Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju köllum við landið Magyarország Ungverjaland?

Ari Páll Kristinsson

Upprunalegu spurningarnar hljóðuðu svona:

Er vitað út af hverju Íslendingar kalla Hungary Ungverjaland, en landið heitir Magyarország? Kveðja frá Ungverjalandi (Sverrir). Ef Ungverjaland heitir Hungary á ensku, af hverju heitir það ekki 'Hungverjaland' á íslensku? (Vífill).

Fyrir Krists burð áttu meðal annars Keltar heima við Dóná þar sem nú er Búdapest, og þar um kring. Síðar komu Rómverjar og vörðust lengi vel ásókn ýmissa innrásarflokka uns Atli Húnakonungur náði landsvæðinu á 5. öld. Eftir dauða Atla og fall skammlífs veldis Húnanna bjuggu þarna germanskir þjóðflokkar svo sem Gotar og Langbarðar en þeir urðu síðar frá að hverfa við ásókn hirðingja úr austri, sem sjálfir létu svo í minni pokann fyrir meðal annars germönskum, slavneskum og tyrkneskumælandi herjum um 800. Það er síðan undir lok 9. aldar og á fyrri hluta 10. aldar sem þeir þjóðflokkar úr austri, sem við þekkjum undir sameiginlegu heiti sem Ungverja, ná að stofna ríki og setjast að á sléttunni miklu handan við Karpata-fjallgarðinn, sem gjarna nefnist ungverska sléttan.

Heiti með stofninn Magyar er þekkt í ritheimildum frá 9. öld, dregið af Magyeri sem vísar til eins af hinum sjö helstu ungversku þjóðflokkum. Eftir að sá þjóðflokkur náði hinum undir sig undir forystu Árpáds, sem ríkti frá um 895-907, verður heitið sameinandi um þegnana í heild.

Heiti með stofninn Magyar er þekkt í ritheimildum frá 9. öld, dregið af Magyeri sem vísar til eins af hinum sjö helstu ungversku þjóðflokkum. Málverkið er frá lokum 19. aldar, eftir Bertalan Székely og sýnir höfðingja hinna sjö ungversku þjóðflokka sverjast í fóstbræðralag.

Latneska þjóðarheitið Ungri, sem og landsheitið Hungria, átti eftir að breiðast út í ýmsum myndum til margra tungumála í heiminum. Hið latneska var fyrir sitt leyti sótt til gríska heitisins Oungroi sem kemur fyrir í býsönskum heimildum. Sú tilgáta hefur verið sett fram að hið gríska Oungroi hafi verið tökunafn úr fornu tyrknesku máli agrinu (a-ið þar væntanlega nefjað sérhljóð) sem aðlöguð nafnmynd eftir heitinu On-Ogur í mállýsku tyrknesks þjóðflokks, Ogura, sem herjuðu og náðu um tíma fótfestu á austanverðri ungversku sléttunni á 7.-8. öld. Heiti þeirra, On-Ogur, mun hafa táknað „tíu flokkar Ogura“. Ogurar þessir hafa mögulega myndað bandalag með einhverjum hinna ungversku þjóðflokka sem áttu eftir að leggja landsvæðið undir sig til frambúðar eins og fram kom hér á undan.

Eftir þessu að dæma virðist sem orðstofn með „Ung“ eigi að minnsta kosti álíka gamla sögu og orðstofn með „Magyar“ (og sennilega þó enn eldri) um landsvæðin á ungversku sléttunni og fólkið sem þar settist að.

Þar sem latína og rómverskar heimildir var ráðandi afl í vesturevrópskri menningu í margar aldir þarf ekki að koma á óvart að fjöldi örnefna og annarra orða í Evrópumálum eigi rætur að rekja til latínu, í einhverri mynd. Auk Hungary á ensku sem nefnt er í spurningunni hér fyrir ofan má taka sem dæmi að Ungverjaland nefnist Hongrie á frönsku, Unkari á finnsku, Ungarn á þýsku, Hungría á spænsku, Ungern á sænsku og svo framvegis.

Rússneska nafnið er Vengryia og hið pólska er samsvarandi, Węgry (e-ið er þar nefjað sérhljóð). Mögulega liggur þarna raunar svipuð rót og í grísk-latnesku nafnmyndinni til grundvallar („Hungar“).

Í nokkrum tungumálum, einkum meðal nágranna Ungverja, nefnist landið heitum sem líkari eru hinu ungverska og eru sýnilega sótt þangað. Tékkar og Slóvakar nefna landið Maďarsko, Króatar og Serbar Mađarska, Slóvenar Madžárska og Tyrkir Macaristan.

Eins og sjá má tíðkast samt ekki þar fremur en annars staðar að innlima ungversku nafnmyndina Magyarország með húð og hári enda er meginreglan sú að ríkjaheiti aðlagist og lifi eigin lífi í öðrum tungumálum en heimamálinu.

Orðliðurinn -verja- í íslensku er til kominn úr þjóðarheitinu, Ungverjar, sem myndað er eftir aldagamalli íslenskri hefð, samanber Oddaverjar, Víkverjar, og þekkist í ýmsum þjóðaheitum á íslensku, samanber Þjóðverjar, Pólverjar.

Þegar staður er kallaður öðru nafni en tíðkast í helsta máli eða málum heimamanna er heitið kallað útnafn. Ungverjaland og Feneyjar eru hvort tveggja rótgróin dæmi um útnöfn á íslensku.

Þegar staður er kallaður öðru nafni en tíðkast í helsta máli eða málum heimamanna er heitið kallað útnafn (á ensku: exonym). Sem rótgróin dæmi um útnöfn í íslensku má nefna Feneyjar og, einmitt, Ungverjaland sem samsvara innnöfnunum Venezia og Magyarország. Sum erlend heiti eru þýdd að hluta til á íslensku, samanber Suður-Afríka, og jafnvel í heild, samanber Fílabeinsströndin (fr. Côte d'Ivoire).

Gárungar skemmtu sér við það fyrir nokkrum árum að útbúa sérkennilegar íslenskar þýðingar á enskum heitum þekktra kvikmynda. Innblástur var sóttur í frumlegar og stundum langsóttar þýðingar sem notaðar höfðu verið í raun og veru, til dæmis þegar Razor‘s Edge var íslenskað Blað skilur bakka og egg, sem er þekkt líking úr kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalok; og Blue Hawaii var þýtt Ástir og ananas, þar sem fram kemur hið íslenska dálæti á stuðlasetningu. Í þessum anda var nafn hinnar stórfenglegu kvikmyndar Coen-bræðranna No Country for Old Men þýtt yfir á íslensku sem: Ungverjaland. (Þar hefði íslenskumælandi grínistum líklega gengið treglega að nota Magyarország í orðaleikinn.)

Að lokum má láta fylgja smáræði sem kemur inn á Ísland og Ungverjaland og sérstaka siði í íslensku í sambandi við nöfn, nánar tiltekið mannanöfn í þessu tilviki:

Fyrir nokkrum árum áttust karlalandslið Íslands og Ungverjalands við í fótboltaleik. Í aðdraganda leiksins mátti sjá á vinsælli ungverskri Facebook-síðu (Trollfoci) gert grín að nöfnum íslensku leikmannanna, og þar var leikið með endinguna -son til að hæðast að þeim sem nöfnin bera. Einn var uppnefndur Öngóltbasson sem táknar „Sjálfsmarksson“, annar Lecsússon eða eiginlega „Dettur-í-grasið-son“ og sá þriðji Csasbóklásson, „Svindlsson“.

Myndir:

Höfundur

Ari Páll Kristinsson

rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

27.10.2022

Síðast uppfært

28.10.2022

Spyrjandi

Sverrir Sverrisson, Vífill Atlason

Tilvísun

Ari Páll Kristinsson. „Af hverju köllum við landið Magyarország Ungverjaland?“ Vísindavefurinn, 27. október 2022, sótt 21. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83841.

Ari Páll Kristinsson. (2022, 27. október). Af hverju köllum við landið Magyarország Ungverjaland? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83841

Ari Páll Kristinsson. „Af hverju köllum við landið Magyarország Ungverjaland?“ Vísindavefurinn. 27. okt. 2022. Vefsíða. 21. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83841>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju köllum við landið Magyarország Ungverjaland?
Upprunalegu spurningarnar hljóðuðu svona:

Er vitað út af hverju Íslendingar kalla Hungary Ungverjaland, en landið heitir Magyarország? Kveðja frá Ungverjalandi (Sverrir). Ef Ungverjaland heitir Hungary á ensku, af hverju heitir það ekki 'Hungverjaland' á íslensku? (Vífill).

Fyrir Krists burð áttu meðal annars Keltar heima við Dóná þar sem nú er Búdapest, og þar um kring. Síðar komu Rómverjar og vörðust lengi vel ásókn ýmissa innrásarflokka uns Atli Húnakonungur náði landsvæðinu á 5. öld. Eftir dauða Atla og fall skammlífs veldis Húnanna bjuggu þarna germanskir þjóðflokkar svo sem Gotar og Langbarðar en þeir urðu síðar frá að hverfa við ásókn hirðingja úr austri, sem sjálfir létu svo í minni pokann fyrir meðal annars germönskum, slavneskum og tyrkneskumælandi herjum um 800. Það er síðan undir lok 9. aldar og á fyrri hluta 10. aldar sem þeir þjóðflokkar úr austri, sem við þekkjum undir sameiginlegu heiti sem Ungverja, ná að stofna ríki og setjast að á sléttunni miklu handan við Karpata-fjallgarðinn, sem gjarna nefnist ungverska sléttan.

Heiti með stofninn Magyar er þekkt í ritheimildum frá 9. öld, dregið af Magyeri sem vísar til eins af hinum sjö helstu ungversku þjóðflokkum. Eftir að sá þjóðflokkur náði hinum undir sig undir forystu Árpáds, sem ríkti frá um 895-907, verður heitið sameinandi um þegnana í heild.

Heiti með stofninn Magyar er þekkt í ritheimildum frá 9. öld, dregið af Magyeri sem vísar til eins af hinum sjö helstu ungversku þjóðflokkum. Málverkið er frá lokum 19. aldar, eftir Bertalan Székely og sýnir höfðingja hinna sjö ungversku þjóðflokka sverjast í fóstbræðralag.

Latneska þjóðarheitið Ungri, sem og landsheitið Hungria, átti eftir að breiðast út í ýmsum myndum til margra tungumála í heiminum. Hið latneska var fyrir sitt leyti sótt til gríska heitisins Oungroi sem kemur fyrir í býsönskum heimildum. Sú tilgáta hefur verið sett fram að hið gríska Oungroi hafi verið tökunafn úr fornu tyrknesku máli agrinu (a-ið þar væntanlega nefjað sérhljóð) sem aðlöguð nafnmynd eftir heitinu On-Ogur í mállýsku tyrknesks þjóðflokks, Ogura, sem herjuðu og náðu um tíma fótfestu á austanverðri ungversku sléttunni á 7.-8. öld. Heiti þeirra, On-Ogur, mun hafa táknað „tíu flokkar Ogura“. Ogurar þessir hafa mögulega myndað bandalag með einhverjum hinna ungversku þjóðflokka sem áttu eftir að leggja landsvæðið undir sig til frambúðar eins og fram kom hér á undan.

Eftir þessu að dæma virðist sem orðstofn með „Ung“ eigi að minnsta kosti álíka gamla sögu og orðstofn með „Magyar“ (og sennilega þó enn eldri) um landsvæðin á ungversku sléttunni og fólkið sem þar settist að.

Þar sem latína og rómverskar heimildir var ráðandi afl í vesturevrópskri menningu í margar aldir þarf ekki að koma á óvart að fjöldi örnefna og annarra orða í Evrópumálum eigi rætur að rekja til latínu, í einhverri mynd. Auk Hungary á ensku sem nefnt er í spurningunni hér fyrir ofan má taka sem dæmi að Ungverjaland nefnist Hongrie á frönsku, Unkari á finnsku, Ungarn á þýsku, Hungría á spænsku, Ungern á sænsku og svo framvegis.

Rússneska nafnið er Vengryia og hið pólska er samsvarandi, Węgry (e-ið er þar nefjað sérhljóð). Mögulega liggur þarna raunar svipuð rót og í grísk-latnesku nafnmyndinni til grundvallar („Hungar“).

Í nokkrum tungumálum, einkum meðal nágranna Ungverja, nefnist landið heitum sem líkari eru hinu ungverska og eru sýnilega sótt þangað. Tékkar og Slóvakar nefna landið Maďarsko, Króatar og Serbar Mađarska, Slóvenar Madžárska og Tyrkir Macaristan.

Eins og sjá má tíðkast samt ekki þar fremur en annars staðar að innlima ungversku nafnmyndina Magyarország með húð og hári enda er meginreglan sú að ríkjaheiti aðlagist og lifi eigin lífi í öðrum tungumálum en heimamálinu.

Orðliðurinn -verja- í íslensku er til kominn úr þjóðarheitinu, Ungverjar, sem myndað er eftir aldagamalli íslenskri hefð, samanber Oddaverjar, Víkverjar, og þekkist í ýmsum þjóðaheitum á íslensku, samanber Þjóðverjar, Pólverjar.

Þegar staður er kallaður öðru nafni en tíðkast í helsta máli eða málum heimamanna er heitið kallað útnafn. Ungverjaland og Feneyjar eru hvort tveggja rótgróin dæmi um útnöfn á íslensku.

Þegar staður er kallaður öðru nafni en tíðkast í helsta máli eða málum heimamanna er heitið kallað útnafn (á ensku: exonym). Sem rótgróin dæmi um útnöfn í íslensku má nefna Feneyjar og, einmitt, Ungverjaland sem samsvara innnöfnunum Venezia og Magyarország. Sum erlend heiti eru þýdd að hluta til á íslensku, samanber Suður-Afríka, og jafnvel í heild, samanber Fílabeinsströndin (fr. Côte d'Ivoire).

Gárungar skemmtu sér við það fyrir nokkrum árum að útbúa sérkennilegar íslenskar þýðingar á enskum heitum þekktra kvikmynda. Innblástur var sóttur í frumlegar og stundum langsóttar þýðingar sem notaðar höfðu verið í raun og veru, til dæmis þegar Razor‘s Edge var íslenskað Blað skilur bakka og egg, sem er þekkt líking úr kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalok; og Blue Hawaii var þýtt Ástir og ananas, þar sem fram kemur hið íslenska dálæti á stuðlasetningu. Í þessum anda var nafn hinnar stórfenglegu kvikmyndar Coen-bræðranna No Country for Old Men þýtt yfir á íslensku sem: Ungverjaland. (Þar hefði íslenskumælandi grínistum líklega gengið treglega að nota Magyarország í orðaleikinn.)

Að lokum má láta fylgja smáræði sem kemur inn á Ísland og Ungverjaland og sérstaka siði í íslensku í sambandi við nöfn, nánar tiltekið mannanöfn í þessu tilviki:

Fyrir nokkrum árum áttust karlalandslið Íslands og Ungverjalands við í fótboltaleik. Í aðdraganda leiksins mátti sjá á vinsælli ungverskri Facebook-síðu (Trollfoci) gert grín að nöfnum íslensku leikmannanna, og þar var leikið með endinguna -son til að hæðast að þeim sem nöfnin bera. Einn var uppnefndur Öngóltbasson sem táknar „Sjálfsmarksson“, annar Lecsússon eða eiginlega „Dettur-í-grasið-son“ og sá þriðji Csasbóklásson, „Svindlsson“.

Myndir:...