Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í umfjöllun um fornaldarsögur (samanber einnig fornaldarsögur Norðurlanda) er mikilvægt að hafa í huga hversu fjölbreyttar sögurnar eru og hversu illa þær falla að skýrt afmörkuðum tegundamörkum. Það er því sitthvað að fjalla um sögurnar sem bókmenntagrein eða þá efnivið sagnanna, upptök hans, þróun og endurnýjun. Þótt ytri búningur efnisins taki eðlilega breytingum í aldanna rás eru fornaldarsögurnar í eðli sínu hin norræna birtingarmynd evrópskrar hetjusaganahefðar. Sem lifandi hefð, fljótandi og síbreytileg, runnu þær sitt langa skeið og aðlögun þeirra að ríkjandi tíðaranda hverju sinni hefur ávallt verið samofin varðveislu þeirra.
Þessi fjölbreytilegi bakgrunnur fornaldarsagna veldur því að umræðan um aldur þeirra getur verið allflókin, enda er hún viðamikil og tengist hugmyndum um upphaf íslenskrar sagnaritunar í víðara samhengi. Ekki eru til dæmis allir á eitt sáttir um nákvæmlega hvenær ritun fornaldarsagna hófst en nýlegar rannsóknir benda þó til þess að það muni hafa verið í upphafi 13. aldar, með þeim fyrirvara þó að skráning fornaldarsagnaefnis hafi tíðkast í einhverri mynd áður. Hér gæti til dæmis verið um að ræða stakar frásagnareiningar í tengslum við ritun hinna elstu konungasagna þegar á síðari hluta 12. aldar og stuttar prósaklausur sem notaðar voru til stuðnings við efni eddukvæða. Augljóst er að hinar elstu fornaldarsögur voru ritaðar á 13. öld, en flestar voru sögurnar þó skráðar á 14. öld, þótt þær allra yngstu hafi ef til vill orðið til sem bókmenntaverk nokkru síðar.[1]
Þar sem fornaldarsögur voru að jafnaði samþættar úr eldra jafnt sem yngra efni, voru nýjar sögur ósjaldan mótaðar á grunni gamalla kvæða og munnmæla. Það er því hvorki hægt að segja að efniviður allra fornaldarsagna sé einber uppspuni né íslenskur að upplagi, enda byggir hann, fyrst og fremst, á arfsögnum eða sagnasjóði sem var að grunni til sameiginlegur íbúum á stórum svæðum Norður-Evrópu og snerti annars vegar fortíð Norðurlandabúa og hins vegar germanskra þjóða og þjóðarbrota í víðara samhengi. Að stærstum hluta eru sögurnar þó bundnar við Norðurlönd, og í raun má segja að það hetjusagnaefni sem barst norðureftir frá suðlægari svæðum hafi samofist því norræna sagnaefni sem fyrir var – ekki einungis með staðfærslu af hendi Norðurlandabúa, heldur fyrst og fremst með samlögun við þá sagnahefð sem hafði lifað í munnlegri geymd, í hugum fólks og hjörtum, kynslóð fram af kynslóð.
Starkaður gamli er persóna í Hervarar sögu og Heiðreks og Gautreks sögu og um hann er einnig fjallað í Danmerkursögu eftir Saxo Grammaticus. Myndin sýnir Starkað eins og hann birtist á norðurlandakorti Olaus Magnus frá 1539.
Miðað við þann samnorræna kjarna sem vissulega einkennir fornaldarsögur væri eðlilegt að spyrja hvers vegna ritun þeirra, eða sambærilegra bókmennta, hafi einungis átt sér stað á Íslandi, en ekki meðal annarra Norðurlandaþjóða einnig (samanber Mitchell 1997: 229). Hér má að vísu undanskilja Gesta Danorum, eða Danmerkursögu þá sem Saxo Grammaticus skráði á latínu um 1200, og felur í sér skylt efni, þótt meðferð þess sé að mörgu leyti gjörólík, enda gegndi hún frá upphafi annars konar hlutverki en fornaldarsögurnar íslensku. Að þessu frátöldu er fátt sem bendir til þess að fornaldarsagnaritun hafi átt sér stað meðal annarra norrænna þjóða. Á hinn bóginn setti efniviðurinn mark sitt á norræna sagnadansa; hin svokölluðu kappakvæði sem voru sungin undir dansi. Kappakvæðin, sem eru nú flest varðveitt í Færeyjum og Noregi, eru þó yngri en fornaldarsögurnar, enda af mörgum talin afsprengi bókmenntanna. Gróft á litið má segja að varðveisla norrænna texta sem fela í sér fornaldarsagnaefni skiptist þannig eftir löndum:
Ísland: Forn kveðskapur, lærð sagnaritun, fornaldarsögur, rímur og að einhverju leyti þjóðkvæði.
Noregur: Fáein forn kvæði, ef til vill Þiðreks saga af Bern og sagnadansar.
Svíþjóð: Didrikskrönikan (ef til vill þýðing Þiðreks sögu af Bern) og fáeinir sagnadansar.
Danmörk: Fáeinir annálar, Danmerkursaga e. Saxo Grammaticus og sagnadansar.
Færeyjar: Sagnadansar.
Líkt og sjá má varðveittist hinn efnislegi kjarni fornaldarsagna með einhverjum hætti á norræna mál- og menningarsvæðinu gjörvöllu, en skiljanlega þó ekki meðal Finna sem tjáðu sig á ólíkri tungu um ólíkar hetjur sem voru að mörgu leyti framandi nágrönnum þeirra í Skandinavíu. Auk varðveittra texta eru til myndbrot á borð við steinristur, tréristur og vefnað sem tengjast efni sagnanna.
Eins og orðið „fornaldarsögur“ gefur til kynna eiga sögurnar að gerast í fornöld. Carl Christian Rafn, sem gaf Fornaldar sögur Nordrlanda út árin 1829–30, skilgreindi sögusvið og -tíma einfaldlega sem svo að sögurnar ættu að gerast: „... hèr á N o r ð r l ö n d u m, áðr enn Island bygðist á 9du öld“ (Rafn 1829–30: I v). Að jafnaði er rétt að halda sig við þessi tímamörk, það er að sögurnar eigi sér stað fyrir landnámstíð, enda má segja að fornaldarsögurnar séu að vissu leyti sögur Íslendinga um forfeður sína. Þær fela í sér endurlit, þar sem ungt samfélag lítur um öxl, meðvitað um að í nýjum heimi vilji það umfram allt ekki gleyma rótum sínum, jafnvel þótt sveipaðar séu þoku og meiri ævintýramennsku en margur var með góðu móti tilbúinn að trúa.
Að þessu marki gátu arfsögur á borð við fornaldarsögur uppfrætt fólk og viðhaldið þekkingu þess um fortíðina. Söguhetjurnar voru táknrænar birtingarmyndir forfeðra þeirra og í sögunum tóku sigrar þeirra og ósigrar sér form í átökum einstaklinga og myndrænum bardagasenum. Í þessum skilningi eru fornaldarsögurnar ekki svo fjarlægar fólkinu, menningu þess og lífsgildum, en augljóslega hafa þær þó markast af hinni fjarlægu fortíð. Að því leyti eru þær sambærilegar sögum annarra þjóða og þjóðabrota sem flust hafa frá heimahögum sínum, að með tímanum sveipast ljómi um fortíðina og allt það sem í henni býr; hetjurnar verða hraustari, afrek þeirra stærri og furður og fjölkynngi setja mark sitt á söguefnið. Af þessum sökum gátu atburðir sem ótækt hefði verið að heimfæra upp á sögur úr samtíma fólks auðveldlega fundið sér farveg í fornaldarsögum.
Hinar elstu fornaldarsögur eiga rætur að rekja til eldri kveðskapar. Völsunga saga byggist til að mynda mjög á hetjukvæðum Eddu, sem að jafnaði eru talin ort á 9. öld og fram til 13. aldar, en sjálf byggjast eddukvæðin svo á enn eldra kvæða- eða sagnaefni. Á það hefur einnig verið bent að rekja megi kjarna nokkurra fornaldarsagna eða söguhetja til sögulegra atburða eða höfðingja. Í núverandi mynd endurspegla sögurnar þó ekki staðreyndir, og í flestum tilvikum eru atburðir sagnanna með öðrum hætti en frá segir í fornum sagnaritum; engu að síður, þá fela þær í sér minningar og endurvarp liðinna tíma.
Dauði Hervarar, sem sagt er frá í Hervarar sögu og Heiðreks. Málverk eftir norska málarann Peter Nicolai Arbo (1831-1892).
Það sem lifir í fornaldarsögunum og á rætur að rekja til eldra efnis eru oftar en ekki frásagnir eða frásagnareiningar af söguhetjum, og þarf varla að koma á óvart að þær hetjur sem öðluðust nýtt líf í fornaldarsögunum, jafnframt því að koma við sögu í skáldskap og sagnaritum annarra þjóða, er einkum að finna í „elstu“ sögunum, það er þeim sem fyrst voru færðar í letur. Um er að ræða allar helstu persónur Völsunga sögu, auk hetja úr Ásmundar sögu kappabana, Egils sögu einhenda og Ásmundar berserkjabana, Gautreks sögu, Göngu-Hrólfs sögu, Hálfs sögu og Hálfsrekka, Hervarar sögu og Heiðreks, Héðins sögu og Högna (Sörla þáttar), Hrólfs sögu kraka, Ragnars sögu loðbrókar, Þætti af Ragnars sonum og Örvar-Odds sögu. Listinn er ekki tæmandi og tekur mið af því hvaða sögur eru taldar til fornaldarsagna og hversu afgerandi tengsl þeirra við eldri heimildir eru. Það er þó rétt að hafa í huga að sá samnorræni og -germanski kjarni sem um ræðir myndar ekki bein efnisleg tengsl við allar þær sögur sem taldar eru til fornaldarsagna, heldur einungis hluta þeirra. Aðrar íslenskar fornaldarsögur, um það bil tvöfalt til þrefalt fleiri, tengjast arfinum að því leyti að þær byggjast á eldri sögunum og sækja í sambærilegan hugmyndaheim, efnivið og minnaforða, og margar þeirra fela í sér bein efnisleg tengsl við hinar eldri. Hér er ekki einungis um að ræða að þær yngri feli í sér tilvísun í þær eldri, heldur getur verið að hetjur yngri sagnanna komi fyrir sem aukapersónur í þeim eldri, eða þá að þær eru sagðar afkomendur hetja úr eldri sögum.
Fyrst og fremst, þá bera fornaldarsögurnar með sér hugmyndir um þá tíma þegar unnið var úr enn eldri efnivið, og sú söguskoðun sem í þeim birtist getur þar að auki falið í sér vísbendingar um þróun og framgang munnmæla, jafnt sem hugsanagang og hugmyndaheim þeirra sem unnu með arfinn. Einkum er áhugavert að athuga með hvaða hætti söguefnið breytist og hvers eðlis úrvinnsla hetjusagnahefðarinnar er; hverjar tilhneigingar hennar eru og með hvaða hætti efniviðurinn mótast. Hvernig verður hetjan til og úr hvaða kjarna? Hvernig verður kjarninn að sögn og með hvaða hætti lifði sögnin svo áfram í hugum fólks. Hvers konar birtingarmynd tók hún sér í gegnum tíðina og hvernig var leið hennar að hinu fullskapaða bókmenntaverki, fornaldarsögunni?
Að öllu samanlögðu er stutta svarið við spurningunni á þann veg að fornaldarsögur urðu til sem bókmenntagrein á miðöldum, sem afsprengi ritmenningar. Eitt helsta einkenni sagnanna er sögusvið þeirra og tenging við aldagömul kvæði og munnmæli. Fornaldarsögur varpa þó ekki einungis ljósi á fólk úr fortíðinni, heldur á mannlegt eðli almennt séð, eða veruleika mannsins, eins og hann er túlkaður á hverjum tíma fyrir sig. Miðað við vinsældir fornaldarsagna er ljóst að þær höfðuðu til fólks, kynslóð eftir kynslóð, og áttu við þær erindi.
Neðanmálsgrein:
^ Um upphaf fornaldarsagnaritunar, sjá Torfi H. Tulinius 1993: 187–88.
Mitchell, Stephen A. Courts, Consorts, and the Transformation of Medieval Scandinavian Literature. Germanic Studies in Honor of Anatoly Liberman. Nowele 31/32: 229–241.
Saxo Grammaticus. 2005. Gesta Danorum. Danmarkshistorien I–II. Útg. Karsten Friis-Jensen. Þýð. Peter Zeeberg. København: Det Danske Sprog- og Litteraturselskab & Gads Forlag.
Torfi H. Tulinius. 1993. Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum. Íslensk bókmenntasaga II. Ritstj. Vésteinn Ólason. Reykjavík: Mál og menning. Bls. 165–245.
Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvenær og af hverju urðu fornaldarsögur til?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2019, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77073.
Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2019, 21. febrúar). Hvenær og af hverju urðu fornaldarsögur til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77073
Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvenær og af hverju urðu fornaldarsögur til?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2019. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77073>.