Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Skáldsagan Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness kom út árin 1934–1935 og má ætla að hún gerist næstu tvo eða þrjá áratugi á undan. Rósa, fyrri kona Bjarts í Sumarhúsum, viðurkenndi ekki að hún hefði nokkru sinni verið með öðrum manni. Bjartur trúði því mátulega, sé tekið mið af því að þegar hann bjóst til að leita að gimbrinni Gullbrá, og Rósa bað hann ekki fara vegna þess að hún væri komin svo langt á leið, svaraði hann því einu að hans barn myndi ekki fæðast fyrr en á þorra. Þetta mun hafa verið í desember og þau giftust á fardögum, um miðjan maí, svo ekki bar ýkja mikið í milli, en nóg til þess að hann leyfði sér að efast. Þegar hann svo sneri aftur og Rósa var látin, en barnið lá undir tíkinni, ákvað hann nafnið, Ásta Sóllilja, og lýsti yfir að eitt skyldi yfir þau bæði ganga. Ekki sagði hann þó prestinum frá barninu við jarðarför Rósu. Í framhaldinu kallar Ásta Sóllilja hann alltaf pabba og hann talar um hana sem dóttur sína. Þegar hún svo verður ófrísk eftir heimiliskennarann fimmtán ára gömul segir Bjartur við Rauðsmýrarmaddömuna að hún hafi prangað inn á hann fóstri sonar síns, Ingólfs Arnarsonar, og þau beri ábyrgð á henni. Þegar hann hittir Ástu Sóllilju slær hann hana utan undir, fullyrðir að hún sé ekki dóttir hans og rekur hana af heimilinu. Samkvæmt þessu voru þau stjúpfeðgin, því hann var kvæntur móður hennar og ól hana upp.
Síðar í sögunni virðist Bjartur hins vegar velkjast í vafa um faðernið og eigin fullyrðingar. Í bæjarferð fáum árum eftir brottreksturinn hittir hann barn sem líkist Ástu Sóllilju og reynist vera dóttir hennar, Björt að nafni. Hann fer með henni inn, þar sem móðirin liggur dauðsjúk, og hún kallar hann pabba. Hann tekur þær með sér heim og á leiðinni deyr Ásta Sóllilja í faðmi hans. Þannig fer ekki á milli mála að hún leit á hann sem föður sinn, enda ól hann hana upp sem dóttur sína, þótt hann sjálfsagt hafi gert sér grein fyrir því frá upphafi að það var hún ekki. Halldór Laxness var að minnsta kosti ekki í vafa miðað við það að í heimsókn til Ástu Sóllilju í þorpinu viðurkenndi Ingólfur að hann væri pabbi hennar.
Sjálfstætt fólk, bókarkápa frá 1935.
Það skiptir þó ekki máli fyrir þessa spurningu hvort þau voru feðgin eða stjúpfeðgin, því gildandi lög á þessum árum lögðu blátt bann við giftingu í báðum tilvikum. Samkvæmt hegningarlögum frá 1869 varðaði samræði foreldra og barna í beinan ættlegg fjögurra til tíu ára hegningarvinnu fyrir þá fullorðnu en allt að þriggja vikna betrunarhúsvist fyrir börnin. Karl eða kona sem hafði „holdlegt samræði“ við stjúpdóttur eða stjúpson átti að sæta sex ára hegningarvinnu en börnin allt að tveggja ára vist. Í hjúskaparlögum árið 1921 var líka kveðið skýrt á um að bannað væri að vígja skyldmenni í beinan legg og systkini, en jafnframt tengdaforeldra og tengdabörn annars vegar eða stjúpforeldra og stjúpbörn hins vegar, eða eins og þetta er orðað í lögunum, heldur undarlega: „Bannað er að vígja mann og foreldri eða afkvæmi þess er hann áður átti.“
Þessi ákvæði eiga rætur í Gamla testamentinu og hugmyndafræði kristinnar kirkju frá upphafi, þar sem mægðir voru lagðar að jöfnu við skyldleika. Í umfjöllun var ávallt miðað við karlinn og þá var stjúpdóttir, sem dóttir eiginkonu, jafngild að mægðum og eiginleg dóttir var að skyldleika. Það hefði því engu breytt hvort Bjartur var faðir Ástu Sóllilju eða stjúpi. Samkvæmt Stóradómi frá 1564 var hvort tveggja dauðasök og á 17. og 18. öld voru ekki færri en sjö feðgin tekin af lífi og tólf stjúpfeðgin; karlarnir höggnir á háls og konunum drekkt. Ljóst er af álitsgerðum og úrskurðum um þessi mál að barneignir stjúpfeðgina þóttu sérlega slæmar og síst skárri en barneignir feðgina. Þegar svo farið var að rýmka heimildir til giftinga í skyldleika og mægðum undir lok 18. aldar var aldrei rætt um að leyfa stjúpfeðginum að giftast.
Árið 1775 var kveðið almennt á um að systkinabörn mættu eigast og tekið fram að sækja mætti um leyfi vildi maður giftast systurdóttur sinni eða bróðurdóttur eða systur látinnar eiginkonu. Aldarfjórðungi síðar var þetta þrennt leyft án umsóknar og jafnframt gefið færi á umsókn ef maður vildi eiga systur móður sinnar eða föður, nú eða eiginkonu látins bróður. Um hjónaband af þessu tagi má nefna Þorkel Gunnlaugsson sýslumann í Ísafjarðarsýslu fyrir miðja 19. öld sem kvæntist systurdóttur sinni, Hildi Þórðardóttur Thoroddsen.
Árið 1921 voru ákvæði um náinn skyldleika þrengd á þann veg að sækja varð um leyfi jafnt fyrir hjónabandi með systurdóttur eða bróðurdóttur og föðursystur eða móðursystur, þótt menn líka veltu því fyrir sér að leyfa þetta allt saman. Af tölfræði sem tekin var saman á þessum árum má sjá að slík tilvik komu upp á nokkurra ára fresti og að talsvert var um giftingar systkinabarna að minnsta kosti fram yfir miðja síðustu öld. Afstaða löggjafans til stjúpfeðgina var aftur á móti óbreytt og birtist mjög skýrt í hegningarlögum árið 1940, þar sem eru ákvæði um „samræði eða önnur kynferðismök“ innan fjölskyldna. Þeim hefur örlítið verið hnikað til síðan en hér er núgildandi orðalag:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skal sæta fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 18 ára, sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg ... skal sæta fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barn yngra en 16 ára.
Núgildandi hjúskaparlög frá 1993 (nr. 31) virðast engu að síður gera ráð fyrir því að stjúpfeðgin eða stjúpmægðin geti gifst, því ekki er annað bannað en vígsla skyldmenna í beinan legg eða systkina (9. grein). Kjörforeldri og kjörbarn mega reyndar ekki giftast nema ættleiðing sé felld niður (10. grein) en það eru annars konar tengsl en mægðir og hvernig svo sem lögspekingar kunna að túlka þau ákvæði nú til dags er fullvíst að svarið við þeirri spurningu sem hér er svarað, hvort sem Bjartur í Sumarhúsum var faðir eða stjúpi Ástu Sóllilju, er afdráttarlaust neitandi.
Heimildir
Ármann Snævarr, „Íslenzkar réttarreglur um tvenna hjúskapartálma frá siðaskiptum til vorra daga“, Afmælisrit helgað Ólafi Lárussyni prófessor. Reykjavík: Hlaðbúð 1955, bls. 1–20.
Már Jónsson. „Hefði Bjartur í Sumarhúsum mátt kvænast Ástu Sóllilju að þeirra tíma lögum?“ Vísindavefurinn, 16. október 2020, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80195.
Már Jónsson. (2020, 16. október). Hefði Bjartur í Sumarhúsum mátt kvænast Ástu Sóllilju að þeirra tíma lögum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80195
Már Jónsson. „Hefði Bjartur í Sumarhúsum mátt kvænast Ástu Sóllilju að þeirra tíma lögum?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2020. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80195>.