Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er oft lítið ljós á söfnum, þola fornleifar ekki mikið ljós?

Nathalie Jacqueminet

Ljós og rakabreytingar eru meðal þeirra umhverfisþátta sem geta valdið skemmdum á safnkosti. Þar á meðal eru ýmsar litabreytingar af völdum ljóss: gripir geta upplitast, dökknað eða gulnað. Hiti frá ljósi getur einnig valdið ofþornun og stökknun ýmissa efna. Gripir sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir ljósskemmdum eru til dæmis bókakápur, blek, fjaðrir, feldir, leður, skinn, pappír, ljósmyndir, textílar, vatnslitamyndir og viðarhúsgögn.

Það sem við skynjum sem ljós eru í raun sveiflur í raf- og segulsviði með sveiflutíðni sem augu okkar eru næm fyrir. Rafsegulbylgjur með aðra sveiflutíðni eru „ósýnilegar“ en að öðru leyti sambærilegar við ljósið. Hægt er að skipta rafsegulbylgjum í marga flokka eftir bylgjulengd þeirra. Útfjólublátt ljós hefur mjög stutta bylgjulengd (10-400 nanómetra (nm)) og mikla orku. Útfjólublátt ljós er ekki sýnilegt mannsauganu. Sýnilegi hluti litrófsins hefur lengri bylgjulengd (400-700 nm). Innrautt ljós er á bilinu 700 nm til 1 mm. Það er ekki heldur sýnilegt mannsauganu en fólk skynjar það sem hita. Hægt er að lesa meira um flokkun rafsegulrófsins í svari Viðars Guðmundssonar við spurningunni Eru rafsegulbylgjur frá farsímum og öðrum raftækjum skaðlegar heilsunni eða erfðaefninu?

Mynd af rafsegulrófinu. Á myndinni sést vel hversu sýnilegt ljós er lítill hluti þess. Hægt er að smella á myndina til að sjá stærra eintak.

Orkan í ljósinu verkar á sameindir í efnum safngripa og veldur breytingum sem geta orsakað skemmdir. Fólk þarfnast aðeins sýnilega hluta litrófsins til að sjá og því má minnka þá ljósorku sem fellur á safnkost með því að útiloka útfjólublátt og innrautt ljós frá ljósgjöfum. Útfjólublátt ljós er ósýnilegt mannsauganu en um leið er það orkumesta ljósið og skaðlegast gripum. Útfjólublátt ljós ætti því að útiloka alveg, til dæmis með hlerum, tjöldum eða síum fyrir glugga og með því að velja lýsingu án útfjólublárrar geislunar. Ef ljós með innrauðum geislum skín of sterkt á grip getur hitastigið hækkað á yfirborði gripsins og vatnsinnihald lækkað í gljúpum efnum.

Hiti getur safnast upp vegna:
  • sólarljóss
  • gerviljósa (til dæmis glóperum og flúrperum)
  • ljósa á lokuðu svæði (til dæmis í skápum)
Innrautt ljós mælist ekki beint en hitinn sem það veldur er mældur í C°. Lýsing á safni verður að vera þannig að ekki byggist upp hiti vegna innrauðs ljóss. Val á tegund ljósaperu er lykilatriði en einnig notkun filma sem útiloka skaðlega geisla. Kjöraðstæður fyrir safngripi eru gluggalaus rými.

Kambur (Þjms1958-90) Framhlið kambs sem geymdur er á Þjóðminjasafni: Gripurinn er upplitaður vegna áhrifa ljóss. Mynd: Nathalie Jacqueminet ©Þjóðminjasafn Íslands

Bakhlið á sama kambi til samaburðar. Mynd: Nathalie Jacqueminet ©Þjóðminjasafn Íslands

Styrkur sýnilegs ljóss er yfirleitt mældur í mælieiningunni lux, sem táknar magn ljóss sem kemur frá ljósgjafa og fellur á einn fermetra. Mælingar á ljósi á söfnum miðast við þá ljósorku sem fellur á gripina og því er ljósið mælt með því að halda ljósmæli við yfirborð grips.

Hægt er að verja sýningargripi skemmdum með því að takmarka ljós. Mannsaugað getur lagað sig að ýmiss konar ljósi, svo að lítil birta er yfirleitt ekki til vandræða þótt augað þurfi tíma til að venjast henni. Stundum er smám saman dregið úr ljósi í sýningarrými svo að sjáaldrið fái tíma til að þenjast út og nema birtuna.

Heimildir:
  • Handbók um varðveislu gripa 2011. Sjá vef Þjóðminjasafns.
  • Graham Langford, Halldóra Ásgeirsdóttir og Nathalie Jacqueminet. „Forvarsla jarðfundinna gripa.“ Endurfundir. Fornleifarannsóknir styrktar af Kristnihátíðarsjóði 2001–2005. Rit Þjóðminjasafns Íslands 19 - 2009.
  • Stefan Michalski: Light, Ultraviolet and Infrared - 2011.

Myndir:

Höfundur

fagstjóri forvörslu á Þjóðminjasafni Íslands

Útgáfudagur

28.3.2012

Spyrjandi

Eyþór Andrason, f. 1998

Tilvísun

Nathalie Jacqueminet. „Af hverju er oft lítið ljós á söfnum, þola fornleifar ekki mikið ljós?“ Vísindavefurinn, 28. mars 2012, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=50734.

Nathalie Jacqueminet. (2012, 28. mars). Af hverju er oft lítið ljós á söfnum, þola fornleifar ekki mikið ljós? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=50734

Nathalie Jacqueminet. „Af hverju er oft lítið ljós á söfnum, þola fornleifar ekki mikið ljós?“ Vísindavefurinn. 28. mar. 2012. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=50734>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er oft lítið ljós á söfnum, þola fornleifar ekki mikið ljós?
Ljós og rakabreytingar eru meðal þeirra umhverfisþátta sem geta valdið skemmdum á safnkosti. Þar á meðal eru ýmsar litabreytingar af völdum ljóss: gripir geta upplitast, dökknað eða gulnað. Hiti frá ljósi getur einnig valdið ofþornun og stökknun ýmissa efna. Gripir sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir ljósskemmdum eru til dæmis bókakápur, blek, fjaðrir, feldir, leður, skinn, pappír, ljósmyndir, textílar, vatnslitamyndir og viðarhúsgögn.

Það sem við skynjum sem ljós eru í raun sveiflur í raf- og segulsviði með sveiflutíðni sem augu okkar eru næm fyrir. Rafsegulbylgjur með aðra sveiflutíðni eru „ósýnilegar“ en að öðru leyti sambærilegar við ljósið. Hægt er að skipta rafsegulbylgjum í marga flokka eftir bylgjulengd þeirra. Útfjólublátt ljós hefur mjög stutta bylgjulengd (10-400 nanómetra (nm)) og mikla orku. Útfjólublátt ljós er ekki sýnilegt mannsauganu. Sýnilegi hluti litrófsins hefur lengri bylgjulengd (400-700 nm). Innrautt ljós er á bilinu 700 nm til 1 mm. Það er ekki heldur sýnilegt mannsauganu en fólk skynjar það sem hita. Hægt er að lesa meira um flokkun rafsegulrófsins í svari Viðars Guðmundssonar við spurningunni Eru rafsegulbylgjur frá farsímum og öðrum raftækjum skaðlegar heilsunni eða erfðaefninu?

Mynd af rafsegulrófinu. Á myndinni sést vel hversu sýnilegt ljós er lítill hluti þess. Hægt er að smella á myndina til að sjá stærra eintak.

Orkan í ljósinu verkar á sameindir í efnum safngripa og veldur breytingum sem geta orsakað skemmdir. Fólk þarfnast aðeins sýnilega hluta litrófsins til að sjá og því má minnka þá ljósorku sem fellur á safnkost með því að útiloka útfjólublátt og innrautt ljós frá ljósgjöfum. Útfjólublátt ljós er ósýnilegt mannsauganu en um leið er það orkumesta ljósið og skaðlegast gripum. Útfjólublátt ljós ætti því að útiloka alveg, til dæmis með hlerum, tjöldum eða síum fyrir glugga og með því að velja lýsingu án útfjólublárrar geislunar. Ef ljós með innrauðum geislum skín of sterkt á grip getur hitastigið hækkað á yfirborði gripsins og vatnsinnihald lækkað í gljúpum efnum.

Hiti getur safnast upp vegna:
  • sólarljóss
  • gerviljósa (til dæmis glóperum og flúrperum)
  • ljósa á lokuðu svæði (til dæmis í skápum)
Innrautt ljós mælist ekki beint en hitinn sem það veldur er mældur í C°. Lýsing á safni verður að vera þannig að ekki byggist upp hiti vegna innrauðs ljóss. Val á tegund ljósaperu er lykilatriði en einnig notkun filma sem útiloka skaðlega geisla. Kjöraðstæður fyrir safngripi eru gluggalaus rými.

Kambur (Þjms1958-90) Framhlið kambs sem geymdur er á Þjóðminjasafni: Gripurinn er upplitaður vegna áhrifa ljóss. Mynd: Nathalie Jacqueminet ©Þjóðminjasafn Íslands

Bakhlið á sama kambi til samaburðar. Mynd: Nathalie Jacqueminet ©Þjóðminjasafn Íslands

Styrkur sýnilegs ljóss er yfirleitt mældur í mælieiningunni lux, sem táknar magn ljóss sem kemur frá ljósgjafa og fellur á einn fermetra. Mælingar á ljósi á söfnum miðast við þá ljósorku sem fellur á gripina og því er ljósið mælt með því að halda ljósmæli við yfirborð grips.

Hægt er að verja sýningargripi skemmdum með því að takmarka ljós. Mannsaugað getur lagað sig að ýmiss konar ljósi, svo að lítil birta er yfirleitt ekki til vandræða þótt augað þurfi tíma til að venjast henni. Stundum er smám saman dregið úr ljósi í sýningarrými svo að sjáaldrið fái tíma til að þenjast út og nema birtuna.

Heimildir:
  • Handbók um varðveislu gripa 2011. Sjá vef Þjóðminjasafns.
  • Graham Langford, Halldóra Ásgeirsdóttir og Nathalie Jacqueminet. „Forvarsla jarðfundinna gripa.“ Endurfundir. Fornleifarannsóknir styrktar af Kristnihátíðarsjóði 2001–2005. Rit Þjóðminjasafns Íslands 19 - 2009.
  • Stefan Michalski: Light, Ultraviolet and Infrared - 2011.

Myndir:...