Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er hatursræða?

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova

Hatursræða (e. hate speech) er flókið hugtak og ekki er til nein ein alþjóðlega viðurkennd skilgreining eða skilningur á því. Eigi að síður hefur þróunin orðið sú, með lögum, í dómaframkvæmd og í fræðiskrifum, að sá skaði og sú hætta, sem stafar af ákveðinni tjáningu, er alþjóðlega viðurkennd. Þannig hafa bæði á alþjóðlegum sem og svæðisbundnum vettvangi verið gerðar allmargar tilraunir til þess að taka á vandamálinu sem og að skilgreina hugtakið sjálft. Þrátt fyrir að flest ríki hafi sett lög sem banna tjáningu sem jafnast á við hatursræðu þá er oft mikill munur á því sem skilgreint er sem brot á lögunum.[1]

Aðeins í tilmælum ráðherraráðs Evrópuráðsins nr. 97(20) er að finna nokkurs konar skilgreiningu á hatursræðu. Þar segir meðal annars að hatursræða sé:
öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri/óvæginni þjóðræknisstefnu/þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur einnig fjallað um hatursræðu án þess þó að skilgreina hana sérstaklega en hann hefur vísað til hennar sem:
hvers konar tjáningar, munnlegrar eða skriflegrar, sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir hatur sem byggir á umburðarleysi (einnig vegna trúarbragða).[2]

Að koma auga á hatursræðu getur stundum verið erfiðleikum bundið, þar sem hún getur verið „falin“ í setningu eða staðhæfingum sem við fyrstu sýn geta virst rökréttar og eðlilegar. Samt sem áður geta ákveðin lykilatriði eða viðmið verið til staðar sem auðvelda okkur að koma auga á hatursræðu. Sé rýnt í alþjóðleg lagaákvæði og meginreglur í dómafordæmum og viðeigandi fræðirit um hatursræðu er ljóst að ákveðin grundvallaratriði verða að vera til staðar til að tjáning verði talin brotleg og flokkist sem slík:
 • Það verður að standa ásetningur til þess að ýta undir hatur á ákveðnum hóp.
 • Hvatning/áskorun verður að vera til staðar.
 • Orsakasamband – mismunandi er hvort afleiðingar þurfa að hafa komið fram eða hvort aðeins verði að telja líklegt að tjáning hafi ákveðnar afleiðingar. [3]

Það eru því í raun ekki aðeins orðin sjálf sem afmarka það hvort um hatursræðu sé að ræða eða ekki. Skoða þarf hvert tilvik fyrir sig og skoða sérstaklega hver ásetningur geranda er og hver áhrif tjáningarinnar eru líkleg til að verða.[4]

Hatursræða á grundvelli kynþáttar eða trúarbragða ákveðinna hópa er sá áróður sem almenningur verður mest var við en þetta eru langt í frá einu hóparnir sem verða fyrir aðkasti í orðum og/eða verki. Þeir hópar samfélagsins sem hatursræða getur beinst að eru meðal annars fólk frá Afríku/Asíu eða af afrískum/asískum uppruna, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og „transgender“ einstaklingar, innflytjendur, ýmsir þjóðernishópar, trúarhópar, konur (einkum femínistar), börn, fólk með fötlun og aðrir minnihlutahópar samfélagsins. Það er nokkuð misjafnt innan Evrópu hvaða hópa um ræðir en margir þeirra hafa sætt mismunun óralengi líkt og sagan hefur sýnt.[5]

Hatursræða á grundvelli kynþáttar eða trúarbragða ákveðinna hópa er sá áróður sem almenningur verður mest var. Á myndinni sjást konur frá Tadjourah í Djibútí.

Erfitt hefur reynst að sporna gegn hatursræðu þar sem gerendur fela sig oft á bak við frelsi til nafnlausrar tjáningar og telja hana jafnframt fela í sér heimild til að niðurlægja aðra. Gerendur eru margs konar, fullorðnir og börn, opinberir starfsmenn, blaðamenn sem og meðlimir og forsprakkar ýmiss konar andfélagslegra hópa.[6] Þá getur einn minnihlutahópur sem þola þarf hatursræðu viðhaft hana gegn öðrum minnihlutahópi sem hatursræða beinist einnig að. Hatursræða getur haft meira vægi og áhrif þegar hún stafar frá áhrifamönnum, svo sem stjórnmálamönnum, blaða- og fréttamönnum, kennurum og fleirum sem tjá skoðanir sínar og viðhorf á opinberum vettvangi. Vegna stöðu þessara einstaklinga setja þeir ákveðin viðmið og birta ákveðnar staðalímyndir fyrir aðra í samfélaginu. Þegar um hatursáróður er að ræða eru viðmiðin og staðalímyndirnar oftast ýmsar neikvæðar staðhæfingar um tiltekinn hóp fólks. Í skýrslu sem Evrópunet gegn kynþáttahatri (ENAR) tók saman um kynþáttofbeldi og stuðning við þolendur, segir þetta:
[...) með því að þeir aðilar sem eiga að endurspegla tilfinningar og trú hins „góða og gegna manns“ samþykki og stuðli að fordómum er verið að ráðast beint á samheldni samfélagsins.[7]
Átökin sem brutust út í Kenía eftir forsetakosningar þar í landi í lok árs 2007 eru gott dæmi um áhrifamátt hatursáróðurs áhrifamanna í þjóðfélaginu. Þar juku stjórnmálamenn, fyrirfólk í þjóðfélaginu og fjölmiðlar á spennuna sem hafði myndast á meðal almennings eftir kosningarnar með því að dreifa áróðri og hvetja til skipulagningar og framkvæmdar ofbeldisverka.[8] Einnig eru hörmungarnar sem áttu sér stað í Rúanda árið 1994 eitt alvarlegasta dæmið um afleiðingar hatursáróðurs. Eftir stanslausan áróður og hvatningu til ofbeldis gegn Tútsí-ættbálknum í fjölmiðlum, frá stjórnvöldum og yfirmönnum hersins, varð niðurstaðan þjóðarmorð þar sem um 500 þúsund til milljón manns létu lífið.[9]

Á síðastliðnum árum hefur Internetið orðið vettvangur hatursræðu og það er í auknum mæli notað til dreifingar á hatursáróðri. Internetið hefur gert fleiri aðilum kleift að ná til fjölda fólks á skömmum tíma án mikillar fyrirhafnar. Hatursræða á Internetinu (e. Hate speech online, Cyber hate) er ein tegund haturs og hefur verið skilgreind sem:
sérhver notkun á fjarskiptatækni til þess að dreifa gyðingahatri, kynþáttahatri, ofstæki, skilaboðum eða upplýsingum um öfga- eða hryðjuverk. Með fjarskiptatækni er átt við internetið (vefsíður, samfélagsvefi, bloggsíður, stefnumótasíður, netleikjasíður, tölvupóst, spjallskilaboð) auk annars tölvu- og farsíma-upplýsingatæknibúnaðar.[10]

Internetið hefur reynst tiltölulega ódýr og áhrifaríkur vettvangur fordómafullra einstaklinga og hópa til að dreifa hatursfullum hugmyndum til þúsunda og jafnvel milljóna viðtakenda.[11] Birtingarmyndir hatursræðu á Internetinu eru margs konar, svo sem hatursvefsíður, bloggsíður, athugasemdir í athugasemdakerfum fjölmiðla, spjallsíður, tölvupóstar, leikjasíður, samfélagsvefir, myndbönd, tónlist og svo framvegis. Vinsælasta hatursefnið á Internetinu hefur verið yfirburðir hvítra, ógnanir við litað fólk og gyðinga, ný-nasismi og afneitun á helförinni.[12] Websense, bandarískt veföryggiskerfi, segist fylgjast með um 15 þúsund haturssíðum og síðum herskárra öfgahópa, og að fjöldi slíkra vefsíðna hafi þrefaldast á árinu 2009.[13]

Internetið hefur reynst tiltölulega ódýr og áhrifaríkur vettvangur fordómafullra einstaklinga og hópa til að dreifa hatursfullum hugmyndum til þúsunda og jafnvel milljóna viðtakenda.

Samkvæmt árlegri skýrslu Simon Weisenthal-stofnunarinnar um stafrænt hatur og kynþáttahatur fjölgar slíkum síðum sífellt. Nú á dögum eru samfélagsmiðlar einnig nýttir til hins ýtrasta og þá sérstaklega Twitter.[14] Öfgahópar sem viðhafa hatursræðu á Netinu eru vel að sér í tæknimálum, vel skipulagðir og duglegir við nýliðun. Þeir skoða meðal annars neyslumynstur fólks á Netinu til að ná til þess, til dæmis þeirra sem treysta ekki almennum fjölmiðlum. En það eru ekki aðeins öfgahópar sem viðhafa hatursræðu á Netinu, heldur einnig einstaklingar, „venjulegt“ fólk. Til að bregðast við þessu vaxandi vandamáli hafa verið haldnar ráðstefnur, settar á fót vitundarvakningar og önnur verkefni sem öll miða að því að berjast gegn fordómum og mismunun í orðræðu á Internetinu. Var þetta gert til gera almenning og stjórnvöld í löndunum meðvituð um það vandamál sem hatursræða og -áróður á Internetinu í raun og veru er og að þörf sé á að grípa til aðgerða.[15]

Það hefur reynst erfitt bæði á innlendum sem alþjóðlegum vettvangi að koma einhverjum böndum á hatursræðu á Internetinu þar sem þeir aðilar sem nota Internetið í þessum tilgangi leita allra leiða til að komast hjá lögum og reglum, til dæmis vista þeir vefsíður í löndum sem hafa takmarkaða löggjöf um notkun Internetsins og fela sig í skjóli nafnleysis.

Tilvísanir:
 1. ^ Weber, A.: Manual on hate speech. Evrópuráðið: Strassborg, september 2009, bls. 3.
 2. ^ Mannréttindadómstóll Evrópu, Gündüz gegn Tyrklandi, 4. desember 2003 (35071/97), 40. mgr.; Mannréttindadómstóll Evrópu, Erbakan gegn Tyrklandi, 6. júlí 2006, (59405/00), 56. mgr.
 3. ^ Toby Mendel: “ Hate speech rules under International Law”, bls. 4-10.
 4. ^ Weber, A.: Manual on hate speech. Evrópuráðið: Strassborg, september 2009, bls. 33-41.
 5. ^ European Network Against Racism (ENAR): Racist Violence and Support to Victims [Fact sheet No. 42], bls. 1; sjá einnig Jeannine Bell: “Restraining the Heartless: Racist Speech and Minority Rights ”. Indiana Law Journal, 2009, 84 (3), bls. 963–979.
 6. ^ European Network Against Racism (ENAR): Racist violence and support to victims [Fact sheet No. 42], bls. 1.
 7. ^ European Network Against Racism (ENAR): Racist violence and support to victims [Fact sheet No. 42], bls. 3.
 8. ^ Philip Justice: „Waki Commission Report on Post-Election Violence in Kenya“, frá 15. október 2008.
 9. ^ William Schabas, A.: „Hate Speech in Rwanda: The Road to Genocide“. McGill Law Journal, nóvember 2000, 46 (1), bls. 141–171.
 10. ^ Anti?Defamation League. Responding to cyber hate: The ADL toolkit. New York, ágúst 2010.
 11. ^ Endanleg tillaga að rammaákvörðun ráðsins COM(2001) nr. 664 um varnir gegn kynþáttahatri og útlendingahatri frá 2001, greinargerð (Explanatory Memorandum), bls. 5.
 12. ^ Yulia A. Timofeeva: Hate speech online: Restricted or Protected? Comparison of Regulations in the United States and Germany [meistararitgerð]. Journal of Transnational Law and Policy, 12. tbl. : Flórída 2003, bls. 253–86.
 13. ^ Ellen Messmer: “ Racism, hate, militancy sites proliferating via social networking ”. Network World [netmiðill] 29. maí 2009.
 14. ^ Jam Kotenko; According to a new report, Twitter is a breeding ground for terrorism and hate speech, Digital Trends [veftímarit] 10. maí 2013.
 15. ^ Sjá t.d. Mannréttindaskrifstofa Bretlands: Young People Combating Hate Speech On-line: Mapping study on projects against hates speech online. Evrópuráðið: Strassborg, 15. apríl 2012.


Þetta svar er hluti úr skýrslunni Hatursorðræða – Yfirlit yfir gildandi lög og reglur – ábendingar til framtíðar sem Mannréttindaskrifstofa Íslands gaf út 2013. Textinn hefur aðeins verið aðlagaður Vísindavefnum og birtur hér með góðfúslegu leyfi skrifstofunnar.

Myndir:

Höfundar

Iuliana Kalenikova

MA í lögfræði

Útgáfudagur

7.11.2019

Spyrjandi

Erlingur Þorsteinsson

Tilvísun

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova. „Hvað er hatursræða?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2019. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77419.

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova. (2019, 7. nóvember). Hvað er hatursræða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77419

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova. „Hvað er hatursræða?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2019. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77419>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er hatursræða?
Hatursræða (e. hate speech) er flókið hugtak og ekki er til nein ein alþjóðlega viðurkennd skilgreining eða skilningur á því. Eigi að síður hefur þróunin orðið sú, með lögum, í dómaframkvæmd og í fræðiskrifum, að sá skaði og sú hætta, sem stafar af ákveðinni tjáningu, er alþjóðlega viðurkennd. Þannig hafa bæði á alþjóðlegum sem og svæðisbundnum vettvangi verið gerðar allmargar tilraunir til þess að taka á vandamálinu sem og að skilgreina hugtakið sjálft. Þrátt fyrir að flest ríki hafi sett lög sem banna tjáningu sem jafnast á við hatursræðu þá er oft mikill munur á því sem skilgreint er sem brot á lögunum.[1]

Aðeins í tilmælum ráðherraráðs Evrópuráðsins nr. 97(20) er að finna nokkurs konar skilgreiningu á hatursræðu. Þar segir meðal annars að hatursræða sé:
öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri/óvæginni þjóðræknisstefnu/þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur einnig fjallað um hatursræðu án þess þó að skilgreina hana sérstaklega en hann hefur vísað til hennar sem:
hvers konar tjáningar, munnlegrar eða skriflegrar, sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir hatur sem byggir á umburðarleysi (einnig vegna trúarbragða).[2]

Að koma auga á hatursræðu getur stundum verið erfiðleikum bundið, þar sem hún getur verið „falin“ í setningu eða staðhæfingum sem við fyrstu sýn geta virst rökréttar og eðlilegar. Samt sem áður geta ákveðin lykilatriði eða viðmið verið til staðar sem auðvelda okkur að koma auga á hatursræðu. Sé rýnt í alþjóðleg lagaákvæði og meginreglur í dómafordæmum og viðeigandi fræðirit um hatursræðu er ljóst að ákveðin grundvallaratriði verða að vera til staðar til að tjáning verði talin brotleg og flokkist sem slík:
 • Það verður að standa ásetningur til þess að ýta undir hatur á ákveðnum hóp.
 • Hvatning/áskorun verður að vera til staðar.
 • Orsakasamband – mismunandi er hvort afleiðingar þurfa að hafa komið fram eða hvort aðeins verði að telja líklegt að tjáning hafi ákveðnar afleiðingar. [3]

Það eru því í raun ekki aðeins orðin sjálf sem afmarka það hvort um hatursræðu sé að ræða eða ekki. Skoða þarf hvert tilvik fyrir sig og skoða sérstaklega hver ásetningur geranda er og hver áhrif tjáningarinnar eru líkleg til að verða.[4]

Hatursræða á grundvelli kynþáttar eða trúarbragða ákveðinna hópa er sá áróður sem almenningur verður mest var við en þetta eru langt í frá einu hóparnir sem verða fyrir aðkasti í orðum og/eða verki. Þeir hópar samfélagsins sem hatursræða getur beinst að eru meðal annars fólk frá Afríku/Asíu eða af afrískum/asískum uppruna, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og „transgender“ einstaklingar, innflytjendur, ýmsir þjóðernishópar, trúarhópar, konur (einkum femínistar), börn, fólk með fötlun og aðrir minnihlutahópar samfélagsins. Það er nokkuð misjafnt innan Evrópu hvaða hópa um ræðir en margir þeirra hafa sætt mismunun óralengi líkt og sagan hefur sýnt.[5]

Hatursræða á grundvelli kynþáttar eða trúarbragða ákveðinna hópa er sá áróður sem almenningur verður mest var. Á myndinni sjást konur frá Tadjourah í Djibútí.

Erfitt hefur reynst að sporna gegn hatursræðu þar sem gerendur fela sig oft á bak við frelsi til nafnlausrar tjáningar og telja hana jafnframt fela í sér heimild til að niðurlægja aðra. Gerendur eru margs konar, fullorðnir og börn, opinberir starfsmenn, blaðamenn sem og meðlimir og forsprakkar ýmiss konar andfélagslegra hópa.[6] Þá getur einn minnihlutahópur sem þola þarf hatursræðu viðhaft hana gegn öðrum minnihlutahópi sem hatursræða beinist einnig að. Hatursræða getur haft meira vægi og áhrif þegar hún stafar frá áhrifamönnum, svo sem stjórnmálamönnum, blaða- og fréttamönnum, kennurum og fleirum sem tjá skoðanir sínar og viðhorf á opinberum vettvangi. Vegna stöðu þessara einstaklinga setja þeir ákveðin viðmið og birta ákveðnar staðalímyndir fyrir aðra í samfélaginu. Þegar um hatursáróður er að ræða eru viðmiðin og staðalímyndirnar oftast ýmsar neikvæðar staðhæfingar um tiltekinn hóp fólks. Í skýrslu sem Evrópunet gegn kynþáttahatri (ENAR) tók saman um kynþáttofbeldi og stuðning við þolendur, segir þetta:
[...) með því að þeir aðilar sem eiga að endurspegla tilfinningar og trú hins „góða og gegna manns“ samþykki og stuðli að fordómum er verið að ráðast beint á samheldni samfélagsins.[7]
Átökin sem brutust út í Kenía eftir forsetakosningar þar í landi í lok árs 2007 eru gott dæmi um áhrifamátt hatursáróðurs áhrifamanna í þjóðfélaginu. Þar juku stjórnmálamenn, fyrirfólk í þjóðfélaginu og fjölmiðlar á spennuna sem hafði myndast á meðal almennings eftir kosningarnar með því að dreifa áróðri og hvetja til skipulagningar og framkvæmdar ofbeldisverka.[8] Einnig eru hörmungarnar sem áttu sér stað í Rúanda árið 1994 eitt alvarlegasta dæmið um afleiðingar hatursáróðurs. Eftir stanslausan áróður og hvatningu til ofbeldis gegn Tútsí-ættbálknum í fjölmiðlum, frá stjórnvöldum og yfirmönnum hersins, varð niðurstaðan þjóðarmorð þar sem um 500 þúsund til milljón manns létu lífið.[9]

Á síðastliðnum árum hefur Internetið orðið vettvangur hatursræðu og það er í auknum mæli notað til dreifingar á hatursáróðri. Internetið hefur gert fleiri aðilum kleift að ná til fjölda fólks á skömmum tíma án mikillar fyrirhafnar. Hatursræða á Internetinu (e. Hate speech online, Cyber hate) er ein tegund haturs og hefur verið skilgreind sem:
sérhver notkun á fjarskiptatækni til þess að dreifa gyðingahatri, kynþáttahatri, ofstæki, skilaboðum eða upplýsingum um öfga- eða hryðjuverk. Með fjarskiptatækni er átt við internetið (vefsíður, samfélagsvefi, bloggsíður, stefnumótasíður, netleikjasíður, tölvupóst, spjallskilaboð) auk annars tölvu- og farsíma-upplýsingatæknibúnaðar.[10]

Internetið hefur reynst tiltölulega ódýr og áhrifaríkur vettvangur fordómafullra einstaklinga og hópa til að dreifa hatursfullum hugmyndum til þúsunda og jafnvel milljóna viðtakenda.[11] Birtingarmyndir hatursræðu á Internetinu eru margs konar, svo sem hatursvefsíður, bloggsíður, athugasemdir í athugasemdakerfum fjölmiðla, spjallsíður, tölvupóstar, leikjasíður, samfélagsvefir, myndbönd, tónlist og svo framvegis. Vinsælasta hatursefnið á Internetinu hefur verið yfirburðir hvítra, ógnanir við litað fólk og gyðinga, ný-nasismi og afneitun á helförinni.[12] Websense, bandarískt veföryggiskerfi, segist fylgjast með um 15 þúsund haturssíðum og síðum herskárra öfgahópa, og að fjöldi slíkra vefsíðna hafi þrefaldast á árinu 2009.[13]

Internetið hefur reynst tiltölulega ódýr og áhrifaríkur vettvangur fordómafullra einstaklinga og hópa til að dreifa hatursfullum hugmyndum til þúsunda og jafnvel milljóna viðtakenda.

Samkvæmt árlegri skýrslu Simon Weisenthal-stofnunarinnar um stafrænt hatur og kynþáttahatur fjölgar slíkum síðum sífellt. Nú á dögum eru samfélagsmiðlar einnig nýttir til hins ýtrasta og þá sérstaklega Twitter.[14] Öfgahópar sem viðhafa hatursræðu á Netinu eru vel að sér í tæknimálum, vel skipulagðir og duglegir við nýliðun. Þeir skoða meðal annars neyslumynstur fólks á Netinu til að ná til þess, til dæmis þeirra sem treysta ekki almennum fjölmiðlum. En það eru ekki aðeins öfgahópar sem viðhafa hatursræðu á Netinu, heldur einnig einstaklingar, „venjulegt“ fólk. Til að bregðast við þessu vaxandi vandamáli hafa verið haldnar ráðstefnur, settar á fót vitundarvakningar og önnur verkefni sem öll miða að því að berjast gegn fordómum og mismunun í orðræðu á Internetinu. Var þetta gert til gera almenning og stjórnvöld í löndunum meðvituð um það vandamál sem hatursræða og -áróður á Internetinu í raun og veru er og að þörf sé á að grípa til aðgerða.[15]

Það hefur reynst erfitt bæði á innlendum sem alþjóðlegum vettvangi að koma einhverjum böndum á hatursræðu á Internetinu þar sem þeir aðilar sem nota Internetið í þessum tilgangi leita allra leiða til að komast hjá lögum og reglum, til dæmis vista þeir vefsíður í löndum sem hafa takmarkaða löggjöf um notkun Internetsins og fela sig í skjóli nafnleysis.

Tilvísanir:
 1. ^ Weber, A.: Manual on hate speech. Evrópuráðið: Strassborg, september 2009, bls. 3.
 2. ^ Mannréttindadómstóll Evrópu, Gündüz gegn Tyrklandi, 4. desember 2003 (35071/97), 40. mgr.; Mannréttindadómstóll Evrópu, Erbakan gegn Tyrklandi, 6. júlí 2006, (59405/00), 56. mgr.
 3. ^ Toby Mendel: “ Hate speech rules under International Law”, bls. 4-10.
 4. ^ Weber, A.: Manual on hate speech. Evrópuráðið: Strassborg, september 2009, bls. 33-41.
 5. ^ European Network Against Racism (ENAR): Racist Violence and Support to Victims [Fact sheet No. 42], bls. 1; sjá einnig Jeannine Bell: “Restraining the Heartless: Racist Speech and Minority Rights ”. Indiana Law Journal, 2009, 84 (3), bls. 963–979.
 6. ^ European Network Against Racism (ENAR): Racist violence and support to victims [Fact sheet No. 42], bls. 1.
 7. ^ European Network Against Racism (ENAR): Racist violence and support to victims [Fact sheet No. 42], bls. 3.
 8. ^ Philip Justice: „Waki Commission Report on Post-Election Violence in Kenya“, frá 15. október 2008.
 9. ^ William Schabas, A.: „Hate Speech in Rwanda: The Road to Genocide“. McGill Law Journal, nóvember 2000, 46 (1), bls. 141–171.
 10. ^ Anti?Defamation League. Responding to cyber hate: The ADL toolkit. New York, ágúst 2010.
 11. ^ Endanleg tillaga að rammaákvörðun ráðsins COM(2001) nr. 664 um varnir gegn kynþáttahatri og útlendingahatri frá 2001, greinargerð (Explanatory Memorandum), bls. 5.
 12. ^ Yulia A. Timofeeva: Hate speech online: Restricted or Protected? Comparison of Regulations in the United States and Germany [meistararitgerð]. Journal of Transnational Law and Policy, 12. tbl. : Flórída 2003, bls. 253–86.
 13. ^ Ellen Messmer: “ Racism, hate, militancy sites proliferating via social networking ”. Network World [netmiðill] 29. maí 2009.
 14. ^ Jam Kotenko; According to a new report, Twitter is a breeding ground for terrorism and hate speech, Digital Trends [veftímarit] 10. maí 2013.
 15. ^ Sjá t.d. Mannréttindaskrifstofa Bretlands: Young People Combating Hate Speech On-line: Mapping study on projects against hates speech online. Evrópuráðið: Strassborg, 15. apríl 2012.


Þetta svar er hluti úr skýrslunni Hatursorðræða – Yfirlit yfir gildandi lög og reglur – ábendingar til framtíðar sem Mannréttindaskrifstofa Íslands gaf út 2013. Textinn hefur aðeins verið aðlagaður Vísindavefnum og birtur hér með góðfúslegu leyfi skrifstofunnar.

Myndir:...