Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Eru Grýla, Leppalúði og jólakötturinn til í dag?

Ritstjórn Vísindavefsins

Nokkrir lesendur af yngri kynslóðinni hafa spurt Vísindavefinn um Grýlu. Það sem helst brennur á krökkunum er hvort hún sé enn á lífi og hvað hún sé þá eiginlega gömul? Nemendur í Hamraskóla vilja síðan fá að vita um allt í senn: Grýlu, Leppalúða og sjálfan jólaköttinn!

Við Vísindavefinn starfar þverfaglegt jólavísindamannafræðiráð sem gegnir því hlutverki að svara allra snúnustu spurningunum. Þessi spurning er augljóslega af því tagi - eða minnsta kosti sitt af hvoru tagi.

Best er að svara samsettum spurningum lið fyrir lið, sumt virðist augljóst, annað loðið og hið þriðja hlýtur þá að vera alveg harðsoðið!

Augljóst

Grýla er dauð!

Elstu heimildir um Grýlu eru um 800 ára gamlar. Hún kemur fyrst fyrir í þulum Snorra Eddu og í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar. Rannsóknir hafa sýnt að grænlandshákarlinn, sem talinn er ná hæsta aldri allra hryggdýra, verður ekki nema um 500 ára. Öll vísindaleg rök benda því til þess að Grýla sé löngu dauð enda gafst hún upp á rólunum eins og hvert einasta leikskólabarn veit mætavel!

Loðið

Meiri vafi leikur á tilvist Leppalúða. Vitað er að Grýla var raðkvæniskona og átti að minnsta kosti þrjá menn. Sá fyrsti hét Gustur. Grýla át hann. Hann er því augljóslega dáinn. Annar hét var Boli og sá þriðji Leppalúði.

Grýla var frumkvöðull í því sem kallast að „yngja upp“. Leppalúða kynnist hún á 17. öld og ljóst er að á þessu skeiði voru þau afar frjósöm og eignuðust sæg af jólasveinum. Ekki er tryggt að öll afkvæmin séu getin af Leppalúða og þangað til nothæft erfðaefni finnst ríkir einhver óvissa um það. Séu öll nöfn jólasveinanna talin er um að ræða 80 stykki. Kynorka Grýlu og Leppalúða var því allveruleg. Eins og kunnugt er stendur kynorkan í öfugu hlutfalli við stöðuorkuna en eykst línulega með hreyfiorkunni. Um þetta má fræðast meira um í svari við spurningunni Hvað er kynorka?

Kynorka Grýla og Leppalúða var allveruleg. Það er alkunna að kynorkan stendur í öfugu hlutfalli við stöðuorkuna en eykst línulega með hreyfiorkunni. Á myndinni sjást Grýla, Leppalúði og sægur jólasveina.

Ekki er fullvíst hvaða áhrif kynorkan hefur á efnislega tilvist Leppalúða. Eðlisfræðingar vita að efni getur orðið til úr orku og efnið getur líka breyst í orku. Það orkar varla tvímælis að það sama gildi um kynorku. Rannsóknir á þessu sviði eru hins vegar hvergi nærri afdráttarlausar og þess vegna er best að láta hér staðar numið.

Harðsoðið

Um jólaköttinn er það að segja að hann tilheyrir sérstökum flokki árstíðabundinna dýrategunda. Aðrar kunnar tegundir sem dýrafræðingar hafa lýst eru til að mynda páskalambið, jólagæsin, jólaöndin, páskahérinn, haustfiðrildin og sumarafleysingafólkið.[1] Latneskt fræðiheiti jólakattarins er Felis nativitatis.

Íslenskir fornleifafræðingar hafa fundið nokkur kattabein frá tímum fyrstu landnámsmanna og síðar. Í ljós hefur komið að þau eru öll af heimiliskettinum Felis silvestris catus. Um þessa beinafundi er hægt að lesa meira um í fróðlegu svari við spurningunni Hvenær komu kettir fyrst til Íslands? Þar sem enn hafa ekki fundist bein af tegundinni Felis nativitatis er ekki hægt að slá neinu föstu um hvar hann er niðurkominn.[2] Það er þó engin ástæða til að skjálfa á beinunum, enda er jólakötturinn örugglega töluvert ljúfur inn við beinið.

Fornleifafræðingar Vísindavefsins heita því að linna ekki látum fyrr öll kurl eru komin til grafar í þessu máli. Þá loksins verður björninn unninn og litlu börnin þurfa ekki lengur að fara kringum hræðilegan jólakött eins og köttur kringum heitan graut. Þetta er augljóslega leikur kattarins að músinni - vísindin munu ekki kaupa köttinn í sekknum í þessu máli!

Tilvísanir:
  1. ^ Svo þekkjast líka árstíðabundnar veirur, eins og inflúensuveiran.
  2. ^ Kannski er hann grafinn með Jónasi? Það kemur þá fljótlega í ljós eins og hægt er að lesa um í svari við spurningunni Geta nútímavísindi sagt til um það hvort bein sem grafin eru á Þingvöllum séu í raun og veru af Jónasi Hallgrímssyni?

Ef einhver hefur ekki áttað sig á því þá tilheyrir þetta svar svonefndum föstudagssvörum (þó að það birtist á Þorláksmessu á miðvikudegi). Það er því næstum ekkert að marka það sem hér stendur - nema auðvitað eðlisfræðina í svarinu - um hana er ekki hægt að deila.

Mynd:

Móey spurði: Við vitum að Grýla er löngu dauð en hversu gömul var hún? Margrét Arna spurði: Hvað er Grýla gömul?

Útgáfudagur

23.12.2020

Spyrjandi

1. bekkur Þ.Á. Hamraskóla í Reykjavík, Móey Garðarsdóttir, Margrét Arna Björnsdóttir

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins. „Eru Grýla, Leppalúði og jólakötturinn til í dag? “ Vísindavefurinn, 23. desember 2020. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=80740.

Ritstjórn Vísindavefsins. (2020, 23. desember). Eru Grýla, Leppalúði og jólakötturinn til í dag? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=80740

Ritstjórn Vísindavefsins. „Eru Grýla, Leppalúði og jólakötturinn til í dag? “ Vísindavefurinn. 23. des. 2020. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=80740>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru Grýla, Leppalúði og jólakötturinn til í dag?
Nokkrir lesendur af yngri kynslóðinni hafa spurt Vísindavefinn um Grýlu. Það sem helst brennur á krökkunum er hvort hún sé enn á lífi og hvað hún sé þá eiginlega gömul? Nemendur í Hamraskóla vilja síðan fá að vita um allt í senn: Grýlu, Leppalúða og sjálfan jólaköttinn!

Við Vísindavefinn starfar þverfaglegt jólavísindamannafræðiráð sem gegnir því hlutverki að svara allra snúnustu spurningunum. Þessi spurning er augljóslega af því tagi - eða minnsta kosti sitt af hvoru tagi.

Best er að svara samsettum spurningum lið fyrir lið, sumt virðist augljóst, annað loðið og hið þriðja hlýtur þá að vera alveg harðsoðið!

Augljóst

Grýla er dauð!

Elstu heimildir um Grýlu eru um 800 ára gamlar. Hún kemur fyrst fyrir í þulum Snorra Eddu og í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar. Rannsóknir hafa sýnt að grænlandshákarlinn, sem talinn er ná hæsta aldri allra hryggdýra, verður ekki nema um 500 ára. Öll vísindaleg rök benda því til þess að Grýla sé löngu dauð enda gafst hún upp á rólunum eins og hvert einasta leikskólabarn veit mætavel!

Loðið

Meiri vafi leikur á tilvist Leppalúða. Vitað er að Grýla var raðkvæniskona og átti að minnsta kosti þrjá menn. Sá fyrsti hét Gustur. Grýla át hann. Hann er því augljóslega dáinn. Annar hét var Boli og sá þriðji Leppalúði.

Grýla var frumkvöðull í því sem kallast að „yngja upp“. Leppalúða kynnist hún á 17. öld og ljóst er að á þessu skeiði voru þau afar frjósöm og eignuðust sæg af jólasveinum. Ekki er tryggt að öll afkvæmin séu getin af Leppalúða og þangað til nothæft erfðaefni finnst ríkir einhver óvissa um það. Séu öll nöfn jólasveinanna talin er um að ræða 80 stykki. Kynorka Grýlu og Leppalúða var því allveruleg. Eins og kunnugt er stendur kynorkan í öfugu hlutfalli við stöðuorkuna en eykst línulega með hreyfiorkunni. Um þetta má fræðast meira um í svari við spurningunni Hvað er kynorka?

Kynorka Grýla og Leppalúða var allveruleg. Það er alkunna að kynorkan stendur í öfugu hlutfalli við stöðuorkuna en eykst línulega með hreyfiorkunni. Á myndinni sjást Grýla, Leppalúði og sægur jólasveina.

Ekki er fullvíst hvaða áhrif kynorkan hefur á efnislega tilvist Leppalúða. Eðlisfræðingar vita að efni getur orðið til úr orku og efnið getur líka breyst í orku. Það orkar varla tvímælis að það sama gildi um kynorku. Rannsóknir á þessu sviði eru hins vegar hvergi nærri afdráttarlausar og þess vegna er best að láta hér staðar numið.

Harðsoðið

Um jólaköttinn er það að segja að hann tilheyrir sérstökum flokki árstíðabundinna dýrategunda. Aðrar kunnar tegundir sem dýrafræðingar hafa lýst eru til að mynda páskalambið, jólagæsin, jólaöndin, páskahérinn, haustfiðrildin og sumarafleysingafólkið.[1] Latneskt fræðiheiti jólakattarins er Felis nativitatis.

Íslenskir fornleifafræðingar hafa fundið nokkur kattabein frá tímum fyrstu landnámsmanna og síðar. Í ljós hefur komið að þau eru öll af heimiliskettinum Felis silvestris catus. Um þessa beinafundi er hægt að lesa meira um í fróðlegu svari við spurningunni Hvenær komu kettir fyrst til Íslands? Þar sem enn hafa ekki fundist bein af tegundinni Felis nativitatis er ekki hægt að slá neinu föstu um hvar hann er niðurkominn.[2] Það er þó engin ástæða til að skjálfa á beinunum, enda er jólakötturinn örugglega töluvert ljúfur inn við beinið.

Fornleifafræðingar Vísindavefsins heita því að linna ekki látum fyrr öll kurl eru komin til grafar í þessu máli. Þá loksins verður björninn unninn og litlu börnin þurfa ekki lengur að fara kringum hræðilegan jólakött eins og köttur kringum heitan graut. Þetta er augljóslega leikur kattarins að músinni - vísindin munu ekki kaupa köttinn í sekknum í þessu máli!

Tilvísanir:
  1. ^ Svo þekkjast líka árstíðabundnar veirur, eins og inflúensuveiran.
  2. ^ Kannski er hann grafinn með Jónasi? Það kemur þá fljótlega í ljós eins og hægt er að lesa um í svari við spurningunni Geta nútímavísindi sagt til um það hvort bein sem grafin eru á Þingvöllum séu í raun og veru af Jónasi Hallgrímssyni?

Ef einhver hefur ekki áttað sig á því þá tilheyrir þetta svar svonefndum föstudagssvörum (þó að það birtist á Þorláksmessu á miðvikudegi). Það er því næstum ekkert að marka það sem hér stendur - nema auðvitað eðlisfræðina í svarinu - um hana er ekki hægt að deila.

Mynd:

Móey spurði: Við vitum að Grýla er löngu dauð en hversu gömul var hún? Margrét Arna spurði: Hvað er Grýla gömul?...