Sólin Sólin Rís 09:04 • sest 18:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:35 • Sest 10:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:58 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:23 • Síðdegis: 23:25 í Reykjavík

Hvað er eldský?

Sigurður Steinþórsson

Eldský[1] (brímaský) er heitt, nánast glóandi flóð úr eldfjallagufum og gjósku sem geysist með ofsahraða (allt að 500 km/klst) niður hlíðar eldfjalls.

Í eldgosi þeytist glóðheit eldfjallagufa upp úr gígnum. Vegna hitans er hún eðlisléttari en andrúmsloftið og stígur því upp — í Heklugosinu 1947 náði gosmökkurinn 30 km hæð. Hin hraðstreymandi eldfjallagufa ber með sér smáar og stórar glóandi kvikuagnir (gjósku) sem vindurinn grípur og dreifir yfir landið sem gjóskulagi. Við sérstakar aðstæður gerist það hins vegar þegar burðargetu gosmakkarins þrýtur að hann fellur saman, hrynur niður á eldfjallið og blanda af gasi og gjósku streymir eins og vökvi væri niður hlíðarnar.

Eldský æðir niður hlíðar eldfjallsins Mayon á Filippseyjum árið 1984.

Eldfjallafræðingar gera greinarmun á tvenns konar eldskýjum eftir myndunarhætti: gjóskuflóði og gusthlaupi. Dæmi um hið fyrrnefnda varð á eynni Martinique í Karíbahafi 1902 þegar gjóskuflóð frá eldfjallinu Pelée gereyddi hafnarborginni Saint Pierre. Nýlegt dæmi um eina tegund hins síðarnefnda varð í Washington-ríki Bandaríkjanna 1980 þegar fjallið St. Helens hrundi og gosrásin sendi frá sér lárétt gusthlaup með nánast hljóðhraða sem eyddi í einu vetfangi öllu lífi innan 13 kílómetra fjarlægðar í straumstefnuna.

Gjóskuflóð í stórgosum skilja eftir sig berg sem á íslensku nefnist flikruberg.[2] Sem betur fer hafa slík gos ekki orðið hér á landi í ein 70.000 ár, en dæmi um flikruberg tengt fornum eldstöðvum má sjá í Þórsmörk (úr Tindfjöllum), hjá Húsafelli, á Sólheimaheiði og í Berufirði austur (kennt við Skessu).

Til frekari fróðleiks má benda á Ármann Höskuldsson 2013. Gjóskustraumar, bls. 144 í Náttúruvá á Íslandi. Útg. Viðlagatrygging Íslands / Háskólaútgáfan.

Tilvísanir:
  1. ^ fr. nuée ardenté = glóandi ský, brímaský; e. pyroclastic flow = gjóskuflóð.
  2. ^ e. ignimbrite, welded tuff = sambrædd gjóska

Mynd:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

12.9.2019

Spyrjandi

Arnar Elvarsson

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er eldský?“ Vísindavefurinn, 12. september 2019. Sótt 21. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77918.

Sigurður Steinþórsson. (2019, 12. september). Hvað er eldský? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77918

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er eldský?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2019. Vefsíða. 21. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77918>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er eldský?
Eldský[1] (brímaský) er heitt, nánast glóandi flóð úr eldfjallagufum og gjósku sem geysist með ofsahraða (allt að 500 km/klst) niður hlíðar eldfjalls.

Í eldgosi þeytist glóðheit eldfjallagufa upp úr gígnum. Vegna hitans er hún eðlisléttari en andrúmsloftið og stígur því upp — í Heklugosinu 1947 náði gosmökkurinn 30 km hæð. Hin hraðstreymandi eldfjallagufa ber með sér smáar og stórar glóandi kvikuagnir (gjósku) sem vindurinn grípur og dreifir yfir landið sem gjóskulagi. Við sérstakar aðstæður gerist það hins vegar þegar burðargetu gosmakkarins þrýtur að hann fellur saman, hrynur niður á eldfjallið og blanda af gasi og gjósku streymir eins og vökvi væri niður hlíðarnar.

Eldský æðir niður hlíðar eldfjallsins Mayon á Filippseyjum árið 1984.

Eldfjallafræðingar gera greinarmun á tvenns konar eldskýjum eftir myndunarhætti: gjóskuflóði og gusthlaupi. Dæmi um hið fyrrnefnda varð á eynni Martinique í Karíbahafi 1902 þegar gjóskuflóð frá eldfjallinu Pelée gereyddi hafnarborginni Saint Pierre. Nýlegt dæmi um eina tegund hins síðarnefnda varð í Washington-ríki Bandaríkjanna 1980 þegar fjallið St. Helens hrundi og gosrásin sendi frá sér lárétt gusthlaup með nánast hljóðhraða sem eyddi í einu vetfangi öllu lífi innan 13 kílómetra fjarlægðar í straumstefnuna.

Gjóskuflóð í stórgosum skilja eftir sig berg sem á íslensku nefnist flikruberg.[2] Sem betur fer hafa slík gos ekki orðið hér á landi í ein 70.000 ár, en dæmi um flikruberg tengt fornum eldstöðvum má sjá í Þórsmörk (úr Tindfjöllum), hjá Húsafelli, á Sólheimaheiði og í Berufirði austur (kennt við Skessu).

Til frekari fróðleiks má benda á Ármann Höskuldsson 2013. Gjóskustraumar, bls. 144 í Náttúruvá á Íslandi. Útg. Viðlagatrygging Íslands / Háskólaútgáfan.

Tilvísanir:
  1. ^ fr. nuée ardenté = glóandi ský, brímaský; e. pyroclastic flow = gjóskuflóð.
  2. ^ e. ignimbrite, welded tuff = sambrædd gjóska

Mynd:

...