Sverige er íslenskað Svíþjóð. Hvernig kemur „þjóð“ inn í þetta - og hvenær? Eru til eldri þýðingar?Orðið þjóð er allajafna haft um tiltekinn hóp fólks sem síðan má afmarka nánar eftir atvikum. Það er því sannarlega sérstakt að orðið Svíþjóð sé haft um sjálft landsvæðið þar sem Svíarnir eiga heima. Raunar verður að hafa í huga að Svíþjóð merkir ekki aðeins landið, í hinum áþreifanlega skilningi, svæðið sem er innan hinna skilgreindu landamæra, heldur getur orðið einnig táknað ríkisheildina, Konungsríkið Svíþjóð, það er tiltekið samfélag fólks sem er skipulagt á ákveðinn hátt.

Það er sannarlega sérstakt að orðið Svíþjóð sé haft um sjálft landsvæðið þar sem Svíarnir eiga heima. Myndin sýnir kort af Svíþjóð og Finnlandi úr frönsku riti frá 1784.
Yngvar hét sonur Eysteins konungs er þá var konungur yfir Svíaveldi. Hann var hermaður mikill og var oft á herskipum því að þá var áður Svíaríki mjög herskátt, bæði af Dönum og Austurvegsmönnum. [...] Önundur hét sonur Yngvars er þar næst tók konungdóm í Svíþjóð.Til er rúnaáletrun með heitinu Sveþiuþ (=Svíþjóð) sem sögð er frá 11. öld. Hellquist getur þess í sænskri orðsifjabók sinni að dæmi séu úr sænsku skáldlegu málfari og í fornlegu málsniði um nafnmyndina Svitiod og telur hann hana myndaða eftir íslenska heitinu Svíþjóð. Hvernig sem því er háttað virðist heitið Svíþjóð / Svitiod / Sveþiuþ eiga fornar rætur, frá því fyrir Íslands byggð; taldar eru líkur til þess að nafnliðurinn þiuþ (=þjóð), eða einhver áþekk orðmynd sömu merkingar, birtist sem tidi í nafnmyndinni Svetidi sem haft er um þjóðflokkinn Svía í latneskum texta gotneska sagnaritarans Jordanesar, frá miðri 6. öld.

Ætla má að heitið Svíþjóð hafi upprunalega vísað til þjóðflokksins Svía, „Svía þjóðar“, en merkingin hafi víkkað og heitið farið að tákna einnig land þeirra eða ríki þeirra.
- Andersson, Thorsten: Altgermanische Ethnika. Namn och bygd, 2009.
- Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Málið.is. (Sótt 12.10.2020).
- Hellquist, Elof: Svensk etymologisk ordbok. 3. útg., 1939.
- Thy - Wikipedia, den frie encyklopædi. (Sótt 12.10.2020).
- Ordbog over det norrøne prosasprog. ONP: Dictionary of Old Norse Prose. (Sótt 12.10.2020).
- Snorri Sturluson: Heimskringla. Mál og menning, 1991.
- (La Suede, la Finlande). (Sótt 9.10.2020).
- Old Swedish men | Danko Durbi? | Flickr. (Sótt 12.10.2020). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0.