Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Hver er saga dánarvottorða á Íslandi?

Ólöf Garðarsdóttir

Á Norðurlöndunum var rík hefð fyrir því að prestar skráðu upplýsingar um dánarmein í prestsþjónustbækur sínar, og tölfræðilegar upplýsingar um dánarmein grundvölluðust framan af á skýrslum frá prestum. Lengi vel var söfnun upplýsinga um dánarmein mun ítarlegri í sænska ríkinu (það er í Svíþjóð og Finnlandi) en í Danmörku, Noregi og á Íslandi. Allt frá stofnun sænsku hagskýrslugerðarstofnunarinnar Tabellkommissionen árið 1749 var þannig kallað eftir skýrslum um dauðsföll eftir kyni, aldri og dánarmeini. Í fyrstu voru skilgreindir 33 flokkar dánarmeina; um helmingur þeirra smitsjúkdómar. Auk elli og barnsfararsóttar eru svo nokkrir flokkar yfir slysadauða og sjálfsvíg.

Árin 1829 og 1832 komu fram í Danmörku tilskipanir sem meinuðu prestum að jarðsetja fólk nema gefið hefði verið út dánarvottorð. Í kaupstöðum og kauptúnum með læknissetur bar læknum að gefa út slík dánarvottorð en annars staðar átti að skipa tvo líkskoðunarmenn til verksins. Upphaflegur tilgangur þessara tilskipana var ekki að afla upplýsinga um dánarmein heldur að koma í veg fyrir kviksetningar. Árið 1832 var þess krafist að þar sem læknar skrifuðu dánarvottorð bæri þeim að tilgreina dánarmein hins látna. Allt frá þeim tíma voru birtar tölur um dánarmein Kaupmannahafnarbúa í dönsku hagskýrslunum (Tabelværket). Það var hins vegar ekki fyrr en 1860 að sambærileg tölfræði var birt fyrir aðra kaupstaði í Danmörku og ekki fyrr en 1876 fyrir Danmörku í heild sinni. Tabellkomminssionen í Danmörku kallaði þó frá árinu 1835 eftir skýrslum frá prestum alls staðar í danska ríkinu (meðal annars á Íslandi) um voveifleg dauðsföll, það er sjálfsvíg, drukknanir, myrta og þá sem brunnu inni. Tölfræðilegar upplýsingar um þessi dauðsföll voru birt í hagskýrslum.

Mynd af opnu úr Prestþjónustubók Húsavíkur sem sýnir skráningu á látnum einstaklingum snemma á 19. öld.

Hér á landi eru elstu lög um dánarvottorð frá árinu 1911. Allt frá árinu 1892 hafði verið lagt fram frumvarp á alþingi um dánarvottorð. Frumvarpið strandaði jafnan í efri deild þingsins þar sem færð voru rök fyrir því að söfnun upplýsinga um dánarmein stríddu gegn því sem í dag myndi flokkast undir persónuverndarsjónarmið eða „Privatlivets Fred“ eins og einn þingmaður orðaði það.

Lög um dánarskýrslur 30/1911 gerðu ráð fyrir því að prestar héldu til haga upplýsingum um dánarmein. Í 1. gr. laganna segir að prestur megi ekki jarðsetja lík fólks sem dáið hefur í kauptúni sem er læknissetur, fyrr en hann hefur fengið dánarvottorð frá lækni. Þar sem ekki var læknissetur skyldi prestur „rita í kirkjubókina dauðamein hins látna, eftir þeim skýringum, er hann betur beztar fengið“ (2. gr.). Prestum bar að leita álits læknis um mögulegt dánarmein væri þess nokkur kostur.

Stjórnarráðið lét prestum í té eyðublöð fyrir dánarskýrslur en þar tilgreindi prestur dánarmein og greindi jafnframt frá því við hvaða heimild stuðst væri við ákvörðun dánarmeins. Prestar sendu þessar skýrslur til héraðslækna ásamt dánarvottorðum. Dánarvottorð voru allt fram yfir aldamótin 2000 varðveitt hjá Hagstofu Íslands og eru nú í Skjalasafni Hagstofunnar á Þjóðminjasafni. Dánarskýrslur presta eru hins vegar varðveittar hjá Þjóðskrá.

Allt til ársins 1950, þegar ný lög nr. 42 um dánarvottorð og dánarskýrslur tóku gildi, birti Hagstofa Íslands (í Hagskýrslum Íslands), tölur um það hvaðan upplýsinga um dánarmein var aflað. Myndin hér fyrir neðan sýnir að framan af (1911-15) fengust upplýsingar um dánarmein í tæplega þriðjungi tilfella (32%) úr dánarvottorðum og í 16% tilfella hafði læknir lagt mat á og leiðrétt upplýsingar prests um dánarmein. Í rúmlega helmingi tilvika (52%) var einvörðungu stuðst við upplýsingar presta um dánarmein. Hlutur skýrslna þar sem presturinn einn lagði mat á dánarorsök fækkað ört, einkum eftir 1925 og um það leyti sem ný lög um dánarvottorð tóku gildi 1950 grundvölluðust upplýsingar um dánarmein í nær 80% tilvika á dánarvottorðum og í rúmlega 10% tilvika á athugun læknis á dánarmeinaskráningu prests.

Súlurit sem sýnir skráningu dánarorsaka á Íslandi 1911-1950 eftir því hvaðan upplýsingar um dánarmein eru fengnar.

Allar götur frá árinu 1911 hefur hér á landi verið notast við sama flokkunarkerfi um dánarmein og í Danmörku og árið 1931 tóku öll Norðurlöndin upp sameiginlegt norrænt kerfi. Löngu áður hófst viðleitni til að útbúa samræmt alþjóðlegt flokkunarkerfi. Allra fyrstu tilraunir til slíks má rekja til 18. aldar, meðal annars til hins þekkta grasfræðings Carl von Linné (1707-1778). Það er þó hefð fyrir því að telja breska lækninn og tölfræðinginn William Farr (1807-1883) höfund alþjóðlegrar dánarmeinaskráningar en hann lagði fram tillögu að henni ásamt svissneskum kollega sínum Marc d‘Espine (1806-1860) á fyrsta alþjóðaþingi tölfræðinga árið 1853. Fjörtíu árum síðar var á sama þingi samþykkt fyrsta útgáfa alþjóðlegs dánarmeinakerfis (e. ICD-International List of Causes of Death) en nú styðjast flest lönd við 10. útgáfa þess (ICD-10). Danmörk, Noregur og Íslands tóku upp ICD-5 kerfið um 1940 en Svíþjóð og Finnland tíu árum síðar.

Heimildir:
 • Aþingistíðindi 1892-1911.
 • Björk Ingimundardóttir (2020), Prestsþjónustubækur. Þjóðskjalasafn Íslands. Orðabelgur https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/preststhjonustubaekur/.
 • Hagskýrslur Íslands. Mannfjöldaskýrslur 1911-15. 1926-30, 1931-35, 1941-45, 1946-50, 1951-60.
 • Johansson, Børre (1946). Den danske sygdoms- og dødsaarsagsstatistik med ett afsnitt om pneumoniastatistik. København: Ejnar Munksgaard.
 • Jón Þorkelsson (1905-6), skrár Skrá um skjöl og bækur í landsskjalasafninu í Rvíkur 2. bindi. Skjalsafn klerkdómsins. Reykjavík 1905.
 • Lovsamling for Island 4.-10. bindi.
 • Lög 30/1911 um dánarskýrslur.
 • Lög nr. 42 /1950 um dánarvottorð og dánarskýrslur.
 • Løkke, Anne (1998). Døden i berndommen: spædbarnsdødelighed og moderniseringsprocesser i Danmark 1800-1920. København: Gyldendal.
 • Mannslátabók I. Lög og reglur varðandi tilkynningar um mannslát, dánarvottorð, dánarskýrslur, mannskaðaskýrslur og rannsóknir á líkum (1935). Reykjavík: Landlæknisembættið.
 • Mannslátabók II. Reglur, skrár og leiðbeiningar varðandi staðtöluflokkun dánarmeina (1953). Reykjavík: Landlæknisembættið.
 • Ólöf Garðarsdóttir (2002). Saving the Child: Regional, cultural and social aspects of the infant mortality decline in Iceland 1770-1920. Umeå: Umeå University.
 • Sköld, Peter (2001). Kunskap och kontroll. Den svenska befolkningsstatistikens historia. Umeå: Almqvist & Wiksell International.
 • Smedby, Björn og Gunnar Schiøler (2006). Health Classifications in the Nordic Countries. Historic development in a national and international perspective. Kaupmannahöfn: Nordisk Meidcinalstatistisk Komité.
 • Statistisk Tabelværk [Danskar hagskýrslur].
 • Þjóðskjalasafn Íslands (ÞÍ.) Hagstofa Íslands D/1. Dánarvottorð (karlar); D/2. Dánarvottorð (konur).

Mynd:

Spurningu Sifjar er hér svarað að hluta.

Höfundur

Ólöf Garðarsdóttir

prófessor í félagssögu

Útgáfudagur

10.10.2022

Spyrjandi

Sif, ritstjórn

Tilvísun

Ólöf Garðarsdóttir. „Hver er saga dánarvottorða á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 10. október 2022. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84118.

Ólöf Garðarsdóttir. (2022, 10. október). Hver er saga dánarvottorða á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84118

Ólöf Garðarsdóttir. „Hver er saga dánarvottorða á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 10. okt. 2022. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84118>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er saga dánarvottorða á Íslandi?
Á Norðurlöndunum var rík hefð fyrir því að prestar skráðu upplýsingar um dánarmein í prestsþjónustbækur sínar, og tölfræðilegar upplýsingar um dánarmein grundvölluðust framan af á skýrslum frá prestum. Lengi vel var söfnun upplýsinga um dánarmein mun ítarlegri í sænska ríkinu (það er í Svíþjóð og Finnlandi) en í Danmörku, Noregi og á Íslandi. Allt frá stofnun sænsku hagskýrslugerðarstofnunarinnar Tabellkommissionen árið 1749 var þannig kallað eftir skýrslum um dauðsföll eftir kyni, aldri og dánarmeini. Í fyrstu voru skilgreindir 33 flokkar dánarmeina; um helmingur þeirra smitsjúkdómar. Auk elli og barnsfararsóttar eru svo nokkrir flokkar yfir slysadauða og sjálfsvíg.

Árin 1829 og 1832 komu fram í Danmörku tilskipanir sem meinuðu prestum að jarðsetja fólk nema gefið hefði verið út dánarvottorð. Í kaupstöðum og kauptúnum með læknissetur bar læknum að gefa út slík dánarvottorð en annars staðar átti að skipa tvo líkskoðunarmenn til verksins. Upphaflegur tilgangur þessara tilskipana var ekki að afla upplýsinga um dánarmein heldur að koma í veg fyrir kviksetningar. Árið 1832 var þess krafist að þar sem læknar skrifuðu dánarvottorð bæri þeim að tilgreina dánarmein hins látna. Allt frá þeim tíma voru birtar tölur um dánarmein Kaupmannahafnarbúa í dönsku hagskýrslunum (Tabelværket). Það var hins vegar ekki fyrr en 1860 að sambærileg tölfræði var birt fyrir aðra kaupstaði í Danmörku og ekki fyrr en 1876 fyrir Danmörku í heild sinni. Tabellkomminssionen í Danmörku kallaði þó frá árinu 1835 eftir skýrslum frá prestum alls staðar í danska ríkinu (meðal annars á Íslandi) um voveifleg dauðsföll, það er sjálfsvíg, drukknanir, myrta og þá sem brunnu inni. Tölfræðilegar upplýsingar um þessi dauðsföll voru birt í hagskýrslum.

Mynd af opnu úr Prestþjónustubók Húsavíkur sem sýnir skráningu á látnum einstaklingum snemma á 19. öld.

Hér á landi eru elstu lög um dánarvottorð frá árinu 1911. Allt frá árinu 1892 hafði verið lagt fram frumvarp á alþingi um dánarvottorð. Frumvarpið strandaði jafnan í efri deild þingsins þar sem færð voru rök fyrir því að söfnun upplýsinga um dánarmein stríddu gegn því sem í dag myndi flokkast undir persónuverndarsjónarmið eða „Privatlivets Fred“ eins og einn þingmaður orðaði það.

Lög um dánarskýrslur 30/1911 gerðu ráð fyrir því að prestar héldu til haga upplýsingum um dánarmein. Í 1. gr. laganna segir að prestur megi ekki jarðsetja lík fólks sem dáið hefur í kauptúni sem er læknissetur, fyrr en hann hefur fengið dánarvottorð frá lækni. Þar sem ekki var læknissetur skyldi prestur „rita í kirkjubókina dauðamein hins látna, eftir þeim skýringum, er hann betur beztar fengið“ (2. gr.). Prestum bar að leita álits læknis um mögulegt dánarmein væri þess nokkur kostur.

Stjórnarráðið lét prestum í té eyðublöð fyrir dánarskýrslur en þar tilgreindi prestur dánarmein og greindi jafnframt frá því við hvaða heimild stuðst væri við ákvörðun dánarmeins. Prestar sendu þessar skýrslur til héraðslækna ásamt dánarvottorðum. Dánarvottorð voru allt fram yfir aldamótin 2000 varðveitt hjá Hagstofu Íslands og eru nú í Skjalasafni Hagstofunnar á Þjóðminjasafni. Dánarskýrslur presta eru hins vegar varðveittar hjá Þjóðskrá.

Allt til ársins 1950, þegar ný lög nr. 42 um dánarvottorð og dánarskýrslur tóku gildi, birti Hagstofa Íslands (í Hagskýrslum Íslands), tölur um það hvaðan upplýsinga um dánarmein var aflað. Myndin hér fyrir neðan sýnir að framan af (1911-15) fengust upplýsingar um dánarmein í tæplega þriðjungi tilfella (32%) úr dánarvottorðum og í 16% tilfella hafði læknir lagt mat á og leiðrétt upplýsingar prests um dánarmein. Í rúmlega helmingi tilvika (52%) var einvörðungu stuðst við upplýsingar presta um dánarmein. Hlutur skýrslna þar sem presturinn einn lagði mat á dánarorsök fækkað ört, einkum eftir 1925 og um það leyti sem ný lög um dánarvottorð tóku gildi 1950 grundvölluðust upplýsingar um dánarmein í nær 80% tilvika á dánarvottorðum og í rúmlega 10% tilvika á athugun læknis á dánarmeinaskráningu prests.

Súlurit sem sýnir skráningu dánarorsaka á Íslandi 1911-1950 eftir því hvaðan upplýsingar um dánarmein eru fengnar.

Allar götur frá árinu 1911 hefur hér á landi verið notast við sama flokkunarkerfi um dánarmein og í Danmörku og árið 1931 tóku öll Norðurlöndin upp sameiginlegt norrænt kerfi. Löngu áður hófst viðleitni til að útbúa samræmt alþjóðlegt flokkunarkerfi. Allra fyrstu tilraunir til slíks má rekja til 18. aldar, meðal annars til hins þekkta grasfræðings Carl von Linné (1707-1778). Það er þó hefð fyrir því að telja breska lækninn og tölfræðinginn William Farr (1807-1883) höfund alþjóðlegrar dánarmeinaskráningar en hann lagði fram tillögu að henni ásamt svissneskum kollega sínum Marc d‘Espine (1806-1860) á fyrsta alþjóðaþingi tölfræðinga árið 1853. Fjörtíu árum síðar var á sama þingi samþykkt fyrsta útgáfa alþjóðlegs dánarmeinakerfis (e. ICD-International List of Causes of Death) en nú styðjast flest lönd við 10. útgáfa þess (ICD-10). Danmörk, Noregur og Íslands tóku upp ICD-5 kerfið um 1940 en Svíþjóð og Finnland tíu árum síðar.

Heimildir:
 • Aþingistíðindi 1892-1911.
 • Björk Ingimundardóttir (2020), Prestsþjónustubækur. Þjóðskjalasafn Íslands. Orðabelgur https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/preststhjonustubaekur/.
 • Hagskýrslur Íslands. Mannfjöldaskýrslur 1911-15. 1926-30, 1931-35, 1941-45, 1946-50, 1951-60.
 • Johansson, Børre (1946). Den danske sygdoms- og dødsaarsagsstatistik med ett afsnitt om pneumoniastatistik. København: Ejnar Munksgaard.
 • Jón Þorkelsson (1905-6), skrár Skrá um skjöl og bækur í landsskjalasafninu í Rvíkur 2. bindi. Skjalsafn klerkdómsins. Reykjavík 1905.
 • Lovsamling for Island 4.-10. bindi.
 • Lög 30/1911 um dánarskýrslur.
 • Lög nr. 42 /1950 um dánarvottorð og dánarskýrslur.
 • Løkke, Anne (1998). Døden i berndommen: spædbarnsdødelighed og moderniseringsprocesser i Danmark 1800-1920. København: Gyldendal.
 • Mannslátabók I. Lög og reglur varðandi tilkynningar um mannslát, dánarvottorð, dánarskýrslur, mannskaðaskýrslur og rannsóknir á líkum (1935). Reykjavík: Landlæknisembættið.
 • Mannslátabók II. Reglur, skrár og leiðbeiningar varðandi staðtöluflokkun dánarmeina (1953). Reykjavík: Landlæknisembættið.
 • Ólöf Garðarsdóttir (2002). Saving the Child: Regional, cultural and social aspects of the infant mortality decline in Iceland 1770-1920. Umeå: Umeå University.
 • Sköld, Peter (2001). Kunskap och kontroll. Den svenska befolkningsstatistikens historia. Umeå: Almqvist & Wiksell International.
 • Smedby, Björn og Gunnar Schiøler (2006). Health Classifications in the Nordic Countries. Historic development in a national and international perspective. Kaupmannahöfn: Nordisk Meidcinalstatistisk Komité.
 • Statistisk Tabelværk [Danskar hagskýrslur].
 • Þjóðskjalasafn Íslands (ÞÍ.) Hagstofa Íslands D/1. Dánarvottorð (karlar); D/2. Dánarvottorð (konur).

Mynd:

Spurningu Sifjar er hér svarað að hluta....