Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað var gert við geðsjúklinga á Íslandi fyrr á öldum?

Sólveig Ólafsdóttir

Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvað var gert við geðsjúklinga (t.d. fólk með geðklofa) á Íslandi fyrr á öldum? Voru til einhvers konar hæli þar sem þeir voru „geymdir" eða voru þeir bara heima hjá fjölskyldum sínum?

Geðsjúkt eða sinnisveikt fólk á Íslandi bjó við jafn misjöfn kjör og þau voru mörg fram til ársins 1907 þegar fyrsta geðsjúkrahúsið, Kleppsspítali tók til starfa. Sá hópur sem kom inn á Klepp fyrstu árin voru fyrst og fremst það sem kallað var sveitarómagar, það er voru á opinberu framfæri. Þeir komu úr aðstæðum sem erfitt er að gera sér grein fyrir í dag. Nokkur höfðu verið geymd í einhvers konar búrum eða afdrepum í útihúsum til sveita eða aflæstum kytrum þar sem ekkert var til staðar sem þau gætu notað til að skaða sig. Héraðslæknir einn var kallaður til árið 1903 til að meta hvort aðstæður ungrar geðveikrar stúlku væru mannsæmandi. Hann lýsti þeim á eftirfarandi hátt:

[nafn konunnar] er í bás í fjósinu í Hjarðarholti innst, inn í Gaflhlaðið. Básinn er alþyljaður sterkum borðum upp yfir henni, og fyrir gafli, og sömuleiðis til hliðanna. Flórinn er hækkandi inn eptir fjósinu, og rúmið er hærra en flórinn, og svo langt, að hún ekki getur náð frá höfðalagi til fótagafls; en vegna óþægðar hennar og þverúðar, gat jeg eigi borið saman lengd rúmsins og líkamslengd hennar, því að hér er ekki fáanlega til að liggja öðruvísi en öll í keng, og svo er hún líka kreppt í hnjáliðum, en sú kreppa (kontraktúr) á þeim vöðvasinum , sem tengja fótleggina við lærin, var á þeim er jeg skoðaði hana og rúm hennar einum degi eptir að hún var lögð í það eptir tilmælum húsbændanna í Hjarðarholti. Var þá eptir það farið að nugga þessar sinar með mýkjandi áburði (Andarnefjulýsi); og get jeg eigi betur fundið en að þær hafi mýkst töluvert og að kreppan sje minni. Geðveikar manneskjur rífa opt ofan af sjer fötin, og er [nafn konunnar] ekki undantekning frá þeirri reglu; hún þvælir því saman sem hún liggur á og kastar ofan af sjer. Og manneskja, sem opt liggur; hvernig skyldi það vera fyrir hana að liggja í köldu herbergi; að minnsta kosti eru herbergin – þó ekki sjeu framskýli eða afstúkaðar kompur – köld á nóttunni hjá oss flestum hjer á veturna; vitfirringar breiða jafnan ekki fötin ofan á sig aptur, heldur ósjálfrátt hnipra sig saman, og liggja þannig löngum og kreppast svo. Frá þessu stafar kreppa helzt. Áður hafði hún, að sögn húsbóndans í Ljárskógum í mín eyru og fleiri manna, látið öll sín saurindi í bólið. Nú gjörir hún það ekki, og hefur hún fengist til að brúka koppinn til að hægja sér í. Kroppur hennar er hreinn, og enginn óþefur leggur af henni, og hún vætir sig ekki eða saurgar nú, og nú er henni aldrei kalt, og tel ég þetta þýðingarmikið til þess að fari um hana sem ætlast má til um manneskju. Grindarhurð er milli bássins sem [nafn konunnar] er afþyljuð í og fjóssins, og leggur skímu í gegn um hurðina úr fjósinu. Ekki var mjer unnt að ráða svo við [nafn konunnar] að jeg gæti sjeð hvort hún gæti staðið upprjett í klefanum, þó virtist mjer það; en til þess hefur ekki komið frá því að hún kom að Hjarðarholti síðastliðið vor, því hún hefur ekki reynt að rísa frekar upp, en til að setjast á koppinn. Í fjósinu er auðvitað lengi verið með ljós kvöld og morgun eftir að fór að dimma, og á sjúklingnum sjálfum má sjá að opt er vitjað um hana. Hún hefur verið fremur spök og viðráðanleg í sumar, en nú er hún í 2 til 3 síðustu vikur aptur óþjálli, og optar með sönglátum og kvæðastagli en áður. Af því sem að framan er talið, fer að mínu áliti vel um hana; hjer er heldur ekkert geðveikrahæli til, svo sem kunnugt er.

Lækni þessum þótti þessar aðstæður mannsæmandi á þessum tíma. Aðrir sjúklingar voru ekki einu sinni svo heppnir að vera lokaðir inni og fá mat og kopp. Ein kona sem missti vitið um fermingaraldur, skömmu eftir miðja 19. öld, var látin flakka á milli heimila í kaupstað nokkrum á Norðurlandi eftir að foreldrar hennar hættu að geta hugsað um hana og dóttur hennar barnunga. Barnið flakkaði með móður sinni. Fyrir aldamótin 1900 bjargaði Fátækranefnd Reykjavíkur tveimur geðsjúkum konum úr höndum manns sem staðinn var að því að beita þær ofbeldi. Hann hafði tekið að sér að sjá um konurnar gegn greiðslu frá Fátækranefndinni.

Hús á Hellissandi. Ljósmyndin er tekin fyrir miðja 20. öld.

Þeir sem voru svo heppnir að geta unnið á einhvern hátt fyrir sig þrátt fyrir sjúkdóm sinn höfðu það mun betur en aðrir og gott verkafólk var umborið þrátt fyrir að fá tímabundin sjúkdómsköst.

Árið 2013 varði Sigurgeir Guðjónsson doktorsritgerð í sagnfræði við Háskóla Ísland um aðbúnað geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala. Ritgerðin er aðgengileg hér: Aðbúnaður geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala.

Aðrar heimildir: Sólveig Ólafsdóttir, Vald og vanmáttur. 101 saga af jaðrinum. Doktorsritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands (væntanleg).

Mynd:
  • © Sigurður Guttormsson. Myndin birtist í bókinni Híbýli fátæktar (ritstj. Finnur Jónasson, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon), Forlagið, Reykjavík 2019..

Höfundur

Sólveig Ólafsdóttir

sagnfræðingur

Útgáfudagur

7.9.2021

Síðast uppfært

8.9.2021

Spyrjandi

Bjarki Hrafnsson

Tilvísun

Sólveig Ólafsdóttir. „Hvað var gert við geðsjúklinga á Íslandi fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn, 7. september 2021, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82337.

Sólveig Ólafsdóttir. (2021, 7. september). Hvað var gert við geðsjúklinga á Íslandi fyrr á öldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82337

Sólveig Ólafsdóttir. „Hvað var gert við geðsjúklinga á Íslandi fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn. 7. sep. 2021. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82337>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað var gert við geðsjúklinga á Íslandi fyrr á öldum?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvað var gert við geðsjúklinga (t.d. fólk með geðklofa) á Íslandi fyrr á öldum? Voru til einhvers konar hæli þar sem þeir voru „geymdir" eða voru þeir bara heima hjá fjölskyldum sínum?

Geðsjúkt eða sinnisveikt fólk á Íslandi bjó við jafn misjöfn kjör og þau voru mörg fram til ársins 1907 þegar fyrsta geðsjúkrahúsið, Kleppsspítali tók til starfa. Sá hópur sem kom inn á Klepp fyrstu árin voru fyrst og fremst það sem kallað var sveitarómagar, það er voru á opinberu framfæri. Þeir komu úr aðstæðum sem erfitt er að gera sér grein fyrir í dag. Nokkur höfðu verið geymd í einhvers konar búrum eða afdrepum í útihúsum til sveita eða aflæstum kytrum þar sem ekkert var til staðar sem þau gætu notað til að skaða sig. Héraðslæknir einn var kallaður til árið 1903 til að meta hvort aðstæður ungrar geðveikrar stúlku væru mannsæmandi. Hann lýsti þeim á eftirfarandi hátt:

[nafn konunnar] er í bás í fjósinu í Hjarðarholti innst, inn í Gaflhlaðið. Básinn er alþyljaður sterkum borðum upp yfir henni, og fyrir gafli, og sömuleiðis til hliðanna. Flórinn er hækkandi inn eptir fjósinu, og rúmið er hærra en flórinn, og svo langt, að hún ekki getur náð frá höfðalagi til fótagafls; en vegna óþægðar hennar og þverúðar, gat jeg eigi borið saman lengd rúmsins og líkamslengd hennar, því að hér er ekki fáanlega til að liggja öðruvísi en öll í keng, og svo er hún líka kreppt í hnjáliðum, en sú kreppa (kontraktúr) á þeim vöðvasinum , sem tengja fótleggina við lærin, var á þeim er jeg skoðaði hana og rúm hennar einum degi eptir að hún var lögð í það eptir tilmælum húsbændanna í Hjarðarholti. Var þá eptir það farið að nugga þessar sinar með mýkjandi áburði (Andarnefjulýsi); og get jeg eigi betur fundið en að þær hafi mýkst töluvert og að kreppan sje minni. Geðveikar manneskjur rífa opt ofan af sjer fötin, og er [nafn konunnar] ekki undantekning frá þeirri reglu; hún þvælir því saman sem hún liggur á og kastar ofan af sjer. Og manneskja, sem opt liggur; hvernig skyldi það vera fyrir hana að liggja í köldu herbergi; að minnsta kosti eru herbergin – þó ekki sjeu framskýli eða afstúkaðar kompur – köld á nóttunni hjá oss flestum hjer á veturna; vitfirringar breiða jafnan ekki fötin ofan á sig aptur, heldur ósjálfrátt hnipra sig saman, og liggja þannig löngum og kreppast svo. Frá þessu stafar kreppa helzt. Áður hafði hún, að sögn húsbóndans í Ljárskógum í mín eyru og fleiri manna, látið öll sín saurindi í bólið. Nú gjörir hún það ekki, og hefur hún fengist til að brúka koppinn til að hægja sér í. Kroppur hennar er hreinn, og enginn óþefur leggur af henni, og hún vætir sig ekki eða saurgar nú, og nú er henni aldrei kalt, og tel ég þetta þýðingarmikið til þess að fari um hana sem ætlast má til um manneskju. Grindarhurð er milli bássins sem [nafn konunnar] er afþyljuð í og fjóssins, og leggur skímu í gegn um hurðina úr fjósinu. Ekki var mjer unnt að ráða svo við [nafn konunnar] að jeg gæti sjeð hvort hún gæti staðið upprjett í klefanum, þó virtist mjer það; en til þess hefur ekki komið frá því að hún kom að Hjarðarholti síðastliðið vor, því hún hefur ekki reynt að rísa frekar upp, en til að setjast á koppinn. Í fjósinu er auðvitað lengi verið með ljós kvöld og morgun eftir að fór að dimma, og á sjúklingnum sjálfum má sjá að opt er vitjað um hana. Hún hefur verið fremur spök og viðráðanleg í sumar, en nú er hún í 2 til 3 síðustu vikur aptur óþjálli, og optar með sönglátum og kvæðastagli en áður. Af því sem að framan er talið, fer að mínu áliti vel um hana; hjer er heldur ekkert geðveikrahæli til, svo sem kunnugt er.

Lækni þessum þótti þessar aðstæður mannsæmandi á þessum tíma. Aðrir sjúklingar voru ekki einu sinni svo heppnir að vera lokaðir inni og fá mat og kopp. Ein kona sem missti vitið um fermingaraldur, skömmu eftir miðja 19. öld, var látin flakka á milli heimila í kaupstað nokkrum á Norðurlandi eftir að foreldrar hennar hættu að geta hugsað um hana og dóttur hennar barnunga. Barnið flakkaði með móður sinni. Fyrir aldamótin 1900 bjargaði Fátækranefnd Reykjavíkur tveimur geðsjúkum konum úr höndum manns sem staðinn var að því að beita þær ofbeldi. Hann hafði tekið að sér að sjá um konurnar gegn greiðslu frá Fátækranefndinni.

Hús á Hellissandi. Ljósmyndin er tekin fyrir miðja 20. öld.

Þeir sem voru svo heppnir að geta unnið á einhvern hátt fyrir sig þrátt fyrir sjúkdóm sinn höfðu það mun betur en aðrir og gott verkafólk var umborið þrátt fyrir að fá tímabundin sjúkdómsköst.

Árið 2013 varði Sigurgeir Guðjónsson doktorsritgerð í sagnfræði við Háskóla Ísland um aðbúnað geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala. Ritgerðin er aðgengileg hér: Aðbúnaður geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala.

Aðrar heimildir: Sólveig Ólafsdóttir, Vald og vanmáttur. 101 saga af jaðrinum. Doktorsritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands (væntanleg).

Mynd:
  • © Sigurður Guttormsson. Myndin birtist í bókinni Híbýli fátæktar (ritstj. Finnur Jónasson, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon), Forlagið, Reykjavík 2019..

...