Sólin Sólin Rís 03:46 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:11 • Síðdegis: 18:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:13 • Síðdegis: 12:17 í Reykjavík

Hvaða drykkjarumbúðir eru umhverfisvænastar á Íslandi: plast, ál eða gler?

Sævar Helgi Bragason

Fjölmargir hafa spurt Vísindavefinn um þetta og ein spurningin hljóðaði svona í heild sinni:
Hvort er umhverfisvænna að kaupa og neyta drykkjarfanga úr plasti, áli eða gleri á íslandi? (Ekkert af þessu er væntanlega endurunnið hér en plastið sent út til brennslu, álið endurunnið og glerið brotið?)

Umhverfisvænustu drykkjarumbúðirnar eru þær sem notaðar eru aftur og aftur. Umhverfisvænast er þó vitaskuld að sleppa alfarið einnota drykkjarumbúðum og nota margnota í staðinn. En það er ekki alltaf möguleiki vilji maður drekka eitthvað annað en kranavatnið.

Lífsferilsgreiningar sem gerðar hafa verið á kolefnisspori einnota drykkjarumbúða sem notaðar eru á Íslandi sýna að áldósir hafa lægsta kolefnissporið, þegar tekið er tillit til núverandi endurvinnsluhlutfalls. PET-plastflöskur[1] hafa næst minnsta kolefnissporið en glerflöskur stærsta. Sé plastflaskan þó að helmingi úr nýju plasti og helmingi endurunnu, minnkar kolefnisspor umbúðanna talsvert og getur þá verið minna en kolefnisspor áldósar.

Allar drykkjarumbúðir skilja eftir sig spor en misstór.

Hversu umhverfisvænar einnota drykkjarumbúðir eru veltur á ýmsu, svo sem hversu hráefnafrekar umbúðirnar eru, jarðraskinu sem verður þegar hráefnin eru sótt og unnin, vatnsnotkuninni sem fylgir framleiðslunni, magni úrgangs sem vinnslan skilur eftir sig og svo auðvitað orkunotkuninni.

Allar drykkjarumbúðir skilja eftir sig spor en misstór. Tómar hálfs lítra plastflöskur eru mun léttari en glerflöskur og ögn léttari en áldósir af sömu stærð. Plastflöskur eru því léttari í flutningum heimshorna á milli en tómar áldósir og glerflöskur. Það skilar sér í minni olíunotkun.

Plastflöskur eru hins vegar búnar til úr olíuafurðum sem voru sóttar með talsverðri fyrirhöfn og umhverfisáhrifum. Afar mikilvægt er að koma plastflöskum í endurvinnslu eftir notkun því plast sem ekki ratar í rétt endurvinnsluferli hefur önnur skaðleg áhrif á umhverfið. Plast brotnar mjög seint og illa niður í umhverfinu, jafnvel á mörg hundruð árum hið minnsta og þá í örplastagnir sem gætu verið skaðlegar lífi. Í náttúrunni er sífellt algengara að finna dýr með magafylli af plasti. Plastflaskan á sér þó ekki framhaldslíf sem önnur plastflaska, að minnsta kosti ekki jafn góð plastflaska. Plast missir nefnilega gæði við hverja endurvinnslu. Endurunnið plast er sjaldan jafn gott og nýtt plast.

Ál og aðrir málmar eru þess eðlis að hægt er að endurvinna þá aftur og aftur án þess að gæðin verði lakari. Endurvinnsla málma er auk þess miklu orkuminna ferli en frumframleiðslan. Frumframleiðsla áls hefur líka í för með sér mikið jarðrask og stundum umtalsverða efnamengun. Endurvinnsla á áldós kemur því í veg fyrir frekara jarðrask. Því ættu málmar alltaf að rata í endurvinnslu en aldrei í urðun.

Sumir telja að gos í gleri sé betra en annað. En út frá umhverfissjónarmiðum ætti frekar að velja annars konar drykkjarumbúðir.

Mikla orku og háan hita þarf til að framleiða glerflöskur. Því stærri og þyngri sem glerflaskan er, því meiri eru umhverfisáhrifin. Þess vegna er kolefnisspor glerflaskna jafnan stórt, stærra en bæði áldósa og plastflaskna. Á Íslandi og raunar víða um heim er ódýrara að kaupa eða framleiða nýtt gler en að endurvinna það. Gler er aftur á móti steinefni sem nýta má í landfyllingar. Á Íslandi hefur gler ekki verið endurunnið árum saman en í apríl 2021 var samþykkt frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjarvöruumbúða sem hefur það í för með sér að hægt verður að endurvinna gler í takt við hringrásarhagkerfið.

Fyrir algengustu stærðir drykkjarumbúða er kolefnissporið sem hér segir, samkvæmt upplýsingum frá verkfræðistofunni Eflu:

33 cl
PET-plastflaska78 g CO2-ígildi
Áldós58 g CO2-ígildi
Glerflaska 101 g CO2-ígildi
50 cl
PET-plastflaska78 g CO2-ígildi
rPET-plastflaska (50%)51 g CO2-ígildi
Áldós74 g CO2-ígildi
Glerflaska135 g CO2-ígildi

Niðurstaðan er því sú að „umhverfisskást“ er að velja drykk sem framleiddur er á Íslandi í endurunninni áldós eða plastflösku sem er að helmingi úr endurunnu plasti (merkt rPET).

Tilvísun:
  1. ^ Plast er búið til úr ýmsum fjölliðum sem því miður hafa ekki íslensk heiti. Algengt er að nota enskar skammstafnir á þessum fjölliðum og PET stendur fyrir polyethylene terephthalate.

Heimildir og myndir:

Höfundur þakkar sérfræðingum Umhverfisstofnunar og Stefáni Gíslasyni umhverfisstjórnunarfræðingi fyrir yfirlestur.

Auður spurði: Af hverju er minnstur umhverfissóðaskapur: að neyta drykkja úr umbúðum úr gleri, plasti eða áli, að því gefnu að umbúðirnar fari í endurvinnslu eftir notkun og að teknu tilliti til uppruna umbúðanna og flutningi hingað til lands?

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

20.5.2021

Spyrjandi

Magna Rúnarsdóttir, Auður Alfífa Ketilsdóttir, Selma Rebekka Kattoll, Ragnheiður Kristín Steindórsdóttir

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Hvaða drykkjarumbúðir eru umhverfisvænastar á Íslandi: plast, ál eða gler?“ Vísindavefurinn, 20. maí 2021. Sótt 23. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77582.

Sævar Helgi Bragason. (2021, 20. maí). Hvaða drykkjarumbúðir eru umhverfisvænastar á Íslandi: plast, ál eða gler? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77582

Sævar Helgi Bragason. „Hvaða drykkjarumbúðir eru umhverfisvænastar á Íslandi: plast, ál eða gler?“ Vísindavefurinn. 20. maí. 2021. Vefsíða. 23. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77582>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða drykkjarumbúðir eru umhverfisvænastar á Íslandi: plast, ál eða gler?
Fjölmargir hafa spurt Vísindavefinn um þetta og ein spurningin hljóðaði svona í heild sinni:

Hvort er umhverfisvænna að kaupa og neyta drykkjarfanga úr plasti, áli eða gleri á íslandi? (Ekkert af þessu er væntanlega endurunnið hér en plastið sent út til brennslu, álið endurunnið og glerið brotið?)

Umhverfisvænustu drykkjarumbúðirnar eru þær sem notaðar eru aftur og aftur. Umhverfisvænast er þó vitaskuld að sleppa alfarið einnota drykkjarumbúðum og nota margnota í staðinn. En það er ekki alltaf möguleiki vilji maður drekka eitthvað annað en kranavatnið.

Lífsferilsgreiningar sem gerðar hafa verið á kolefnisspori einnota drykkjarumbúða sem notaðar eru á Íslandi sýna að áldósir hafa lægsta kolefnissporið, þegar tekið er tillit til núverandi endurvinnsluhlutfalls. PET-plastflöskur[1] hafa næst minnsta kolefnissporið en glerflöskur stærsta. Sé plastflaskan þó að helmingi úr nýju plasti og helmingi endurunnu, minnkar kolefnisspor umbúðanna talsvert og getur þá verið minna en kolefnisspor áldósar.

Allar drykkjarumbúðir skilja eftir sig spor en misstór.

Hversu umhverfisvænar einnota drykkjarumbúðir eru veltur á ýmsu, svo sem hversu hráefnafrekar umbúðirnar eru, jarðraskinu sem verður þegar hráefnin eru sótt og unnin, vatnsnotkuninni sem fylgir framleiðslunni, magni úrgangs sem vinnslan skilur eftir sig og svo auðvitað orkunotkuninni.

Allar drykkjarumbúðir skilja eftir sig spor en misstór. Tómar hálfs lítra plastflöskur eru mun léttari en glerflöskur og ögn léttari en áldósir af sömu stærð. Plastflöskur eru því léttari í flutningum heimshorna á milli en tómar áldósir og glerflöskur. Það skilar sér í minni olíunotkun.

Plastflöskur eru hins vegar búnar til úr olíuafurðum sem voru sóttar með talsverðri fyrirhöfn og umhverfisáhrifum. Afar mikilvægt er að koma plastflöskum í endurvinnslu eftir notkun því plast sem ekki ratar í rétt endurvinnsluferli hefur önnur skaðleg áhrif á umhverfið. Plast brotnar mjög seint og illa niður í umhverfinu, jafnvel á mörg hundruð árum hið minnsta og þá í örplastagnir sem gætu verið skaðlegar lífi. Í náttúrunni er sífellt algengara að finna dýr með magafylli af plasti. Plastflaskan á sér þó ekki framhaldslíf sem önnur plastflaska, að minnsta kosti ekki jafn góð plastflaska. Plast missir nefnilega gæði við hverja endurvinnslu. Endurunnið plast er sjaldan jafn gott og nýtt plast.

Ál og aðrir málmar eru þess eðlis að hægt er að endurvinna þá aftur og aftur án þess að gæðin verði lakari. Endurvinnsla málma er auk þess miklu orkuminna ferli en frumframleiðslan. Frumframleiðsla áls hefur líka í för með sér mikið jarðrask og stundum umtalsverða efnamengun. Endurvinnsla á áldós kemur því í veg fyrir frekara jarðrask. Því ættu málmar alltaf að rata í endurvinnslu en aldrei í urðun.

Sumir telja að gos í gleri sé betra en annað. En út frá umhverfissjónarmiðum ætti frekar að velja annars konar drykkjarumbúðir.

Mikla orku og háan hita þarf til að framleiða glerflöskur. Því stærri og þyngri sem glerflaskan er, því meiri eru umhverfisáhrifin. Þess vegna er kolefnisspor glerflaskna jafnan stórt, stærra en bæði áldósa og plastflaskna. Á Íslandi og raunar víða um heim er ódýrara að kaupa eða framleiða nýtt gler en að endurvinna það. Gler er aftur á móti steinefni sem nýta má í landfyllingar. Á Íslandi hefur gler ekki verið endurunnið árum saman en í apríl 2021 var samþykkt frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjarvöruumbúða sem hefur það í för með sér að hægt verður að endurvinna gler í takt við hringrásarhagkerfið.

Fyrir algengustu stærðir drykkjarumbúða er kolefnissporið sem hér segir, samkvæmt upplýsingum frá verkfræðistofunni Eflu:

33 cl
PET-plastflaska78 g CO2-ígildi
Áldós58 g CO2-ígildi
Glerflaska 101 g CO2-ígildi
50 cl
PET-plastflaska78 g CO2-ígildi
rPET-plastflaska (50%)51 g CO2-ígildi
Áldós74 g CO2-ígildi
Glerflaska135 g CO2-ígildi

Niðurstaðan er því sú að „umhverfisskást“ er að velja drykk sem framleiddur er á Íslandi í endurunninni áldós eða plastflösku sem er að helmingi úr endurunnu plasti (merkt rPET).

Tilvísun:
  1. ^ Plast er búið til úr ýmsum fjölliðum sem því miður hafa ekki íslensk heiti. Algengt er að nota enskar skammstafnir á þessum fjölliðum og PET stendur fyrir polyethylene terephthalate.

Heimildir og myndir:

Höfundur þakkar sérfræðingum Umhverfisstofnunar og Stefáni Gíslasyni umhverfisstjórnunarfræðingi fyrir yfirlestur.

Auður spurði: Af hverju er minnstur umhverfissóðaskapur: að neyta drykkja úr umbúðum úr gleri, plasti eða áli, að því gefnu að umbúðirnar fari í endurvinnslu eftir notkun og að teknu tilliti til uppruna umbúðanna og flutningi hingað til lands?

...