Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Á hvaða árstíma gagga tófur aðallega?

Ester Rut Unnsteinsdóttir

Tófan er einfari (e. solitary) en félagskerfi tegundarinnar byggir á einkvæni og óðalshegðun. Algengasta fyrirkomulagið er að parið heldur saman svo lengi sem bæði lifa en mökun fer fram í mars. Samskipti fara fram með lyktarskilaboðum, sem eru yfirleitt þvagmerki eða með því að nudda lyktarkirtli sem staðsettur er á vanga, á staði sem merktir eru. Skilaboð eru líka sett fram með hljóðum sem kallast gagg og þá er sagt að tófur gaggi.

Með gagginu láta refir vita af sér. Það getur verið skilaboð til maka (eða afkvæma), til dæmis til að gefa til kynna staðsetningu eða til að vara við hættu. Gaggið getur líka verið viðvörun til andstæðings eða keppinautar. Stundum gagga refir af einskærum hugaræsingi, en það á oftar við um unga refi eða yrðlinga.

Mynd 1. Tófur gagga allt árið um kring en mest þó um tímgunartímann sem hefst með fengitíma í febrúar/mars.

Gaggið er notað allt árið um kring, bæði af fullorðnum refum og yrðlingum, en algengast er að heyra tófur gagga á tímgunartímanum. Það tímabil hefst með fengitíma í febrúar/mars og því fylgir heilmikið tilhugalíf með tilheyrandi samskiptum og hljóðum. Þau dýr sem ekki parast eru kölluð hlaupadýr eða gelddýr og eru jafnan hljóðari en grendýrin. Þegar læður eru gotnar í maí/júní, eru þær í fyrstu bundnar við greni með yrðlingunum en fara snemma út að veiða sér til matar og merkja landamæri óðalsins. Parið hefur þá heilmikil samskipti með gaggi, sem hljómar mismunandi eftir því hver skilaboðin eru.

Eftir því sem líður á sumarið eru samskiptin flóknari enda yrðlingarnir farnir að gagga sjálfir, oftast til að kalla á foreldrana eða hver annan. Þannig æfa þeir sig í að nota hljóðin til samskipta og komast upp á lag með að skilja merkinguna sem felst í gagginu. Yrðlingarnir eru orðnir sjálfstæðir í september og þá hafa samskiptin minnkað og gaggið líka.

Mynd 2. Þar sem þéttleiki er lítill og refaóðul ná yfir stór svæði, er lítið um tófugagg, nema á þeim árstíma þegar refir vilja (og þurfa að) hittast, í febrúar og mars.

Eins og á við um mannfólk þá eru refir „mis-málglaðir“ og því gagga sumir meira en aðrir minna. Eins er munur á tíðni þessara samskipta eftir því hvort refir búa þétt eða dreift. Þar sem þéttleiki er lítill og refaóðul ná yfir stór svæði, er lítið um tófugagg, nema á þeim árstíma þegar refir vilja (og þurfa að) hittast, í febrúar og mars. Þar sem þéttleiki er meiri, nábýli mikið og refaóðul smá, er algengt að heyra refi gagga mestan hluta ársins. Sé gaggið ætlað til að vara við truflun eða mögulegri hættu, þarf það ekki endilega að tengjast þéttleika eða nábýli við aðra refi en getur tengst umferð fólks um svæði þeirra.

Til einföldunar má segja að refir gaggi líklega mest á tímabilinu frá febrúar og fram í ágúst, meðan fjölskyldan heldur saman. Þetta þýðir þó ekki að refir gaggi ekki á öðrum árstíma, þó líklega sé það í minna mæli.

Myndir:
  • Mynd 1: © Caroline Weir. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi.
  • Mynd 2: © Josh Holko. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir

spendýravistfræðingur - Náttúrufræðistofnun Íslands

Útgáfudagur

8.11.2021

Spyrjandi

Maríanna Óskarsdóttir

Tilvísun

Ester Rut Unnsteinsdóttir. „Á hvaða árstíma gagga tófur aðallega? “ Vísindavefurinn, 8. nóvember 2021. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82663.

Ester Rut Unnsteinsdóttir. (2021, 8. nóvember). Á hvaða árstíma gagga tófur aðallega? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82663

Ester Rut Unnsteinsdóttir. „Á hvaða árstíma gagga tófur aðallega? “ Vísindavefurinn. 8. nóv. 2021. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82663>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Á hvaða árstíma gagga tófur aðallega?
Tófan er einfari (e. solitary) en félagskerfi tegundarinnar byggir á einkvæni og óðalshegðun. Algengasta fyrirkomulagið er að parið heldur saman svo lengi sem bæði lifa en mökun fer fram í mars. Samskipti fara fram með lyktarskilaboðum, sem eru yfirleitt þvagmerki eða með því að nudda lyktarkirtli sem staðsettur er á vanga, á staði sem merktir eru. Skilaboð eru líka sett fram með hljóðum sem kallast gagg og þá er sagt að tófur gaggi.

Með gagginu láta refir vita af sér. Það getur verið skilaboð til maka (eða afkvæma), til dæmis til að gefa til kynna staðsetningu eða til að vara við hættu. Gaggið getur líka verið viðvörun til andstæðings eða keppinautar. Stundum gagga refir af einskærum hugaræsingi, en það á oftar við um unga refi eða yrðlinga.

Mynd 1. Tófur gagga allt árið um kring en mest þó um tímgunartímann sem hefst með fengitíma í febrúar/mars.

Gaggið er notað allt árið um kring, bæði af fullorðnum refum og yrðlingum, en algengast er að heyra tófur gagga á tímgunartímanum. Það tímabil hefst með fengitíma í febrúar/mars og því fylgir heilmikið tilhugalíf með tilheyrandi samskiptum og hljóðum. Þau dýr sem ekki parast eru kölluð hlaupadýr eða gelddýr og eru jafnan hljóðari en grendýrin. Þegar læður eru gotnar í maí/júní, eru þær í fyrstu bundnar við greni með yrðlingunum en fara snemma út að veiða sér til matar og merkja landamæri óðalsins. Parið hefur þá heilmikil samskipti með gaggi, sem hljómar mismunandi eftir því hver skilaboðin eru.

Eftir því sem líður á sumarið eru samskiptin flóknari enda yrðlingarnir farnir að gagga sjálfir, oftast til að kalla á foreldrana eða hver annan. Þannig æfa þeir sig í að nota hljóðin til samskipta og komast upp á lag með að skilja merkinguna sem felst í gagginu. Yrðlingarnir eru orðnir sjálfstæðir í september og þá hafa samskiptin minnkað og gaggið líka.

Mynd 2. Þar sem þéttleiki er lítill og refaóðul ná yfir stór svæði, er lítið um tófugagg, nema á þeim árstíma þegar refir vilja (og þurfa að) hittast, í febrúar og mars.

Eins og á við um mannfólk þá eru refir „mis-málglaðir“ og því gagga sumir meira en aðrir minna. Eins er munur á tíðni þessara samskipta eftir því hvort refir búa þétt eða dreift. Þar sem þéttleiki er lítill og refaóðul ná yfir stór svæði, er lítið um tófugagg, nema á þeim árstíma þegar refir vilja (og þurfa að) hittast, í febrúar og mars. Þar sem þéttleiki er meiri, nábýli mikið og refaóðul smá, er algengt að heyra refi gagga mestan hluta ársins. Sé gaggið ætlað til að vara við truflun eða mögulegri hættu, þarf það ekki endilega að tengjast þéttleika eða nábýli við aðra refi en getur tengst umferð fólks um svæði þeirra.

Til einföldunar má segja að refir gaggi líklega mest á tímabilinu frá febrúar og fram í ágúst, meðan fjölskyldan heldur saman. Þetta þýðir þó ekki að refir gaggi ekki á öðrum árstíma, þó líklega sé það í minna mæli.

Myndir:
  • Mynd 1: © Caroline Weir. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi.
  • Mynd 2: © Josh Holko. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi.
...