Sólin Sólin Rís 03:43 • sest 23:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:44 • Síðdegis: 19:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 12:50 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Ætti að nota hanska þegar gömlum handritum er flett?

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Upprunalega spurningin var:

Hvers vegna notar fólk ekki hanska þegar íslensk gömul handrit eru handfjötluð? Það sést aftur og aftur í sjónvarpi þegar fræðimenn, fréttamenn og aðrir fletta þessum dýrgripum með berum höndum og strjúka síður og skilja eftir óhreinindi og fitu.

Starfsmenn safna hafa löngum notað hvíta bómullarhanska þegar þeir handleika gamla safngripi. Talið er að notkun hanska á söfnum megi rekja til ljósmyndara á 19. öld sem vildu ekki að fingraför sætu á myndum og glerplötum og var hún síðan tekin upp af starfsmönnum safna sem varðveittu hluti sem fingraför sjást greinilega á. Hanskanotkun jókst smám saman og voru hanskar líklega víða teknir í notkun í því skyni að leggja áherslu á sérstöðu og gildi safngripa — einnig hefur notkun hvítra hanska trúlega aukist vegna þess að hvíti liturinn tengist hreinleika og er traustvekjandi. Samt virðist sem víðtæk hanskanotkun í handritasöfnum sé ekki eldri en frá níunda áratug síðustu aldar og reyndar er líklegt að handritaforverðir og handritafræðingar hafi farið að nota hanska á sínum tíma án þess að styðjast við nokkra vísindalega rannsókn.

Talið er að notkun hanska á söfnum megi rekja til ljósmyndara á 19. öld sem vildu ekki að fingraför sætu á myndum og glerplötum.

Nú er talið að það sé að mestu ímyndun að bómullarhanskar verji handrit því að hanskar eru í raun verri fyrir flest handrit en berar hendur sem eru hreinar og þurrar — þeir veita falska öryggiskennd og notkun þeirra getur hreinlega verið til óþurftar, því að það er erfiðara að handleika handrit og fletta blöðum fyrir hanskaklæddar hendur en berar. Hanskar gera tak á blöðum ómarkvissara og það er torveldara að meta ástand handrits því að hanskaklæddir fingur missa tilfinningu fyrir blöðunum, það er þeir finna ekki áferð, þykkt, sveigjanleika eða ástand blaðs og ekki heldur hvað það þolir. Og hanskar gera það mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að fletta aðeins einu blaði í senn, vegna þess að notandinn finnur ekki hversu mörg blöð eru sótt samtímis. Blöð úr pappír geta þar að auki verið afar viðkvæm og eru oft vandmeðfarnari en skinnblöð. Hanskar leiða því til klaufalegs fálms þegar blöðum er flett, eða reynt er að taka blöð eða annað efni úr umslögum og möppum eða losa úr klemmum og öðru slíku. Það sem hér hefur verið sagt um bómullarhanska á einnig við um hanska úr gerviefnum. Hanskar úr nítríli eru þynnri en hanskar úr bómull og eru þar af leiðandi skárri en jafnast samt ekki á við bera fingurgóma.

Trosnaðir smáþræðir á hönskunum geta einnig gert óskunda ef þeir krækjast í hvöss horn á jaðri skinnblaða og geta þá brotið eða rifið þau eða jafnvel orðið eftir á slíkum hornum. Notandi með hanska er af þessum sökum líklegri en sá sem er berhentur til að rífa blöð eða valda öðrum skaða áður en hann áttar sig á því að það sem hann gerir er skaðlegt — sérstaklega ef um er að ræða blöð með skemmda jaðra.

Bómullarhanskar taka upp og flytja óhreinindi auðveldar en hörund því að þeir eru mjög gleypnir og þvert á það sem hefur verið talið taka þeir upp og flytja óhreinindi af yfirborði sem þeir komast í snertingu við. Til að koma í veg fyrir að óhreinindi berist á handrit og skjöl með óhreinum hönskum þarf að skipta um hanska um leið og þeir verða óhreinir. Þess vegna verður að þvo bómullarhanska reglulega og þá verður að gæta vel að því hvaða efni eru notuð því að þvottaefni eða bleikiefni geta borist úr hreinum hanska í handrit. Jafnvel þessar varúðarráðstafanir tryggja ekki að öll óhreinindi séu fjarlægð eins og sést á litabreytingum á hönskum sem geta orðið með tímanum. Tíður þvottur leiðir til þess að hanskarnir aflagast og hlaupa, sem gerir saumana meira áberandi og þá verða þeir enn erfiðari í notkun. Að sjálfsögðu má segja að starfsmenn safna eigi að sjá sóma sinn í að láta þvo hanska mjög oft og skipta þeim út sem eru byrjaðir að aflagast en slík fyrirhyggja breytir því ekki að það er meiri hætta á að hanskaklædd hönd skemmi handrit en ber hönd.

Sérfræðingar Árnastofnunar hafa lagt af hanskanotkun við meðhöndlun handrita að yfirlögðu ráði, rétt eins og gert hefur verið í mörgum erlendum söfnum.

Hanskar falla auk þess misvel að höndum manna enda er oftast aðeins um eina stærð að ræða og að auki eiga sumir erfitt með að draga hanska á hendur sér svo að vel sé sem getur valdið meiri erfiðleikum við vandasöm verk — þetta gildir jafnt um hanska úr bómull og gerviefnum. Einnig getur saumur fremst á fingrum bómullarhanska valdið óþægindum.

Það er að sönnu margt annað en snerting sem getur haft áhrif á handrit svo sem snöggar hita- og rakabreytingar og of mikill hiti — sem starfsmenn handritasafna reyna að sjálfsögðu að koma í veg fyrir — en einnig verður að verja handrit fyrir útfjólubláum geislum sólar og sterku ljósi.

Viðhorf til þess hvort nota beri hanska þegar handrit eru meðhöndluð hafa breyst í tímans rás. Til að draga úr hættu á að handrit verði fyrir hnjaski er nú mælt með vandlegum handþvotti með sápu, öll sápa skoluð vel af og hendurnar þurrkaðar vel áður handrit er snert. Aldrei á að nota handáburð áður en handrit er meðhöndlað og naglalakk er ekki vel séð. Ennfremur er ekki heimilt að snerta leturflöt eða lýsingar eða skreytingar.

Það er því að yfirlögðu ráði sem sérfræðingar Árnastofnunar hafa lagt af hanskanotkun, rétt eins og gert hefur verið í mörgum erlendum söfnum. Starfsmenn stofnunarinnar kappkosta eftir sem áður að umgangast handritin af varfærni og virðingu og þeir eru ekki tilbúnir til að gera það sem vitað er að er ekki gott fyrir handritin þótt það ljái þeim virðulegt yfirbragð.

Rit

Myndir:

Höfundur

Guðvarður Már Gunnlaugsson

rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar

Útgáfudagur

1.6.2021

Spyrjandi

Sigurður G. Þorsteinsson

Tilvísun

Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Ætti að nota hanska þegar gömlum handritum er flett?“ Vísindavefurinn, 1. júní 2021. Sótt 24. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81665.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2021, 1. júní). Ætti að nota hanska þegar gömlum handritum er flett? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81665

Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Ætti að nota hanska þegar gömlum handritum er flett?“ Vísindavefurinn. 1. jún. 2021. Vefsíða. 24. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81665>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Ætti að nota hanska þegar gömlum handritum er flett?
Upprunalega spurningin var:

Hvers vegna notar fólk ekki hanska þegar íslensk gömul handrit eru handfjötluð? Það sést aftur og aftur í sjónvarpi þegar fræðimenn, fréttamenn og aðrir fletta þessum dýrgripum með berum höndum og strjúka síður og skilja eftir óhreinindi og fitu.

Starfsmenn safna hafa löngum notað hvíta bómullarhanska þegar þeir handleika gamla safngripi. Talið er að notkun hanska á söfnum megi rekja til ljósmyndara á 19. öld sem vildu ekki að fingraför sætu á myndum og glerplötum og var hún síðan tekin upp af starfsmönnum safna sem varðveittu hluti sem fingraför sjást greinilega á. Hanskanotkun jókst smám saman og voru hanskar líklega víða teknir í notkun í því skyni að leggja áherslu á sérstöðu og gildi safngripa — einnig hefur notkun hvítra hanska trúlega aukist vegna þess að hvíti liturinn tengist hreinleika og er traustvekjandi. Samt virðist sem víðtæk hanskanotkun í handritasöfnum sé ekki eldri en frá níunda áratug síðustu aldar og reyndar er líklegt að handritaforverðir og handritafræðingar hafi farið að nota hanska á sínum tíma án þess að styðjast við nokkra vísindalega rannsókn.

Talið er að notkun hanska á söfnum megi rekja til ljósmyndara á 19. öld sem vildu ekki að fingraför sætu á myndum og glerplötum.

Nú er talið að það sé að mestu ímyndun að bómullarhanskar verji handrit því að hanskar eru í raun verri fyrir flest handrit en berar hendur sem eru hreinar og þurrar — þeir veita falska öryggiskennd og notkun þeirra getur hreinlega verið til óþurftar, því að það er erfiðara að handleika handrit og fletta blöðum fyrir hanskaklæddar hendur en berar. Hanskar gera tak á blöðum ómarkvissara og það er torveldara að meta ástand handrits því að hanskaklæddir fingur missa tilfinningu fyrir blöðunum, það er þeir finna ekki áferð, þykkt, sveigjanleika eða ástand blaðs og ekki heldur hvað það þolir. Og hanskar gera það mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að fletta aðeins einu blaði í senn, vegna þess að notandinn finnur ekki hversu mörg blöð eru sótt samtímis. Blöð úr pappír geta þar að auki verið afar viðkvæm og eru oft vandmeðfarnari en skinnblöð. Hanskar leiða því til klaufalegs fálms þegar blöðum er flett, eða reynt er að taka blöð eða annað efni úr umslögum og möppum eða losa úr klemmum og öðru slíku. Það sem hér hefur verið sagt um bómullarhanska á einnig við um hanska úr gerviefnum. Hanskar úr nítríli eru þynnri en hanskar úr bómull og eru þar af leiðandi skárri en jafnast samt ekki á við bera fingurgóma.

Trosnaðir smáþræðir á hönskunum geta einnig gert óskunda ef þeir krækjast í hvöss horn á jaðri skinnblaða og geta þá brotið eða rifið þau eða jafnvel orðið eftir á slíkum hornum. Notandi með hanska er af þessum sökum líklegri en sá sem er berhentur til að rífa blöð eða valda öðrum skaða áður en hann áttar sig á því að það sem hann gerir er skaðlegt — sérstaklega ef um er að ræða blöð með skemmda jaðra.

Bómullarhanskar taka upp og flytja óhreinindi auðveldar en hörund því að þeir eru mjög gleypnir og þvert á það sem hefur verið talið taka þeir upp og flytja óhreinindi af yfirborði sem þeir komast í snertingu við. Til að koma í veg fyrir að óhreinindi berist á handrit og skjöl með óhreinum hönskum þarf að skipta um hanska um leið og þeir verða óhreinir. Þess vegna verður að þvo bómullarhanska reglulega og þá verður að gæta vel að því hvaða efni eru notuð því að þvottaefni eða bleikiefni geta borist úr hreinum hanska í handrit. Jafnvel þessar varúðarráðstafanir tryggja ekki að öll óhreinindi séu fjarlægð eins og sést á litabreytingum á hönskum sem geta orðið með tímanum. Tíður þvottur leiðir til þess að hanskarnir aflagast og hlaupa, sem gerir saumana meira áberandi og þá verða þeir enn erfiðari í notkun. Að sjálfsögðu má segja að starfsmenn safna eigi að sjá sóma sinn í að láta þvo hanska mjög oft og skipta þeim út sem eru byrjaðir að aflagast en slík fyrirhyggja breytir því ekki að það er meiri hætta á að hanskaklædd hönd skemmi handrit en ber hönd.

Sérfræðingar Árnastofnunar hafa lagt af hanskanotkun við meðhöndlun handrita að yfirlögðu ráði, rétt eins og gert hefur verið í mörgum erlendum söfnum.

Hanskar falla auk þess misvel að höndum manna enda er oftast aðeins um eina stærð að ræða og að auki eiga sumir erfitt með að draga hanska á hendur sér svo að vel sé sem getur valdið meiri erfiðleikum við vandasöm verk — þetta gildir jafnt um hanska úr bómull og gerviefnum. Einnig getur saumur fremst á fingrum bómullarhanska valdið óþægindum.

Það er að sönnu margt annað en snerting sem getur haft áhrif á handrit svo sem snöggar hita- og rakabreytingar og of mikill hiti — sem starfsmenn handritasafna reyna að sjálfsögðu að koma í veg fyrir — en einnig verður að verja handrit fyrir útfjólubláum geislum sólar og sterku ljósi.

Viðhorf til þess hvort nota beri hanska þegar handrit eru meðhöndluð hafa breyst í tímans rás. Til að draga úr hættu á að handrit verði fyrir hnjaski er nú mælt með vandlegum handþvotti með sápu, öll sápa skoluð vel af og hendurnar þurrkaðar vel áður handrit er snert. Aldrei á að nota handáburð áður en handrit er meðhöndlað og naglalakk er ekki vel séð. Ennfremur er ekki heimilt að snerta leturflöt eða lýsingar eða skreytingar.

Það er því að yfirlögðu ráði sem sérfræðingar Árnastofnunar hafa lagt af hanskanotkun, rétt eins og gert hefur verið í mörgum erlendum söfnum. Starfsmenn stofnunarinnar kappkosta eftir sem áður að umgangast handritin af varfærni og virðingu og þeir eru ekki tilbúnir til að gera það sem vitað er að er ekki gott fyrir handritin þótt það ljái þeim virðulegt yfirbragð.

Rit

Myndir:...