Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er eitt áratog langt?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvernig er áratog mælt og hversu langt er það? Mælieining á vegalengd, hefur með árabáta að gera.

Eitt áratog er ekki föst vegalengd heldur er orðið notað yfir „það að toga í árarnar, róa með árum“[1]. Eitt áratog er því sú vegalengd sem farin er þegar þessi aðgerð er framkvæmd einu sinni. Áratogið getur hins vegar ekki verið mælieining því margir þættir hafa áhrif á vegalengdina sem hægt er að fara með einu áratogi.

Sjólag hefur augljóslega áhrif á hversu langt er hægt að komast í einu áratogi, hvort sjór er sléttur eða úfinn, hvort straumur er mikill eða lítill og hvort róið er með eða á móti straumnum. Sama gildir um vind, hvort vindur er lítill eða mikill, með eða á móti. Áralagið skiptir einnig máli, hversu kröftuglega tekið er í árina og hversu öflugur ræðarinn er, hvort róið er með stuttum togum eða hvort tökin eru löng og hversu lengi er beðið eftir næsta áratogi. Þá hefur sitt að segja hversu margir eru að róa bátnum, þótt áttæringur sé stærri og þyngri bátur en tvíæringur skilar eitt áratog átta manna bát væntanlega lengra en eitt áratog tveggja ræðara.

Róið á sexæringi á Pollinum á Ísafirði (Skutulsfirði).

Lengd áratogs fer sem sagt eftir aðstæðum hverju sinni eins og glögglega má sjá af nokkrum dæmum sem hér fylgja. Í ritinu Úr byggðum Borgarfjarðar er að finna eftirfarandi textabrot:

Einkum voru það sjóferðirnar milli Akraness og Reykjavíkur, sem urðu stundum í frásögur færandi, þótt leiðin sé ekki löng. Á góðu skipi, sem róið var af samæfðum ræðurum, var þetta tveggja stunda róður í logni, eða allt að því tvö þúsund áratog. – Menn réru sem næst því sextán áratog á mínútu.[2]

Nú er ekkert sagt um það hvernig var róið en stysta lína milli Akraness og Reykjavíkur er tæpir 20 km. Miðað við þær aðstæður sem lýst er hér að ofan og ef farin var stysta mögulega vegalengd þá hefur hvert áratog verið um 10 metrar.

Í lýsingu Bjarna Sæmundssonar á rannsóknum á lífríki Þingvallavatns 1902 koma áratog við sögu í eftirfarandi texta:

Millibilið milli mælinga var ákveðið með tölu áratoganna, vanalega 100, eða ef þéttar skyldi mælt, 50 eða að eins 25. Hvert áratog reyndist að meðallagi 2 ½ fðm. Með þessu ávann eg bæði það, að ákveða hverri mælingu stað og mæla vegalend milli staða við vatnið.[3]

Einn faðmur samsvarar um 167 cm, eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er einn faðmur margir sentimetrar? og áratogið hjá Bjarna hefur því verið að meðaltali rúmir 4 metrar sem er töluvert styttra en í dæminu á undan.

Til er gömul vísa um vegalengd milli Eyrarbakka og Selvogs sem finna má á nokkrum stöðum, meðal annars í Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags frá 1913. Vísan er svona:

Af Eyrarbakka og út í Vog
er það mældur vegur:
átján þúsund áratog
áttatíu og fjegur.[4]

Í aðsendri grein í Degi í október 1985 er fjallað um þessa vísu og birt brot úr bókinni Sagnir og þjóðhættir eftir Odd Oddsson gullsmið og fræðimann á Eyrarbakka sem gefin var út 1941. Þar reiknast Oddi svo til að hvert áratog sé um 1,66 metrar miðað við að á milli Eyrarbakka og Selvogs séu um það bil 30.000 metrar og „mun það láta mjög nærri hinu venjulega, þegar teknar eru til greina allar kringumstæður á svo langri sjóðleið, svo sem sjávarföll, hvíldarlaus róður o.fl.“ Tekur hann fram að hann hafi borið þetta undir formenn sem eru mjög kunnugir þessari leið og séu þeir sammála niðurstöðu hans. Jafnframt bendir hann á að „kappróið skip, á styttri leið, fer auðvitað miklu lengra í hverju áratogi.“[5]

Samkvæmt þessari vísu er áratogið enn styttra en í hinum dæmunum hér að framan, aðeins rétt um einn faðmur. Í Alþýðublaðinu 1943 er hins vegar að finna aðra útgáfu af þessari vísu sem barst í bréfi til blaðsins. Bréfritari, Halldór Kjartansson, telur vísuna eiga að vera svona:
Af Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur:
Átján hundruð áratog
áttatíu og fégur.

Síðan segir hann:

Þarna skakkar svo miklu, 18 hundruð eða 18 þúsund. Vegalengdin á sjó, frá Eyrarbakka út í Selvog, mun vera 25—30 km. og í logni 4-5 kl. stunda róður. Þegar tekið var langræði höfðu menn, að öllum jafnaði, langdregin áratog, 7 áratog á mínútu, og það eru 420 áratog á klukkustund, en 1890 áratog á 4 ½ kl. stund. Virðist því, að 18 þús. áratog, nái ekki nokkurri átt.[6]

Hér skal ósagt látið hvor útgáfan af vísunni er sú rétta eða hvort einhver hafi yfir höfuð talið áratogin á þessari leið. Hitt er hins vegar ljós að eitt áratog getur spannað mjög mislanga vegalengd, allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Tilvísanir:
 1. ^ Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
 2. ^ Kristleifur Þorsteinsson og Þórður Kristleifsson. (1960). Á sjó og landi. Þættir úr ferðasögum. Úr byggðu Borgarfjarðar, 3. bindi, Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja, bls. 273.
 3. ^ Bjarni Sæmundsson (1904). Fiskirannsóknir 1902. Andvari, 29(1), bls. 82.
 4. ^ Héraðavísur. Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags, 1913, 39(1), bls. 67. Sjá einnig: Frá Eyrarbakka út í Vog. Kvæða- og vísnasafn Árnesinga - Bragi, óðfræðivefur.
 5. ^ „Átján þúsund áratog“ - athugasemd frá Jóni Bjarnasyni frá Garðsvík. Dagur, 28. október 1985, bls. 9.
 6. ^ Heyrt og séð. Alþýðublaðið, 3. september 1943, bls. 8.

Mynd:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

10.11.2023

Spyrjandi

Birgir Edwald, Eygló Kristjánsdóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað er eitt áratog langt?“ Vísindavefurinn, 10. nóvember 2023, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84889.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2023, 10. nóvember). Hvað er eitt áratog langt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84889

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað er eitt áratog langt?“ Vísindavefurinn. 10. nóv. 2023. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84889>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er eitt áratog langt?
Hér er einnig svarað spurningunni:

Hvernig er áratog mælt og hversu langt er það? Mælieining á vegalengd, hefur með árabáta að gera.

Eitt áratog er ekki föst vegalengd heldur er orðið notað yfir „það að toga í árarnar, róa með árum“[1]. Eitt áratog er því sú vegalengd sem farin er þegar þessi aðgerð er framkvæmd einu sinni. Áratogið getur hins vegar ekki verið mælieining því margir þættir hafa áhrif á vegalengdina sem hægt er að fara með einu áratogi.

Sjólag hefur augljóslega áhrif á hversu langt er hægt að komast í einu áratogi, hvort sjór er sléttur eða úfinn, hvort straumur er mikill eða lítill og hvort róið er með eða á móti straumnum. Sama gildir um vind, hvort vindur er lítill eða mikill, með eða á móti. Áralagið skiptir einnig máli, hversu kröftuglega tekið er í árina og hversu öflugur ræðarinn er, hvort róið er með stuttum togum eða hvort tökin eru löng og hversu lengi er beðið eftir næsta áratogi. Þá hefur sitt að segja hversu margir eru að róa bátnum, þótt áttæringur sé stærri og þyngri bátur en tvíæringur skilar eitt áratog átta manna bát væntanlega lengra en eitt áratog tveggja ræðara.

Róið á sexæringi á Pollinum á Ísafirði (Skutulsfirði).

Lengd áratogs fer sem sagt eftir aðstæðum hverju sinni eins og glögglega má sjá af nokkrum dæmum sem hér fylgja. Í ritinu Úr byggðum Borgarfjarðar er að finna eftirfarandi textabrot:

Einkum voru það sjóferðirnar milli Akraness og Reykjavíkur, sem urðu stundum í frásögur færandi, þótt leiðin sé ekki löng. Á góðu skipi, sem róið var af samæfðum ræðurum, var þetta tveggja stunda róður í logni, eða allt að því tvö þúsund áratog. – Menn réru sem næst því sextán áratog á mínútu.[2]

Nú er ekkert sagt um það hvernig var róið en stysta lína milli Akraness og Reykjavíkur er tæpir 20 km. Miðað við þær aðstæður sem lýst er hér að ofan og ef farin var stysta mögulega vegalengd þá hefur hvert áratog verið um 10 metrar.

Í lýsingu Bjarna Sæmundssonar á rannsóknum á lífríki Þingvallavatns 1902 koma áratog við sögu í eftirfarandi texta:

Millibilið milli mælinga var ákveðið með tölu áratoganna, vanalega 100, eða ef þéttar skyldi mælt, 50 eða að eins 25. Hvert áratog reyndist að meðallagi 2 ½ fðm. Með þessu ávann eg bæði það, að ákveða hverri mælingu stað og mæla vegalend milli staða við vatnið.[3]

Einn faðmur samsvarar um 167 cm, eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er einn faðmur margir sentimetrar? og áratogið hjá Bjarna hefur því verið að meðaltali rúmir 4 metrar sem er töluvert styttra en í dæminu á undan.

Til er gömul vísa um vegalengd milli Eyrarbakka og Selvogs sem finna má á nokkrum stöðum, meðal annars í Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags frá 1913. Vísan er svona:

Af Eyrarbakka og út í Vog
er það mældur vegur:
átján þúsund áratog
áttatíu og fjegur.[4]

Í aðsendri grein í Degi í október 1985 er fjallað um þessa vísu og birt brot úr bókinni Sagnir og þjóðhættir eftir Odd Oddsson gullsmið og fræðimann á Eyrarbakka sem gefin var út 1941. Þar reiknast Oddi svo til að hvert áratog sé um 1,66 metrar miðað við að á milli Eyrarbakka og Selvogs séu um það bil 30.000 metrar og „mun það láta mjög nærri hinu venjulega, þegar teknar eru til greina allar kringumstæður á svo langri sjóðleið, svo sem sjávarföll, hvíldarlaus róður o.fl.“ Tekur hann fram að hann hafi borið þetta undir formenn sem eru mjög kunnugir þessari leið og séu þeir sammála niðurstöðu hans. Jafnframt bendir hann á að „kappróið skip, á styttri leið, fer auðvitað miklu lengra í hverju áratogi.“[5]

Samkvæmt þessari vísu er áratogið enn styttra en í hinum dæmunum hér að framan, aðeins rétt um einn faðmur. Í Alþýðublaðinu 1943 er hins vegar að finna aðra útgáfu af þessari vísu sem barst í bréfi til blaðsins. Bréfritari, Halldór Kjartansson, telur vísuna eiga að vera svona:
Af Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur:
Átján hundruð áratog
áttatíu og fégur.

Síðan segir hann:

Þarna skakkar svo miklu, 18 hundruð eða 18 þúsund. Vegalengdin á sjó, frá Eyrarbakka út í Selvog, mun vera 25—30 km. og í logni 4-5 kl. stunda róður. Þegar tekið var langræði höfðu menn, að öllum jafnaði, langdregin áratog, 7 áratog á mínútu, og það eru 420 áratog á klukkustund, en 1890 áratog á 4 ½ kl. stund. Virðist því, að 18 þús. áratog, nái ekki nokkurri átt.[6]

Hér skal ósagt látið hvor útgáfan af vísunni er sú rétta eða hvort einhver hafi yfir höfuð talið áratogin á þessari leið. Hitt er hins vegar ljós að eitt áratog getur spannað mjög mislanga vegalengd, allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Tilvísanir:
 1. ^ Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
 2. ^ Kristleifur Þorsteinsson og Þórður Kristleifsson. (1960). Á sjó og landi. Þættir úr ferðasögum. Úr byggðu Borgarfjarðar, 3. bindi, Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja, bls. 273.
 3. ^ Bjarni Sæmundsson (1904). Fiskirannsóknir 1902. Andvari, 29(1), bls. 82.
 4. ^ Héraðavísur. Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags, 1913, 39(1), bls. 67. Sjá einnig: Frá Eyrarbakka út í Vog. Kvæða- og vísnasafn Árnesinga - Bragi, óðfræðivefur.
 5. ^ „Átján þúsund áratog“ - athugasemd frá Jóni Bjarnasyni frá Garðsvík. Dagur, 28. október 1985, bls. 9.
 6. ^ Heyrt og séð. Alþýðublaðið, 3. september 1943, bls. 8.

Mynd:...