Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Myndaðist hjarðónæmi gegn spænsku veikinni á Íslandi árið 1918?

Magnús Gottfreðsson

Sögulegar heimildir greina frá því að í fyrstu bylgju spænsku veikinnar sem kom til Reykjavíkur í júlí 1918 og stóð yfir fram í september, hafi þeir sem þá veiktust verið varðir í annarri bylgju sem barst hingað í október sama ár. Þetta kemur einna best fram í lýsingu Þórðar Thoroddsen læknis sem starfaði í Reykjavík á þessum tíma:

….fór að brydda á inflúensu hér og hvar í bænum í júlí, ágúst og september, og veikin var mjög væg á flestum, og hægt fór hún, tók óvíða nema mann og mann á stangli, einn eða tvo á heimili. Þó var það hjá þrem fjölskyldum, sem ég var sóttur til, að hún tók alla. Að þetta var sama veikin og seinna barst hingað í októbermánuði, ber það atvik ljósan vott að mínu áliti, að enginn af þeim, sem veiktust um þetta leyti, fengu veikina þegar hún síðar komst í algleyming. Eg hefi gert mér far um að grenslast eftir þessu.[1]

Er önnur bylgja veikinnar reið yfir hafði veikin breytt um ásýnd - úr fremur hefðbundinni flensu í drepsótt þá sem við tengjum alla jafna við hina eiginlegu spænsku veiki. Telja má nokkuð víst að þeir sem lifðu þá veiki af voru varðir fyrir veikindum af völdum sömu veiru, líkt og þeir sem veiktust í fyrstu bylgjunni. Eins og kunnugt er tókst að stöðva útbreiðslu annarrar bylgju veikinnar til Norður- og Austurlands og voru því líklega allmargir íbúar þessara svæða enn óvarðir er hún var um garð gengin á Suður- og Vesturlandi. Hvað sem þessu líður er ljóst að þriðja bylgja veikinnar vorið 1919 var ekki slæm hér á landi. Raunar hefur ekki verið sýnt fram á neina aukningu í dauðsföllum vegna inflúensu á Íslandi árin 1919-1920, ólíkt því sem ef til vill hefði mátt vænta. Hins vegar eru til lýsingar frá stöðum sem sluppu við veikina 1918 á afar alvarlegri inflúensu sem geisaði sumarið 1921.

Mynd 1: Morgunblaðið kom ekki út í 11 daga í nóvember árið 1918 vegna spænsku veikinnar. Þegar blaðið kom aftur út þann 17. nóvember var forsíða blaðsins tileinkuð fórnarlömubum veikinnar með fyrirsögninni „Sóttin mikla“.

Það sem einkennir þessar lýsingar á veikinni 1921 er hversu þungt sóttin lagðist á ungt fólk og barnshafandi konur, sem hvort tveggja var einkennandi fyrir spænsku veikina. Árið 1921 var dánartíðni vegna inflúensu á Íslandi einnig óvenjuhá, 79 dauðsföll, sem bendir til að inflúensuveiran sem olli spænsku veikinni hafi haldið sýkingarmætti sínum næstu ár á eftir. Sú lækkun á dánartíðni vegna inflúensu sem sást víðast hvar á landinu árin eftir 1918 skýrist vafalítið af útbreiddu ónæmi gegn veirunni, frekar en að hún hafi misst sýkingarmátt sinn.

Síðari tíma rannsóknir á annarri bylgju spænsku veikinnar á Íslandi benda til að smitstuðull veirunnar (R0) í Reykjavík hafi verið nálægt 2,2.[2] Ef þetta er rétt má reikna út að nálægt 55% borgarbúa/þjóðarinnar hefðu þurft að mynda virkt ónæmissvar gegn veirunni til að koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu hennar innan borgarinnar/landsins í heild og ná þannig svokölluðu hjarðónæmi.

Samkvæmt Heilbrigðisskýrslum fyrir árið 1918 veiktust 7119 manns af hinni eiginlegu spænsku veiki en ljóst er að það er mjög vantalið. Þannig taldi héraðslæknirinn í Reykjavík að ekki færri en 10.000 manns hefðu veikst, en á þeim tíma bjuggu 15.079 manns í Reykjavík.[3] Af samtímaheimildum er því ljóst að hærra hlutfall borgarbúa en 55% sýktust samanlagt í fyrstu og annarri bylgju veikinnar. Má telja fullvíst að hjarðónæmi hafi verið komið gegn spænsku veikinni meðal borgarbúa strax í nóvemberlok eða desemberbyrjun 1918. Hins vegar má gera ráð fyrir að ónæmi hafi ekki verið til staðar meðal íbúa á sumum stöðum innanlands sem sluppu við aðra bylgjuna árið 1918. Það sést best af ofangreindum lýsingum frá árinu 1921 og hinni óvenjulega háu dánartíðni vegna inflúensu á Íslandi það ár. Af ofangreindu má því álykta að víðtækt ónæmi - eða hjarðónæmi - gegn þeim stofni inflúensu sem olli spænsku veikinni hafi verið komið á nánast landinu öllu seinni hluta ársins 1921.

Mynd 2: Veikindi af völdum inflúensu á Íslandi, í Bandaríkjunum og Danmörku, árin 1915-2009. Árstíðabundin vetrarinflúensa hér á landi sýndi aðeins lauslega fylgni við nágrannalöndin fram til ársins 1930 en eftir það jókst fylgnin og inflúensa varð nokkuð árviss að vetri til, en talsverð töf gat verið á komu hennar hingað til lands. Þessi töf styttist síðan jafnt og þétt og var nánast úr sögunni á tíunda áratug 20. aldar (grófar punktalínur við árið 1930 og 1995). Heimsfaraldrar með nýjum stofnum inflúensuveira komu fram árin 1918 (spænska veikin), 1957 (asíuflensan) og 1968 (hong kong-flensan) (fínar punktalínur við árið 1918, 1957 og 1968). Eins og sjá má voru sveiflurnar orðnar afar svipaðar og samstilltar í löndunum þremur á síðustu árum 20. aldar. Hið reglubundna og árvissa mynstur sýnir jafnframt að fullkomnu hjarðónæmi er ógerningur að ná gegn árstíðabundinni inflúensu, því að umbreyttir stofnar koma reglubundið fram. Hins vegar er unnt að draga úr skaðanum sem hlýst af árstíðabundinni inflúensu með bólusetningum. Tölurnar á y-ásnum eru mánaðarleg tilfelli, leiðrétt fyrir ytri þáttum og umbreytt með ferningsrótarvörpun. Myndin er fengin úr heimild 4.

Það sem gerir spurninguna hins vegar nokkuð snúna er sú staðreynd, að inflúensuveirur breytast stöðugt og við það getur vörn eldri mótefna (eða ónæmissvars almennt) minnkað. Sú veira sem olli spænsku veikinni 1918 hélt áfram að breytast jafnt og þétt - nægjanlega hratt til að halda áfram hringferð sinni um heiminn næstu ár á eftir. Smám saman umbreyttist þannig veiran sem olli spænsku veikinni í árstíðabundna inflúensu sem kom hingað til lands með reglubundnu millibili.[4] Þetta sést ágætlega á mynd 2, en hún sýnir tíðni veikinda af völdum inflúensu á Íslandi, í Bandaríkjunum og Danmörku árabilið 1915-2009. Leiða má líkum að ónæmissvarið sem spænska veikin framkallaði hafi nýst til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi hjá flestöllum þeim sem voru næstu ár á eftir útsettir fyrir árstíðabundinni inflúensu. Það dugði þó ekki til að verja fyllilega gegn þessum nýju afbrigðum veirunnar og í þeim skilningi náðist ekki langvarandi hjarðónæmi, enda stöðugt við „endurbættar“ útgáfur af veirunni að eiga og þessi eltingaleikur við inflúensuveirur hefur haldið áfram allt fram á okkar daga.

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá heimild 1.
  2. ^ Sjá heimild 2.
  3. ^ Sjá heimild 3.
  4. ^ Sjá heimild 4.

Heimildir
  1. Þórður Thoroddsen. Inflúensan fyrrum og nú. Læknablaðið 1919; 5:13-23 og 74-9. Nýja útgáfu að greininni má finna á slóðinni: https://www.laeknabladid.is/tolublod/2018/10/nr/6847
  2. Magnús Gottfreðsson, Bjarni V. Halldórsson, Stefán Jónsson, Már Kristjánsson, Kristleifur Kristjánsson, Karl G. Kristinsson, Arthur Löve, Thorsteinn Blöndal, Cécile Viboud, Sverrir Thorvaldsson, Agnar Helgason, Jeffrey R. Gulcher, Kári Stefánsson, Ingileif Jónsdóttir. Lessons from the past: familial aggregation analysis of fatal pandemic influenza (Spanish flu) in Iceland in 1918. Proc Natl Acad Sci USA. 2008 Jan 29;105(4):1303-8. doi: 10.1073/pnas.0707659105.
  3. Magnús Gottfreðsson. Spænska veikin á Íslandi 1918. Lærdómur í læknisfræði og sögu. Læknablaðið 2008; 94: 737-745. Sjá slóðina: https://www.laeknabladid.is/media/tolublod/1399/PDF/f03.pdf
  4. Daniel M. Weinberger, Tyra Grove Krause, Kåre Mølbak, Andrew Cliff, Haraldur Briem, Cécile Viboud, Magnús Gottfreðsson. Influenza epidemics in Iceland over 9 decades: changes in timing and synchrony with the United States and Europe. Am J Epidemiol. 2012 Oct 1;176(7):649-55. https://doi.org/10.1093/aje/kws140

Myndir:

Höfundur

Magnús Gottfreðsson

prófessor í læknisfræði við HÍ, sérfræðingur í smitsjúkdómum

Útgáfudagur

11.2.2021

Spyrjandi

Hermundur Sigurðsson

Tilvísun

Magnús Gottfreðsson. „Myndaðist hjarðónæmi gegn spænsku veikinni á Íslandi árið 1918?“ Vísindavefurinn, 11. febrúar 2021. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81008.

Magnús Gottfreðsson. (2021, 11. febrúar). Myndaðist hjarðónæmi gegn spænsku veikinni á Íslandi árið 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81008

Magnús Gottfreðsson. „Myndaðist hjarðónæmi gegn spænsku veikinni á Íslandi árið 1918?“ Vísindavefurinn. 11. feb. 2021. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81008>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Myndaðist hjarðónæmi gegn spænsku veikinni á Íslandi árið 1918?
Sögulegar heimildir greina frá því að í fyrstu bylgju spænsku veikinnar sem kom til Reykjavíkur í júlí 1918 og stóð yfir fram í september, hafi þeir sem þá veiktust verið varðir í annarri bylgju sem barst hingað í október sama ár. Þetta kemur einna best fram í lýsingu Þórðar Thoroddsen læknis sem starfaði í Reykjavík á þessum tíma:

….fór að brydda á inflúensu hér og hvar í bænum í júlí, ágúst og september, og veikin var mjög væg á flestum, og hægt fór hún, tók óvíða nema mann og mann á stangli, einn eða tvo á heimili. Þó var það hjá þrem fjölskyldum, sem ég var sóttur til, að hún tók alla. Að þetta var sama veikin og seinna barst hingað í októbermánuði, ber það atvik ljósan vott að mínu áliti, að enginn af þeim, sem veiktust um þetta leyti, fengu veikina þegar hún síðar komst í algleyming. Eg hefi gert mér far um að grenslast eftir þessu.[1]

Er önnur bylgja veikinnar reið yfir hafði veikin breytt um ásýnd - úr fremur hefðbundinni flensu í drepsótt þá sem við tengjum alla jafna við hina eiginlegu spænsku veiki. Telja má nokkuð víst að þeir sem lifðu þá veiki af voru varðir fyrir veikindum af völdum sömu veiru, líkt og þeir sem veiktust í fyrstu bylgjunni. Eins og kunnugt er tókst að stöðva útbreiðslu annarrar bylgju veikinnar til Norður- og Austurlands og voru því líklega allmargir íbúar þessara svæða enn óvarðir er hún var um garð gengin á Suður- og Vesturlandi. Hvað sem þessu líður er ljóst að þriðja bylgja veikinnar vorið 1919 var ekki slæm hér á landi. Raunar hefur ekki verið sýnt fram á neina aukningu í dauðsföllum vegna inflúensu á Íslandi árin 1919-1920, ólíkt því sem ef til vill hefði mátt vænta. Hins vegar eru til lýsingar frá stöðum sem sluppu við veikina 1918 á afar alvarlegri inflúensu sem geisaði sumarið 1921.

Mynd 1: Morgunblaðið kom ekki út í 11 daga í nóvember árið 1918 vegna spænsku veikinnar. Þegar blaðið kom aftur út þann 17. nóvember var forsíða blaðsins tileinkuð fórnarlömubum veikinnar með fyrirsögninni „Sóttin mikla“.

Það sem einkennir þessar lýsingar á veikinni 1921 er hversu þungt sóttin lagðist á ungt fólk og barnshafandi konur, sem hvort tveggja var einkennandi fyrir spænsku veikina. Árið 1921 var dánartíðni vegna inflúensu á Íslandi einnig óvenjuhá, 79 dauðsföll, sem bendir til að inflúensuveiran sem olli spænsku veikinni hafi haldið sýkingarmætti sínum næstu ár á eftir. Sú lækkun á dánartíðni vegna inflúensu sem sást víðast hvar á landinu árin eftir 1918 skýrist vafalítið af útbreiddu ónæmi gegn veirunni, frekar en að hún hafi misst sýkingarmátt sinn.

Síðari tíma rannsóknir á annarri bylgju spænsku veikinnar á Íslandi benda til að smitstuðull veirunnar (R0) í Reykjavík hafi verið nálægt 2,2.[2] Ef þetta er rétt má reikna út að nálægt 55% borgarbúa/þjóðarinnar hefðu þurft að mynda virkt ónæmissvar gegn veirunni til að koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu hennar innan borgarinnar/landsins í heild og ná þannig svokölluðu hjarðónæmi.

Samkvæmt Heilbrigðisskýrslum fyrir árið 1918 veiktust 7119 manns af hinni eiginlegu spænsku veiki en ljóst er að það er mjög vantalið. Þannig taldi héraðslæknirinn í Reykjavík að ekki færri en 10.000 manns hefðu veikst, en á þeim tíma bjuggu 15.079 manns í Reykjavík.[3] Af samtímaheimildum er því ljóst að hærra hlutfall borgarbúa en 55% sýktust samanlagt í fyrstu og annarri bylgju veikinnar. Má telja fullvíst að hjarðónæmi hafi verið komið gegn spænsku veikinni meðal borgarbúa strax í nóvemberlok eða desemberbyrjun 1918. Hins vegar má gera ráð fyrir að ónæmi hafi ekki verið til staðar meðal íbúa á sumum stöðum innanlands sem sluppu við aðra bylgjuna árið 1918. Það sést best af ofangreindum lýsingum frá árinu 1921 og hinni óvenjulega háu dánartíðni vegna inflúensu á Íslandi það ár. Af ofangreindu má því álykta að víðtækt ónæmi - eða hjarðónæmi - gegn þeim stofni inflúensu sem olli spænsku veikinni hafi verið komið á nánast landinu öllu seinni hluta ársins 1921.

Mynd 2: Veikindi af völdum inflúensu á Íslandi, í Bandaríkjunum og Danmörku, árin 1915-2009. Árstíðabundin vetrarinflúensa hér á landi sýndi aðeins lauslega fylgni við nágrannalöndin fram til ársins 1930 en eftir það jókst fylgnin og inflúensa varð nokkuð árviss að vetri til, en talsverð töf gat verið á komu hennar hingað til lands. Þessi töf styttist síðan jafnt og þétt og var nánast úr sögunni á tíunda áratug 20. aldar (grófar punktalínur við árið 1930 og 1995). Heimsfaraldrar með nýjum stofnum inflúensuveira komu fram árin 1918 (spænska veikin), 1957 (asíuflensan) og 1968 (hong kong-flensan) (fínar punktalínur við árið 1918, 1957 og 1968). Eins og sjá má voru sveiflurnar orðnar afar svipaðar og samstilltar í löndunum þremur á síðustu árum 20. aldar. Hið reglubundna og árvissa mynstur sýnir jafnframt að fullkomnu hjarðónæmi er ógerningur að ná gegn árstíðabundinni inflúensu, því að umbreyttir stofnar koma reglubundið fram. Hins vegar er unnt að draga úr skaðanum sem hlýst af árstíðabundinni inflúensu með bólusetningum. Tölurnar á y-ásnum eru mánaðarleg tilfelli, leiðrétt fyrir ytri þáttum og umbreytt með ferningsrótarvörpun. Myndin er fengin úr heimild 4.

Það sem gerir spurninguna hins vegar nokkuð snúna er sú staðreynd, að inflúensuveirur breytast stöðugt og við það getur vörn eldri mótefna (eða ónæmissvars almennt) minnkað. Sú veira sem olli spænsku veikinni 1918 hélt áfram að breytast jafnt og þétt - nægjanlega hratt til að halda áfram hringferð sinni um heiminn næstu ár á eftir. Smám saman umbreyttist þannig veiran sem olli spænsku veikinni í árstíðabundna inflúensu sem kom hingað til lands með reglubundnu millibili.[4] Þetta sést ágætlega á mynd 2, en hún sýnir tíðni veikinda af völdum inflúensu á Íslandi, í Bandaríkjunum og Danmörku árabilið 1915-2009. Leiða má líkum að ónæmissvarið sem spænska veikin framkallaði hafi nýst til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi hjá flestöllum þeim sem voru næstu ár á eftir útsettir fyrir árstíðabundinni inflúensu. Það dugði þó ekki til að verja fyllilega gegn þessum nýju afbrigðum veirunnar og í þeim skilningi náðist ekki langvarandi hjarðónæmi, enda stöðugt við „endurbættar“ útgáfur af veirunni að eiga og þessi eltingaleikur við inflúensuveirur hefur haldið áfram allt fram á okkar daga.

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá heimild 1.
  2. ^ Sjá heimild 2.
  3. ^ Sjá heimild 3.
  4. ^ Sjá heimild 4.

Heimildir
  1. Þórður Thoroddsen. Inflúensan fyrrum og nú. Læknablaðið 1919; 5:13-23 og 74-9. Nýja útgáfu að greininni má finna á slóðinni: https://www.laeknabladid.is/tolublod/2018/10/nr/6847
  2. Magnús Gottfreðsson, Bjarni V. Halldórsson, Stefán Jónsson, Már Kristjánsson, Kristleifur Kristjánsson, Karl G. Kristinsson, Arthur Löve, Thorsteinn Blöndal, Cécile Viboud, Sverrir Thorvaldsson, Agnar Helgason, Jeffrey R. Gulcher, Kári Stefánsson, Ingileif Jónsdóttir. Lessons from the past: familial aggregation analysis of fatal pandemic influenza (Spanish flu) in Iceland in 1918. Proc Natl Acad Sci USA. 2008 Jan 29;105(4):1303-8. doi: 10.1073/pnas.0707659105.
  3. Magnús Gottfreðsson. Spænska veikin á Íslandi 1918. Lærdómur í læknisfræði og sögu. Læknablaðið 2008; 94: 737-745. Sjá slóðina: https://www.laeknabladid.is/media/tolublod/1399/PDF/f03.pdf
  4. Daniel M. Weinberger, Tyra Grove Krause, Kåre Mølbak, Andrew Cliff, Haraldur Briem, Cécile Viboud, Magnús Gottfreðsson. Influenza epidemics in Iceland over 9 decades: changes in timing and synchrony with the United States and Europe. Am J Epidemiol. 2012 Oct 1;176(7):649-55. https://doi.org/10.1093/aje/kws140

Myndir:

...