Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Geta dýr eins og maurar stundað ræktun?

Marco Mancini og Arnar Pálsson

Landbúnaður er undirstaða samfélags manna og velmegunar. Við mennirnir hagnýtum margar tegundir plantna og dýra til fæðuframleiðslu. En aðrar tegundir dýra geta líka stundað ræktun og eru maurar líklega þekktasta dæmið. Flestar tegundir maura eru rándýr, og talið er að fyrstu maurarnir hafi stundað ránlífi. Maurar herja á önnur liðdýr (e. Arthropods) í vistkerfum á landi.[1] Flestar tegundir maura eru alætur og nýta tækifærisbráð, en sumar eru meira sérhæfðar og stunda jafnvel ræktun sveppa.[2]

Nokkrar tegundir maura stunda svepparækt í einskonar görðum neðanjarðar innan búa sinna. Rannsóknir benda til að nokkrar milljónir ára séu síðan þessi hæfileiki þróaðist meðal maura.[3] Hæfileikinn til svepparæktunar finnst hjá alls 19 ættkvíslum innan Attini-hópsins. Þessir svepparæktandi maurar finnast eingöngu í hitabeltinu,[4] mögulega vegna þess að hitastig þarf að vera ákjósanlegt fyrir slíka ræktun. Hér verða tekin dæmi um tvær sérstaklega heillandi tegundir, hina þekktu laufskurðarmaura (e. leaf-cutter ants, Atta cephalotes) og minna þekkta en álíka forvitnilega tegund maura (hafa ekki fengið íslenskt heiti en kallast á fræðimáli Cyphomyrmex minutus).

Þernur laufskurðarmaura (Atta cephalotes) klippa bita af laufblaði með stórgerðum munnpörtum sínum. Myndina tók Marco Mancini, 2015 í Parlatuvier, Tobago.

Laufskurðarmaurarnir hafa margar gerðir þerna (einnig kallaðir vinnumaurar) og oft finnast milljónir maura í hverju búi. Búin geta verið tröllaukin, í þau getur þurft um 40 tonn af jarðvegi. Veigamest er lífrænt efni sem maurarnir sækja og nýta í sveppagarðinn. Um er að ræða fersk laufblöð, stilka og blóm sem nýtt eru sem næring fyrir sveppina í görðunum.[5] Sveppirnir vaxa þar við kjöraðstæður, í raka og jafnara hitastigi en á yfirborðinu.

Hluti sveppagarðs laufskurðarmaura í búi tegundarinnar Atta cephalotes, með ferskum laufblöðum og blómum sem sveppirnir munu nærast á. Myndina tók Marco Mancini 2018 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Sveppþræðirnir rekja sig um og nærast á lífræna efninu, en að auki myndar sveppurinn sérstaka sepa, fyllta næringu sem maurarnir nýta sér.[6] Maurarnir nýta næringuna frá sveppunum sérstaklega fyrir lirfurnar. Þetta er samlífi, þar sem bæði sveppir og maurar hagnast á fyrirkomulaginu. Líklegt verður að teljast að um afleiðingu samþróunar maura og sveppa sé að ræða, þar sem sveppirnir hafa þróast í þá átt að mynda næringarríka sepa sem maurunum nýtast. Á hinn bóginn verja maurarnir miklum tíma í að leita uppi lífrænt efni sem þeir geta borið í sveppagarðinn en einnig hreinsa þeir garðinn og fjarlægja afætur eða óæskilegar sveppagerðir.

Cyphomyrmex minuts eru frekar kubbslaga og krullast í kúlur ef ró þeirra er raskað eins og þessi þerna sem er upprúlluð eftir að hafa verið gert bilt við. Myndina tók Marco Mancini 2022, í Florida Atlantic University. Jupiter, Florida, BNA.

Hin tegundin sem hér er fjallað um (Cyphomyrmex minutus) notar önnur hráefni fyrir svepparækt sína. Þeir safna saur skordýra, dauðum skordýrum og ávaxtabitum/afgöngum, sem þeir draga í búið og koma fyrir í sveppagarðinum. Sveppirnir sem þeir rækta eru skyldir gersveppum.[7] Þeir vaxa og skipta sér sem stakar frumur, ekki þræðir eða netja eins og sveppirnir sem laufskurðarmaurarnir rækta. Í þessu tilfelli er einnig um samlífi að ræða.

Hluti sveppagarðs maura af tegundinni Cyphomyrmex minutus. Myndina tók Marco Mancini 2022, í Maggy‘s Hammock garðinum. Stuart, Florida, BNA.

Maurar sem stunda svepparækt standa frammi fyrir þeirri áskorun að hefja ræktun í hvert skipti sem nýtt bú er stofnað. Í tilfelli mannfólks þá er tiltölulega auðvelt að flytja fræ milli svæða og landa, en búpeningur er flóknari farmur. Sveppir eru meðfærilegri en kýr. Nýklaktir kvenmaurar beggja tegunda sem rætt var um að ofan, og líklega einnig annarra tegunda maura sem stunda svepparækt, taka með sér afleggjara þegar þær yfirgefa bú móður sinnar. Tilvonandi drottningar geyma sýnishorn af svepparæktinni í litlum poka innan líkama síns. Sveppirnir eru svo nýttir sem kveikja að nýrri rækt þegar unga drottningin reynir að koma búi sínu á legg.[8] Eðli málsins samkvæmt veltur mikið á því að drottningin velji heppilegan stað, nái að safna laufum og öðru efni fyrir sveppina og að ræktunin komist á legg.

Samantekt:
  • Menn eru þekktasta dýrategundin sem stundar ræktun.
  • Sumar tegundir maura eru einnig mikilvirkir ræktendur sveppa.
  • Sumar tegundir maura nota lauf sem fóður fyrir sveppina sína, en aðrar tegundir leifar skordýra og ávaxta.
  • Svepparækt maura er dæmi um samlíf tegunda.

Tilvísanir:
  1. ^ Hölldobler, B. & Wilson, E. O. (1990). The Ants. Belknap Press.
  2. ^ Wilson, E. O. (1971). The Insect Societies. The Belknap Press of Harvard University Press.
  3. ^ Hölldobler, B. & Wilson, E. O. (2008). The Superorganism. The beauty, elegance, and strangeness of insect societies. W. W. Norton & Company.
  4. ^ Schultz, T. R. (2020). Fungus-Farming Ants (Attini in Part). Í: Starr, C. (ritstj.) Encyclopedia of Social Insects. Springer. https://doi.org/10.1007/978-3-319-90306-4_46-2
  5. ^ Hölldobler, B. & Wilson, E. O. (2011). The leafcutter Ants. Civilization by instinct. W. W. Norton & Company.
  6. ^ Okkur er ekki kunnugt um íslenskt heiti á sepunum en á ensku kallast þeir „gongylidia“.
  7. ^ Deyrup, M. (2020). Ants of Florida. Identification and Natural History. CRC Press.
  8. ^ Weber, N. A. (1972). Gardening ants: The attines. Memoirs of the American Philosophical Society, 92, 1-146.

Höfundar

Marco Mancini

meistaranemi í líffræði við HÍ

Arnar Pálsson

erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við HÍ

Útgáfudagur

9.5.2023

Spyrjandi

Vigdís

Tilvísun

Marco Mancini og Arnar Pálsson. „Geta dýr eins og maurar stundað ræktun?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2023. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84795.

Marco Mancini og Arnar Pálsson. (2023, 9. maí). Geta dýr eins og maurar stundað ræktun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84795

Marco Mancini og Arnar Pálsson. „Geta dýr eins og maurar stundað ræktun?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2023. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84795>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Geta dýr eins og maurar stundað ræktun?
Landbúnaður er undirstaða samfélags manna og velmegunar. Við mennirnir hagnýtum margar tegundir plantna og dýra til fæðuframleiðslu. En aðrar tegundir dýra geta líka stundað ræktun og eru maurar líklega þekktasta dæmið. Flestar tegundir maura eru rándýr, og talið er að fyrstu maurarnir hafi stundað ránlífi. Maurar herja á önnur liðdýr (e. Arthropods) í vistkerfum á landi.[1] Flestar tegundir maura eru alætur og nýta tækifærisbráð, en sumar eru meira sérhæfðar og stunda jafnvel ræktun sveppa.[2]

Nokkrar tegundir maura stunda svepparækt í einskonar görðum neðanjarðar innan búa sinna. Rannsóknir benda til að nokkrar milljónir ára séu síðan þessi hæfileiki þróaðist meðal maura.[3] Hæfileikinn til svepparæktunar finnst hjá alls 19 ættkvíslum innan Attini-hópsins. Þessir svepparæktandi maurar finnast eingöngu í hitabeltinu,[4] mögulega vegna þess að hitastig þarf að vera ákjósanlegt fyrir slíka ræktun. Hér verða tekin dæmi um tvær sérstaklega heillandi tegundir, hina þekktu laufskurðarmaura (e. leaf-cutter ants, Atta cephalotes) og minna þekkta en álíka forvitnilega tegund maura (hafa ekki fengið íslenskt heiti en kallast á fræðimáli Cyphomyrmex minutus).

Þernur laufskurðarmaura (Atta cephalotes) klippa bita af laufblaði með stórgerðum munnpörtum sínum. Myndina tók Marco Mancini, 2015 í Parlatuvier, Tobago.

Laufskurðarmaurarnir hafa margar gerðir þerna (einnig kallaðir vinnumaurar) og oft finnast milljónir maura í hverju búi. Búin geta verið tröllaukin, í þau getur þurft um 40 tonn af jarðvegi. Veigamest er lífrænt efni sem maurarnir sækja og nýta í sveppagarðinn. Um er að ræða fersk laufblöð, stilka og blóm sem nýtt eru sem næring fyrir sveppina í görðunum.[5] Sveppirnir vaxa þar við kjöraðstæður, í raka og jafnara hitastigi en á yfirborðinu.

Hluti sveppagarðs laufskurðarmaura í búi tegundarinnar Atta cephalotes, með ferskum laufblöðum og blómum sem sveppirnir munu nærast á. Myndina tók Marco Mancini 2018 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Sveppþræðirnir rekja sig um og nærast á lífræna efninu, en að auki myndar sveppurinn sérstaka sepa, fyllta næringu sem maurarnir nýta sér.[6] Maurarnir nýta næringuna frá sveppunum sérstaklega fyrir lirfurnar. Þetta er samlífi, þar sem bæði sveppir og maurar hagnast á fyrirkomulaginu. Líklegt verður að teljast að um afleiðingu samþróunar maura og sveppa sé að ræða, þar sem sveppirnir hafa þróast í þá átt að mynda næringarríka sepa sem maurunum nýtast. Á hinn bóginn verja maurarnir miklum tíma í að leita uppi lífrænt efni sem þeir geta borið í sveppagarðinn en einnig hreinsa þeir garðinn og fjarlægja afætur eða óæskilegar sveppagerðir.

Cyphomyrmex minuts eru frekar kubbslaga og krullast í kúlur ef ró þeirra er raskað eins og þessi þerna sem er upprúlluð eftir að hafa verið gert bilt við. Myndina tók Marco Mancini 2022, í Florida Atlantic University. Jupiter, Florida, BNA.

Hin tegundin sem hér er fjallað um (Cyphomyrmex minutus) notar önnur hráefni fyrir svepparækt sína. Þeir safna saur skordýra, dauðum skordýrum og ávaxtabitum/afgöngum, sem þeir draga í búið og koma fyrir í sveppagarðinum. Sveppirnir sem þeir rækta eru skyldir gersveppum.[7] Þeir vaxa og skipta sér sem stakar frumur, ekki þræðir eða netja eins og sveppirnir sem laufskurðarmaurarnir rækta. Í þessu tilfelli er einnig um samlífi að ræða.

Hluti sveppagarðs maura af tegundinni Cyphomyrmex minutus. Myndina tók Marco Mancini 2022, í Maggy‘s Hammock garðinum. Stuart, Florida, BNA.

Maurar sem stunda svepparækt standa frammi fyrir þeirri áskorun að hefja ræktun í hvert skipti sem nýtt bú er stofnað. Í tilfelli mannfólks þá er tiltölulega auðvelt að flytja fræ milli svæða og landa, en búpeningur er flóknari farmur. Sveppir eru meðfærilegri en kýr. Nýklaktir kvenmaurar beggja tegunda sem rætt var um að ofan, og líklega einnig annarra tegunda maura sem stunda svepparækt, taka með sér afleggjara þegar þær yfirgefa bú móður sinnar. Tilvonandi drottningar geyma sýnishorn af svepparæktinni í litlum poka innan líkama síns. Sveppirnir eru svo nýttir sem kveikja að nýrri rækt þegar unga drottningin reynir að koma búi sínu á legg.[8] Eðli málsins samkvæmt veltur mikið á því að drottningin velji heppilegan stað, nái að safna laufum og öðru efni fyrir sveppina og að ræktunin komist á legg.

Samantekt:
  • Menn eru þekktasta dýrategundin sem stundar ræktun.
  • Sumar tegundir maura eru einnig mikilvirkir ræktendur sveppa.
  • Sumar tegundir maura nota lauf sem fóður fyrir sveppina sína, en aðrar tegundir leifar skordýra og ávaxta.
  • Svepparækt maura er dæmi um samlíf tegunda.

Tilvísanir:
  1. ^ Hölldobler, B. & Wilson, E. O. (1990). The Ants. Belknap Press.
  2. ^ Wilson, E. O. (1971). The Insect Societies. The Belknap Press of Harvard University Press.
  3. ^ Hölldobler, B. & Wilson, E. O. (2008). The Superorganism. The beauty, elegance, and strangeness of insect societies. W. W. Norton & Company.
  4. ^ Schultz, T. R. (2020). Fungus-Farming Ants (Attini in Part). Í: Starr, C. (ritstj.) Encyclopedia of Social Insects. Springer. https://doi.org/10.1007/978-3-319-90306-4_46-2
  5. ^ Hölldobler, B. & Wilson, E. O. (2011). The leafcutter Ants. Civilization by instinct. W. W. Norton & Company.
  6. ^ Okkur er ekki kunnugt um íslenskt heiti á sepunum en á ensku kallast þeir „gongylidia“.
  7. ^ Deyrup, M. (2020). Ants of Florida. Identification and Natural History. CRC Press.
  8. ^ Weber, N. A. (1972). Gardening ants: The attines. Memoirs of the American Philosophical Society, 92, 1-146.
...