalt hærra en markmið Parísarsamkomulagsins. Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar (2018) kemur ýmislegt fram um þróun loftslagsmála og hvaða áhrif sú þróun geti haft á og umhverfis Ísland. Hér verður farið yfir nokkur atriði skýrslunnar en við bendum áhugasömum lesendum einnig á að lesa skýrsluna í heild sinni. Íslenskir jöklar hafa dregist saman um nálægt 2000 km2 síðan í lok 19. aldar, þegar þeir náðu flestir mestri útbreiðslu. Á þessari öld hefur samdrátturinn numið rúmlega 500 km2 eða um 0.35% á ári. Dæmi um slíkt er Okjökull í samnefndu fjalli í Borgarfirði, sem fyrir rúmri öld var um 15 ferkílómetrar og meira en 50 metra þykkur. Árið 2014 var hann afskráður sem jökull þar sem ekki var annað eftir en þunnir, sundurlausir ísflákar.

Mynd tekin árið 2003. Okjökull, sem um aldamótin 1900 var um 15 ferkílómetrar, hafði þá rýrnað niður í um 4 ferkílómetra og árið 2012 mældist hann ekki nema 0,7 ferkílómetrar.
- Greinin er að mestu unnin upp úr skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar. Veðurstofa Íslands, 2018.
- Mynd af Okjökli: Oddur Sigurðsson.
- Bláskel: Cornish mussels eftir Mark A. Wilson. (Sótt 18.5.2018.)
- Hnúfubakur: Humpback Whale, breaching eftir Whit Welles. (Sótt 18.5.2018.) Myndin er birt undir leyfi GNU Free Documentation License.
- Býfluga: Biene beim Pollensammeln auf Löwenzahn eftir Glibber23. (Sótt 18.5.2018.) Myndin er birt undir leyfi Creative Commons CC0 1.0.