Sólin Sólin Rís 09:04 • sest 18:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:35 • Sest 10:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:58 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:23 • Síðdegis: 23:25 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvenær byrjaði fólk að skrifa á skinn og hvað notaði það áður?

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Upphaflega spurningin hljóðaði svona:
Hvenær byrjaði fólk að skrifa á skinn og á hvað skrifaði það þegar það var ekki búið að finna upp að skrifa á skinn?

Talið er að Súmerar, sem bjuggu í Mesópótamíu (núverandi Írak), hafi fundið upp ritlistina fyrir um 5500–6000 árum. Þeir skrifuðu í mjúkan leir sem þeir hertu í sólarhitanum. Mikið er til af leirtöflum frá tímum Súmera en einnig eru víða til áletranir höggnar í stein og ristar í tré og bein. Egyptar hófu ritlistina upp í æðra veldi þegar þeir hófu að skrifa með reyrstaf og einhvers konar bleki á blöð sem voru búin til úr stöngli papýrusjurtarinnar. Blöðin voru límd saman á endunum svo að þau mynduðu langan renning. Lengjunni var svo rúllað upp í rollu og geymd þannig.

Papýrus þoldi illa mikla notkun og entist ekki vel. Hann var samt notaður allt fram um árið 1000 í Páfagarði og nokkrar papýrusrollur eru enn varðveittar. Gríska orðið bíblos merkti upphaflega ‘innri hluti papýrusstönguls’. Af því var dregið orðið biblíon (ft. biblía) sem var notað um papýrusrollur og síðar um bækur almennt (samanber bibliotek en það orð var fyrst haft um stokkana sem papýrusrollurnar voru geymdar í). Papýrusrollurnar kölluðu Rómverjar volumen sem er dregið af sagnorðinu volvere sem merkir að ‘vinda’.

Talið er að Egyptar hafi skrifað á skinn fyrir allt að 4500 árum en mögulegt er að þeir hafi skrifað á leður en ekki á bókfell. Rétt er að nefna að skinn má verka á ýmsa vegu. Það má nota í föt og sé það sútað fæst leður. Bókfell er skafið og þurrkað skinn en þar að auki meðhöndlað þannig að það er auðvelt að skrifa á það með fjöður (penna) og bleki. Ekki er vitað hvenær ritun á bókfell hófst að einhverju marki en sennilega var það fyrir um 2500 árum; elsta bókfell til bókagerðar sem varðveist hefur er frá 2. eða 3. öld fyrir byrjun tímatals okkar. Ekki er heldur vitað hvar aðferðin við að búa til bókfell þróaðist en bókfell heitir pergament á latínu og til var borg í Litlu-Asíu sem hét Pergamon (við Bergama í núverandi Tyrklandi). Líklegt er að þar hafi verið mikil verslun með bókfell og hugsanlegt er að borgarbúar hafi verið þeir fyrstu sem fóru að nota bókfell í stórum stíl til að skrifa á. Talið er að skinnbækur hafi endanlega sigrað í samkeppninni við papýrusrollurnar á 4. öld. Einnig er talið að bókfellið hafi í fyrstu verið undið upp í rollu eins og papýrusinn, það er blöð límd saman á endunum og svo rúllað upp.

Úr bókfelli var hægt að búa til bók. Elsta bókfell til bókagerðar sem varðveist hefur er frá 2. eða 3. öld f.Kr.

Bókfellið hafði nokkra kosti fram yfir papýrusinn sem varð til þess að það sigraði í samkeppninni við hann, þótt hann væri ódýrari í framleiðslu. Í fyrsta lagi er hægt að skrifa báðum megin á bókfellsblað en aðeins öðru megin á papýrusblað; bókfellið nýttist því betur. Í öðru lagi má brjóta bókfell saman án þess að skemma það (en aðeins var hægt að vinda papýrusinn upp) og því var hægt að búa til bók úr bókfellinu og bókarformið leysti rúllurnar að lokum af hólmi; það er auðveldara að leita að efni í bók en á rúllu. Í þriðja lagi endist bókfell betur en papýrus því að það er sterkara efni og í fjórða lagi vex papýrusjurtin einungis í Nílardal á meðan húsdýr er mjög víða að finna. Þótt nota megi skinn af hvaða spendýri sem er í bókfell voru sauðargærur, geitarstökur og kálfshúðir mest notaðar af þeirri einföldu ástæðu að mest var af húsdýrum og auðvelt að nálgast hráefnið.

Heimildir:
  • Bischoff, Bernard. 1990. Latin Palaeography. Antiquity & the Middle Ages. Þýð.: Dáibhí Ó Cróinín & David Ganz. Í samvinnu við The Medieval Academy of Ireland. Cambridge University Press, Cambridge. [Ensk þýðing á Bernard Bischoff. 1986. Paläographie des römischen Altertums und des abendländischen Mittelalters. 2. überarbeitete Auflage [1. útg. 1979]. Grundlagen der Germanistik 24. Erich Schmidt Verlag, Berlin.]
  • Jackson, Donald. 1981. The Story of Writing. Barrie & Jenkins – The Parker Pen Company, London.
  • Ólafur Halldórsson. 1989. Skrifaðar bækur. Frosti F. Jóhannsson 1989:57–89. Frosti F. Jóhannsson (ritstj.). 1989. Munnmenntir og bókmenning. Íslensk þjóðmenning 6. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

Mynd:

Höfundur

Guðvarður Már Gunnlaugsson

rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar

Útgáfudagur

21.2.2014

Spyrjandi

Bryndís Hinriksdóttir

Tilvísun

Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Hvenær byrjaði fólk að skrifa á skinn og hvað notaði það áður?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2014. Sótt 21. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=66771.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2014, 21. febrúar). Hvenær byrjaði fólk að skrifa á skinn og hvað notaði það áður? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=66771

Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Hvenær byrjaði fólk að skrifa á skinn og hvað notaði það áður?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2014. Vefsíða. 21. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=66771>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær byrjaði fólk að skrifa á skinn og hvað notaði það áður?
Upphaflega spurningin hljóðaði svona:

Hvenær byrjaði fólk að skrifa á skinn og á hvað skrifaði það þegar það var ekki búið að finna upp að skrifa á skinn?

Talið er að Súmerar, sem bjuggu í Mesópótamíu (núverandi Írak), hafi fundið upp ritlistina fyrir um 5500–6000 árum. Þeir skrifuðu í mjúkan leir sem þeir hertu í sólarhitanum. Mikið er til af leirtöflum frá tímum Súmera en einnig eru víða til áletranir höggnar í stein og ristar í tré og bein. Egyptar hófu ritlistina upp í æðra veldi þegar þeir hófu að skrifa með reyrstaf og einhvers konar bleki á blöð sem voru búin til úr stöngli papýrusjurtarinnar. Blöðin voru límd saman á endunum svo að þau mynduðu langan renning. Lengjunni var svo rúllað upp í rollu og geymd þannig.

Papýrus þoldi illa mikla notkun og entist ekki vel. Hann var samt notaður allt fram um árið 1000 í Páfagarði og nokkrar papýrusrollur eru enn varðveittar. Gríska orðið bíblos merkti upphaflega ‘innri hluti papýrusstönguls’. Af því var dregið orðið biblíon (ft. biblía) sem var notað um papýrusrollur og síðar um bækur almennt (samanber bibliotek en það orð var fyrst haft um stokkana sem papýrusrollurnar voru geymdar í). Papýrusrollurnar kölluðu Rómverjar volumen sem er dregið af sagnorðinu volvere sem merkir að ‘vinda’.

Talið er að Egyptar hafi skrifað á skinn fyrir allt að 4500 árum en mögulegt er að þeir hafi skrifað á leður en ekki á bókfell. Rétt er að nefna að skinn má verka á ýmsa vegu. Það má nota í föt og sé það sútað fæst leður. Bókfell er skafið og þurrkað skinn en þar að auki meðhöndlað þannig að það er auðvelt að skrifa á það með fjöður (penna) og bleki. Ekki er vitað hvenær ritun á bókfell hófst að einhverju marki en sennilega var það fyrir um 2500 árum; elsta bókfell til bókagerðar sem varðveist hefur er frá 2. eða 3. öld fyrir byrjun tímatals okkar. Ekki er heldur vitað hvar aðferðin við að búa til bókfell þróaðist en bókfell heitir pergament á latínu og til var borg í Litlu-Asíu sem hét Pergamon (við Bergama í núverandi Tyrklandi). Líklegt er að þar hafi verið mikil verslun með bókfell og hugsanlegt er að borgarbúar hafi verið þeir fyrstu sem fóru að nota bókfell í stórum stíl til að skrifa á. Talið er að skinnbækur hafi endanlega sigrað í samkeppninni við papýrusrollurnar á 4. öld. Einnig er talið að bókfellið hafi í fyrstu verið undið upp í rollu eins og papýrusinn, það er blöð límd saman á endunum og svo rúllað upp.

Úr bókfelli var hægt að búa til bók. Elsta bókfell til bókagerðar sem varðveist hefur er frá 2. eða 3. öld f.Kr.

Bókfellið hafði nokkra kosti fram yfir papýrusinn sem varð til þess að það sigraði í samkeppninni við hann, þótt hann væri ódýrari í framleiðslu. Í fyrsta lagi er hægt að skrifa báðum megin á bókfellsblað en aðeins öðru megin á papýrusblað; bókfellið nýttist því betur. Í öðru lagi má brjóta bókfell saman án þess að skemma það (en aðeins var hægt að vinda papýrusinn upp) og því var hægt að búa til bók úr bókfellinu og bókarformið leysti rúllurnar að lokum af hólmi; það er auðveldara að leita að efni í bók en á rúllu. Í þriðja lagi endist bókfell betur en papýrus því að það er sterkara efni og í fjórða lagi vex papýrusjurtin einungis í Nílardal á meðan húsdýr er mjög víða að finna. Þótt nota megi skinn af hvaða spendýri sem er í bókfell voru sauðargærur, geitarstökur og kálfshúðir mest notaðar af þeirri einföldu ástæðu að mest var af húsdýrum og auðvelt að nálgast hráefnið.

Heimildir:
  • Bischoff, Bernard. 1990. Latin Palaeography. Antiquity & the Middle Ages. Þýð.: Dáibhí Ó Cróinín & David Ganz. Í samvinnu við The Medieval Academy of Ireland. Cambridge University Press, Cambridge. [Ensk þýðing á Bernard Bischoff. 1986. Paläographie des römischen Altertums und des abendländischen Mittelalters. 2. überarbeitete Auflage [1. útg. 1979]. Grundlagen der Germanistik 24. Erich Schmidt Verlag, Berlin.]
  • Jackson, Donald. 1981. The Story of Writing. Barrie & Jenkins – The Parker Pen Company, London.
  • Ólafur Halldórsson. 1989. Skrifaðar bækur. Frosti F. Jóhannsson 1989:57–89. Frosti F. Jóhannsson (ritstj.). 1989. Munnmenntir og bókmenning. Íslensk þjóðmenning 6. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

Mynd:

...