Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir voru helstu sjúkdómar á Íslandi á landnámsöld?

Hildur Gestsdóttir

Áður en ráðist er í að svara þessari spurningu er mikilvægt að huga að því hvaðan við fáum upplýsingar um sjúkdóma í fornum samfélögum. Annars vegar geta ritaðar heimildir veitt innsýn í sjúkdóma til forna, bæði beinar lýsingar á sjúkdómseinkennum og mannlýsingar sem vísa í hugsanleg sjúkdómseinkenni. Við þetta mætti einnig bæta vitnisburði myndlistar af ýmsu tagi, til dæmis útskurðar málverka eða höggmynda sem sýna fólk með sjúkdóma. Hins vegar eru það líkamsleifar fólks. Í flestum tilvikum er þá átt við mannabein, en stundum um aðrar líkamsleifar sem hafa varðveist eins og til dæmis múmíur.

Fornmaður hvílist, vonandi vegna þreytu en ekki sjúkleika.

Takmarkanir heimildanna

Öllum þessum heimildum fylgja þó nokkrir annmarkar. Í fyrsta lagi eru ekki til ritaðar samtímaheimildir um landnámsöld á Íslandi, enda eru flestar bókmenntir sem fjalla um þann tíma færðar í letur mörgum öldum eftir að atburðirnir gerðust. Í öðru lagi getur reynst erfitt að átta sig á hvaða sjúkdómi er verið að lýsa í fornum texta og sjálfsagt ekki óalgengt að sjúkdómum hafi verið ruglað saman eða þeir greindir öðruvísi en gert væri í dag. Til dæmis er ekki ósennilegt að í Evrópu miðalda, hafi ýmis húðeinkenni, til dæmis psóríasis, verið greind sem holdsveiki en hún var talin bölvun guðs og holdsveikisjúklingar voru útskúfaðir. Í þriðja lagi er sennilegt að óvenjulegar sjúkdómslýsingar, eða lýsingar á sjúkdómum, sem hafa hrjáð háttsetta einstaklinga í samfélaginu, séu líklegri til að rata á bækur en algengir sjúkdómar eða þeir sem valda litlum sýnilegum einkennum.

Ýmsir sjúkdómar geta orsakað meinafræðilegar breytingar á beinum. Hins vegar sjást oft takmörkuð einkenni á beinum þrátt fyrir sjúkdóma. Þetta þýðir að í mörgum tilvikum getur verið erfitt að byggja nákvæma sjúkdómsgreiningu á beinarannsókn. Við þetta má bæta að margir sjúkdómar sem geta haft áhrif á bein, gera það ekki alltaf. Til dæmis má nefna berkla, sem geta lagst á bein, en gera það einungis í um 7% tilfella. Auk þess eru sjúkdómsbreytingar sem sjást á beinum alltaf vegna langvinnra sjúkdóma, með öðrum orðum þarf fólk að vera veikt um langa hríð til að hægt sé að greina sjúkdóminn af beinum þeirra (Roberts & Manchester 1995).

Eins og áður segir eru ekki til neinar samtímaheimildir sem geta varpað ljósi á landnámsöld. Í bók sinni Sjúkdómar og dánarmein íslenskra fornmanna (1998) tekur Sigurður Samúelsson þó saman lýsingar á sjúkdómum og dauðsföllum í fornritunum og flokkar eftir læknisfræðilegri þekkingu nútímans. Sem dæmi má nefna setninguna „Virðuligr maðr hafði mein mikit innan rifja ok hættligt“ úr Þorláks sögu. Greining Sigurðar er að líklegasta orsökin sé „lungnasullur útgenginn frá lifrarsulli sem hefir sprungið, og innihaldið gengið upp frá lungunum“ (Sigurður Samúelsson 1998: 34). Svona greiningar er vitanlega erfitt að staðfesta.

Kuml

Til þessa hafa verið grafnar upp beinagrindur, eða hlutar beinagrinda, um 200 einstaklinga úr kumlum sem hægt er að tímasetja til landnámsaldar. Beinin eru almennt fremur illa varðveitt, meðal annars vegna þess að flestum kumlanna hefur verið raskað áður en uppgröftur fór fram, annaðhvort af manna- eða náttúruvöldum (Hildur Gestsdóttir 2004).

Mannabein í kumli á Daðastöðum í Reykjadal. ©Fornleifastofnun Íslands

Þessi slæma varðveisla hefur þau áhrif að oft getur verið erfitt að greina sjúkdóma af beinunum. Þó er hægt að slá því föstu að langalgengasti sjúkdómurinn í beinasafninu er slitgigt. Það er ekki þar með sagt að slitgigt hafi verið algengasti sjúkdómurinn á landnámsöld, heldur er það eðli sjúkdómsins sem veldur þessu. Slitgigt er mjög auðgreinanleg í mannabeinum og er þess eðlis að vera nánast alltaf sjáanleg (ef varðveisla leyfir) á beinum þeirra sem þjáðst hafa af sjúkdómnum. Þetta þýðir að slitgigt er almennt algengasti sjúkdómur sem finnst í fornum beinagrindasöfnum.

Í stuttu máli eru þau gögn sem við höfum úr að moða þess eðlis að seint eða aldrei verður hægt að svara spurningum um hvaða sjúkdómur hafi verið algengastur á ákveðnu tímaskeiði. Líklegast er að skammvinnir sjúkdómar sem höfðu engin áhrif á bein, leiddu ekki til dauða og voru ekki nógu áhugaverðir til að vera skráðir á spjöld sögunnar hafi verið algengastir á landnámsöld. Þetta þýðir þó ekki að gagnslaust sé að rannsaka sjúkdóma til forna enda geta þær varpað mikilvægu ljósi á lifnaðarhætti og viðurværi í löngu horfnum samfélögum (sjá til dæmis Hildur Gestsdóttir 2009) þótt erfitt sé að svara spurningum eins og þeirri sem hér var lagt upp með.

Svar þetta byggir að einhverju leyti á óbirtri rannsókn höfundar á mannabeinum úr íslenskum kumlum.

Heimildir:
  • Hildur Gestsdóttir. 2004. „Mannabein í þúsund ár. Vitnisburður um lífskjör og lifnaðarhætti.“ Hlutavelta tímans. Menningararfur í Þjóðminjasafni, ritstj. Árni Björnsson & Hrefna Róbertsdóttir, 78-85. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
  • Hildur Gestsdóttir. 2009. „Sögur af beinagrindum.“ Árbók Hins Íslenzka fornleifafélags 2008-9, 123-142.
  • Roberts, C. A. & K. Manchester. 1995. The archaeology of disease. Ithaca, New York: Alan Sutton Publishing Limited.
  • Sigurður Samúelsson. 1998. Sjúkdómar og dánarmein íslenskra fornmanna.Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Myndir:
  • Mynd af fornmanni: Vefur Grindavíkur, sótt 22.03.2012.
  • Bein í kumli: Fornleifastofnun Íslands.

Höfundur

doktorsnemi í fornleifafræði

Útgáfudagur

23.3.2012

Spyrjandi

Hafsteinn Ágústsson, f. 1995

Tilvísun

Hildur Gestsdóttir. „Hverjir voru helstu sjúkdómar á Íslandi á landnámsöld?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2012, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60978.

Hildur Gestsdóttir. (2012, 23. mars). Hverjir voru helstu sjúkdómar á Íslandi á landnámsöld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60978

Hildur Gestsdóttir. „Hverjir voru helstu sjúkdómar á Íslandi á landnámsöld?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2012. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60978>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir voru helstu sjúkdómar á Íslandi á landnámsöld?
Áður en ráðist er í að svara þessari spurningu er mikilvægt að huga að því hvaðan við fáum upplýsingar um sjúkdóma í fornum samfélögum. Annars vegar geta ritaðar heimildir veitt innsýn í sjúkdóma til forna, bæði beinar lýsingar á sjúkdómseinkennum og mannlýsingar sem vísa í hugsanleg sjúkdómseinkenni. Við þetta mætti einnig bæta vitnisburði myndlistar af ýmsu tagi, til dæmis útskurðar málverka eða höggmynda sem sýna fólk með sjúkdóma. Hins vegar eru það líkamsleifar fólks. Í flestum tilvikum er þá átt við mannabein, en stundum um aðrar líkamsleifar sem hafa varðveist eins og til dæmis múmíur.

Fornmaður hvílist, vonandi vegna þreytu en ekki sjúkleika.

Takmarkanir heimildanna

Öllum þessum heimildum fylgja þó nokkrir annmarkar. Í fyrsta lagi eru ekki til ritaðar samtímaheimildir um landnámsöld á Íslandi, enda eru flestar bókmenntir sem fjalla um þann tíma færðar í letur mörgum öldum eftir að atburðirnir gerðust. Í öðru lagi getur reynst erfitt að átta sig á hvaða sjúkdómi er verið að lýsa í fornum texta og sjálfsagt ekki óalgengt að sjúkdómum hafi verið ruglað saman eða þeir greindir öðruvísi en gert væri í dag. Til dæmis er ekki ósennilegt að í Evrópu miðalda, hafi ýmis húðeinkenni, til dæmis psóríasis, verið greind sem holdsveiki en hún var talin bölvun guðs og holdsveikisjúklingar voru útskúfaðir. Í þriðja lagi er sennilegt að óvenjulegar sjúkdómslýsingar, eða lýsingar á sjúkdómum, sem hafa hrjáð háttsetta einstaklinga í samfélaginu, séu líklegri til að rata á bækur en algengir sjúkdómar eða þeir sem valda litlum sýnilegum einkennum.

Ýmsir sjúkdómar geta orsakað meinafræðilegar breytingar á beinum. Hins vegar sjást oft takmörkuð einkenni á beinum þrátt fyrir sjúkdóma. Þetta þýðir að í mörgum tilvikum getur verið erfitt að byggja nákvæma sjúkdómsgreiningu á beinarannsókn. Við þetta má bæta að margir sjúkdómar sem geta haft áhrif á bein, gera það ekki alltaf. Til dæmis má nefna berkla, sem geta lagst á bein, en gera það einungis í um 7% tilfella. Auk þess eru sjúkdómsbreytingar sem sjást á beinum alltaf vegna langvinnra sjúkdóma, með öðrum orðum þarf fólk að vera veikt um langa hríð til að hægt sé að greina sjúkdóminn af beinum þeirra (Roberts & Manchester 1995).

Eins og áður segir eru ekki til neinar samtímaheimildir sem geta varpað ljósi á landnámsöld. Í bók sinni Sjúkdómar og dánarmein íslenskra fornmanna (1998) tekur Sigurður Samúelsson þó saman lýsingar á sjúkdómum og dauðsföllum í fornritunum og flokkar eftir læknisfræðilegri þekkingu nútímans. Sem dæmi má nefna setninguna „Virðuligr maðr hafði mein mikit innan rifja ok hættligt“ úr Þorláks sögu. Greining Sigurðar er að líklegasta orsökin sé „lungnasullur útgenginn frá lifrarsulli sem hefir sprungið, og innihaldið gengið upp frá lungunum“ (Sigurður Samúelsson 1998: 34). Svona greiningar er vitanlega erfitt að staðfesta.

Kuml

Til þessa hafa verið grafnar upp beinagrindur, eða hlutar beinagrinda, um 200 einstaklinga úr kumlum sem hægt er að tímasetja til landnámsaldar. Beinin eru almennt fremur illa varðveitt, meðal annars vegna þess að flestum kumlanna hefur verið raskað áður en uppgröftur fór fram, annaðhvort af manna- eða náttúruvöldum (Hildur Gestsdóttir 2004).

Mannabein í kumli á Daðastöðum í Reykjadal. ©Fornleifastofnun Íslands

Þessi slæma varðveisla hefur þau áhrif að oft getur verið erfitt að greina sjúkdóma af beinunum. Þó er hægt að slá því föstu að langalgengasti sjúkdómurinn í beinasafninu er slitgigt. Það er ekki þar með sagt að slitgigt hafi verið algengasti sjúkdómurinn á landnámsöld, heldur er það eðli sjúkdómsins sem veldur þessu. Slitgigt er mjög auðgreinanleg í mannabeinum og er þess eðlis að vera nánast alltaf sjáanleg (ef varðveisla leyfir) á beinum þeirra sem þjáðst hafa af sjúkdómnum. Þetta þýðir að slitgigt er almennt algengasti sjúkdómur sem finnst í fornum beinagrindasöfnum.

Í stuttu máli eru þau gögn sem við höfum úr að moða þess eðlis að seint eða aldrei verður hægt að svara spurningum um hvaða sjúkdómur hafi verið algengastur á ákveðnu tímaskeiði. Líklegast er að skammvinnir sjúkdómar sem höfðu engin áhrif á bein, leiddu ekki til dauða og voru ekki nógu áhugaverðir til að vera skráðir á spjöld sögunnar hafi verið algengastir á landnámsöld. Þetta þýðir þó ekki að gagnslaust sé að rannsaka sjúkdóma til forna enda geta þær varpað mikilvægu ljósi á lifnaðarhætti og viðurværi í löngu horfnum samfélögum (sjá til dæmis Hildur Gestsdóttir 2009) þótt erfitt sé að svara spurningum eins og þeirri sem hér var lagt upp með.

Svar þetta byggir að einhverju leyti á óbirtri rannsókn höfundar á mannabeinum úr íslenskum kumlum.

Heimildir:
  • Hildur Gestsdóttir. 2004. „Mannabein í þúsund ár. Vitnisburður um lífskjör og lifnaðarhætti.“ Hlutavelta tímans. Menningararfur í Þjóðminjasafni, ritstj. Árni Björnsson & Hrefna Róbertsdóttir, 78-85. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
  • Hildur Gestsdóttir. 2009. „Sögur af beinagrindum.“ Árbók Hins Íslenzka fornleifafélags 2008-9, 123-142.
  • Roberts, C. A. & K. Manchester. 1995. The archaeology of disease. Ithaca, New York: Alan Sutton Publishing Limited.
  • Sigurður Samúelsson. 1998. Sjúkdómar og dánarmein íslenskra fornmanna.Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Myndir:
  • Mynd af fornmanni: Vefur Grindavíkur, sótt 22.03.2012.
  • Bein í kumli: Fornleifastofnun Íslands.

...