Um „bábiljur eða blákaldar staðreyndir“ - er það rétt að borða gulrætur geti læknað mann af náttblindu?Margir kannast eflaust við þá fullyrðingu að gulrætur bæti sjón fólks, sér í lagi þegar myrkur er. Að hluta til er þetta rétt, ef vítamínskortur sem getur valdið náttblindu er til staðar, þá getur neysla gulróta hjálpað. Hjá heilbrigðu fólki sem ekki skortir tiltekið vítamín hefur mikið gulrótarát þó engin áhrif á sjón fólks. Í gulrótum er mikið af litarefninu beta-karótín sem líkaminn breytir í A-vítamín þegar þess er neytt. A-vítamín kemur víða við sögu í líkamsstarfseminni, það er meðal annars mikilvægt fyrir húð og slímhimnur líkamans, ónæmiskerfið, fósturþroska og vöxt og ekki síst fyrir sjónina sem hér er einmitt spurt um. A-vítamín er nauðsynlegt til að mynda sjónpurpura (e. rhodopsin), litarefni sem augun þurfa til að sjá vel í lítilli birtu. Skortur á A-vítamíni dregur úr framleiðslu þessa litarefnis og er náttblinda eitt af fyrstu einkennum A-vítamínsskorts. Það er því ekki bábilja að með neyslu gulróta, eða annarra fæðu sem gefur A-vítamín, sé unnið gegn því ástandi. Þó er rétt að hafa í huga að náttblinda getur átt sér aðra orsakir en skort á vítamíni og þá þarf að leita annarra leiða.[1] Skortur á A-vítamíni getur ekki aðeins leitt af sér náttblindu heldur er það ein helsta ástæða fyrirbyggjanlegrar blindu meðal barna í þróunarlöndum samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (e. WHO). A-vítamín er nauðsynlegt fyrir heilbrigði hornhimnu augans og getur skortur á því orsakað að hornhimnana verður hörð og stökk og það getur leitt til blindu. Eins nauðsynlegt og A-vítamín er fyrir augun þá mun stór skammtur af gulrótum ekki veita heilbrigðu fólki ofurnætursjón. Ástæðan er sú að umfram skammtur af vítamíninu eykur ekki við það sem þegar er í lagi. Tilvísun:
- ^ Sjá: Þórdís Kristinsdóttir. (2011, 1. júlí). Hvað er náttblinda og hvað veldur henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58830
- Boyd, K. (2024, 1. október). What Is Vitamin A Deficiency? American Academy of Ophthalmology. https://www.aao.org/eye-health/diseases/vitamin-deficiency
- Common Causes Of Blindness In Children. Connecticut Eye. https://www.danburyeye.com/common-causes-of-blindness-in-children/
- Do carrots help improve night vision? Westside Eye Clinic. https://www.westsideeyeclinic.com.au/carrots-vitamin-a-night-vision/
- Maron, D. F. (2014, 23. júní). Fact or Fiction?: Carrots Improve Your Vision. Scientific American. https://www.scientificamerican.com/article/fact-or-fiction-carrots-improve-your-vision/
- Micronutrients. World Health Organization. https://www.who.int/health-topics/micronutrients#tab=tab_2
- Vitamin A and Carotenoids. National Institutes of Health. https://ods.od.nih.gov/factsheets/VitaminA-Consumer/
- PickPick. https://www.pickpik.com/agriculture-carrots-close-up-cooking-farmers-market-food-42615