Sólin Sólin Rís 03:58 • sest 22:53 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:24 • Sest 03:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:21 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:07 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Til hvers var öðrum viðaukanum bætt við bandarísku stjórnarskrána og hvaða gildi hefur hann í dag?

Guðmundur Hálfdanarson

Í formála bandarísku stjórnarskrárinnar er markmiðum hennar lýst með þessum orðum:
Vér Bandaríkjamenn setjum og samþykkjum þessi grundvallarlög fyrir Bandaríki Ameríku í þeim tilgangi að koma á fullkomnara sambandsríki, stuðla að réttlæti, tryggja landsfriðinn, sjá fyrir sameiginlegum landvörnum, efla almenna velferð og tryggja sjálfum okkur og niðjum okkar blessun frelsisins (Ólafur S. Thorgeirsson 1905: 43; „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“ 2011).
Samkvæmt þeim hugmyndum sem við gerum okkur nú um lýðræðisleg mannréttindi fór því fjarri að hið nýja ríki uppfyllti háleit markmið stjórnarskrárinnar. Upphafsorð formálans hljóma að minnsta kosti undarlega í eyrum þegar þess er gætt að nærri einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum var hnepptur í þrældóm þegar stjórnarskráin var samin og hún tryggði því fólki hvorki réttlæti né blessun frelsisins. Bandarískar konur voru heldur ekki spurðar álits við samningu eða samþykkt skrárinnar og reyndar fengu margir fátækir karlar ekki kosningarétt í Bandaríkjunum fyrr en komið var langt fram á 19. öld (Engerman og Sokoloff 2005).

Þessi mannréttindabrot voru þó ekki efst í huga þeirra sem deildu um innihald og orðalag stjórnarskrárinnar á sérstöku stjórnlagaþingi í Fíladelfíuborg sumarið 1787 eða á þingum ríkjanna 13 sem þá mynduðu Bandaríkin í kjölfarið, heldur frekar hvernig samskiptum sambandsríkisins við bæði einstaka borgara og stjórnvöld aðildarríkjanna skyldi háttað. Í grófum dráttum skiptust menn þar í tvær andstæðar fylkingar, það er sambandsstjórnarsinna (Federalists) annars vegar og and-sambandsstjórnarsinna (Anti-Federalists) hins vegar. Hinir fyrrnefndu lögðu áherslu á tiltölulega sterkt sambandsríki á meðan hinir síðarnefndu vildu styrkja völd aðildarríkja sambandsins á kostnað sambandsstjórnarinnar, ekki síst vegna þess að þeir óttuðust hugsanlegt ofríki ríkisvaldsins í framtíðinni. Reiknuðu þeir með að ef sambandsstjórnin fengi of mikið vald þá væri hætta á að Bandaríkin þróuðust í sömu átt og konungsríki Evrópu, það er að segja hið nýja ríki myndi breytast smám saman úr lýðveldi í einvalda konungsríki (Edling 2003).

Til að slá á þennan ótta samþykkti meirihluti þingmanna á fyrsta sambandsþingi Bandaríkjanna, sem kom saman í New York-borg sumarið 1789, tólf viðauka við stjórnarskrána. Voru tíu þeirra staðfestir á þingum sambandsríkjanna á næstu tveimur árum en 11. viðaukinn var ekki samþykktur af nægilega mörgum ríkjum fyrr en rúmum tveimur öldum síðar og er hann nú 27. viðauki bandarísku stjórnarskrárinnar – og 12. og síðasti þessara viðauka hefur enn ekki hlotið náð fyrir nægilegum fjölda aðildarríkja til að verða fullgildur. Frá upphafi hafa þessir fyrstu tíu viðaukar stjórnarskrárinnar gengið sameiginlega undir heitinu Réttindaskrá Bandaríkjanna (The United States Bill of Rights) og er annar stjórnarskrárviðaukinn, sem hér er til umræðu, hluti af þeim pakka.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna var samþykkt á stjórnlagaþingi í Fíladelfíuborg 17. september 1787.

Það sem tengir Réttindaskrána saman í eina heild er að öllum viðaukunum tíu var ætlað, með einum eða öðrum hætti, að verja frjálsa borgara í Bandaríkjunum gegn hugsanlegum yfirgangi sambandsríkisins. Í flestum viðaukanna liggur þetta markmið í augum uppi því að þeir fjalla beinlínis um hluti sem enn teljast mikilvæg mannréttindi – þar er kveðið á um að sambandsþinginu sé óheimilt að setja lög sem takmarka funda-, mál-, prent- og trúfrelsi í Bandaríkjunum, friðhelgi heimila og eigna er tryggt, bann er lagt við tilefnislausum lögreglurannsóknum, réttur sakborninga er varinn, krafa er gerð um að sakborningar í málsóknum séu rannsakaðir fyrir óhlutdrægum kviðdómum, bann er lagt við miskunnarlausum og óvenjulegum refsingum, og svo framvegis.

Eitt af því sem tekist var á um við gerð stjórnarskrárinnar var hvernig haga ætti landvörnum í hinu nýja ríki og eru annar og þriðji viðaukinn niðurstaða þeirra deilna. Reynslan af frelsisstríðinu (1775–1783) og ekki síður af bændauppreisn í Massachusetts að því loknu (svokallaðri Shays’ Rebellion árið 1786) sannfærði ráðamenn um að sambandsstjórnin yrði að hafa yfir skipulegum her að ráða til að verjast bæði ytri og innri ógnunum. Margir and-sambandsstjórnarsinnar óttuðust aftur á móti að ríkisrekinn fastaher yrði óhjákvæmilega fjárhagsleg byrði á almennum borgurum, um leið og hann kynni að verða tæki í höndum þeirra sem vildu koma á harðstjórn í landinu (Cornell 2006). Þriðji viðaukinn leggur því blátt bann við því að hermenn verði vistaðir á heimilum fólks, gegn vilja þess, á friðartímum en sá siður (quartering) hafði verið eitt af helstu umkvörtunarefnum norður-amerískra nýlendubúa í aðdraganda frelsisstríðsins gegn Bretum. Annar viðaukinn verður að skoðast í þessu samhengi þótt merking hans sé langt frá því augljós. Hann hljóðar svo á frummálinu:
A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State, the right of the people to keep and bear Arms, shall not be infringed („The Bill of Rights“).

Í þýðingu Vestur-Íslendingsins Ólafs S. Thorgeirssonar hljómar hann þannig:
Með því að landvarnarlið með góðu skipulagi er nauðsynlegt fyrir óhultleika [öryggi] frjálsra ríkja, skal réttur þjóðarinnar til að eiga og bera vopn óskertur látinn (1905: 58).

Helsti vandinn við viðaukann er að sá að hann er settur saman úr tveimur liðum, sem hvor um sig gæti staðið sjálfstætt, án þess að fyllilega ljóst sé hvernig eða hvort þeir tengjast. Í fyrri hluta viðaukans er þannig lögð áhersla á mikilvægi landvarnarliðs (Militia) fyrir varnir ríkisins (A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State) á meðan hinn síðari leggur blátt bann við því að skerða rétt þjóðarinnar til að eiga og bera vopn (the right of the people to keep and bear Arms, shall not be infringed). Einfaldast er að skilja viðaukann þannig að fyrri liðurinn skilyrði hinn síðari, það er að óskoraður réttur fólks til vopnaburðar tengist þátttöku þess í skipulögðum hópum landvarnarliðs, en slíkt lið var hugsað sem lýðræðislegt mótvægi við fasta- eða atvinnuheri í þjónustu sambandsstjórnarinnar (Spitzer 2008: 129–176). Að auki má hugsa sér að höfundar Réttindaskrárinnar hafi, með því að tengja vopnaburð við þátttöku í skipulögðu landvarnarliði, viljað takmarka byssueign í landinu og draga með því úr hættunni á óöld og glæpum. Í Suðurríkjunum, þar sem byssueign var mun almennari en í Norðurríkjunum, fékk slík túlkun viðaukans byr undir báða vængi eftir að þrælahald var afnumið í lok bandaríska borgarastríðsins (1861–1865) því að hvítir Suðurríkjamenn nýttu sér hann óspart til að afvopna fyrrverandi þræla sem vildu verjast skipulegu ofbeldi samtaka hvítra kynþáttahatara á borð við Ku Klux Klan (Cornell 2006: 168–169).

Árið 1789 voru samþykktir tíu viðaukar við stjórnarskrá Bandaríkjanna og ganga þeir sameiginlega undir heitinu Réttindaskrá Bandaríkjanna (The United States Bill of Rights).

Allt fram yfir miðja síðustu öld olli annar viðaukinn takmörkuðum deilum í Bandaríkjunum enda taldist hann smám saman – líkt og þriðji viðaukinn – meira og minna úreltur. Fylgi við reglur sem takmörkuðu aðgengi að byssum (gun control) nutu almenns fylgis, því að með örri þróun í vopnaframleiðslu á síðari hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar jókst hættan á að einstakir glæpamenn og glæpagengi kæmust yfir öflug skotvopn og ógnuðu með því öryggi borgaranna. Stríð á milli sprúttsala á bannárunum (1920–1933), þar sem tekist var á með vélbyssum og afsöguðum haglabyssum, vöktu líka almennan óhug og urðu þau til þess að Bandaríkjaþing setti, að frumkvæði Franklins D. Roosevelt forseta, skotvopnalög árið 1934 (The National Firearms Act). Samkvæmt þeim voru ákveðnar tegundir skotvopna skattlagðar sérstaklega (aðallega vélbyssur og afsagaðar haglabyssur), bann var lagt við að flytja slík vopn á milli ríkja innan Bandaríkjanna og krafa var gerð um að þeir sem áttu slík vopn væru skráðir í miðlægan gagnagrunn í umsjá stjórnvalda. Að nafninu til var markmið laganna fyrst og fremst að skattleggja vopnasölu en í reynd takmörkuðu þau réttinn til að eiga og bera ákveðnar tegundir vopna.

Réttmæti laganna var staðfest í kunnum dómi hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 1939 (United States v. Miller) en þar hafnaði rétturinn því að bankaræningi nokkur, Jack Miller að nafni, hefði stjórnarskrárvarinn rétt að flytja afsagaða haglabyssu á milli ríkja. Rök hæstaréttar í málinu voru þau að vandséð væri hvernig slík vopn gætu nýst fyrir skipulegt landvarnarlið og þar að auki starfaði bankaræninginn sannarlega ekki í neinu landvarnarliði. Af þeim sökum taldi rétturinn ríkið hafa fulla heimild til að meina Miller að bera afasagaða haglabyssu yfir ríkislandamæri hvað sem öðrum viðauka stjórnarskrárinnar leið (Blocher og Miller 2018: 47–49; Cornell 2006: 200–204; Waldman 2014: 82–83).

Ný viðhorf til löggæslu og landvarnarna breyttu líka merkingu fyrra liðs viðaukans. Almennt er litið svo á að í nútímaríkjum hafi ríkisvaldið einkarétt á að beita ofbeldi og því sé það ekki hlutverk almennra borgara, jafnvel ekki í skipulögðu landvarnarliði, að halda uppi lögum og reglu eða að verja landið fyrir innrásum óvinveittra ríkja. Af þeim sökum var stofnað til svokallaðs þjóðvarðliðs í Bandaríkjunum (National Guard) árið 1903 og tók það yfir þær skyldur sem menn höfðu áður ætlað skipulögðu landvarnarliði (Blocher og Miller 2018: 22–23; Cornell 2006: 196–198). Þjóðvarðlið Bandaríkjanna er nú hálfgerður atvinnuher og heyrir það annars vegar beint undir forsetann og hins vegar undir ríkisstjóra í hverju ríki fyrir sig og geta þeir gripið til liðsins þegar þurfa þykir. Þar með mátti túlka annan viðaukann þannig að hann ætti einungis við þá örfáu Bandaríkjamenn sem voru skráðir í þjóðvarðliðið hverju sinni því að það var í raun eina viðurkennda skipulega landvarnarliðið í landinu.

Morðið á John F. Kennedy forseta árið 1963 hafði meðal annars í för með sér aukinn stuðning almennings við heimildir yfirvalda í mörgum ríkjum og borgum Bandaríkjanna til að takmarka sölu skotvopna, vopnaburð á almannafæri og meðferð löglegra vopna á heimilum fólks.

Lengst af síðustu aldar virtust því bæði stjórnvöld og dómstólar sammála um að annar viðauki stjórnarskrárinnar snerist einungis um það sem kallast sameiginlegur réttur (collective eða communitarian right) til að eiga og bera vopn en ætti alls ekki við almennan vopnaburð einstaklinga (individual right; Spitzer 2021: 33–75). Af þessum sökum gengu yfirvöld í mörgum ríkjum og borgum Bandaríkjanna út frá því sem vísu að þau hefðu mjög víðtækar heimildir til að takmarka sölu skotvopna, vopnaburð á almannafæri og meðferð löglegra vopna á heimilum fólks innan umdæma sinna. Morðin á John F. Kennedy forseta, Robert bróður hans og Martin Luther King árið 1968 juku stuðning við slíkar reglur. Aldrei ríkti þó full sátt um þessa túlkun á viðaukanum því að margir fræði- og stjórnmálamenn lásu hann á allt annan hátt. Með því að skoða sögulegt baksvið viðaukans og bera hann saman við aðrar greinar Réttindaskrárinnar töldu þeir sig geta sýnt fram á að markmið höfunda hans hafi verið að tryggja rétt einstakra borgara til að eiga og bera vopn í sjálfsvarnarskyni (sjá t.d. Blocher og Miller 2018: 94–95; Levinson 1989; Spitzer 2008 og 2021; Waldman 2014: 98–99). Með þrotlausri baráttu í fjölmiðlum og skipulegri hagsmunagæslu tókst öflugum þrýstihópum á borð við samtök bandarískra byssueigenda (The National Rifle Association eða NRA) og bandarískra vopnaframleiðenda að afla slíkum skoðunum fylgis meðal ráðamanna og jókst því andstaðan við reglur um vopnasölu stöðugt þegar leið á síðustu öld, ekki síst á hægri væng stjórnmálanna.

Vatnaskil urðu í sögu annars viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar árið 2008 með dómi hæstaréttar í máli Washington-borgar gegn Dick Heller (District of Columbia v. Heller). Málið snerist um beiðni Hellers þessa, sem starfaði sem vopnaður öryggisvörður í höfuðborginni, um að fá að taka skammbyssu með sér heim úr vinnunni í því skyni að verja sig og heimili sitt gegn hugsanlegum innbrotum. Borgaryfirvöld höfnuðu beiðninni á þeirri forsendu að hún stangaðist á við strangar reglur um geymslu og notkun vopna á einkaheimilum í höfuðborginni. Heller fór þá í mál við borgina og endaði það fyrir hæstarétti þar sem meirihlutinn dæmdi Heller í vil. Samkvæmt áliti dómsins veitti annar viðauki stjórnarskrárinnar eintökum borgurum skýran „rétt til að eiga skotvopn og að nota slík vopn til þess sem telst hefðbundinn löglegur tilgangur, eins og til sjálfsvarnar innan heimilis“, og skipti þá engu máli hvort þeir þjónuðu í landvarnarliði eða ekki („District of Columbia“ 2008: 570). Meirihluti dómsins las því viðaukann í tveimur aðskildum hlutum þannig að hann leit á ákvæðið um skipulegt landvarnarlið þannig að það væri í raun aðeins eins konar formáli sem tengdist ekki réttinum til að eiga og bera vopn. Tveimur árum síðar staðfesti hæstiréttur þennan úrskurð í nýjum dómi (McDonald v. City of Chicago) og þar með taldist hafið yfir allan vafa að hin nýja túlkun viðaukans næði til Bandaríkjanna allra.

Með þessum tveimur úrskurðum kvað hæstiréttur skýrt upp úr um það að annars vegar væri annar viðaukinn enn í fullu gildi og hins vegar að hann tryggði Bandaríkjamönnum einstaklingsbundinn rétt til að eiga og bera vopn. Það þýddi þó ekki að meirihluti réttarins liti svo á að allar takmarkanir á vopnaeign almennings í Bandaríkjunum heyrðu þar með sögunni til því að, svo vitnað sé til orða Antonins Scalia dómara, höfundar meirihlutaálitsins í máli Hellers, þá væri stjórnvöldum vitanlega heimilt að „banna dæmdum glæpamönnum [felons] og þeim sem eiga við andleg veikindi að stríða að eiga skotvopn, eða setja lög sem banna mönnum að bera skotvopn á viðkvæmum stöðum eins og í skólum eða opinberum byggingum, eða lögleiða reglur um og takmarkanir á sölu vopna“. Að síðustu lagði hann áherslu á að sú viðtekna regla að banna almenna notkun vopna „á sérlega hættulegum og óvenjulegum vopnum“ væri fyllilega lögmæt („District of Columbia“ 2008: 571).

Nemendur úr South High School í Minneapolis krefjast hertrar byssulöggjafar.

Síðustu áratugi hefur ríkt djúpstæður ágreiningur í bandarísku þjóðfélagi um hvort herða eigi reglur um vopnasölu eða gefa hana að mestu frjálsa. Báðar fylkingar í þessum átökum segjast hafa almannaöryggi að leiðarljósi en líta þó mjög ólíkum augum á það hvernig öryggi borgaranna verður best tryggt. Þeir sem vilja takmarka aðgengi á vopnum eru sannfærðir um að beint samband sé á milli hárrar tíðni dauðsfalla af völdum byssuskota í Bandaríkjunum og gríðarlegs fjölda skotvopna í almannaeigu þar í landi á meðan þeir sem vilja sem fæstar reglur telja að besta leiðin til að draga úr morðum í landinu sé að vopnbúa sem flesta löghlýðna borgara. Viðbrögðin við óhugnanlegu fjöldamorði í Sandy Hook-barnaskólanum í Connecticut árið 2012, þar sem byssumaður vopnaður hríðskotariffli myrti 26 manns með köldu blóði, þar af 20 sex og sjö ára börn, eru táknræn fyrir þessa umræðu (Lacombe 2021: 213–216; Spitzer 2021: 224–226). Morðin vöktu að vonum gríðarlegan óhug og urðu þau til þess að Barak Obama forseti og nokkrir þingmenn beggja flokka á Bandaríkjaþingi sameinuðust um frumvarp til laga um hertar reglur um sölu skotvopna í landinu. Á endanum dagaði málið þó uppi á þinginu, ekki síst vegna harðar andstöðu NRA-samtakanna. Eru fleyg orð helsta málsvara þeirra, Waynes LaPierre, lýsandi fyrir afstöðu NRA og andstæðinga reglna um vopnasölu: „Hið eina sem stöðvar slæman náunga með byssu er góður náungi með byssu“ (Lichtblau og Rich 2012). Besta leiðin til að koma í veg fyrir að harmleikurinn endurtæki sig var því ekki, að mati NRA, að forða því að öflug stríðstól lentu í höndum mögulegra fjöldamorðingja heldur, þvert á móti, að vopnvæða alla bandaríska barnaskóla.

Öllum sem þekkja til Bandaríkjanna má vera ljóst að þau eiga við alvarlegan vanda að stríða þegar kemur að notkun og eign skotvopna. Bandaríkin eru þannig sér á báti hvað varðar byssueign almennra borgara því að samkvæmt nýlegri úttekt voru þar 120,5 skotvopn á hverja 100 íbúa árið 2017 en næsta land á listanum var Jemen með 52,8 – Ísland vermdi síðan tíunda sætið með 31,7 skotvopn á hverja 100 íbúa (Karp 2018: 4). Tölur um dánarorsakir í heiminum benda í sömu átt því að Bandaríkin skera sig úr þegar tíðni mannsláta af völdum byssuskota er borin saman við önnur hliðstæð ríki. Tölur frá 23 iðnvæddum hátekjulöndum í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Eyjaálfu sýna til að mynda að rúmlega þrefalt fleiri Bandaríkjamenn létust hlutfallslega árið 2010 af völdum skotsára (sjálfsvíg og slysaskot meðtalin) en í því landi sem næst var á listanum, Austurríki – og reyndar voru þeir 50 sinnum fleiri en í landinu sem vermdi neðsta sæti listans, Bretlandi (Bangalore og Messerli 2013: 875; Grinshteyn og Hemenway 2016: 271). Ef við berum Ísland saman við Bandaríkin kemur svipað í ljós því að á árunum 2014–2019 létust að jafnaði 15,4 Bandaríkjamenn af skotsárum á ári á hverja 100 þúsund íbúa en sambærileg tala fyrir Ísland var 1,1 (Gun Violence Archive; „Dánir eftir dánarorsökum“).

Þótt þessar tölur ættu, einar og sér, að vera næg áminning um að eitthvað þurfi að breytast í umgengni Bandaríkjamanna við skotvopn þá eru það þó helst síendurteknar fréttir af fjöldamorðum sem ýta við almenningsálitinu þar í landi. „Þessu verður að linna“, sagði Joseph Biden forseti á blaðamannafundi 16. apríl 2021 þegar hann var spurður út í viðbrögð stjórnvalda við röð fjöldamorða dagana á undan. „Þetta er þjóðarskömm [national embarrassment].“ Hét hann því um leið að hann myndi róa að því öllum árum að þingið samþykkti lög sem kvæðu á um að bakgrunnur allra sem hyggjast kaupa skotvopn verði kannaður áður en slík viðskipti fara fram (universal background checks). Með því er ætlunin að koma í veg fyrir að fólk sem hætta stafar af komist yfir vopn. Um leið hvatti hann til að ýmis öflug skotvopn, ekki síst hálfsjálfvirkar byssur með geymslum fyrir fjölda skota, verði tekin af almennum markaði („Remarks by President Biden“). Öllum er þó fullljóst – ekki síst Biden sjálfum – að slík lög verða ekki sett á næstunni því að þótt aðgerðir af þessu tagi njóti mikils stuðnings meðal almennings (sbr. „Guns“) þá vantar pólitískan stuðning til þess að koma þeim í gegnum Bandaríkjaþing. Stærsti þröskuldurinn í veginum er eitilhörð andstaða Repúblikanaflokksins við hvers konar lög og reglur sem skerða rétt manna til að eiga og bera vopn en á síðustu árum hefur flokkurinn gert stuðninginn við annan viðauka stjórnarskrárinnar að nokkurs konar trúaratriði (Spitzer 2021: 177–179). „Við höldum á loft rétti einstaklinga til að eiga og bera vopn,“ segir í stefnuskrá flokksins fyrir forsetakosningarnar 2016 og 2020, „náttúrulegum rétti sem er eldri en stjórnarskráin og tryggður í öðrum viðauka stjórnarskrárinnar. Lögleg byssueign gerir Bandaríkjamönnum kleift að nýta guðlegan rétt þeirra [their God-given right] til sjálfsvarnar og tryggja þannig öryggi heimila sinna, ástvina sinna og þeirra samfélaga sem þeir búa í“ („2016 Republican Party Platform“ 2016). Ef eitthvað er þá má búast við að hæstiréttur Bandaríkjanna muni, með vísun í viðaukann, takmarka á komandi árum enn frekar en orðið er möguleika ríkisvaldsins og annarra yfirvalda til að setja reglur um vopnaburð enda hefur hægrisinnuðum dómurum, sem fylgir Repúblikanaflokknum að málum, fjölgað í hæstarétti á síðustu árum (sjá Liptak 2021).

Heimildir:

 • „2016 Republican Party Platform“. 2016. Republican Party Platforms, 18. júlí. The American Presidency Project, UC Santa Barbara. https://www.presidency.ucsb.edu/documents/2016-republican-party-platform.
 • Bangalore, Shripal og Franz H. Messerli 2013. „Gun Ownership and Firearm-related Deaths“. The American Journal of Medicine 126(10): 873–876.
 • „The Bill of Rights: A Transcription“. National Archives, https://www.archives.gov/founding-docs/bill-of-rights-transcript#toc-amendment-ii.
 • Blocher, Joseph og Darrell A. H. Miller. 2018. The Positive Second Amendment: Rights, Regulation, and the Future of Heller. Cambridge: Cambridge University Press.
 • Cornell, Saul. 2006. A Well-Regulated Militia: The Founding Fathers and the Origins of Gun Control in America. Oxford: Oxford University Press.
 • „Dánir eftir dánarorsökum (ICD-10), kyni og aldri 1996-2019“. Hagstofa Íslands. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__Faeddirdanir__danir__danarmein/MAN05302.px/?rxid=4058a421-1565-4cdf-8642-a4a9d20684e4.
 • „District of Columbia et al. v. Heller“. 2008. Cases Adjucated in the Supreme Court 554 bd. (Washington: Hæstiréttur Bandaríkjanna, 2008), bls. 570–723.
 • Edling, Max M. 2003. A Revolution in Favor of Government: Origins of the U.S. Constitution and the Making of the American State. New York: Oxford University Press.
 • Engerman, Stanley L. og Kenneth L. Sokoloff. 2005. „The Evolution of Suffrage Institutions in the New World.“ The Journal of Economic History 65(4): 891–921.
 • Grinshteyn, Erin og David Hemenway. 2016. „Violent Death Rates: The US Compared with Other High-income OECD Countries, 2010“. The American Journal of Medicine 129(3): 266–273.
 • Gun Violence Archive. https://www.gunviolencearchive.org/past-tolls.
 • „Guns“. In depth: topics A to Z. Gallup. https://news.gallup.com/poll/1645/guns.aspx.
 • Karp, Aaron. 2018. Estimating Global Civilian-Held Firearms Numbers. Genf: Small Arms Survey.
 • Lacombe, Matthew L. 2021. Firepower. How the NRA Turned Gun Owners into a Political Force. Princeton: Princeton University Press.
 • Levinson, Sanford. 1989. „The Embarrassing Second Amendmend“. Yale Law Journal 99: 637–659.
 • Lichtblau, Eric og Motoko Rich. 2012. „N.R.A. Envisions ‘a Good Guy With a Gun’ in Every School“, New York Times 22. desember, A: 1.
 • Liptak, Adam. 2021. „Court to Hear Case on Limit to Gun Rights“, New York Times 27. apríl, A: 1 og 21.
 • Ólafur S. Thorgeirsson. 1905. Hauksbók hin yngri. Borgaraleg fræði fyrir íslenzka borgara í Kanada og Bandaríkjum. Winnipeg: Prentsmiðja Lögbergs.
 • „Remarks by President Biden and Prime Minister Suga of Japan at Press Conference“. 2021. The White House Briefing Room, 16. apríl; https://www.whitehouse.gov/briefing-room/speeches-remarks/2021/04/16/remarks-by-president-biden-and-prime-minister-suga-of-japan-at-press-conference/.
 • Spitzer, Robert J. 2005. Saving the Constitution from Lawyers: How Legal Training and Law Reviews Distort Constitutional Meaning. Cambridge: Cambridge University Press.
 • Spitzer, Robert J. 2021. The Politics of Gun Control, 8. útg. New York: Routledge.
 • „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“. 2011. Stjórnlagaráð. Skjalasafn stjórnlagaráðs, stjórnskipun erlendra ríkja. http://www.stjornlagarad.is/servlet/file/Stj%C3%B3rnarskr%C3%A1+Bandar%C3%ADkjanna+-+%C3%A1+%C3%ADslensku.pdf?ITEM_ENT_ID=33002&ITEM_VERSION=1&COLLSPEC_ENT_ID=98.
 • Waldman, Michael. 2014. The Second Amendment. A Biography. New York: Simon & Schuster.

Myndir:

Höfundur

Guðmundur Hálfdanarson

prófessor í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

12.5.2021

Spyrjandi

Jóhann Ingi, ritstjórn

Tilvísun

Guðmundur Hálfdanarson. „Til hvers var öðrum viðaukanum bætt við bandarísku stjórnarskrána og hvaða gildi hefur hann í dag?“ Vísindavefurinn, 12. maí 2021. Sótt 19. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=80525.

Guðmundur Hálfdanarson. (2021, 12. maí). Til hvers var öðrum viðaukanum bætt við bandarísku stjórnarskrána og hvaða gildi hefur hann í dag? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=80525

Guðmundur Hálfdanarson. „Til hvers var öðrum viðaukanum bætt við bandarísku stjórnarskrána og hvaða gildi hefur hann í dag?“ Vísindavefurinn. 12. maí. 2021. Vefsíða. 19. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=80525>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Til hvers var öðrum viðaukanum bætt við bandarísku stjórnarskrána og hvaða gildi hefur hann í dag?
Í formála bandarísku stjórnarskrárinnar er markmiðum hennar lýst með þessum orðum:

Vér Bandaríkjamenn setjum og samþykkjum þessi grundvallarlög fyrir Bandaríki Ameríku í þeim tilgangi að koma á fullkomnara sambandsríki, stuðla að réttlæti, tryggja landsfriðinn, sjá fyrir sameiginlegum landvörnum, efla almenna velferð og tryggja sjálfum okkur og niðjum okkar blessun frelsisins (Ólafur S. Thorgeirsson 1905: 43; „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“ 2011).
Samkvæmt þeim hugmyndum sem við gerum okkur nú um lýðræðisleg mannréttindi fór því fjarri að hið nýja ríki uppfyllti háleit markmið stjórnarskrárinnar. Upphafsorð formálans hljóma að minnsta kosti undarlega í eyrum þegar þess er gætt að nærri einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum var hnepptur í þrældóm þegar stjórnarskráin var samin og hún tryggði því fólki hvorki réttlæti né blessun frelsisins. Bandarískar konur voru heldur ekki spurðar álits við samningu eða samþykkt skrárinnar og reyndar fengu margir fátækir karlar ekki kosningarétt í Bandaríkjunum fyrr en komið var langt fram á 19. öld (Engerman og Sokoloff 2005).

Þessi mannréttindabrot voru þó ekki efst í huga þeirra sem deildu um innihald og orðalag stjórnarskrárinnar á sérstöku stjórnlagaþingi í Fíladelfíuborg sumarið 1787 eða á þingum ríkjanna 13 sem þá mynduðu Bandaríkin í kjölfarið, heldur frekar hvernig samskiptum sambandsríkisins við bæði einstaka borgara og stjórnvöld aðildarríkjanna skyldi háttað. Í grófum dráttum skiptust menn þar í tvær andstæðar fylkingar, það er sambandsstjórnarsinna (Federalists) annars vegar og and-sambandsstjórnarsinna (Anti-Federalists) hins vegar. Hinir fyrrnefndu lögðu áherslu á tiltölulega sterkt sambandsríki á meðan hinir síðarnefndu vildu styrkja völd aðildarríkja sambandsins á kostnað sambandsstjórnarinnar, ekki síst vegna þess að þeir óttuðust hugsanlegt ofríki ríkisvaldsins í framtíðinni. Reiknuðu þeir með að ef sambandsstjórnin fengi of mikið vald þá væri hætta á að Bandaríkin þróuðust í sömu átt og konungsríki Evrópu, það er að segja hið nýja ríki myndi breytast smám saman úr lýðveldi í einvalda konungsríki (Edling 2003).

Til að slá á þennan ótta samþykkti meirihluti þingmanna á fyrsta sambandsþingi Bandaríkjanna, sem kom saman í New York-borg sumarið 1789, tólf viðauka við stjórnarskrána. Voru tíu þeirra staðfestir á þingum sambandsríkjanna á næstu tveimur árum en 11. viðaukinn var ekki samþykktur af nægilega mörgum ríkjum fyrr en rúmum tveimur öldum síðar og er hann nú 27. viðauki bandarísku stjórnarskrárinnar – og 12. og síðasti þessara viðauka hefur enn ekki hlotið náð fyrir nægilegum fjölda aðildarríkja til að verða fullgildur. Frá upphafi hafa þessir fyrstu tíu viðaukar stjórnarskrárinnar gengið sameiginlega undir heitinu Réttindaskrá Bandaríkjanna (The United States Bill of Rights) og er annar stjórnarskrárviðaukinn, sem hér er til umræðu, hluti af þeim pakka.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna var samþykkt á stjórnlagaþingi í Fíladelfíuborg 17. september 1787.

Það sem tengir Réttindaskrána saman í eina heild er að öllum viðaukunum tíu var ætlað, með einum eða öðrum hætti, að verja frjálsa borgara í Bandaríkjunum gegn hugsanlegum yfirgangi sambandsríkisins. Í flestum viðaukanna liggur þetta markmið í augum uppi því að þeir fjalla beinlínis um hluti sem enn teljast mikilvæg mannréttindi – þar er kveðið á um að sambandsþinginu sé óheimilt að setja lög sem takmarka funda-, mál-, prent- og trúfrelsi í Bandaríkjunum, friðhelgi heimila og eigna er tryggt, bann er lagt við tilefnislausum lögreglurannsóknum, réttur sakborninga er varinn, krafa er gerð um að sakborningar í málsóknum séu rannsakaðir fyrir óhlutdrægum kviðdómum, bann er lagt við miskunnarlausum og óvenjulegum refsingum, og svo framvegis.

Eitt af því sem tekist var á um við gerð stjórnarskrárinnar var hvernig haga ætti landvörnum í hinu nýja ríki og eru annar og þriðji viðaukinn niðurstaða þeirra deilna. Reynslan af frelsisstríðinu (1775–1783) og ekki síður af bændauppreisn í Massachusetts að því loknu (svokallaðri Shays’ Rebellion árið 1786) sannfærði ráðamenn um að sambandsstjórnin yrði að hafa yfir skipulegum her að ráða til að verjast bæði ytri og innri ógnunum. Margir and-sambandsstjórnarsinnar óttuðust aftur á móti að ríkisrekinn fastaher yrði óhjákvæmilega fjárhagsleg byrði á almennum borgurum, um leið og hann kynni að verða tæki í höndum þeirra sem vildu koma á harðstjórn í landinu (Cornell 2006). Þriðji viðaukinn leggur því blátt bann við því að hermenn verði vistaðir á heimilum fólks, gegn vilja þess, á friðartímum en sá siður (quartering) hafði verið eitt af helstu umkvörtunarefnum norður-amerískra nýlendubúa í aðdraganda frelsisstríðsins gegn Bretum. Annar viðaukinn verður að skoðast í þessu samhengi þótt merking hans sé langt frá því augljós. Hann hljóðar svo á frummálinu:
A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State, the right of the people to keep and bear Arms, shall not be infringed („The Bill of Rights“).

Í þýðingu Vestur-Íslendingsins Ólafs S. Thorgeirssonar hljómar hann þannig:
Með því að landvarnarlið með góðu skipulagi er nauðsynlegt fyrir óhultleika [öryggi] frjálsra ríkja, skal réttur þjóðarinnar til að eiga og bera vopn óskertur látinn (1905: 58).

Helsti vandinn við viðaukann er að sá að hann er settur saman úr tveimur liðum, sem hvor um sig gæti staðið sjálfstætt, án þess að fyllilega ljóst sé hvernig eða hvort þeir tengjast. Í fyrri hluta viðaukans er þannig lögð áhersla á mikilvægi landvarnarliðs (Militia) fyrir varnir ríkisins (A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State) á meðan hinn síðari leggur blátt bann við því að skerða rétt þjóðarinnar til að eiga og bera vopn (the right of the people to keep and bear Arms, shall not be infringed). Einfaldast er að skilja viðaukann þannig að fyrri liðurinn skilyrði hinn síðari, það er að óskoraður réttur fólks til vopnaburðar tengist þátttöku þess í skipulögðum hópum landvarnarliðs, en slíkt lið var hugsað sem lýðræðislegt mótvægi við fasta- eða atvinnuheri í þjónustu sambandsstjórnarinnar (Spitzer 2008: 129–176). Að auki má hugsa sér að höfundar Réttindaskrárinnar hafi, með því að tengja vopnaburð við þátttöku í skipulögðu landvarnarliði, viljað takmarka byssueign í landinu og draga með því úr hættunni á óöld og glæpum. Í Suðurríkjunum, þar sem byssueign var mun almennari en í Norðurríkjunum, fékk slík túlkun viðaukans byr undir báða vængi eftir að þrælahald var afnumið í lok bandaríska borgarastríðsins (1861–1865) því að hvítir Suðurríkjamenn nýttu sér hann óspart til að afvopna fyrrverandi þræla sem vildu verjast skipulegu ofbeldi samtaka hvítra kynþáttahatara á borð við Ku Klux Klan (Cornell 2006: 168–169).

Árið 1789 voru samþykktir tíu viðaukar við stjórnarskrá Bandaríkjanna og ganga þeir sameiginlega undir heitinu Réttindaskrá Bandaríkjanna (The United States Bill of Rights).

Allt fram yfir miðja síðustu öld olli annar viðaukinn takmörkuðum deilum í Bandaríkjunum enda taldist hann smám saman – líkt og þriðji viðaukinn – meira og minna úreltur. Fylgi við reglur sem takmörkuðu aðgengi að byssum (gun control) nutu almenns fylgis, því að með örri þróun í vopnaframleiðslu á síðari hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar jókst hættan á að einstakir glæpamenn og glæpagengi kæmust yfir öflug skotvopn og ógnuðu með því öryggi borgaranna. Stríð á milli sprúttsala á bannárunum (1920–1933), þar sem tekist var á með vélbyssum og afsöguðum haglabyssum, vöktu líka almennan óhug og urðu þau til þess að Bandaríkjaþing setti, að frumkvæði Franklins D. Roosevelt forseta, skotvopnalög árið 1934 (The National Firearms Act). Samkvæmt þeim voru ákveðnar tegundir skotvopna skattlagðar sérstaklega (aðallega vélbyssur og afsagaðar haglabyssur), bann var lagt við að flytja slík vopn á milli ríkja innan Bandaríkjanna og krafa var gerð um að þeir sem áttu slík vopn væru skráðir í miðlægan gagnagrunn í umsjá stjórnvalda. Að nafninu til var markmið laganna fyrst og fremst að skattleggja vopnasölu en í reynd takmörkuðu þau réttinn til að eiga og bera ákveðnar tegundir vopna.

Réttmæti laganna var staðfest í kunnum dómi hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 1939 (United States v. Miller) en þar hafnaði rétturinn því að bankaræningi nokkur, Jack Miller að nafni, hefði stjórnarskrárvarinn rétt að flytja afsagaða haglabyssu á milli ríkja. Rök hæstaréttar í málinu voru þau að vandséð væri hvernig slík vopn gætu nýst fyrir skipulegt landvarnarlið og þar að auki starfaði bankaræninginn sannarlega ekki í neinu landvarnarliði. Af þeim sökum taldi rétturinn ríkið hafa fulla heimild til að meina Miller að bera afasagaða haglabyssu yfir ríkislandamæri hvað sem öðrum viðauka stjórnarskrárinnar leið (Blocher og Miller 2018: 47–49; Cornell 2006: 200–204; Waldman 2014: 82–83).

Ný viðhorf til löggæslu og landvarnarna breyttu líka merkingu fyrra liðs viðaukans. Almennt er litið svo á að í nútímaríkjum hafi ríkisvaldið einkarétt á að beita ofbeldi og því sé það ekki hlutverk almennra borgara, jafnvel ekki í skipulögðu landvarnarliði, að halda uppi lögum og reglu eða að verja landið fyrir innrásum óvinveittra ríkja. Af þeim sökum var stofnað til svokallaðs þjóðvarðliðs í Bandaríkjunum (National Guard) árið 1903 og tók það yfir þær skyldur sem menn höfðu áður ætlað skipulögðu landvarnarliði (Blocher og Miller 2018: 22–23; Cornell 2006: 196–198). Þjóðvarðlið Bandaríkjanna er nú hálfgerður atvinnuher og heyrir það annars vegar beint undir forsetann og hins vegar undir ríkisstjóra í hverju ríki fyrir sig og geta þeir gripið til liðsins þegar þurfa þykir. Þar með mátti túlka annan viðaukann þannig að hann ætti einungis við þá örfáu Bandaríkjamenn sem voru skráðir í þjóðvarðliðið hverju sinni því að það var í raun eina viðurkennda skipulega landvarnarliðið í landinu.

Morðið á John F. Kennedy forseta árið 1963 hafði meðal annars í för með sér aukinn stuðning almennings við heimildir yfirvalda í mörgum ríkjum og borgum Bandaríkjanna til að takmarka sölu skotvopna, vopnaburð á almannafæri og meðferð löglegra vopna á heimilum fólks.

Lengst af síðustu aldar virtust því bæði stjórnvöld og dómstólar sammála um að annar viðauki stjórnarskrárinnar snerist einungis um það sem kallast sameiginlegur réttur (collective eða communitarian right) til að eiga og bera vopn en ætti alls ekki við almennan vopnaburð einstaklinga (individual right; Spitzer 2021: 33–75). Af þessum sökum gengu yfirvöld í mörgum ríkjum og borgum Bandaríkjanna út frá því sem vísu að þau hefðu mjög víðtækar heimildir til að takmarka sölu skotvopna, vopnaburð á almannafæri og meðferð löglegra vopna á heimilum fólks innan umdæma sinna. Morðin á John F. Kennedy forseta, Robert bróður hans og Martin Luther King árið 1968 juku stuðning við slíkar reglur. Aldrei ríkti þó full sátt um þessa túlkun á viðaukanum því að margir fræði- og stjórnmálamenn lásu hann á allt annan hátt. Með því að skoða sögulegt baksvið viðaukans og bera hann saman við aðrar greinar Réttindaskrárinnar töldu þeir sig geta sýnt fram á að markmið höfunda hans hafi verið að tryggja rétt einstakra borgara til að eiga og bera vopn í sjálfsvarnarskyni (sjá t.d. Blocher og Miller 2018: 94–95; Levinson 1989; Spitzer 2008 og 2021; Waldman 2014: 98–99). Með þrotlausri baráttu í fjölmiðlum og skipulegri hagsmunagæslu tókst öflugum þrýstihópum á borð við samtök bandarískra byssueigenda (The National Rifle Association eða NRA) og bandarískra vopnaframleiðenda að afla slíkum skoðunum fylgis meðal ráðamanna og jókst því andstaðan við reglur um vopnasölu stöðugt þegar leið á síðustu öld, ekki síst á hægri væng stjórnmálanna.

Vatnaskil urðu í sögu annars viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar árið 2008 með dómi hæstaréttar í máli Washington-borgar gegn Dick Heller (District of Columbia v. Heller). Málið snerist um beiðni Hellers þessa, sem starfaði sem vopnaður öryggisvörður í höfuðborginni, um að fá að taka skammbyssu með sér heim úr vinnunni í því skyni að verja sig og heimili sitt gegn hugsanlegum innbrotum. Borgaryfirvöld höfnuðu beiðninni á þeirri forsendu að hún stangaðist á við strangar reglur um geymslu og notkun vopna á einkaheimilum í höfuðborginni. Heller fór þá í mál við borgina og endaði það fyrir hæstarétti þar sem meirihlutinn dæmdi Heller í vil. Samkvæmt áliti dómsins veitti annar viðauki stjórnarskrárinnar eintökum borgurum skýran „rétt til að eiga skotvopn og að nota slík vopn til þess sem telst hefðbundinn löglegur tilgangur, eins og til sjálfsvarnar innan heimilis“, og skipti þá engu máli hvort þeir þjónuðu í landvarnarliði eða ekki („District of Columbia“ 2008: 570). Meirihluti dómsins las því viðaukann í tveimur aðskildum hlutum þannig að hann leit á ákvæðið um skipulegt landvarnarlið þannig að það væri í raun aðeins eins konar formáli sem tengdist ekki réttinum til að eiga og bera vopn. Tveimur árum síðar staðfesti hæstiréttur þennan úrskurð í nýjum dómi (McDonald v. City of Chicago) og þar með taldist hafið yfir allan vafa að hin nýja túlkun viðaukans næði til Bandaríkjanna allra.

Með þessum tveimur úrskurðum kvað hæstiréttur skýrt upp úr um það að annars vegar væri annar viðaukinn enn í fullu gildi og hins vegar að hann tryggði Bandaríkjamönnum einstaklingsbundinn rétt til að eiga og bera vopn. Það þýddi þó ekki að meirihluti réttarins liti svo á að allar takmarkanir á vopnaeign almennings í Bandaríkjunum heyrðu þar með sögunni til því að, svo vitnað sé til orða Antonins Scalia dómara, höfundar meirihlutaálitsins í máli Hellers, þá væri stjórnvöldum vitanlega heimilt að „banna dæmdum glæpamönnum [felons] og þeim sem eiga við andleg veikindi að stríða að eiga skotvopn, eða setja lög sem banna mönnum að bera skotvopn á viðkvæmum stöðum eins og í skólum eða opinberum byggingum, eða lögleiða reglur um og takmarkanir á sölu vopna“. Að síðustu lagði hann áherslu á að sú viðtekna regla að banna almenna notkun vopna „á sérlega hættulegum og óvenjulegum vopnum“ væri fyllilega lögmæt („District of Columbia“ 2008: 571).

Nemendur úr South High School í Minneapolis krefjast hertrar byssulöggjafar.

Síðustu áratugi hefur ríkt djúpstæður ágreiningur í bandarísku þjóðfélagi um hvort herða eigi reglur um vopnasölu eða gefa hana að mestu frjálsa. Báðar fylkingar í þessum átökum segjast hafa almannaöryggi að leiðarljósi en líta þó mjög ólíkum augum á það hvernig öryggi borgaranna verður best tryggt. Þeir sem vilja takmarka aðgengi á vopnum eru sannfærðir um að beint samband sé á milli hárrar tíðni dauðsfalla af völdum byssuskota í Bandaríkjunum og gríðarlegs fjölda skotvopna í almannaeigu þar í landi á meðan þeir sem vilja sem fæstar reglur telja að besta leiðin til að draga úr morðum í landinu sé að vopnbúa sem flesta löghlýðna borgara. Viðbrögðin við óhugnanlegu fjöldamorði í Sandy Hook-barnaskólanum í Connecticut árið 2012, þar sem byssumaður vopnaður hríðskotariffli myrti 26 manns með köldu blóði, þar af 20 sex og sjö ára börn, eru táknræn fyrir þessa umræðu (Lacombe 2021: 213–216; Spitzer 2021: 224–226). Morðin vöktu að vonum gríðarlegan óhug og urðu þau til þess að Barak Obama forseti og nokkrir þingmenn beggja flokka á Bandaríkjaþingi sameinuðust um frumvarp til laga um hertar reglur um sölu skotvopna í landinu. Á endanum dagaði málið þó uppi á þinginu, ekki síst vegna harðar andstöðu NRA-samtakanna. Eru fleyg orð helsta málsvara þeirra, Waynes LaPierre, lýsandi fyrir afstöðu NRA og andstæðinga reglna um vopnasölu: „Hið eina sem stöðvar slæman náunga með byssu er góður náungi með byssu“ (Lichtblau og Rich 2012). Besta leiðin til að koma í veg fyrir að harmleikurinn endurtæki sig var því ekki, að mati NRA, að forða því að öflug stríðstól lentu í höndum mögulegra fjöldamorðingja heldur, þvert á móti, að vopnvæða alla bandaríska barnaskóla.

Öllum sem þekkja til Bandaríkjanna má vera ljóst að þau eiga við alvarlegan vanda að stríða þegar kemur að notkun og eign skotvopna. Bandaríkin eru þannig sér á báti hvað varðar byssueign almennra borgara því að samkvæmt nýlegri úttekt voru þar 120,5 skotvopn á hverja 100 íbúa árið 2017 en næsta land á listanum var Jemen með 52,8 – Ísland vermdi síðan tíunda sætið með 31,7 skotvopn á hverja 100 íbúa (Karp 2018: 4). Tölur um dánarorsakir í heiminum benda í sömu átt því að Bandaríkin skera sig úr þegar tíðni mannsláta af völdum byssuskota er borin saman við önnur hliðstæð ríki. Tölur frá 23 iðnvæddum hátekjulöndum í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Eyjaálfu sýna til að mynda að rúmlega þrefalt fleiri Bandaríkjamenn létust hlutfallslega árið 2010 af völdum skotsára (sjálfsvíg og slysaskot meðtalin) en í því landi sem næst var á listanum, Austurríki – og reyndar voru þeir 50 sinnum fleiri en í landinu sem vermdi neðsta sæti listans, Bretlandi (Bangalore og Messerli 2013: 875; Grinshteyn og Hemenway 2016: 271). Ef við berum Ísland saman við Bandaríkin kemur svipað í ljós því að á árunum 2014–2019 létust að jafnaði 15,4 Bandaríkjamenn af skotsárum á ári á hverja 100 þúsund íbúa en sambærileg tala fyrir Ísland var 1,1 (Gun Violence Archive; „Dánir eftir dánarorsökum“).

Þótt þessar tölur ættu, einar og sér, að vera næg áminning um að eitthvað þurfi að breytast í umgengni Bandaríkjamanna við skotvopn þá eru það þó helst síendurteknar fréttir af fjöldamorðum sem ýta við almenningsálitinu þar í landi. „Þessu verður að linna“, sagði Joseph Biden forseti á blaðamannafundi 16. apríl 2021 þegar hann var spurður út í viðbrögð stjórnvalda við röð fjöldamorða dagana á undan. „Þetta er þjóðarskömm [national embarrassment].“ Hét hann því um leið að hann myndi róa að því öllum árum að þingið samþykkti lög sem kvæðu á um að bakgrunnur allra sem hyggjast kaupa skotvopn verði kannaður áður en slík viðskipti fara fram (universal background checks). Með því er ætlunin að koma í veg fyrir að fólk sem hætta stafar af komist yfir vopn. Um leið hvatti hann til að ýmis öflug skotvopn, ekki síst hálfsjálfvirkar byssur með geymslum fyrir fjölda skota, verði tekin af almennum markaði („Remarks by President Biden“). Öllum er þó fullljóst – ekki síst Biden sjálfum – að slík lög verða ekki sett á næstunni því að þótt aðgerðir af þessu tagi njóti mikils stuðnings meðal almennings (sbr. „Guns“) þá vantar pólitískan stuðning til þess að koma þeim í gegnum Bandaríkjaþing. Stærsti þröskuldurinn í veginum er eitilhörð andstaða Repúblikanaflokksins við hvers konar lög og reglur sem skerða rétt manna til að eiga og bera vopn en á síðustu árum hefur flokkurinn gert stuðninginn við annan viðauka stjórnarskrárinnar að nokkurs konar trúaratriði (Spitzer 2021: 177–179). „Við höldum á loft rétti einstaklinga til að eiga og bera vopn,“ segir í stefnuskrá flokksins fyrir forsetakosningarnar 2016 og 2020, „náttúrulegum rétti sem er eldri en stjórnarskráin og tryggður í öðrum viðauka stjórnarskrárinnar. Lögleg byssueign gerir Bandaríkjamönnum kleift að nýta guðlegan rétt þeirra [their God-given right] til sjálfsvarnar og tryggja þannig öryggi heimila sinna, ástvina sinna og þeirra samfélaga sem þeir búa í“ („2016 Republican Party Platform“ 2016). Ef eitthvað er þá má búast við að hæstiréttur Bandaríkjanna muni, með vísun í viðaukann, takmarka á komandi árum enn frekar en orðið er möguleika ríkisvaldsins og annarra yfirvalda til að setja reglur um vopnaburð enda hefur hægrisinnuðum dómurum, sem fylgir Repúblikanaflokknum að málum, fjölgað í hæstarétti á síðustu árum (sjá Liptak 2021).

Heimildir:

 • „2016 Republican Party Platform“. 2016. Republican Party Platforms, 18. júlí. The American Presidency Project, UC Santa Barbara. https://www.presidency.ucsb.edu/documents/2016-republican-party-platform.
 • Bangalore, Shripal og Franz H. Messerli 2013. „Gun Ownership and Firearm-related Deaths“. The American Journal of Medicine 126(10): 873–876.
 • „The Bill of Rights: A Transcription“. National Archives, https://www.archives.gov/founding-docs/bill-of-rights-transcript#toc-amendment-ii.
 • Blocher, Joseph og Darrell A. H. Miller. 2018. The Positive Second Amendment: Rights, Regulation, and the Future of Heller. Cambridge: Cambridge University Press.
 • Cornell, Saul. 2006. A Well-Regulated Militia: The Founding Fathers and the Origins of Gun Control in America. Oxford: Oxford University Press.
 • „Dánir eftir dánarorsökum (ICD-10), kyni og aldri 1996-2019“. Hagstofa Íslands. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__Faeddirdanir__danir__danarmein/MAN05302.px/?rxid=4058a421-1565-4cdf-8642-a4a9d20684e4.
 • „District of Columbia et al. v. Heller“. 2008. Cases Adjucated in the Supreme Court 554 bd. (Washington: Hæstiréttur Bandaríkjanna, 2008), bls. 570–723.
 • Edling, Max M. 2003. A Revolution in Favor of Government: Origins of the U.S. Constitution and the Making of the American State. New York: Oxford University Press.
 • Engerman, Stanley L. og Kenneth L. Sokoloff. 2005. „The Evolution of Suffrage Institutions in the New World.“ The Journal of Economic History 65(4): 891–921.
 • Grinshteyn, Erin og David Hemenway. 2016. „Violent Death Rates: The US Compared with Other High-income OECD Countries, 2010“. The American Journal of Medicine 129(3): 266–273.
 • Gun Violence Archive. https://www.gunviolencearchive.org/past-tolls.
 • „Guns“. In depth: topics A to Z. Gallup. https://news.gallup.com/poll/1645/guns.aspx.
 • Karp, Aaron. 2018. Estimating Global Civilian-Held Firearms Numbers. Genf: Small Arms Survey.
 • Lacombe, Matthew L. 2021. Firepower. How the NRA Turned Gun Owners into a Political Force. Princeton: Princeton University Press.
 • Levinson, Sanford. 1989. „The Embarrassing Second Amendmend“. Yale Law Journal 99: 637–659.
 • Lichtblau, Eric og Motoko Rich. 2012. „N.R.A. Envisions ‘a Good Guy With a Gun’ in Every School“, New York Times 22. desember, A: 1.
 • Liptak, Adam. 2021. „Court to Hear Case on Limit to Gun Rights“, New York Times 27. apríl, A: 1 og 21.
 • Ólafur S. Thorgeirsson. 1905. Hauksbók hin yngri. Borgaraleg fræði fyrir íslenzka borgara í Kanada og Bandaríkjum. Winnipeg: Prentsmiðja Lögbergs.
 • „Remarks by President Biden and Prime Minister Suga of Japan at Press Conference“. 2021. The White House Briefing Room, 16. apríl; https://www.whitehouse.gov/briefing-room/speeches-remarks/2021/04/16/remarks-by-president-biden-and-prime-minister-suga-of-japan-at-press-conference/.
 • Spitzer, Robert J. 2005. Saving the Constitution from Lawyers: How Legal Training and Law Reviews Distort Constitutional Meaning. Cambridge: Cambridge University Press.
 • Spitzer, Robert J. 2021. The Politics of Gun Control, 8. útg. New York: Routledge.
 • „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“. 2011. Stjórnlagaráð. Skjalasafn stjórnlagaráðs, stjórnskipun erlendra ríkja. http://www.stjornlagarad.is/servlet/file/Stj%C3%B3rnarskr%C3%A1+Bandar%C3%ADkjanna+-+%C3%A1+%C3%ADslensku.pdf?ITEM_ENT_ID=33002&ITEM_VERSION=1&COLLSPEC_ENT_ID=98.
 • Waldman, Michael. 2014. The Second Amendment. A Biography. New York: Simon & Schuster.

Myndir:...