Hversu mikið er um uppskafning (palimpsest) í handritum Íslendingasagnanna? Hvað var brottskafið?Eitt Íslendingasagnahandrit er skrifað á endurnýtt bókfell eða uppskafning (palimpsest). Um er að ræða handrit með Njáls sögu sem ber safnmarkið GKS 2868 4to, en er oftast nefnt Skafinskinna. Það er varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Samkvæmt nýjum rannsóknum Bjarna Gunnars Ásgeirssonar voru blöðin áður notuð í messusöngsbók, en bæði latneski textinn og nóturnar voru skafin burt. Á miðöldum var bókfell víða um Evrópu framleitt úr kálfshúðum, sauðargærum eða geitarstökum en auðvitað er hægt að verka skinn af hvaða spendýri sem er til að búa það til. Það var dýrt og ekki auðfáanlegt, svo að skinnblöð voru oft endurnýtt með því að skafa af það sem á þau hafði verið skrifað til að hægt væri að skrifa nýtt efni á það. Í ensku er notað orðið palimpsest sem er dregið af latneska orðinu palimpsestus, sem aftur er dregið af gríska orðinu παλίμψηστος (palímpsēstos) sem er komið úr forngrísku πάλιν (pálin) 'aftur' og ψάω (psáō) 'skafa', það er samsettu orði sem lýsir ferlinu. Uppskafningar í íslenskum handritum hafa notið talsverðrar fræðilegrar athygli síðustu árin. Til dæmis birtist grein í Griplu árið 2024 eftir Tom Lorenz sem fer yfir helstu uppskafningshandrit sem tengjast Íslandi. Hann gerði kenninguna hnitmiðaðri og skilgreindi mismunandi tegundir af uppskafningum.[1] Þar greinir hann milli parchment recycling (endurnýtingar bókfells) annars vegar, þar sem allt upprunalegt efni handrits, svo sem textar, myndir eða nótur, hefur verið fjarlægt áður en nýr texti var skrifaður eða prentaður á bókfellið, og manuscript recontextualisation (hvernig handritið og efni þess er að hluta til nýtt á nýjan hátt, eða „endurtextun handrits“) hins vegar, þar sem sumt af upprunalega efninu er varðveitt en annað skafið burt.

Skafinskinna er eina Íslendingasagnahandritið sem skrifað er á endurnýtt bókfelli eða uppskafning. Á myndinni sést rautt P sem var skafið burt.
- ^ Tom Lorenz: „Recycling and Recontextutalisation in Medieval and Early Icelandic Palimpsests“, Gripla 35 (2024): 7-42. https://gripla.arnastofnun.is/index.php/gripla/article/view/559/459
 - ^ Lejia Zhang: „Reusing Parchment as Writing Support in Pre-modern Iceland: The Cases of Two Jónsbók Palimpsests from the Sixteenth and Seventeenth Centuries“, Meistararitgerð, HÍ (2024). https://skemman.is/bitstream/1946/46575/1/lejia_zhang_vmns_thesis.pdf
 - ^ Við þökkum Bjarna Gunnari fyrir að deila niðurstöðum sínum með okkur. Nánar má lesa um verkefnið hans t.d. á heimasíðu Rannís: https://www.rannis.is/frettir/rannsoknasjodur/textageymd-njals-sogu-med-hlidsjon-af-skafinskinnu-verkefni-lokid
 
- Bjarni Gunnar Ásgeirsson