Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til þess að fólk geti lifað mannsæmandi lífi þarf að tryggja því ákveðin réttindi sem stuðla að velferð þess og frelsi. Margir telja það vera hlutverk ríkisins að tryggja þessar forsendur mannsæmandi lífs.
Í COVID-19-heimsfaraldrinum hefur frelsi fólks víða um heim verið skert. Á Íslandi var snemma gripið til samkomubanns sem þýðir að fólki er bannað að hittast í stærri hópum og ýmis þjónusta er takmörkuð. Fólk gat ekki heimsótt ættingja á hjúkrunarheimili, háskólum og framhaldsskólum var lokað og sumum vinnustöðum einnig. Auk þess var dægrastytting og skemmtanalíf takmarkað þar sem fólk gat til dæmis ekki haldið brúðkaupsveislur, farið til útlanda eða kíkt í sund. Allt eru þetta þættir sem geta haft slæmar afleiðingar í för með sér, til dæmis efnahagslegar fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið sem og neikvæð áhrif á andlega líðan fólks. Víðs vegar um heiminn var gripið til þess ráðs að koma á útgöngubanni. Þá er fólk ekki lengur frjálst ferða sinna heldur þarf ríka ástæðu til að yfirgefa heimili sín og getur þurft að greiða háa sekt brjóti það bannið.
Ítalía er eitt þeirra ríkja sem skertu frelsi íbúa sinna verulega með útgöngubanni til að sporna við útbreiðslu COVID-19. Torg sem áður iðuðu af lífi voru því nánast tóm.
Ríkið getur skapað okkur skilyrði sem gera val og frelsi fólks að möguleika. Það getur veitt fólki rými til skoðana-, mál- og trúfrelsis svo dæmi séu nefnd. Þá er talað um griðarétt, en honum fylgir ákveðið frelsi gagnvart óréttmætum afskiptum stjórnvalda. Ríkið getur einnig tryggt gæði eða þjónustu sem stuðlar að frelsi einstaklingsins á annan hátt og þá er talað um gæðarétt. Menntun er sígilt dæmi um gæði sem ekki verða tryggð með aðgerðarleysi. Annað dæmi væri réttur til heilbrigðisþjónustu. Í báðum tilfellum þarf einhver, oftast ríki, að veita þessi gæði og þjónustu því án þeirra eru kostir hvers og eins takmarkaðir.
Ríkið getur líka skert möguleika okkar og val eins og í COVID-19-faraldrinum, en þá er lykilatriði að ákvarðanirnar séu réttmætar. Að baki þeim þurfa að vera góð rök, þær þurfa að vera vel ígrundaðar, í samræmi við lög og reglur, teknar af réttum aðilum og huga að hagsmunum og velferð almennings. Mikilvægt er að upplýsa borgarana um stöðu mála og hvers vegna gripið sé til ákveðinna aðgerða. Á Íslandi hafa landlæknir og sóttvarnalæknir í samvinnu við almannavarnir borið tillögur undir heilbrigðisráðherra sem þurfti að samþykkja þær.
Helstu rök fyrir því að frelsi og réttindi fólks hafa verið skert víða um heim í COVID-19-faraldrinum eru þau að þannig sé hægt að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. Þá hafa ýmsir sérfræðingar talið mikilvægt að ráðast í ákveðnar aðgerðir vegna þess að um nýja veiru er að ræða, ekkert bóluefni er til, sjúkdómurinn er smitandi og getur dregið fólk til dauða, sérstaklega fólk í viðkvæmri stöðu.
Ríkinu ber skylda að tryggja margskonar réttindi borgara sinna og stundum rekast mikilvæg réttindi á. Þá þarf að forgangsraða þeim.
Hér áður var nefnt dæmi um heilbrigðisþjónustu. Ráðist var í ýmsar aðgerðir hér á landi til þess að heilbrigðiskerfið réði við faraldurinn. Ef margir smitast í einu er mögulegt að næg úrræði séu ekki til staðar, svo sem tæki, lyf og sérhæft starfsfólk.
Ríkinu ber líka skylda til að tryggja öryggi borgara sinna. Margir geta dáið ef þeir smitast af veirunni. Með því að takmarka frelsi fólks og réttindi er leitast við að tryggja öryggi fólks í viðkvæmri stöðu.
Það er auðvitað mikilvægt að fólk geti farið frjálst ferða sinna eða geti lifað því lífi sem það kýs að lifa, án þess að skaða aðra. Inngrip stjórnvalda á Íslandi sem og víðar í heiminum eru alvarleg og ef ekki væri nógu góð ástæða að baki væri það mikil ógn við lýðræðið.[1]
Ríkið hefur vald til að skerða réttindi fólks og frelsi, en það þarf þá að vera góð ástæða fyrir því svo ekki sé um misbeitingu valds að ræða. Það er stöðug umræða í stjórnmálum hvað auki frelsi og hvað skerði frelsi og hversu stóru hlutverki ríkið eigi að gegna í samfélagi. Í COVID-19-faraldrinum hafa sum réttindi verið skert til að tryggja önnur réttindi sem talin eru vega þyngra eins og réttur til heilbrigðisþjónustu, lífs og öryggis. Þá hefur þurft að fórna öðrum þáttum tímabundið sem annars þykja mikilvægir til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi.
Tilvísun:
Þetta svar er hluti af verkefninu Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum þar sem nemar í heimspeki eða nýútskrifaðir heimspekingar skoða ýmislegt í tengslum við COVID-19-faraldurinn út frá heimspekilegu sjónarhorni. Verkefnið er unnið undir handleiðslu Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, prófessors í heimspeki og hagnýtri siðfræði, Finns Ulf Dellsén, dósents í heimspeki, og Vilhjálms Árnasonar, prófessors í heimspeki og formanns stjórnar Siðfræðistofnunar.
Vigdís Hafliðadóttir. „Af hverju skerðir ríkið réttindi fólks vegna COVID-19?“ Vísindavefurinn, 17. ágúst 2020, sótt 8. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79836.
Vigdís Hafliðadóttir. (2020, 17. ágúst). Af hverju skerðir ríkið réttindi fólks vegna COVID-19? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79836
Vigdís Hafliðadóttir. „Af hverju skerðir ríkið réttindi fólks vegna COVID-19?“ Vísindavefurinn. 17. ágú. 2020. Vefsíða. 8. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79836>.