Sólin Sólin Rís 03:58 • sest 22:53 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:24 • Sest 03:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:21 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:07 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Hvað eru triggerpunktar eða trigger points?

Haraldur B. Sigurðsson

Því er ekki endilega auðsvarað hvað triggerpunktar (e. trigger points) eru en á íslensku hefur heitið gikkpunktar verið notað um fyrirbærið. Vandinn við að skilgreina gikkpunkta felst meðal annars í því að ýmsum mismunandi fyrirbærum hefur verið gefið þetta heiti og einnig hafa gikkpunktar fengið mismunandi nöfn á mismunandi tímum. Til að svara spurningunni er þess vegna rétt að setja gikkpunkta fyrst í sögulegt samhengi og ræða svo helstu kenningar nútíma vísinda um þá.

Stoðkerfisverkir hafa hrjáð manninn frá fyrstu tíð. Fólk hefur lengi hópað saman svipuðum einkennum í heilkenni eða sjúkdóma og ekki er alveg ljóst hvort kalla eigi gikkpunkta sjúkdóm, heilkenni, einkenni, eða eitthvað annað. Fyrirbærinu var lýst árið 1904 af breska taugalækninum William Gowers (1845-1915) sem þá þjáðist sjálfur af bakverkjum og leitaði skýringa. Hann gaf verkjunum heitið fibrositis eða bandvefsbólga. Lýsing Gowers (Gowers, 1904) á meinafræði gikkpunkta var í grunninn krónískur yfirsamdráttur afmarkaðs hluta vöðva vegna þess að vöðvasamdrátturinn þrýstir á taugarnar sem ítauga vöðvann, sem aftur viðheldur samdrættinum í eins konar vítahring. Það sem Gowers sagði aðgreina vandamálið frá taugaverkjum var að einungis yrði vart við þetta þegar reynt væri að nota vöðvann.

Árið 1944 skrifaði F. A. Elliot grein þar sem hann benti á hvernig nýlegar framfarir til dæmis í röntgenmyndatöku hafi leitt í ljós aðra meinafræði margra þeirra einkenna sem Gowers lýsti. Elliott lýsti greiningu gikkpunkta með staðbundinni verkjanæmni, einkennum við virkan samdrátt vöðva, þreifanlegum hnúð, og að einkenni hverfi sé deyfiefni sprautað í hnúðinn. Elliott efaðist þó um gildi þessara aðferða og þá sérstaklega aðferðarinnar að þreifa eftir viðkvæmum punktum, því þeir finnist víða án þess að gikkpunktar finnist.

Gikkpunktar eða triggerpunktar eru þykknun í vöðva (kúla eða strengur) sem veldur verk, ýmist staðbundnum eða leiðniverk.

Greiningin fibrositis fékk svo aðra merkingu með tímanum (Wolfe, 1986), og árið 1983 fengu gikkpunktarnir þetta þekkta nafn sem rakið er til bókar eftir Travell og Simons (Gerwin, 2018).

Í dag efast fáir um að þetta samansafn einkenna sem tengt er við gikkpunkta sé til; þykknun sem þreifa má í vöðva (ýmist kúla eða strengur), verkur við samdrátt og langvarandi þrýsting, og stunga með nál deyfir einkennin, að minnsta kosti tímabundið. Þessi lýsing hefur lítið breyst frá tímum Gowers. Lýsingin segir þó helst til um það hvernig fólk upplifir gikkpunkta, en hefur minna að gera með hvað þeir eru í raun og veru.

Til að hægt sé að setja rannsóknir í samhengi þarf að kynna örlitla lífeðlisfræði til sögunnar. Þegar heilinn ákveður að nota einhvern vöðva gerir hann það með taugaboðum. Á mótum taugar og vöðva sleppir taugin út boðefni sem heitir asetýlkólín (e. acetylcholine). Asetýlkólín flæðir í gegnum net af niðurbrotsensímum, en eitthvað magn sleppur í gegn og verkar á vöðvann. Þegar vöðvinn tekur við nægilega miklu asetýlkólíni dregst hann saman. Jafnvel þegar engin boð berast vöðvanum, sleppir taugin út asetýlkólíni af og til og það viðheldur hvíldarspennu vöðvans.

Mjög erfitt er að rannsaka gikkpunkta, en tvær mikilvægar niðurstöður varpa einhverju ljósi á fyrirbærið. Ef nagdýrum er gefið efni sem kemur í veg fyrir niðurbrot á asetýlkólíni (og veldur þar af leiðandi uppsöfnun á asetýlkólíni á taugavöðvamótunum) þá myndast gikkpunktar í vöðvum þeirra mjög hratt (Margalef o.fl., 2019). Á taugavöðvamótum vöðva með gikkpunkta mælist svo gjarnan smávægileg rafvirkni í vöðvanum (Chen o.fl., 1998), sem stemmir við að þar sé meira magn asetýlkólíns. Þetta gæti til dæmis bent til hærri tíðni af asetýlkólíni sem sleppt er án þess að örvun frá tauginni sé til staðar. Það virðist því sem gikkpunktar séu meinafræðilegar breytingar á vöðvavef í kjölfar langvarandi staðbundinnar oflosunar á asetýlkólíni.

Jafnvel þótt þessi kenning reynist rétt (og ekki eru að mér vitandi beinar sannanir sem tengja fyrirbærið í músum við upplifanir fólks), þá er ekki vitað hvers vegna þetta ferli byrjar. Vitað er að streita (Bosque o.fl., 2023) og ofát (Gimenez-Donoso o.fl., 2020) geta bæði valdið aukinni losun á asetýlkólíni og myndun gikkpunkta í nagdýrum, sem bendir til þess að kerfisbundnir áhættuþættir geti verið mikilvægir. Kenningar beinlínis tengdar vöðvanum eru oftast á þá leið að ofálag eða síspenna komi ferlinu af stað (Bron & Dommerholt, 2012), en aftur er lítið um beinar sannanir.

Heimildir og mynd:
 • Bosque, M., Margalef, R., Llaveria, A., & Santafe, M. M. (2023). Stress increases the spontaneous release of ACh and may be involved in the generation and maintenance of myofascial trigger points in mouse. Behavioural Brain Research, 452, 114572. https://doi.org/10.1016/j.bbr.2023.114572
 • Bron, C., & Dommerholt, J. D. (2012). Etiology of Myofascial Trigger Points. Current Pain and Headache Reports, 16(5), 439–444. https://doi.org/10.1007/s11916-012-0289-4
 • Chen, J.-T., Chen, S.-M., Kuan, T.-S., Chung, K.-C., & Hong, C.-Z. (1998). Phentolamine effect on the spontaneous electrical activity of active loci in a myofascial trigger spot of rabbit skeletal muscle. Archives of Physical Medicine and Rehabilitation, 79(7), 790–794. https://doi.org/10.1016/S0003-9993(98)90357-4
 • Elliott, F. A. (1944). Aspects of “Fibrositis.” Annals of the Rheumatic Diseases, 4(1), 22–25. https://doi.org/10.1136/ard.4.1.22
 • Gerwin, R. (2018). Trigger Point Diagnosis: At Last, the First Word on Consensus. Pain Medicine, 19(1), 1–2. https://doi.org/10.1093/pm/pnx219
 • Gimenez-Donoso, C., Bosque, M., Vila, A., Vilalta, G., & Santafe, M. M. (2020). Effects of a Fat-Rich Diet on the Spontaneous Release of Acetylcholine in the Neuromuscular Junction of Mice. Nutrients, 12(10), 3216. https://doi.org/10.3390/nu12103216
 • Gowers, W. R. (1904). A Lecture on Lumbago: Its Lessons and Analogues: Delivered at the National Hospital for the Paralysed and Epileptic. BMJ, 1(2246), 117–121. https://doi.org/10.1136/bmj.1.2246.117
 • Margalef, R., Sisquella, M., Bosque, M., Romeu, C., Mayoral, O., Monterde, S., Priego, M., Guerra-Perez, R., Ortiz, N., Tomàs, J., & Santafe, M. M. (2019). Experimental myofascial trigger point creation in rodents. Journal of Applied Physiology, 126(1), 160–169. https://doi.org/10.1152/japplphysiol.00248.2018
 • Wolfe, F. (1986). Development of criteria for the diagnosis of fibrositis. The American Journal of Medicine, 81(3), 99–104. https://doi.org/10.1016/0002-9343(86)90886-7
 • Mynd: Herman Ostrow School of Dentrstry of USC.

Höfundur

Haraldur B. Sigurðsson

lektor í sjúkraþjálfun við HÍ

Útgáfudagur

10.4.2024

Spyrjandi

Sigurlaug Jónsdóttir

Tilvísun

Haraldur B. Sigurðsson. „Hvað eru triggerpunktar eða trigger points?“ Vísindavefurinn, 10. apríl 2024. Sótt 19. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=85379.

Haraldur B. Sigurðsson. (2024, 10. apríl). Hvað eru triggerpunktar eða trigger points? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=85379

Haraldur B. Sigurðsson. „Hvað eru triggerpunktar eða trigger points?“ Vísindavefurinn. 10. apr. 2024. Vefsíða. 19. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=85379>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru triggerpunktar eða trigger points?
Því er ekki endilega auðsvarað hvað triggerpunktar (e. trigger points) eru en á íslensku hefur heitið gikkpunktar verið notað um fyrirbærið. Vandinn við að skilgreina gikkpunkta felst meðal annars í því að ýmsum mismunandi fyrirbærum hefur verið gefið þetta heiti og einnig hafa gikkpunktar fengið mismunandi nöfn á mismunandi tímum. Til að svara spurningunni er þess vegna rétt að setja gikkpunkta fyrst í sögulegt samhengi og ræða svo helstu kenningar nútíma vísinda um þá.

Stoðkerfisverkir hafa hrjáð manninn frá fyrstu tíð. Fólk hefur lengi hópað saman svipuðum einkennum í heilkenni eða sjúkdóma og ekki er alveg ljóst hvort kalla eigi gikkpunkta sjúkdóm, heilkenni, einkenni, eða eitthvað annað. Fyrirbærinu var lýst árið 1904 af breska taugalækninum William Gowers (1845-1915) sem þá þjáðist sjálfur af bakverkjum og leitaði skýringa. Hann gaf verkjunum heitið fibrositis eða bandvefsbólga. Lýsing Gowers (Gowers, 1904) á meinafræði gikkpunkta var í grunninn krónískur yfirsamdráttur afmarkaðs hluta vöðva vegna þess að vöðvasamdrátturinn þrýstir á taugarnar sem ítauga vöðvann, sem aftur viðheldur samdrættinum í eins konar vítahring. Það sem Gowers sagði aðgreina vandamálið frá taugaverkjum var að einungis yrði vart við þetta þegar reynt væri að nota vöðvann.

Árið 1944 skrifaði F. A. Elliot grein þar sem hann benti á hvernig nýlegar framfarir til dæmis í röntgenmyndatöku hafi leitt í ljós aðra meinafræði margra þeirra einkenna sem Gowers lýsti. Elliott lýsti greiningu gikkpunkta með staðbundinni verkjanæmni, einkennum við virkan samdrátt vöðva, þreifanlegum hnúð, og að einkenni hverfi sé deyfiefni sprautað í hnúðinn. Elliott efaðist þó um gildi þessara aðferða og þá sérstaklega aðferðarinnar að þreifa eftir viðkvæmum punktum, því þeir finnist víða án þess að gikkpunktar finnist.

Gikkpunktar eða triggerpunktar eru þykknun í vöðva (kúla eða strengur) sem veldur verk, ýmist staðbundnum eða leiðniverk.

Greiningin fibrositis fékk svo aðra merkingu með tímanum (Wolfe, 1986), og árið 1983 fengu gikkpunktarnir þetta þekkta nafn sem rakið er til bókar eftir Travell og Simons (Gerwin, 2018).

Í dag efast fáir um að þetta samansafn einkenna sem tengt er við gikkpunkta sé til; þykknun sem þreifa má í vöðva (ýmist kúla eða strengur), verkur við samdrátt og langvarandi þrýsting, og stunga með nál deyfir einkennin, að minnsta kosti tímabundið. Þessi lýsing hefur lítið breyst frá tímum Gowers. Lýsingin segir þó helst til um það hvernig fólk upplifir gikkpunkta, en hefur minna að gera með hvað þeir eru í raun og veru.

Til að hægt sé að setja rannsóknir í samhengi þarf að kynna örlitla lífeðlisfræði til sögunnar. Þegar heilinn ákveður að nota einhvern vöðva gerir hann það með taugaboðum. Á mótum taugar og vöðva sleppir taugin út boðefni sem heitir asetýlkólín (e. acetylcholine). Asetýlkólín flæðir í gegnum net af niðurbrotsensímum, en eitthvað magn sleppur í gegn og verkar á vöðvann. Þegar vöðvinn tekur við nægilega miklu asetýlkólíni dregst hann saman. Jafnvel þegar engin boð berast vöðvanum, sleppir taugin út asetýlkólíni af og til og það viðheldur hvíldarspennu vöðvans.

Mjög erfitt er að rannsaka gikkpunkta, en tvær mikilvægar niðurstöður varpa einhverju ljósi á fyrirbærið. Ef nagdýrum er gefið efni sem kemur í veg fyrir niðurbrot á asetýlkólíni (og veldur þar af leiðandi uppsöfnun á asetýlkólíni á taugavöðvamótunum) þá myndast gikkpunktar í vöðvum þeirra mjög hratt (Margalef o.fl., 2019). Á taugavöðvamótum vöðva með gikkpunkta mælist svo gjarnan smávægileg rafvirkni í vöðvanum (Chen o.fl., 1998), sem stemmir við að þar sé meira magn asetýlkólíns. Þetta gæti til dæmis bent til hærri tíðni af asetýlkólíni sem sleppt er án þess að örvun frá tauginni sé til staðar. Það virðist því sem gikkpunktar séu meinafræðilegar breytingar á vöðvavef í kjölfar langvarandi staðbundinnar oflosunar á asetýlkólíni.

Jafnvel þótt þessi kenning reynist rétt (og ekki eru að mér vitandi beinar sannanir sem tengja fyrirbærið í músum við upplifanir fólks), þá er ekki vitað hvers vegna þetta ferli byrjar. Vitað er að streita (Bosque o.fl., 2023) og ofát (Gimenez-Donoso o.fl., 2020) geta bæði valdið aukinni losun á asetýlkólíni og myndun gikkpunkta í nagdýrum, sem bendir til þess að kerfisbundnir áhættuþættir geti verið mikilvægir. Kenningar beinlínis tengdar vöðvanum eru oftast á þá leið að ofálag eða síspenna komi ferlinu af stað (Bron & Dommerholt, 2012), en aftur er lítið um beinar sannanir.

Heimildir og mynd:
 • Bosque, M., Margalef, R., Llaveria, A., & Santafe, M. M. (2023). Stress increases the spontaneous release of ACh and may be involved in the generation and maintenance of myofascial trigger points in mouse. Behavioural Brain Research, 452, 114572. https://doi.org/10.1016/j.bbr.2023.114572
 • Bron, C., & Dommerholt, J. D. (2012). Etiology of Myofascial Trigger Points. Current Pain and Headache Reports, 16(5), 439–444. https://doi.org/10.1007/s11916-012-0289-4
 • Chen, J.-T., Chen, S.-M., Kuan, T.-S., Chung, K.-C., & Hong, C.-Z. (1998). Phentolamine effect on the spontaneous electrical activity of active loci in a myofascial trigger spot of rabbit skeletal muscle. Archives of Physical Medicine and Rehabilitation, 79(7), 790–794. https://doi.org/10.1016/S0003-9993(98)90357-4
 • Elliott, F. A. (1944). Aspects of “Fibrositis.” Annals of the Rheumatic Diseases, 4(1), 22–25. https://doi.org/10.1136/ard.4.1.22
 • Gerwin, R. (2018). Trigger Point Diagnosis: At Last, the First Word on Consensus. Pain Medicine, 19(1), 1–2. https://doi.org/10.1093/pm/pnx219
 • Gimenez-Donoso, C., Bosque, M., Vila, A., Vilalta, G., & Santafe, M. M. (2020). Effects of a Fat-Rich Diet on the Spontaneous Release of Acetylcholine in the Neuromuscular Junction of Mice. Nutrients, 12(10), 3216. https://doi.org/10.3390/nu12103216
 • Gowers, W. R. (1904). A Lecture on Lumbago: Its Lessons and Analogues: Delivered at the National Hospital for the Paralysed and Epileptic. BMJ, 1(2246), 117–121. https://doi.org/10.1136/bmj.1.2246.117
 • Margalef, R., Sisquella, M., Bosque, M., Romeu, C., Mayoral, O., Monterde, S., Priego, M., Guerra-Perez, R., Ortiz, N., Tomàs, J., & Santafe, M. M. (2019). Experimental myofascial trigger point creation in rodents. Journal of Applied Physiology, 126(1), 160–169. https://doi.org/10.1152/japplphysiol.00248.2018
 • Wolfe, F. (1986). Development of criteria for the diagnosis of fibrositis. The American Journal of Medicine, 81(3), 99–104. https://doi.org/10.1016/0002-9343(86)90886-7
 • Mynd: Herman Ostrow School of Dentrstry of USC.
...